Heimskautsbaugur: Liza Marklund

FCBB093D-1C8C-4289-AF4A-B9AE29670368
Liza Marklund

Hjartað í mér hoppaði  af gleði þegar ég sá að það var komin út ný bók eftir Lizu Marklund ( Eva Elisabeth Marklund fædd 1962). Mér finnst hún svo skemmtilegur höfundur. Flestar bækur sem ég hef lesið eftir hana gerast í Stokkhólmi og fjalla um hina skeleggu blaðakonu Anniku Bengtson.  Þessi bók Heimskautsbaugur gerist í hennar gömlu heimahögum í Norrbotten. Þar sem hún er fædd og uppalin.

Sagan gerist á tveimur tímaplönum.

Leshringurinn

 Fyrst  er sagt frá leshópnum  Heimskautsbaug en það er nafnið á bókaklúbb 5 stúlkna. Þetta hófst í 7. bekk, Þá sóttu fimm stúlkur um að vikulegir fundir um bók að eigin vali væri metið sem fullgildur valáfangi. Þær hittust vikulega út barnaskólann en fengu síðan að halda áfram í menntaskóla, en hittust þá bara einu sinni í mánuði. Þetta er sögulegur bakgrunnur þess sem síðar gerist.

Stúlkurnar í hópnum

Stúlkurnar eru að því leyti líkar, að þær eru fallegar og vel gefnar. En þær eru engu að síður ólíkar sem persónur. Og félagsleg staða þeirra er afar ólík. Sagan hefst á því að segja frá fundum hópsins árið sem þær eru  að ljúka námi í framhaldsskóla. Árið er 1980. Þá hefur Liza  sjálf verið í framhaldsskóla,  sýnist mér. Allt í einu hverfur ein stúlkan. Sporlaust.

40 árum síðar

40 árum síðar finnst lík sem allir telja víst að sé af týndu stúlkunni. Á þessum tíma hafa allar stúlkurnar nema ein flust frá frá Stenträsk.

Líkið ber þess merki að stúlkan hafi verið myrt  og nú hefst  lögreglurannsókn að nýju. Það kviknar grunur um að málið tengist á einhvern hátt leshópnum, samskipti stúlknanna voru ekki átakalaus. Unglingsstúlkur eiga það til að vera illskeyttar hver við aðra. Hér ætla ég að láta staðar numið við að rekja söguþráðinn.

Dreifbýlið

Höfundur sögunnar dregur upp ljóta mynd af sænsku dreifbýli. Veturinn er langur og harður og  skammdegið ber nafn með rentu, það er næstum dimmt allan sólarhringinn. Í næsta  nágrenni við bæinn er bandarísk herstöð. Kornungar stúlkur fara þar á barinn, til að drekka sig fullar og sofa hjá hermönnunum. Í stað náttúrunnar (sem Svíar kalla vildmark) er komin risastór eyðimörk sem Svíar leigja út til að vissar þjóðir geti prófað vopnin sín. Ríkið fær vel borgað og þetta er atvinnuskapandi fyrir heimamenn. Sumrin eru stutt og þá er ólíft vegna mýbits. Unga fólkið vill burt.

Ég hef ekki hugmynd um hvort þessi lýsing sé rétt eða ekki, þetta er bara sú mynd sem Liza Marklund dregur upp. Hún ætti að vita það, hún ólst þarna upp.


Blómin frá Maó: Hlín Agnarsdóttir

2C2482B9-E281-4C59-94D7-8D0332413597
Blómin frá Maó

Þessi bók eftir Hlín Agnarsdóttur hafði af einhverjum ástæðum  farið fram hjá mér. Kannski ekkert skrítið því hún kom  út 2009, það var undarlegt ár.

Bókin hefst á því að það er hringt í Sigurborgu, konu á sextugsaldri sem er í pottaskápnum að finna sér pott sem henti vel til að fara niður á Austurvöll til að láta í ljós reiði sína hvernig græðgi fárra manna leiddi til hruns bankakerfisins og rændi fjármunum fólks. Í símanum er kona sem er að safna fróðleik um munnlega geymd um það sem gerðist í pólitíkinni þegar hún var ung. Þessi tilmæli um samtal verða til þess að hugur hennar fer á flug. Fortíðin, sagan, flæðir fram.

Sú saga segir frá ungri konu, Sigurborgu Eyfjörð, sem hefur sótt um nám í félagsráðgjöf af því hún hefur samúð með bágstöddum og vill láta gott af sér leiða. Hún er fædd og uppalin á Akureyri, dóttir einstæðrar móður. Þær mæðgur búa hjá ömmunni sem líka var einstæð móðir. Sigurborg stundaði nám í MA og er nú tilbúin til að lifa sínu eigin lífi. Hún hefur leigt sér herbergi á Birkimel hjá frú Þorbjörgu, konu á áttræðisaldri.

Sigurborg ætlar ekki bara að mennta sig, hún ætlar að eignast vini, kynnast félagslífinu í Háskólanum. Taka virkan þátt. Strax á fyrsta degi þegar hún er að innrita sig, les hún auglýsingar um það sem stendur til boða. Hún er skipulögð og  skrifar hjá sér það sem henni finnst forvitnilegt. Inn í vasabókina frá KEA ratar m.a. Asparsamtökin sem reynast vera leshringur  Marx-Lenin-Maóiskra samtaka, ekki trjárækt. Þegar hún kom heim, fékk hún að hringja hjá Frú Þorbjörgu og sótti um hjá þeim. Þeir sem leiddu þessi samtök voru brennandi í andanum og holdinu líka og þar fékk unga norðankonan sína eldskírn í heimspólitíkinni og ástinni. Í lok námskeiðsins var farið til Kína. Grúppan frá Íslandi fékk að hitta Maó. Til viðbótar við þetta allt, hitti Sigurborg manninn í lífi sínu, þótt það væri bara ein nótt. Hún eignaðist drenginn Jón Vang.  Þessu næst innritaði  hún sig aftur í félagsráðgjöf.

Námi hennar um byltingu á Íslandi byggða á hugmyndum Maós, var lokið.

Það var gaman að lesa þessa bók. Ég hef hvergi séð uppreisn unga fólksins, 68-kynslóðinni betur lýst. Um leið er þetta persónuleg saga ungrar konu út í lífið. Bókin er í senn fyndin og sorgleg. Stíllinn er fágaður. Það finnast margar góðar setningar í bókinni sem mig lagar til að nema og læra til frambúðar. Í kaflanum snúningsgrind tímans /(líkingin vísar til snúningsgrindarinnar í pottaskápnum):“Það var á tímum svarthvítu myndanna, í fortíðinni þegar við lýstum eftir framtíð sem aldrei kom, í staðinn kom nútíðin aftur og  aftur og snerist afturábak og áfram um sjálfa sig. Tíminn er eins og snúningsgrind í pottaskáp sem bítur í skottið á sér.“

Lokaorð

Það stóðst á endum. Þegar ég lauk við Blómin frá Maó, sá ég að það var búið að lesa inn á hljóðbók nýju bókina hennar Hlínar, Meydómur.

Nú er hugurinn þar.

Eftirþanki

Hlín les sjálf inn bókina sína um Blómin frá Maó. Hún er góður lesari og það urðu mér vonbrigði þegar ég sá að hún les ekki nýju bókina líka. Það skapar ákveðna nánd, þegar höfundar lesa sjálfir verk sín.    


Sif Sigmarsdóttir BANVÆN SNJÓKORN

EA0CC568-077F-4DD5-88F4-0450ED2E63E0
Banvæn snjókorn

Þegar ég hóf lestur bókarinnar Banvæn snjókorn eftir Sif Sigmarsdóttur vissi ég ekki að hún væri hugsuð fyrir yngri lesendur.  Ég valdi hana vegna þess að ég er vön að lesa pistla Sifjar  í Fréttablaðinu, sem mér finnst frábærir. Þegar  ég var komin vel inn í miðja bók , fannst mér sagan á vissan hátt torskilin og hugsaði að líklega myndu stálpuðu barnabörnin mín skilja textann betur en ég, áttræð amman. Það sem ég átti í baksi með varðaði hugarheim ungu stúlknanna Hönnu og Imogen netheima. Þær Hanna og Imogen eru aðalpersónur sögunnar.

Ég er rétt feisbókarfær en veit þó að það finnast fleiri samskiptasíður af  sama toga . Hef ákveðið að sneiða hjá þeim tímans vegna.  Og kannski vegna vegna sjónskerðingar. Það finnst svo margt annað áhugavert og spennandi. Þetta voru hugrenningar mínar.  Fyrst þá, inn í miðri bók, kannaði ég hvort bókin væri fyrir börn og unglinga. Og það kom heima. Hún er fyrir stálpuð börn og svo auðvitað, eins og allar góðar barnabækur, er hún ekki síður fyrir fullorðna.

Sagan

Hanna sem er á unglingsaldri, hefur búið hjá móður sinni og ömmu í London. Við lát móður ákveður pabbi hennar að hún eigi að flytja til hans í Reykjavík. Þar býr hann með nýju fjölskyldunni sinni. Hanna er skynsöm stúlka og veit að þannig verði það að vera, þótt hún hefði miklu frekar  viljað vera áfram hjá ömmu sinni í London. Hún byrjar næstum að sakna vinkonu sinnar í London áður en hún    er lögð af stað.

Önnur veigamikil persóna er Imogen. Hún er að læra sálfræði í háskóla en hún er líka „opinber persóna“ á netinu og á sér fjölda fylgjenda. Hún póstar tvisvar á dag. Þannig þekkir Hanna til hennar og dáist að henni. En leiðir þeirra eiga eftir að liggja saman.

Imogen gerir hlé á námi sínu þegar hún fær afar gott  vinnutilboð. Þetta er vinna að auglýsingagerð, þar nýtist  bæði nám hennar í sálfræði og nethylli. Auglýsingaskrifstofan vinnur út frá nýrri hugmyndafræði, sem í stuttu máli felst í því að sömu auglýsingar henti ekki öllum neytendum, það þarf að greina og flokka neytendahópinn og semja auglýsingar sem laða að ólíka neysluhópa. Ég hugsaði þarna er komin góð lýsing sem stemmir við þennan „algóritma“, sem allir eru að tala um.

Leiðir þessara tveggja stúlkna liggja saman og sagan á eftir að fjalla um alvarlega atburði svo sem kynferðislegt ofbeldi  og dauða.

En ég ætla ekki að rekja alla söguna hér, það er ekki við hæfi. Í stað þess ætla ég að tala um það sem tengir þær. Í báðum tilvikum hvílir mat þeirra á sjálfum sér á viðbrögðum annarra á netinu. Sjálfstraust og sjálfsvirðing rís og hnígur í takt við „lækin“ sem þær fá við það sem þær setja á netið. Hér ætla ég að láta staðar numið við að segja frá efni bókarinnar. En hún fær mörg „læk“ frá mér.

Sagan lýsir einkar vel veruleika ungs fólks  í dag. Það er fróðlegt að fá að fylgjast með því  hvernig stúlkurnar hugsa sér að  rétt sé að bregðast við vanda.

Lokaorð

Nú veit ég að Sif Sigmarsdóttir skrifar ekki bara góða pistla, hún skrifar líka góðar barnabækur. Og ég hef þegar ákveðið að lesa fleiri bækur

eftir hana.


Vatnsdæla: Fyrirheitna landið

4F6CF178-EA18-471D-B9F9-6689ABF9D808

Vatnsdæla

Góðar bækur les maður oft. Þegar ég var búin að eta mig metta af jólabókaflóðs-bókunum, fannst mér röðin vera komin að Vatnsdælu. Ég hef ekki lesið hana síðan ég bjó í Húnaþingi. Þá gat ég líka glöggvað mig á staðháttum sögunnar. Þ.s.a.s. þeim sem gerast á Íslandi. Upphafskaflar sögunnar gerast í Noregi eins og í flestum Íslendingasögum. Í Vatnsdælu er þessi aðdragandi óvenjulangur og skemmtilegur.Í þessum kafla er m.a. sagt frá því, af hverju Ingimundur Þorsteinsson flytur til Íslands. Í tilviki margra Íslendinga, var ástæða þess að menn yfirgáfu ættland sitt og námu land á Íslandi sú, að þeir voru að flýja harðræði Haraldar hárfagra. En það átti ekki við um Ingimund, hann var búinn að koma sér innundir hjá konungi og framtíðin var björt. Þá koma til sögunnar  fjölkunnugir finnar sem réðu í framtíð hans. Þeir sögðu að örlög hans yrðu þau að hann flytti til Íslands og þeir sáu meira að segja hvar hann myndi setjast að. Það má ekki rugla þessum finnum saman við þá sem við köllum Finna í dag, þetta voru menn sem

voru skyggnir á framtíð manna.

Ingimundur hlýðir spá finnanna og býr sig til ferðar í samráði við konung sinn. Hann siglir til Borgarfjarðar og býr vetrarlangt hjá Grími vini sínum á Hvanneyri. Því næst fer hann og allt hans lið  landleiðina norður. Ég ætla ekki að lýsa þeirri ferð í smáatriðum en Ingimundur var duglegur  að finna nöfn á landslagið. Hann þurfti aftur að hafa vetursetu áður en hann fann fyrirheitna landið.

Ég á erfitt með að sjá þetta ferðalag fyrir mér en finnst að það minni á eyðimerkurgöngu Mósesar í Biblíunni, þegar hann leiddi brottför Gyðinga frá Egyptalandi til þeirra

fyrirheitna  lands.

Þegar Ingimundur og hans fólk voru komin þangað sem við í dag köllum Vatnsdal, var Ingimundur farinn að þekkja sig út frá spásögn finnanna. Og þegar leiðin liggur örlítið upp með Vatnsdalsá ávarpar konan hann og segir:“Hér mun ek dvöl eiga nokkra því ég kenni mér sóttar.“ Ingimundur svaraði. “Verði það að góðu.“ Ekkert segir af fæðingunni en konan, Vígdís, ól þar dóttur. Faðir hennar Ingimundur nefndi hana Þórdísi, það var hlutverk feðra að nefna börn.

Mér hefur einhvern tíma verið sagt, að þetta sé fyrsta saga af fæðingu barns á Íslandi. Vesturhúnvetningar hafa reist stein til minningar um þetta atvik og plantað skógi. Þar heitir Vígdísarlundur. Fallegur staður fyrir ferðamenn til að skoða á ferðalögum.

Ingimundur fann bæjarstæði sitt og reisti þar bæ sinn og hof. Hann nefndi bæinn að Hofi og heitir svo enn.

Það var ekki ætlun mín að endursegja Vatnsdælu, enda ærið verk, ástæða þess að ég settist við tölvuna var,  að við þennan lestur nú, fannst mér Vatndæla ótrúlega margorð. Persónur sem eitthvað kveður að halda langar ræður. Ég hafði aldrei tekið eftir þessu við fyrri lestra sögunnar og fór að reyna að rifja upp hvort svo væri enn hjá núverandi Húnvetningum. Tala þeir meira en aðrir? Hefur þetta verið rannsakað?

Endurlestur er alltaf nýr lestur

Það skemmtilega við að lesa bækur oft er að maður sér þær alltaf upp á nýtt, finnur nýjan fróðleik.

Í þetta skipti tók ég t.d. eftir því að það var talið  eðlilegt og gagnlegt að nota vísur sem mælieiningu á tímalengd. Þetta var fyrir tína klukku og vasaúra. Þetta gerir Þorsteinn Ingimundarson þegar hann biður smalamann sinn að banka upp á hjá Hrolleifi og Ljótu móður hans að Ási. Hvað urðu þetta margar vísur, segir hann, þangað til komið var til dyra? Þær voru 12 svaraði smalinn. 12 vísna tímalengd var nógu langur tími til að koma við göldrum. Nú hef ég prófað að nota þessa mælieiningu þegar ég bíð eftir strætó, en finn mig ekki alveg í því. Kannski líkar fólki ekki við sönginn minn.

Vatnsdæla er góð bók til að lesa oft. Frásagan litast af því sem yrði kallað töfraraunsæi nú til dags. Auk þess örlar á spírandi friðarboðskap. Það er verst hvað menn halda það lítið út að vera friðsamir. Það er svo stutt í heift og hefnd.

Að lokum

Þegar ég í morgun var að leita mér að stuttermabol til að klæðast í, kom allt í einu upp í hendurnar á mér svartur bolur sem ég keypti á Blönduósi fyrir nokkrum árum. Hann er með mynd af Ingimundi og sýnir hann þar sem hann ber heim húnana tvo, þá sem hann gaf síðan  Haraldi vini sínum hárfagra.

Hér líkur vangaveltum mínum um Vatnsdælu.    


Eiríkur Örn Norðdahl: Einlægur Önd

2C2482B9-E281-4C59-94D7-8D0332413597
Eilífur önd

Þetta er ekki bók stórra atburða. Lesandinn, ég, fæ að fylgjast með lífi fyrrverandi verðlaunahafa  í bókmenntum. Hann er að leita að sjálfum sér og þó sérstaklega að rithöfundinum í sér.

Mæða

Hann er búinn að missa frá sér konuna og börnin og  neyðist til að flytja suður til að vera nær þeim. Verðlaunabókin er hætt að skila arði. Hann er blankur. Hann hefur tekið að sér að sér að búa til kennslumynd um skapandi skrif.  En áveður síðan í staðinn að kenna nemendahópnum í fjarkennslu án samráðs við  vinnuveitanda sinn. Vinnuveitandinn hættir borga honum af því hann gerir ekki það sem um var samið.

 Til að halda sambandi við börnin hefur hann samið við sína fyrrverandi að hann taki að sér að  borða súm -morgunmat (sbr Zoom – fundi) með börnunum sínum. Þá er kveikt á tölvu á sama tíma stundvíslega á báðum heimilunum. Þetta heppnast oftast vel.

  Eitthvað er Eiríkur Örn nervus út af kennslunni, því þegar hann fer að fá hótunarbréf, ályktar hann að þarna séu nemendur að verki. Ekki bætir úr skák að þessi bréf voru ekki send með venjulegum pósti, heldur kastað inn um gluggann bundnum við múrstein.   

Ég finn að ég hef heilmikla samúð með Eiríki en hugsa um leið að hann hafi komið sér í þetta, sem er eiginlega enn verra.

Saga innan í sögu

En af því Eiríkur Örn er rithöfundur er ekki hægt að skrifa um hann án þess að segja líka frá frá sögunni sem býr í höfði hans (eða er hann búinn að skrifa hana á pappír ?).

Þessi saga fjallar um dr. Felix, konu hans, Flórens og dótturina Hortensíu . Þau búa í landinu  Arbítreu. Þar, í þessu landi,  er ekkert dómskerfi en ætlast til þess að borgararnir setji múrstein utan við bústað þeirra sem hafa gerst brotlegir við samborgara sína og/eða hneykslað þá. Þeim sem fá til sín slíka steina ber síðan að skila þeim til baka í múrsteinahrúgu hverfisins, sem yfirvöld hafa komið fyrir á hentugum stað. Felix Ibaka þarf iðulega að fjarlægja slíka  steina kvölds og morguns, því hann hefur skrifað bók þar sem segir af þeim hjónum, án þess að bera það undir konu sína. Hann leyfir sér að tala fyrir munn hennar og það má hann að sjálfsögðu ekki. Felix sögunnar er óneitanlega talsvert líkur Eiríki Erni bókarinnar eins og hann lýsir sér  og dóttirin er reyndar einnig lík dóttur hans. Báðir þessir menn eru óþolandi mælskir, það er vaðall á þeim eins og sagt var í minni sveit. En samt eru þeir skemmtilegir. Og þrátt fyrir galla sína   virðist mér þeir ólíklegir til að  að leysa vandann.

En hver er vandinn?

Mér sýnist sem hann sé tvíþættur. Sá Eiríkur Örn sem

lýst er  þjáist greinilega af djúpu þunglyndi.  Um leið er hann að takast á við umræðuna um MíTú. Mér er afstaða hans ekki alveg ljós enda hef ég sjálf ákveðið að hætta mér ekki út í þá umræðu. Kannski er ég komin út á hálan ís með því að bara skrifa þetta.

En aftur að Eiríki Erni. Mér finnst aðalpersónan í bókinni vera hann. Reyndar finnst mér alltaf þegar höfundar  koma veruleikanum vel til skila, að þeir séu að lýsa sjálfum sér og einhverju sem hefur komið fyrir þá. Og ég trúi þeim.

Það var gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Eiríkur Örn les hana sjálfur. Hann er sannfærandi  og mér fannst næstum  að þarna sé   hann lifandi kominn og sitji jafnvel á rúmstokknum hjá mér.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Feb. 2022
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28          

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.7.): 3
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 190456

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband