28.4.2021 | 17:48
Smásögur heimsins: Evrópa
Bókakonan, ég, fylgist með útkomu nýrra bóka og bíð í ofvæni eftir því að þær verði lesnar inn og komi út sem hljóðbók. Ég reyni að vera þolinmóð.
Smásögur heimsins, Evrópa, er síðasta bókin af fimm, sem koma út í ritröðinni smásögur heimsins. Mér finnst þessi útgáfa afar merkileg fyrir margra hluta sakir. Sögunum er ætlað að spegla hundrað ára tímabil. Val höfunda miðast við að fá fram fjölbreytileika. Í bókinni eru þekktir og minna þekktir höfundar, konur og karlar.
Núna þegar ég hef lesið allar þessar bækur líður mér eins og ég hafi verið á góðum kúrsi í bókmenntafræðum. Hverri bók fylgir stuttur inngangur um eðli og tilurð smásögunnar og hverri sögu fylgir stutt greinargerð um höfundinn.
Lækning
En það gleðilegasta fyrir mig er að viðhorf mitt til smásögunnar sem bókmenntaforms hefur breyst. Áður en ég tók til við þetta námskeið sneyddi ég hjá smásögum. Mér fannst þær oft skilja eftir ónotalegan eftirkeim, koma við ný og gömul kaun, gera mig dapra og leiða. Þetta viðhorf mitt hefur sem sagt gufað upp en auðvitað eru smásögurnar enn vægðarlausar og stinga á kýlum.
Smásögur heimsins Evrópa
Þegar maður er búinn að lesa smásögur frá framandi álfum er svolítið eins og að vera komin heim að lesa/hlusta á evrópskar smásögur. Ég þekki 9 höfunda af 20.
Það væri allt of langt að skrifa um 20 sögur,það eina sem þær eiga sameiginlegt er að þær eru hver annarri betri. Það hvarflaði að mér að velja nokkrar til að skrifa um en fann þá að það er eins með bækur og börnin mín, það er bannað að gera upp á milli. Hver og ein saga verðskuldar að vera metin á sínum forsendum.
Hljóðbókin
Þar sem ég er sjónskert, hlusta ég á bækur í stað þess að lesa. Þótt ég sé þakklát fyrir að geta hlustað, sakna ég bókarinnar. Ég sakna hennar mikið. Það er ekkert sem kemur í stað þess að handleika bók. Blaða í henni. Þess vegna kaupi ég enn bækur eða fæ þær að láni í bókasafninu. Þessi bókaflokkur, Smásögur heimsins er fallegur og fer vel í hendi.
Sögurnar eru líka vel lesnar af úrvalslesurum. Það eina sem ég hef út á lesturinn er, að upplesarinn skuli ekki vera kynntur við hverja sögu.
Lokaorð
Eins og alltaf þegar ég kveð voldugar bækur sem hafa tekið hug minn allan finn ég til aðskilnaðarkvíða. Hvað næst? Nægar eru bækurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.4.2021 | 17:07
Eins og langt ferðalag: Jóhann Kristófer: Romain Rolland
Eins og að fara í langt ferðalag
Ég hóf lestur/hlustun minn á bókum Romain Rolland um miðjan janúar og nú er ég búin. Þetta er eins og hafa verið í löngu ferðalagi, með ákaflega erfiðri en þó hrífandi persónu. Af því að bókin er löng 77, 39 klst. í hlustun, ákvað ég að lesa/hlusta einungis hálf tíma á dag. Það gerði ég til að ég gæti líka lesið nýjar bækur. Það bíða svo margar og spennandi bækur eftir að verða lesnar. En þótt ég hefði gert þetta hálftíma samkomulag við sjálfa mig, sveik ég það stundum, las meira þegar sagan var spennandi. Gat ekki á mér setið.
Romain Rolland er franskur rithöfundur fæddur 1866 og dó 1944. Þetta er sagnabálkur sem kom út í 10 hlutum frá 1904 til 1912 .
Sagan fjallar um Jóhann Kristófer sem er fæddur í lítilli borg í Þýskalandi . Hann á síðan eftir að dveljast bæði í Frakklandi, Sviss og Vín. Hér á Íslandi kom hún út í 5 bókum á tímabilinu 1947 til 1967. Fyrstu tvö bindin voru í Þýðingu Þórarins Björnssonar skólameistara á Akureyri og þrjú síðari voru þýdd af Sigfúsi Daðasyni. Romain fékk Nóbelsverðlaunin 1915.
Bók um listamann
Bókin fjallar um drenginn Jóhann Kristófer sem elst upp hjá ofbeldisfullum föður og valdlausri móður, hún var af lágum ættum. Jóhann Kristófer er svo dæmalaust næmur og forvitinn um hvaðeina. Hann er barinn til tónlistar, það má græða á honum.
Ég hef ekki lesið þessa bók fyrr, vissi ekki af henni. Þegar ég tala um bókina við fólk sem ég hitti, segja flestir, já ertu að lesa bókina um Beethoven. En þessi bók er ekki um Beethoven, heldur um einhvers konar erkitýpu, gerða úr mörgum listamönnum. Og svo inniheldur hún líka mikið um aldarhátt þessara tíma. Þetta er saga hugmynda og kenninga. Aftur á móti hefur Rolland samið bók um Beethoven. Hún hefur líka komið út hér í þýðingu Símonar Jóhanns Ágústssonar 1940.
Lokaorð
Mér fannst gaman og gefandi að lesa þessa löngu bók, sérstaklega fannst mér gaman að fyrstu tveimur bindum sögunnar. Bækur eldast misvel. Í seinni bókunum er Jóhann Kristófer orðinn eldri og þroskaðri þarf hann að takast á við hugmyndir síns tíma og þá getur verið erfitt að fylgja honum. Auðvitað er það höfundurinn sem talar. Rolland var hugsjónamaður, sem beitti sér fyrir jafnrétti og friðarmálum Hann var líka að velta fyrir sér hlutverki listarinnar í heiminum.
Það reynir á þolgæði og þolinmæði við að lesa bókina um Jóhann Kristófer. Þetta var langt ferðalag sem skilur mikið eftir. Takk
Að lokum
Bækur eru ekki til að lesa þær einu sinni . Ég hef ákveðið að lesa þessa bók aftur að ári. Nú veit ég meira hvað hún er um og get einbeitt mér betur.
Og til að fyrirbyggja misskilning þá hlustaði ég á bókina, las ekki. Það var Hjalti Rögnvaldsson sem las hana fyrir mig og hann gerði það vel eins og honum er lagið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.4.2021 | 19:17
Fjörutíu ný og gömul ráð: Óskar Árni Óskarsson
Nýjasta bókin í bókasafninu mínu, Hljóðbókasafni Íslands, heitir þessu langa nafni :Fjörutíu ný og gömul ráð við hverdagslegum uppákomum.
Þetta er bók fyrir mig, hugsa ég, og tek hana þegar til láns og byrja að hlusta.
Bókin með langa nafninu er stysta bók sem ég hef tekið þar að láni.Það er Hafþór Ragnarsson sem les. Hún tekur 7 mínútur í lestri. Bókin mun hafa komið út 2015 og er verk s Árna Óskarssonar.
Ráðin
Ráðunum er best lýst með dæmum. Hér koma þrjú:Stundum kemur móða á gleraugun. Þá er ráð að hella upp á kúmenkaffi og minnast Heklugöngu Eggerts og Bjarna.
Stundum fær maður óstöðvandi hnerra. Þá er ráð að kaupa sér vandaða flókainniskó hjá Guðsteini á Laugarveginum. Stundum fer maður dagavillt. Þá er ráð að endurraða bókum í ljóðabókarhillunni.
Þessi dæmi voru valin af handahófi.
Mér fannst gaman af þessari bók, meira að segja svo gagnleg að ég rétti heyrnartækin yfir til mannsins míns. En það má ég auðvitað ekki því ég hef undirritað skilmála um að ég skuli ein nota efni bókasafnsins. Gat ekki stillt mig.
Það var gaman að hlusta á ráð Óskars Árna en ég held að hver og einn þurfi að semja sína eigin ráðagóðu bók. Reyndar held ég að þessa bók þurfi stöðugt að uppfæra. T.d. var eitt gott ráð sem ég nýtti mér meðan ég ók bíl. Það hljóðaði svo: Alltaf að hafa með þér ljóðabók, sem hægt er að lesa í ef þú lendir í umferðatöfum.
Þetta ráð nýtist mér ekki lengur því ég er hætt að keyra og get ekki lengur lesið. Sem fyrr segir kom þessi bók út 2015, af hverju fékk ég hana ekki fyrr?
Bloggar | Breytt 17.4.2021 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.4.2021 | 21:17
Dauði skógar: Jónas Reynir Gunnarsson
Meðan ég var að lesa bókina Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson, hugsaði ég hvað eftir annað með sjálfri mér, þetta verð ég að muna. Og auðvitað mundi ég það ekki, svo ég renndi aftur í gegn um bókina. Hún er ekki löng, tekur 4 klukkustundir í upplestri. Það er Stefán Hallur Stefánsson sem les. Hann gerir það vel, verður eins og sögumaður að segja sögu. Þetta er lágstemmd bók, sem talar í senn til hjartans og skynseminnar.
Forsagan
Sagan hefst á að miðaldra karlamaður sem liggur andvaka á hótelherbergi á Spáni hugsar um líf sott. Hann er á flótta. Aðallega frá sjálfum sér.
Sagan
Þetta er vel stæð fjölskylda og ég staðset hana á Egilsstöðum, þótt það sé hvergi sagt beinlínis. Ég veit að höfundurinn er úr Fellabæ. Aðalpersónan, Magnús, sem et sögumaður er mikill gruflari. Hann veltir
fyrir sér eðli lífsins og náttúrunnar. Hann missti móður sína ungur og ólst upp hjá föður sínum. Faðir er nú komin á hjúkrunarheimili. Hann hafði plantað skóg, lerki, i á jarðarparti sem hann fékk eftir foreldra sína. Þeir feðgar eru nánir. En þótt hugarheimur gruflarans Magnísar sé bæði frjór og skapandi, er hann ekki að sama skapi duglegur að tjá sig. Hildur kona hans hefur orð á því að hann taki ekki þátt í uppeldi barnamma , því hann tali ekki um það sem þarf að gera, t.d. vandamála sem koma upp varðandi eldra barnið, soninn Alla. Mér sem lesanda finnst að Magnús geri heilmikið og sé umhyggjusamur fjölskyldufaðir enda sé ég alla hluti út frá hans sjónarhorni. Hann er einn til frásagna.
Það er erfitt að lýsa þessari bók gæði hennar liggja svo mikið í textanum og því sem gerist í hugarheimi sögumannsins sjálfs. söguþráðurinn skiptir minna máli. Bókin kom mér mikið á óvart. Mér fannst ég aldrei hafa lesið íslenska bók sem líktist henni. Eitthvað fékk mig til að hugsa um Salinger og bók hans Bjargvætturinn í grasinu sem las fyrir margt löngu. Og ég hafði ekki fyrr hugsað til Salingers en að ég rek augun í að það er nú búið að lesa inn fyrrnefnda bók. Og nú veit ég hvað ég les næst. Mig langar að sannreyna hvort minning mín um hana sé rétt.
Meðan ég var að lesa bókina Dauði skógar eftir Jónas Reyni Gunnarsson, hugsaði ég hvað eftir annað þetta verð ég að muna. Og auðvitað mundi ég það ekki, svo ég renndi aftur í gegnum bókina. Hún er ekki löng, tekur 4 klukkustundir í upplestri. Og það er Stefán Hallur Stefánsson sem les. Hann gerir það vel, verður eins og sögumaður að segja sögu.Þetta er lágstemmd bók, sem talar í senn til hjartans og skynseminnar. Auk þess er bókin í senn fyndin og harmræn. Það er slegið á marga strengi skáldhörpunnar.
Sagan
Sá sem segir söguna er miðaldra karlmaður staddur á Spáni. Hann er á flótta. Aðallega frá sjálfum sér. Sagan rekur hvers vegna.
Sagan
Þetta er vel stæð fjölskylda og ég staðset hana á Egilsstöðum, þótt það sé hvergi sagt beinlínis. Ég veit að höfundurinn er úr Fellabæ. Aðalpersónan, Magnús, sem er sögumaður er mikill gruflari. Hann veltir
fyrir sér eðli lífsins og náttúrunnar. Hann missti móður sína ungur og ólst upp hjá föður sínum. Faðirinn er nú kominn á hjúkrunarheimili. Hann hafði plantað skóg, lerki, á jarðarparti sem hann fékk eftir foreldra sína. Þeir feðgar eru nánir. En þótt hugarheimur gruflarans, Magnúsar, sé bæði frjór og skapandi, er hann ekki að sama skapi duglegur að tjá sig. Hildur kona hans hefur orð á því að hann taki ekki þátt í uppeldi barnanna , því hann tali ekki um það sem þarf að gera, t.d. vandamál sem koma upp varðandi eldra barnið, soninn Alla. Mér sem lesanda finnst að Magnús geri heilmikið og sé umhyggjusamur fjölskyldufaðir, enda sé ég alla hluti út frá hans sjónarhorni. Hann er einn til frásagnar.
Það er erfitt að lýsa þessari bók, gæði hennar liggja svo mikið í textanum og því sem gerist í hugarheimi sögumannsins sjálfs. Söguþráðurinn skiptir minna máli. Bókin kom mér mikið á óvart. Mér fannst ég aldrei hafa lesið íslenska bók sem líktist henni. Eitthvað fékk mig til að hugsa um Salinger og bók hans Bjargvætturinn í grasinu sem ég las fyrir margt löngu. Og ég hafði ekki fyrr hugsað til Salingers en að ég rek augun í að það er nú búið að lesa inn fyrrnefnda bók. Og nú veit ég hvað ég les næst. Mig langar að sannreyna hvort minning mín um hana sé rétt eða röng.
Niðurstaða
Bókin Dauði skógar er ein besta bók sem ég hef lesið lengi. Þó hef ég lesið marga góða bók.
Eftirþankar
Þetta er þriðja saga höfundar. Kannski les/hlusta ég á fyrri skáldsögur höfundar; Millilending og Krossfiskar áður en ég skelli mér í að lesa Salinger.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.9.): 0
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar