Nú er það svart

 image

Það er gott að hugsa á reiðhjóli. Hugurinn er knúinn áfram að því sem er mikilvægt og nauðsynlegt. Það þarf að halda sig á stígnum og ekki aka á neinn og muna gæta þess að gefa ofurhjólreiðamönnunum að komast framúr. E‘a er réttara að segja ofurreiðhjólamönnunum?  Ekki reyna að halda í við þá og alls ekki láta þá fara í taugarnar á sér og þaðan af síður hugsa um að þú sért akki nógu góð. Helst dást að þeim. Láta þá auka gleði þína eins og litlu krakkarnir gera sem hjóla á þríhjólunum sínum, tilbúin að koma í kapp. Það er best að hjóla á hjólastígum því þar er búið að einfalda málin. Vandinn verður meiri á göngustígum, þar er  að mörgu að hyggja. Hamingjusamar fjölskyldur vilja ganga samsíða og tala saman eins og þær séu heima hjá sér. Þær eiga stíginn. Unglingar ganga eins og svefngenglar og sjá ekkert nema símann sinn. Ég er farin að trúa sögunum um gömlu krónurnar sem gengu prjónandi milli bæja.
Og svo þarf maður að sýna sérstaka varkárni þegar maður mætir mæðrum/feðrum með barnavagn. Oftast mæðrum. Þær eru stundum líka uppteknar af símanum sínum. Og svo eru allir barnavagnar eða næstum allir, svartir. Það er verra að mæta svörtum farartækjum, þau renna saman við gráa gangstéttina í gráma dagsins. Hvers vegna eru allir barnavagnar, eða næstum allir, svartur í dag. Er það ekki slæmt fyrir litlu börnin? A sínum tíma keypti ég  okkrtgulan barnavagn handa dóttur minni og strákarnir mínir fengu að vera í hvítri kerru. Auk þess er allt of mikið af svörtum og gráum bílum, þótt það krómi ekki hjólreiðum við. Og jafnvel svört hús.

En nú er ég komin út frír efnið. Ég ætlaði að tala um hvernig maður hugsar á hjóli. Flestir hjólreiðamenn klæða sig skynsamlega, þeir vilja ekki láta keyra á sig. Á reiðhjóli hugsa ég alltaf fallegar hugsanir um þá sem stjórna birginn í og hafa séð til þess að göngu- og hjólastígar lengist og batni. 
Já það er gott að hugsa á reiðhjól, því þá er hugurinn frjáls, nema sá hluti af honum sem er bundin við það nauðsynlega.Meginhluti heilans hugsar tímalausar hugsanir.  Hjólreiðar kenna manni líka að hugsa um lífið sjálft og spyrja spurninga. Af hverju finnur maður meira fyrir mótvindi en  meðvindi? Er það eins og lífið sjálft? Og af hverju eru ekki hugsað fyrir hjólreiðastígum hringinn í kring um landið? Það mætti a.m.k. Leggja þá, þegar verið er að bæta vegi. Væri skynsamlegt að banna að skipuleggja bílveg án hjólastígs. Setja það í lög?

Myndin er úr fjöruferð og snertir ekki hjólreiðar. 


Tveir metrar

 

E787EAB9-32B9-4D87-AE26-781A6D1980CCTveir metrar

Kóvítveiran breytir ekki miklu um daglega hegðan mína. Ég er á eftirlaunum og get skipulagt daginn eins og mér finnst best. Dagskrá mín er nokkurn veginn svona:

-Maðurinn undirbýr morgunmat og ég les/hlusta.  Það er setið lengi yfir morgunmatnum svo hann rennur saman við hádegið.

-Handavinnustund hjá mér, netstund hjá manninum.

-Hlustað á fréttir

-Útivist, gengið eða hjólað í 1-2 tíma daglega. Ég ætla ekki að rekja  dagskrá mína frekar er einmitt þetta, útivistin, sem hefur breyst. Allt í einu eru göngu- og hjólastígar fullir af fólki. Margir heilsa, ég heilsa á móti en aldrei að fyrra bragði.  Ástæðan er sú að á tveggja metra færi veit ég ekki hverja ég þekki og hverjir eru mér ókunnugir. Þá get ég ekki sett rétt blæbrigði í röddina. Röddin er ekki eins þegar maður heilsar vinum  og kunningjum eða þegar maður heilsar ókunnugu fólki. Jafnvel þótt maður mæti því oft. Þegar maðurinn er með mér getur hann hnippt í mig og sagt „þetta er…“um leið og hann hvíslar að mér nafninu. Ég er nefnilega sjónskert . Þó sé ég heilmikið en það er eins og fínu  drættirnir í andlitum fólks hafi máðst burt. Sama gildir um blessaða bókstafina. Ég greini ekki lengur fínu krúsidúllurnar sem aðgreina þá. Fólki finnst erfitt að átta sig á þessu, að manneskja sem getur hjólað og gengið sjái ekki almennilega  framan   í fólk og manneskja sem er sískrifandi, skuli ekki geta lesið. Það er skiljanlegt að  það sé  erfitt að átta sig á þessu, því auðvitað vita menn ekki að ég nota 48 punkta letur við skriftir og hlusta á eigin texta með hjálp talgervils.

En af hverju er ég að tjá mig um þetta einmitt núna? Ég held að  það geri þetta iðandi mannlíf á göngustígunum.Það er svo leiðinlegt að sjá ekki betur framan í manneskjurnar. Það er eins og maður sé í ókunnri borg. En þar sem ég veit að eina færa leiðin fyrir fatlaða er að beina huganum að því sem maður getur og víkja til hliðar því sem maður getur ekki. Þess vegna langar mig að biðja kunningja að kynna sig þegar þeir heilsa  á förnum vegi. Það er svo gaman að hittast þótt það séu tveir metrar á milli.  

Myndin sem fylgir er af götulistaverki eftir óþekktan höfund. Ég veit ekki hvort hún er af sólinni eða veiruna sem við óttumst öll.  

 

 


Brúin yfir Tangagötu: Eiríkur Örn Norðdahl

9ED240E0-FD95-4124-BA3C-1A5EC66A4226
Brúin yfir Tangagötu

Ég trúi því að forhugmyndir , hugmyndir sem maður er með í kollinum áður en maður hefur lestur, geti haft áhrif á sjálfan lesturinn. Ég var því full eftirvæntingar þegar ég tók til að lesa  Brúin yfir Tangagötu eftir Eirík Örn Nordahl. Ég hafði heyrt utan að mér að bókin væri sannur yndislestur en Eiríkur Örn  er  ekki þekktur fyrir  að hlífa lesendum sínum.Ég var á báðum áttum hvort ég ætti að demba mér í lesturinn, því ég var ekki undir það búin að takast á við meiri „illsku“ eins og á stóð. Sjálft nafn bókarinnar kallaði strax fram í huga mér nöfn annarra bóka, Brúin yfir  Kvæfljóti og Brúin á Drínu.

Bókin fjallar um Halldór mann á besta aldri sem býr einn í húsi við Tangagötu, sem er sundurgrafin vegna vinnu við endurbætur. Halldór vinnur í rækjuverksmiðjunni, sem er í vinnslustoppi og hann er allt í einu farinn að velta fyrir sér tilgangi lífsins. Hefur ekki tilgangur hans sem manneskju verið að framleiða matvæli? Er ekki skrítið að hann skuli sakna vinnunnar, sem hann upplifði sem íþyngjandi meðan vinna var. Það er eitthvað bogið við að vera á kaupi við að gera ekki neitt. Nú er verkefni hans fyrst og fremst að fá daginn til að líða. Hugur hans fer út um víðan völl en staldrar oft við hjá konunni í húsinu beint á móti. Það er búið að byggja brú yfir götuna og hann veit að það er nákvæmlega níu og hálft skref til hennar,. Þegar þau hittast og taka tal saman er hann vandræðalegur og veit ekki hvernig hann á að vera. Honum er fyrirmunað að vera eðlilegur og segja hug sinn.

Ég ætla ekki að rekja efni bókarinnar frekar hér .  En hún er skemmtileg og rímar eitthvað svo vel við daginn í dag, t.d. hugleiðingar hans um tilgang lífsins og eðli vinnunnar.

Við bókarlok var ég forvitin um, hvernig og hversu mikið höfundur byggði bókina á eigin lífi. Er Tangagata til á Ísafirði.

Já.is fann hana fljótlega fyrir mig, auk þess komu upp fasteignaauglýsingar um hús til sölu við Tangagötu. Mér leist sérstaklega vel á eitt hús og  var að hugsa um að kanna hvað það kostaði.   Rannsóknir mínar á sannleikanum að baki sögunnar lauk með því að fletta Eiríki Erni upp  og já merkilegt nokk ,hann býr á Tangagötu og ef ég keypti fallega húsið sem er til sölu yrði ég nágranni hans.  

Það var heimskulegt af mér að vera með þessar vangaveltur um hvort bókin væri á einn eða annan hátt ævisöguleg því ég veit að allir höfundar byggja allt sem  þeir skrifa á einn eða annan hátt á eigin lífi.

Þessi bók var sannur yndislestur. Innihaldsríkur yndislestur og án illsku.  

Myndin er að götuteikningu, sem ég sá á gangstétt í Laugardalnum í dag. Teiknari óþekktur.


Gísli Gunnarsson : Minning

F19C07A0-2DD9-4DAF-B0E2-E977A2CA6D49
Ég fékk fréttina um andlát Gísla Gunnarssonar frænda míns og vinar í fyrra dag. Ég verð að játa, að þrátt fyrir að hafa fylgst með með baráttu hans við erfiða sjúkdóma, ar ég alls ekki undir það búin. Við áttum svo margt órætt.

Ég kynnist Gísla þegar við vorum bæði ung, hann nýkominn úr námi í Skotlandi og ég í Háskóla. Þegar hann vissi hverra manna ég var, kynnti hann mig fyrir fjölskyldu sinni en mæður okkar voru systkinabörn, af Krossgerðisættinni, eins og sagt var. Eftir það þróaðist með okkur ævilangur vinskapur. Ég var nokkra stund að átta mig á þessum sérkennilega frænda mínum. Það var eiginlega sama hvar maður bar niður, eftir að hafa rætt  við Gísla, sá maður málið frá nýrri hlið. Við tengdumst sem sagt ekki bara  gegnum Krossgerðisættina, við áttum sameiginleg áhugamál sem sneru að pólitík og félagsmálum og fleiru. Við vorum bæði vinstri sinnuð og litum á okkur sem sósíalista. Gísli kafaði þó dýpra en flestir í mínum vinahópi. Það var menntandi að hlusta á hann kryfja mál. Gísli átti það til að vera nokkuð langorður  en hann tók það ekki illa upp við mig þótt ég bæði hann um að stytta mál sitt. Svona lagað geta bara vinir gert.  Eins og ég vék að áðan, var skilgreining Gísla á hvað væri pólitík bæði djúp og víð. Hann vann t.d. stórvirki þegar hann af tilviljun tók það upp hjá sjálfum sér að rannsaka frelsissviptingu ungra stúlkna. Það sem ýtti við honum var að einn nemandi hans  kom að máli við hann vegna vinkonu sinnar sem hafði verið tekin úr umferð. Gísli ákvað að kynna sér málið og tók viðtöl við stúlkur sem höfðu verið teknar úr umferð.  Það fyrsta sem hann tók eftir var að það var allt annað sem var lagt til grund vallar frelsissviptingu stráka og stelpna. Afskiptasemi Gísla var misjafnlega tekið enda var hann langt á undan sinni samtíð.  Þetta mál gekk undir nafninu Bjargsmálið.

 Þegar við Gísli kynntumst vann hann sem kennari í Gagnfræðaskóla Austurbæjar og bjó enn í heimahúsum,   þegar hann hleypti heimdraganum blöstu við mál til að kryfja. Hann fór á  kaf í húsnæðis- og byggingarmál. Og þegar hann hóf að reka sitt eigið heimili fór hann á kaf í neytendamálin og endurreisti Neitendafélagið sem var í djúpri lægð. Ég man eftir löngum samtölum um verð á þvottaefni og klósettpappír. Þegar Gísli kynntist stúlkunni sem átti eftir að verða konan hans, hittumst við sjaldnar. Ráðahagurinn gladdi mig  mig mikið enda þekkti ég Sigríði Sigurbjörnsdóttur

 frá því við vorum skólasystur á Eiðum, og þar sem hún hafði orð á sér að vera rösk   og drífandi. Hún var í verknámsdeild og ég öfundaði hana og stöllur hennar af handavinnunni , sem ég varð að afsala mér að læra, þegar ég valdi landsprófsdeild.

Þótt fundahald okkar Gísla ætti eftir að gisna eftir að hann festi ráð sitt hélst vinátta okkar óbreytt. Við Erling áttum eftir að heimsækja hann bæði til Kaupmannahafnar þegar hann dvaldi í Jónshúsi og til Lundar  á tímunum sem hann var að vinna að doktorsritgerð  sinni í    hagsögu. Seinna meir bar fundum okkar oftast saman í Friðarhúsinu en þar átti hann marga vini og félaga.

Þessi fátæklega upprifjun á gömlum vinskap er til komin af þörf minni til að kveðja vin. Ég sagði í upphafi máls míns að ég hefði ekki verið undir brottför  hans búin. En eftir þessa stuttu upprifjun finn ég að Gísli er ekki farinn. Það er svo margt sem minnir mig á hann og ég á eftir að eiga við hann mörg innri samtöl.

   

Að lokum langar mig og Erling  til að votta Sigríði hans og dætrum hans, Birnu, Málfríði og Ingileif hluttekningu. Gísli sonur minn bað einnig fyrir kveðjur.


Ástin á dögum kólerunnar;

 

6AE5C29A-8DB3-471D-9231-E8104EC67299
Ástin á dögum kólerunnar

Ég geri mikið að því að endurlesa bækur, sem mér finnast góðar. Margar bækur les ég oft. Nú þótti mér við hæfi að lesa Ástin á dögum kólerunnar eftir Gabriel Garcia Marquez (1927 til 2014). Það skemmtilega við að endurlesa bækur er að það er eins og hver lestur færi manni nýja bók. En í raun er það maður sjálfur sem hefur breyst. Með því  að skoða breytingar sem maður telur  að hafi orðið á bókinni, sér maður eigin umbreytingu.

Þegar ég las Ástir á dögum kólerunnar á sínum tíma, líklega 1986, árið sem bókin kom út á íslensku í þýðingu Guðbergs. Í minningunni  var sagan lýsing á litríku lífi í framandi landi. Afar exótísk. Ég mundi best eftir unga lækninum sem hafði numið í París og kom til baka sem eldhugi. Ekki bara í   heilbrigðismálum, hann var á kafi í skipulagsmálum, listum og pólitík. Í mínum huga var hann aðalpersóna sögunnar og ég hafði alveg gleymt furðufuglinum Flórentino Ariza sem ég sé nú að á trúlega að vera aðalpersóna  bókarinnar.Mér til afsökunar get ég sagt að þessi saga breiðir úr sér og hún hefur að geyma margar hliðarsögur og vel dregnar persónur.

 

Sagan gerist á árunum 1870 til 1930 í Kartagena í Kólumbíu. Ungur maður Flórentino Ariza verður ástfanginn af skólastúlkunni Fermina Daza. Faðir hennar setur sig upp á móti sambandi þeirra en  þau skrifast á með leynd.Síðar verður ungi læknirinn Juvenal Urbino heillaður af Fermina, sömu stúlkunni sem þá var orðin gjafvaxta.Merkilegt orð, gjafvaxta. Hann biður hennar og hún tekur honum eftir nokkurt hik. Þau lifa í farsælu hjónabandi í 50 ár en þá ferst hann af slysförum. Flórentino hefur alla tíð beðið eftir þessu augnabliki, hann er enn gagntekinn af æskuástinni sinni. En það hefur ekki hindrað hann í því að njóta ásta með öðrum konum. Líklega á hér betur við að tala um kynlíf en ást.

Það er þessi hluti bókarinnar sem ég hef annað hvort skautað yfir eða einfaldlega sleppt. Kannski lauk ég aldrei bókinni, sem er ekki líkt mér því ég hef lengi haft það fyrir reglu að klára bækur, jafnvel þótt mér leiðist þær. Auðvitað hafði ég óskaplega mikið að gera á þessum árum, útivinnandi með þrjú börn á skólaaldri. Ég veit ekki hvort ég er að leita skýringa eða bara afsaka mig.

Ástæðan fyrir vangaveltum mínum er, að ef svona lagað kæmi út í dag, myndi það kalla á umræðu  og e.t.v. ámæli églíka    (me too)kvenna og karla. Konur eru leiktæki og það er líka barnið America, sem er  skjólstæðingur Flórentinos, sem hann misnotar. America sviptir sig síðan lífi. Öllu þessu hafði ég gleymt.

Nú er ég ekki að halda því fram að Ástin á dögum kólerunnar, sé vond bók, þaðan af síður að hún sé ekki sönn, þótt það hafi fest við þessa og fleiri höfunda að verk þeirra einkennist af töfraraunsæi. Þvert á móti. Mér finnst bókin góð og ég trúi hverju orði. Svona hefur þetta eflaust verið og er enn. En höfundur sem lýsir slíku háttalagi gagnrýnislaust væri ólíklegur til að vera heiðraður með Nóbelsverðlaununum. Gabriel Garcia Marques fékk þau reyndar nokkru áður en bókin kom út (1982).

Auðvitað valdi ég að lesa þessa bók nú út af efninu og það olli mér vissum vonbrigðum að ekki skuli vera meira fjallað um þennan sjúkdóm. Að vísu bregður honum oft fyrir í sögunni og læknirinn hefur miklar áhyggjur af sorp- ogfráveitumálum borgarinnar.     Það var búið að uppgötva hver var orsök sjúkdómsins (1854)og það hefur minn góði læknir vitað.

Það var sem sagt bæði þarft og gefandi að endurlesa þessa bók og ef Guð lofar mun ég lesa hana fljótlega aftur.


Þögla barnið : Guðmundur S. Brynjólfsson

20170913_174054Þögla barnið

Þögla barnið eftir Guðmund S. Brynjólfsson er framhald af bókinni   Eitraða barnið sem kom út fyrir tveimur árum. Persónurnar eru þær sömu oghafa lítið breyst. Eyjólfur   Jónsson sýslumaður dettur enn í það og frestunarárátta hans er jafn óþolandi.    Anna Bjarnadóttir kona hans er enn  jafn þolinmóð og glögg á hvað gera þarf. En þá voru aðrir tímar. Hún ber gæfu til að leiða hann og styðja á braut sem hún hefur valið. Í dag væri þetta líklega flokkað sem meðvirkni.  Skúrkurinn Kár Ketilsson er sami óþverrinn.

En sögusviðið er annað. Fyrri bókin gerist á Eyrarbakka og þar í kring, þessi gerist á Vatnsleysuströnd því þar er þriggja ára óupplýst morð. Allir þykjast þó vita hver er hinn seki en það þarf að rannsaka það og rétta síðan. Sýslumaður Gullbringusýslu er vanhæfur og  Eyjólfur er kallaður til.

Ég ætla ekki að rekja þráð sögunnar lengra, því það gæti skemmt lesturinn fyrir væntanlegum lesendum. En mig langar að tala um það sem  mér finnst vera aðall þessarar sögu, en það er lýsing höfundar á Vatnleysuströnd í byrjun 20. aldar. Byggðarlagið bókstaflega lifnar við.

Þegar ég hitti stöllur mínar í bókaklúbbnum, sagði ég þeim frá bókinni og lagði til að  við skyldum lesa hana saman og fara síðan í vettvangsferð með leiðsögn. Ég sé fyrir mér að við gætum reynt að finna kotin, skoða fjárborgina og Kálfatjarnarkirkju. Mikið hlakka ég til. Ég á ekki von á að covid19 breyti neinu um þetta.  Vonandi.

Lokaorð

Ég er nokkuð viss um að það á eftir að koma út ein bók enn. En það er ekkert sem segir að þær gætu ekki orðið fleiri.

Loka – lokaorð

Það er höfundur sjálfur sem les. Hverjum væri betur treystandi?


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2020
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 190988

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband