30.3.2021 | 21:01
Örvænting: Vladimir Nabokov
Auðvitað veit maður þegar maður les sögu að hún er ekki sönn í bókastaflegri merkingu. Ég hef meira að segja búið mér til það viðmið, að bók sé góð, ef ég trúi henni. Þannig vil ég hafa sögur. Í bókinni Örvænting kemur Vladimir Nabokov mér í nokkurn vanda. Hann er stöðugt að minna lesanda sinn á að sagan sé skáldskapur. Hvað eftir annað rýfur hann spennandi atburðarás með því að ávarpa lesanda sinn og velta efnistökum bókarinnar fyrir sér. En allt kemur fyrir ekki, bókin tekur hug manns allan, ég held þræðinum og reyni að umbera innskot rithöfundarins í eigin texta. Satt best að segja minnir hann mig á ömmu mína, sem var frábær sögukona, hún átti þetta til að hlaupa út undan sér í miðri frásögn og þá þurftum við að dekstra hana til að halda áfram.
Sagan
Sagan fjallar um smásúkkulaðiframleiðanda í Berlín sem reynir að auka viðskipti sín með því að falbjóða vöru sína einnig í Prag. Þar rekst hann á fátækling/beiningamann sem honum finnst svo bráðlíkur sjálfum sér, næstum tvífari sinn, að hann ákveður að koma honum fyrir kattarnef. Áður hafði hann fallið eiginkonu sinni að leysa út líftryggingu sína og síðan gætu þau lifað náðugu lífi það sem eftir er.
Vonbrigði
Klækurinn heppnaðist ekki. Maðurinn sem hann drap var ekki baun líkur honum og málið lá ljóst fyrir þegar konan ætlaði að leysa út líftrygginguna. Í stað þess að njóta þess að hafa framið fullkominn glæp sat hann uppi með að verða úthrópaður sem ómerkilegur þorpari og samviskulaus níðingur, sem níddist á minni máttar. Það merkilegasta við þessar hrakfarir súkkulaðimannsins er að það sem fær mest á hann er ekki peningarnir eða það að eiga dóm yfir höfði sér. Nei, hann er sárastur fyrir að gjörningurinn, þessi frábæra hugmynd, er ekki metin að
verðleikum.
Galdur
Það merkilega við þessa bók er að vera á einhvern hátt þvinguð til að setja sig í spor þessarar óviðkunnanlegu persónu. Hann líkist engum sem ég þekki og ég vona að kynnist aldrei neinum slíkum.
Þessi saga var skrifuð á rússnesku og kom út í Berlín 1926 og seinna umskrifuð á ensku 1935 af höfundi. Hún var ekki til á íslensku fyrr en 2021 í þýðingu Árna Óskarssonar. Ég meðtók hana í eyrað. Það var Guðmundur S. Brynjólfsson sem las hana fyrir Hljóðbókasafnið. Hann las hana með tilþrifum. Nánast leiklas.Höfundur sögunnar var fæddur í Pétursborg 1899. Fjölskylda hans flúði land 1919 eftir byltinguna. Hann átti eftir að búa í mörgum löndum og fékk meira að segja ríkisborgararétt í Bandaríkjunum þar sem hann bjó um hríð. Hann og lést 1977 í Sviss.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.3.2021 | 17:37
Eldarnir: Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Ég veit ekki hvernig eldgosið sem kennt er við Geldingadali endar, hinsvegar veit ég hvernig bók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur um eldana lýkur. En vegna þeirra sem enn hafa ekki lesið þá bók, ætla ég ekki að ljóstra því upp hér.
Eru spennubækur hættulegar
Það er stundum haft á orði, ef bók er spennandi, að lesandi geti naumast lagt hana frá sér. Þetta á við mig og lestur/hlustun mína á Eldunum. Ég get ekki vanið mig af því að tala um lestur, þótt ég geti nú orðið ekki lengur lesið. En það er lán í óláni að hafa aðgang að Hljóðbókasafni Íslands. Það var Sunna Björk Þórarinsdóttir sem las bókina. Hún gerði þaðð afbragðsvel. Takk Sunna. Þetta er fyrsta bókin sem ég hef raunverulega lesið/hlustað á í einni lotu. Hún tekur um það bil 9 klukkustundir í hlustun. Ég lauk henni klukkan 5 að morgni. Gosið hófst sama dag.
Ég var byrjuð að horfa á séra Bown í sjónvarpinu, en enn með hugann við bókina. Þegar tilkynningin kom um gos kom á skjáinn, var ég nokkra stund að átta mig á því, að þetta gos var í raunheimi. Nú hafa liðið nokkrir dagar og enn er bókin jafn ofarlega í huga mér og gosið.
Allt er svo líkt. Meira að segja Milan yfirlögregluþjónn er næstum eins og Víðir.
Náttúruöflin
Þessi saga fjallar um náttúruöflin sem við búum við og
þau sem búa í okkur.
Aðalpersóna sögunnar er Anna Arnardóttir. Hún hefur klifið alla þá tinda sem lífið hefur upp á að bjóða. Hún er prófessor í eldfjallafræðum og forstöðumaður Jarðvísindastofnunar. Hún á gæflyndan mann og elskuleg börn. Og fjölskyldan hefur komið sér vel fyrir í stóru einbýlishúsi og heimaskrifstofan er dásamleg.
Fortíð
Anna á sér óvenjulega fortíð. Hún er alin upp af föður sínum, sem hún dáir. Móðir hennar sem er bókmenntakona, hafnaði henni. Líklega er réttara að orða það sem svo, að hún réði ekki við móðurhlutverkið. Anna tekur áhuga á jarðvísindum og eldgosum í arf eftir föður sinn.
Gos undan Reykjanesi
Eldgosið í þessari sögu hófst í sjó út af Reykjanesi. Það orsakar mikla ösku og flugvöllurinn er lokaður. Vegagerðin lætur veghefla hreinsa ösku af vegum. Nú fer tveimur sögum fram samtímis (þessi setning er fengin að láni úr Heimskringlu). Anna sinnir starfi sínu sem vísindakona og hlutverki sínu sem eiginkona og móðir. En það virðist vera einhver glufa í hjónabandinu og þar ryðst ástin inn. Anna reynir að takast á við ástina innra með sér með sinni aðferð. Skoða hana vísindalega. En hún ræður ekki við hana frekar en jarðeldana.
Ég verð að játa að ég hafði meira gaman af fræðilega hluta þessarar bókar, þ.e. þeim sem fjallar um jarðvísindi. Hann er snilldarlega vel skrifaður. Ég velti fyrir mér hvort það væri ekki upplagt að nota hann sem kennsluefni. Ég hafði lúmskt gaman af kerfislega hluta frásagnarinnar. Fannst engu líkara en þarna væri sönn saga á ferðinni,saga um smá núning milli vísinda- og valdamanna. Vísindakonan Anna undrast afstöðu okkar Íslendinga til eldfjalla. Í útlömdum óttast menn eldfjöll og hata þau. Á Íslandi er fólk stolt af eldfjöllum okkar og skírir börnin sín eftir þeim.
Persónulýsingar Sigríðar eru knappar, eins og mynd sem dregin er í fáum dráttum. Mér finnst samt eins og ég gæti þekkt persónur hennar á götu eða á sjónvarpsskjánum. (Ég veit t.d. alveg hver forsætisráðherrann úr Eyland er)
Það er vandi að lýsa góðri bók. En ég reyni þó. Í þessari bók fer allt saman, tónninn sem er sleginn er nýr og ferskur, stíllinn fær mann til að elska íslenskuna enn meir. Auk þessa er bókin bæði fyndin og fræðandi.
Bloggar | Breytt 26.3.2021 kl. 10:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2021 | 16:32
Azar Shokoofeh: Uppljómun í eðalplómutrénu
Enn og aftur stækkar Angústúra heim minn með því að gefa út bók frá menningarheimi sem ég hef litla þekkingu á. Í bókinni Uppljómun í eðalplómutrénu fjallar Azar Shokoofeh um líf fjölskyldu í Íran á tímum byltingarinnar 1979 og það sem gerðist í kjölfar byltingarinnar.
Sagt er frá lífi fimm manna fjölskyldu sem flytur frá Teheran í afskekkt þorp.Þannig hyggja þau sleppa við ástand sem hafði skapast í höfuðborginni eftir byltinguna . En armur harðstjórans er langur og teygir sig líka til þessa litla þorps. Fjölskyldufaðirinn er menntamaður og listamaður. Hann hefur sérstaklega lagt sig eftir að sanka að sér og rannsaka forna menningu þjóðar sinnar. Húsið er fullt af bókum hljóðfærum og listaverkum.Það er e.t.v. ekki alls kostar rétt að tala um fimm manna fjölskyldu, önnur dóttirin fórst í bruna fyrir flutninginn. En hún fylgir þeim sem andi og það er hún sem er sögumaður í þessari sögu.Í þessari sögu er heimurinn stærri, víðari og dýpri en sá raunheimur sem við höfum lært að sé sannur og réttur. Því þar koma við sögu margvíslegir huldar vættir svo sem dísir, náttúruvættir og afturgöngur. Mér þykir líklegt að höfundurinn grípi til þessa sagnamáta til að lýsa heimi sem er of hræðilegur til þess að raunsæ frásögn nái að lýsa honum. Þetta voru afdrifarík ár. Það var ekki nóg með að gerð væri bæði trúarleg og veraldleg bylting, það stóð yfir langvarandi stríð við Írak. Í bókinni er m.a. lýst hvernig kornungir menn voru tældir á vígvöllinn til að verða píslarvottar.
Uppljómun í eðalplómutrénu
Heiti bókarinnar vísar til þess þegar móðirin í fjölskyldunni klifrar upp í tré og uppljómast nákvæmlega á sama tíma og sonur hennar var tekinn af lífi.Hún á síðan eftir að sitja uppi í hæsta trénu í skóginum í þrjá daga, þrátt fyrir mótmæli fjölskyldu sinnar. Mér finnst merkilegt hvað ég upplifði mikla samsvörun með því yfirnáttúrulega sem hér er lýst og íslenskra sagna um álfa og huldar vættir og dvöl móðurinnar í trénu fær mig til að hugsa til Óðins og hins helga trés, Yggdrasils.
Þetta er mögnuð saga. Frásagan af bókabrennunni er stórkostleg. Það er ekki nóg með að úrvalsbókum sé brennt, karakterar bókanna lifna við í brunanum og kveina og biðjast vægðar.
Um höfundinn
Mig vantar orð til að lýsa þessari áhrifaríku bók og ætla að ljúka þessum pistli með því að segja frá höfundinum.Azar Shokoofeh er fædd 1972. Hún nemur bókmenntir í Teheran og vann um árabil sem blaðamaður. Hennar sérsvið var að fjalla um mannréttindi. Hún sat oftar en einu sinni í fangelsi vegna skrifa sinna og ákvað loks að flýja land 2011 og býr nú í Ástralíu. Þetta er fyrsta bókin hennar. Hún er skrifuð á Farsi og kom út í enskri þýðingu árið 2017.
Bókin kom út á íslensku árið 2020. Þýðandi bókarinnar er Elísa Björg Þorsteinsdóttir. Sólveig Hauksdóttir les bókina fyrir Hljóðbókasafn Íslands. Sólveig er góður lesari. Auðvitað get ég ekki dæmt um þýðingu bókarinnar er þó sannfærð um að hún er til fyrirmyndar, því bókin er á blæbrigðaríkri íslensku og afar áheyrileg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (18.9.): 5
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 190971
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar