28.4.2013 | 18:14
Óbærilegur stöðugleiki efnahagslífsins
Ég vissi það um leið og Árni Páll andaði því út úr sér að hann vildi koma á stöðugleika í efnahagslífi þjóðarinnar að hann var búinn að tapa. Ég hafði nefnilega skynjað að það er ekki stöðugleiki sem þjóðin þráir því fólk virðist vera meira en sátt við endalausa rússibana efnahagslífsins, þetta er eins og að vera þátttakandi í risahappdrætti. Því meiri hreyfanleiki því meiri spenna og því meiri möguleiki á að fá stóra vinninginn eða að minnsta kosti einhvern álitlegan aukavinning. Það er m. a. annars þess vegna sem meiri hluti þjóðarinnar vill ekki ganga í Efnahagsbandalagið og það væri líka algjör eyðilegging á happdrættinu að taka upp evru.
Kosningaúrslitin komu mér því alls ekki á óvart. Hann hefði ekki átt að segja þetta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2013 | 22:50
Þegar öllu er á botninn hvolft
Við í bílskúrsbókaklúbbnum látum ekki kosningabaráttur og mikið framboð af bakkelsi framboðanna trufla okkur í einbeittum lestri. Nú hef ég lokið við að lesa það sem þessi afmarkaði hópur setti sér sér fyrir eftir að við höfðum sett lagt lagt línurnar að því að nú skyldum við lesa eitthvað létt og helst notalegt líka. Bókin sem varð fyrir valinu var Þegar öllu er á botninn hvolft (The Sweetnes at the Bottom of the Pie), eftir Alan Bradley.
Bókin er fyrsta bók höfundar í bókaflokki um Flavíu de Luce. Flavia er 11 ára stelpunörd með efnafræðidellu sem ver tíma sínum ýmist við efnafræðigrúsk eða til að upphugsa níðingslega hrekki til að nota á systur sínar Ófelíu og Dafne. Sögusviðið er gamalt ættarsveitasetur í Englandi upp úr 1950. Ekki langt frá setrinu er eitt þessara dæmigerðu ensku þorpa eins og þeim er lýst í bókum Agötu Christie það sem leyndarmálið liggur grafið og blasir við bara ef það er spurt réttu spurninganna og tengt. Á vissu tímabili lífs míns var ég forfallinn Agötu Christie - lesandi og las allt sem ég komst yfir því ég átti þokkalegt safn af bókum eftir hana og líka þær sem hún skrifaði undir dulnefnum. Þá var mér sagt að það væri önnur ensk kona sem skrifaði miklu betri glæpasögur, Dorothy L. Sayers, og þá bætti ég henni við safnið mitt. Bókin um Flavíu fékk mig til að rifja þetta upp. Þetta reglufasta tilbreytingarlausa líf, öll þessi smáatriði sem huga þarf að og allt þetta fólk sem aldrei virðist þurfa að vinna. Bókin um nördinn Flavíu inniheldur allt þetta en hér bætist eitt við sem ekki er í bókum glæpasögudrottninganna en það eru þessi illgjörnu prakkarastrik og ókurteisu brigslyrði fólksins sem ég kannast við úr unglingabókum og þá oftast ætluðum strákum. Þessi bók er sem sagt nokkurs konar barna- eða unglingabók með glæpasöguívafi.
En ég las bókina af stakri samviskusemi eins og ég á vanda til og gat ekki gert upp við mig af hverju mér leiddist hún. Jafnframt velti ég því fyrir mér hvort börnum, t.d. barnabörnunum mínum myndi finnast hún skemmtileg og hvort ég hefði kunnað við hana ef ég hefði verið yngri. Ég get ekki sagt að ég hafi fengið botn í þetta en nú veit ég af hverju mér féll hún ekki.
1, Ég hafði ekki þolinmæði til að setja mig inn í efnafræðiformúlurnar sem skipa veigamikinn sess
2. Ég trúði ekki lýsingunum á umgengnismáta fjölskyldunnar
3. Mér fannst lýsingin á þorpinu og tíðarandanum ekki ganga upp
En það margt jákvætt við þessa bók.
1. Hún er spennandi
2. Málfarið er ríkt, skemmtilegar samlíkingar og smellin tilsvör
3. Og svo er hún pínulítið fræðandi
Ekki veit ég hvort ég á eftir að lesa fleiri bækur um Flavíu og það sem hún er að bralla. Þetta er eina bókin sem búið er að þýða og kannski er hún enn betri á frummálinu. En ég get ekki sagt að hún hafi uppfyllt væntingar mínar um að vera létt og notaleg.
Þegar ég fór að lesa mér til um bókina og höfund hennar kom mér á óvart að hann er alls ekki enskur heldur kanadiskur. Kannski hefði mér fallið bókin betur ef Flavía hefði líkst meira Önnu í Grænuhlíð og þorpið Prince Edward Island?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2013 | 23:26
Hannes Hafstein: Ég elska þig stormur
Nú er ég búin að lesa bókina sem ég ætlaði ekki að lesa heldur bara fletta. Aðallega til að skoða myndirnar. Ástæðan fyrir að ég fékk þessa bók lánaða var að heimsókn mín í Hannesarholt sem nýbúið er að laga og gera upp af miklum myndarskap. Hannesarholt, Grundarstígur 11 er heimili er síðasta heimili Hannesar Hafstein en hann lét byggja húsið 1915 og bjó þar með fjölskyldu sinni þar til hann lést 1921.
En aftur að bókinni. Ævisaga Hannesar, Ég elska þig stormur er eftir Guðjón Friðriksson kom út 2005. Ég get fullyrt að þessi bók er ekki fyrir giktveika (sem ég reyndar er) því hún er 726 síður og vegur rúm 1, 6 kg. Ég hafði sem sagt ekki ætlað að lesa hana, held því fram að ég sé ekki mikið fyrir ævisögur, en ég féll í freistni. Bókin er einfaldlega svo skemmtilega og spennandi. Og svo er hún svo fróðleg, sérstaklega um söguna og þjóðlífið að hvað eftir annað stóð ég mig að því að hugsa - af hverju vissi ég ekki þetta? Auk sagnfræðinnar er þetta saga um mannlíf, örlög og dramatík. Það er til máltækið - Það er nú lítið gaman af Guðsspjöllunum ef enginn er í þeim bardaginn - og það vantar svo sannarlega ekki bardagann í þessa bók.
Stór hluti bókarinnar fjallar um pólitík og hún er átakamikil og spennandi. Kannski mætti segja að tekist er á um það að pólitíkin sé að nema hér land og stíga sín fyrstu skref, því það er verið að fjalla um sjálfstæði Íslands og um það hvernig eigi að haga lýðræðinu í landinu, um stjórnarskrána. Frásögn Guðjóns er svo lifandi að hvað eftir annað fannst mér ég ekki vera að lesa um rúmlega 100 ára gamlar deilur, mér fannst ég vera hér og nú að hlusta á stjórnmálaumræðuna í beinni.
Eiginlega er bókin um Hannes ekki ein saga heldur margar tengdar sögur. Það koma fram margar persónur og lesandinn verður forvitinn um örlög þeirra ekki síður en um Hannes, aðalpersónu sögunnar. Nú óttast ég að ég eigi eftir að detta inn í ævisögur Valtýs Guðmundssonar og Tryggva Gunnarssonar og fleiri og fleiri. Þetta eru svo spennandi tímar. Og svo voru menn svo duglegir að skrifa, það eru til svo miklar heimildir. Guðjón þarf oft ekki að gera annað en láta heimildirnar tala.
Eitt kvöld var ég svo upptekin af sögu símans að ég var til viðbótar við Google komin með á borðið hjá mér þriggja binda alfræðibókina sem ég á (sem hefur reynst mér vel) og bók Helga Skúla Kjartanssonar. Mig langaði svo að vita hvenær talsímasamband við útland komst á. Og viti menn. Um klukkan tvö komst ég loks að því að það var ekki fyrr enn 1935 og það var Hermann Jónasson sem hringdi í danska kónginn.
Svona kveikir þessi bók í manni. Maðurinn minn var orðinn afskaplega leiður á mér og Hannesi, ég blandaði honum í öll mál, sérstaklega á stjórnmálaasviðinu. En ég áeftir að sakna hans og finn til tómleika eins og eftir að kveðja vin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.4.2013 | 18:48
Útlagi:Jakob Ejersbo
Það er mikill munur á góðum og vondum bókum og ég hef oft reynt að skilgreina fyrir sjálfri mér hvað það er sem gerir útslagið. Ég hef því miður enn ekki komist að niðurstöðu en held þó að það hafi eitthvað að gera með hjartað.
Var að ljúka við bók Jakobs Ejersbo, Útlagi, og er ekki í neinum vafa um að það er góð bók. Bók sem kemur við mann, breytir manni og hverfur ekki úr huga manns þótt lestri sé lokið. Þó er ekki hægt að segja annað en að þetta sé erfiður lestur.
Aðalpersóna bókarinnar og sögumaður er unglingsstúlka í Afríku, nánar til tekið Tansaníu á níunda ártugnum. Hún er hvít og foreldrar hennar tilheyra hvíta minni hlutanum sem matar krókinn á þessum umbrotatímum þegar Afríkuríkin eru í sjálfu sér orðin sjálfstæð en lýðræði og stjórnarfar stendur á brauðfótum. Sagan hefst þegar Samantha er að kveðja systur sína sem er að fara til Englands en hún er sjálf að fara í heimavistarskóla fjarri heimili sínu. Í fyrstu varð mér það á að bera þetta saman við mitt líf, ég var í heimavistarskóla á svipuðum aldri og var fjarri heimili mínu mánuðum saman án símasambands og heimsókna og vorkenndi mér ekkert. Við höfðum ekki einu sinni leyfi til að hlusta á útvarp. En þessu var ekki saman að jafna, lífið á Eiðum í gamla daga var mun tryggara en lífið á alþjóðlega heimavistarskólanum í Moshi.
Líf Samantha er að takast á við umbrota- og mótunartíma unglingsáranna. Hún er í mikilli uppreisn, hún er töff en innst inni er hún lítil, viðkvæm stúlka. Eftir því sem líður á frásögnina fáum við að vita meira um líf hennar og fjölskyldu. Alls staðar blasir við spilling, óheiðarleiki, svik og grimmd. Það er ekki nóg að eiga peninga. Fólkið hennar Samantha er ekki fært um að stýra eigin lífi, hvað þá að ala upp börn og þau eru einangruð í fjölskyldu og það er líkt á komið hjá hinum svo kölluðu vinum þeirra. Nei það er ekki hægt að jafna þessu lífi saman við lífið í Breiðdalnum í gamla daga, því þótt við þyrftum nú oft að hafa mikið fyrir lífinu þá lifðum við í tryggu umhverfi og það var passað upp á okkur.
Áfengi, eiturlyf og kynlíf eru sjálfsagðir hlutir í skólanum hennar Samantha og þótt skólayfirvöld reyni að nafninu til að hafa einhverja reglu á hlutunum er of dýrt að reka nemendur þegar foreldrarnir borga vel.
Þetta er sem sagt bók sem grípur lesandann og sleppir ekki tökum á honum. Þetta er hjartaskerandi bók en það er þess virði,
Páll Baldvin Baldvinsson þýðir þessa bók og skrifar við hana eftirmála þar sem við fáum að vita að hún er hluti af þríleik sem myndar eina heild. Það er tilhlökkunarefni að vita að það er von á fleiri bókum eftir þennan góða höfund.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 4
- Sl. sólarhring: 22
- Sl. viku: 78
- Frá upphafi: 190475
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 50
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar