Jóhann Kristófer og Egill Skallagrímsson


Egill Skallagrímsson og Jóhann Kristófer

Ég er hugfangin af bók90AAD199-A675-4BCC-9410-1328DF72880C Romain  Rollands um Jóhann Kristófer. Þegar ég gerði mér grein fyrir hversu löng hún er, þetta eru 5 bækur og þær taka samtals 77,23 klst. í upplestri, ákvað ég að gera bókina að framhaldssögu og lesa einungis 30 mínútur á dag. Það hentar vel því það er betra að vera með athyglina í lagi meðan maður meðtekur Jóhann Kristófer. Um svipað leyti og ég hóf þennan lestur var hafinn lestur á Egilssögu Skallagrímssonar. Það var Torfi Túliníus, sem las. Kvöld mín skiptust því oftast á milli Egils og Jóhanns Kristófers. Það fór ekki hjá því að ég bæri þessa kappa saman í huganum. Það er reyndar frekar öfugsnúið, því frásagnarmátinnn er ólíkur.  Jóhann Kristófer háir sínar orrustur í eigin hugarheimi, þar vinnur hann sína sigra og ósigra, en Egill lætur verkin tala. Kannski væri réttara að segja illvirkin. Nú hefur Grettissaga tekið við af Egilssögu sem kvöldsaga Rúv.  Hún er lesin af Óskari Halldórssyni (1921 - 1983). Ég kem að Grettlu síðar. Nú og hér ætla ég að halda mig við Egil. Þetta eru ekki fyrstu kynni mín af Egilssögu, ég las hana í menntaskóla (MA) undir  leiðsögn Árna Kristjánssonar, sem var frábær kennari. Árni kenndi okkur að skilja líkingamál kvæðanna, sem  mér fannst skemmtilegt eftir að mér lærðist að skoða þau eins og myndverk. Ég hafði ekki lært um abstrakt list þá, hvað þá súrrealisma.  Þegar ég skoða slíkar myndir nú verður mér hugsað til líkingamáls okkar gömlu skálda.

Í hvert skipti sem ég les/hlusta á Egilssögu uppgötva ég eitthvað  nýtt. Í þetta skipti skildi ég loksins í hverju í  „hetjuskapur“ Egils var fólginn. Hann var einn til frásagnar. Mér finnst ekki ólíklegt að hann hafi verið að spinna upp þessar raupsögur í  ellinni og   Þórdís  stjúpdóttir hans hafi  varðveitt þær í huga sér  og síðan sagt öðrum. Þetta er tilgáta mín um munnlega geymd sögunnar.   Frumsagan er Þórdísar, jafnvel Þorgerðar. Sú saga er síðar  færð í letur  af höfundi ef til vill Snorra.

Hver er Jóhann Kristófer?

Ég heyri út undan mér að margir slá því föstu að Jóhann Kristófer sé Ludwig van Beethoven, sem er skrýtið því, Beethoven kemur oft við sögu þegar verið er að fjalla um tónlist og þá sem einn af tónlistarmönnum liðins tíma. Ég held að Jóhann Kristófer sé hlutgervingur snilligáfunnar og um leið samsafn margra snillinga. Hann er ofurnæmur og glöggur á alla hluti en klaufi í mannlegum samskiptum. Það er hrein unun  að kynnast þessum manni og fá að fylgjast með hugarleiftrum hans. Þessar 30 mínútur með Jóhanni Kristófer er tilhlökkunarefni dagsins.

Ég held að Jóhann Kristófer sé fyrst og fremst hann sjálfur. Lifandi manneskja, Og snillingur.         


Hundagerðið: Sofi Oksanen

996ABDA7-22D7-4792-94AB-ABF4F71A0AD9Hundagerðið

Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég les eftir Sofi Oksanen. Þetta er fimmta bókin sem kemur út eftir hana á íslensku. Ég vissi því á hverju var von. Enginn yndislestur. Oksanen er samfélagsrýnir. Í bókum sínum fjallar hún  gjarnan um hvernig ranglætið verður til, hverjir hagnast á að viðhalda því og hverjir verða fórnarlömb . Hún lætur sér ekki nægja að skoða yfirborðið ,  hún grefur fram það sem er undirliggjandi.   Sjónarhorn þeirra sem  tapa er annað en sigurvegaranna.

 Sagan Hundagerðið hefst í Helsinki 2016. Þar situr kona á bekk og virðir fyrir sér fjölskyldu með smáhund og tvö börn, strák og stelpu. Allt í einu sest önnur kona hjá henni á bekkinn og virðist vera komin til að fylgjast með sömu fjölskyldu. Sú fyrr komna er sögukona bókarinnar, þekkir aðkomukonuna en langar ekki til að hitta hana. Þær eiga ýmislegt  sameiginlegt í fortíðinni. Fortíð sem hún hélt að væri grafin og gleymd öðrum en henni. En nú hefur fortíðin vitjað hennar og sagan hverfur til Úkraníu og árið er 2006.

Aðalpersónan, sú sem segir söguna er nýkomin heim til Austur- Úkraníu eftir að hafa freistað lukkunnar sem fyrirsæta í Frakklandi en þangað fór hún kornung til að sjá fyrir sjálfri sér og styrkja fjölskyldu sína. Gæfan stóð ekki með henni . Í Úkraníu ríkir algjört öngþveiti eftir fall Sovétríkjanna. Fyrri innviðir eru hrundir, það er atvinnuleysi, sérstaklega austurfrá. Hver og einn reynir að bjarga sér og ungum konum býðst að gera út á líkama sinn og frjósemi. Það spretta fram fyrirtæki sem taka að sér að þjónusta barnlaust fólk, aðallega á Vesturlöndum með egg eða staðgöngumæðru, þegar allt um þrýtur. Sögukona okkar kemur sér fyrir á þessum markaði en ákveður um leið að hún ætlar sjálf að vera sú sem græðir. Hún hefur visst forskot eftir að hafa starfað erlendis. En þetta er harður heimur. Sá sem er tilbúinn til að fórna öðrum, fær oft að reyna að verða sjálfur fórnarlamb.

Aðalpersóna okkar hefur gert það gott. Hún hefur unnið sig upp í fyrirtækinu sem hún vinnur fyrir. Fyrirtækið státar sig af því að vera góðgerðarfélag. Það aðstoðar fólk við að eignast börn og er meira að segja öflugur styrktaraðili munaðarleysingjahælis. Það má því næstum segja að það verði í framtíðinni sjálfbært.

Sjónarhorn þessarar sögu er fyrst og fremst aðalpersónunnar. Einstaka sinnum er brugðið upp myndum utanfrá. Tónn frásagnarinnar  er kaldur. Ég lesandinn, vil helst standa með þessari duglegu ungu konu en hrekk ítrekað við, þegar ég tek eftir því, hversu tilbúin hún er að hagræða sannleikanum og fórna öðrum konum.

Fátækt og spilling

Ég var í miðjum klíðum við að lesa þessa bók, þegar fréttirnar fóru að berast af morðinu í Rauðagerði og vangaveltum lögreglu og fjölmiðla um tengsl þess við fjölþjóðlega glæpastarfsemi. Tilfinning mín við lesturinn, magnaðist upp. Ég fór að velta fyrir mér tengslum fátæktar og spillingar. Er það fátæktin sem fæðir af sér spillingu? Eða er þessu öfugt farið? Og auðvitað stoppaði hugurinn ekki við útlönd. Því miður. En ég ætla ekki fara út í það hér.

Lokaorð

Bók eins og þessi ýtir svo sannarlega við manni. Oksanen hefur skarpa sýn og beitta tungu.  Í hvert sinn sem ég les bók eftir hana, eflist trú mín á að standa vörð um mannréttindi, heiðarleika og lýðræði. Reyndar trúi ég líka að það sé mikilvægt að gæta þess, að auðurinn safnist ekki á fárra hendur. Ég held að það sé auðsöfnunin sem leiðir af sér spillingu. Ekki fátæktin.  


Gata mæðranna: Kristín Marja Baldursdóttir

231669EA-F9ED-4D41-9B05-6C359088FCD7
Gata mæðranna.

Gata mæðranna eftir Kristínu Marju Baldursdóttur fjallar um Marin og lífið  í einni götu  á sjöunda áratugnum í Reykjavík, held ég.  Tímasetningin hentar mér vel. Því það var einmitt þá sem ég kom fyrst til Reykjavíkur, ein á báti og þekkti engan. Það var því auðvelt fyrir mig að samsama mig með Marín. Hún kom til Reykjavíkur til að ljúka menntaskóla. Hún hafði   búið hjá foreldrum sínum á Akureyri og verið í skóla þar, þegar ógæfan dundi yfir. Hún missti báða foreldra sína með skömmu millibili. Faðir hennar hafði lengi búið við vanheilsu en unga stúlkan hafði ekki hugmynd um að móðir hennar var líka veik. Móðirin  sem vissi að hún gekk ekki heil til skógar náði þó að ganga frá því að hún skyldi ljúka náminu og búa hjá systur sinni Elísabetu, sem var gift kona í Reykjavík.

Þegar sagan hefst er skólinn því sem næst búinn og Marín vinnur á kvöldin við miðsölu í bíói. Það hafði verið erfitt fyrir hana    að hefja nám í nýjum skóla, vina og vinkonulaus. En svo kynnist hún Kristófer og þau verða perluvinir. Verst er þó að systir hennar er truntuleg við hana. Hún telur eftir sér að hafa hana, er ónotaleg og útásetningarsöm. Auk þess  ætlast hún til þess  að hún vinni vistina af sér, sendist og gangi í húsverkin.  Það kemur m.a. í hennar hlut að gæta strákormanna,Adda og Didda, sona hennar og þvo af þeim þegar þeir  svína sig út og gefa þeim að borða. En henni þykir reyndar vænt um þá og finnst þeir vera eina ljósglætan í lífinu.

Marín er áhugalaus um nám sitt og veit ekkert hvað hún ætlar að verða. Kristófer vinur hennar er löngu búinn að ákveða að verða lögfræðingur og byrjaður að búa sig undir hlutverkið. Hún er ekki skotin í honum og á sér draumaprins, sem býr líka í götunni.

Marin er drátthög og stöðugt að rissa upp myndir. Í dauðu tímunum, á milli sýninga, situr hún og teiknar, lætur sig dreyma. Um leið og hún teiknar, spinnur hún upp fantsíusögur og gleymir sér þangað til viðskiptavinur birtist í miðasölulúgunni og ræskir sig. Þessar frásögur um teikningar Marínar og örsögunum sem fylgja gera þessa bók sérstaka. Það er eins og hún sé myndskreytt.

Systirin Elísabet nauðar stöðugt í Marín að nú að skóla loknum verði hún að útvega sér herbergi og sjá um sig sjálf. Þetta verður til að Marín fer að kynna sér hvort einhvers staðar í götunni sé herbergi til leigu. Hún talar við konurnar, konurnar ráða heimilunum en karlarnir draga björg í bú og ráða öllum stærri ákvörðunum.

Það var gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Samt er tónninn í frásögninni kaldur og oft meinhæðinn. Það er höfundurinn Kristín Marja sem les. Hún gerir það vel og nær einkar vel að skila íroníunni þar sem hún á við. Auk þess skynjaði ég að söguhetjan Marín væri dofin af sorg og full vanmetakenndar.

Þótt gata mæðranna sé friðsemdargata, búa manneskjurnar sem við hana búa, hver yfir sinni sögu, mis áhugverðum. Og sagan sem Marín lifir í, tekur óvænta stefnu. Ég ætla ekki að rekja þessa sögu frekar hér. Ég vil þó benda kvenréttinda konum og körlum  á, ef einhver skyldi lesa þetta, að sagan er ekki síst heimild um tíðaranda þessara ára. Hún fjallar um  kjör og hugmyndir kvenna. Meira að segja gæðablóðið Kristófer hefur tekið eftir þessu og segir,“Mér finnst eins og konur séu orðnar svo reiðar“.

Líkt og ólíkt

 Áður en ég las Götu mæðranna, las ég Götu bernskunnar eftir Tove Ditlevsen. Ósjálfrátt gerði ég samanburð  í huganum á þessum tveimur bókum. Sumt er líkt, annað ólíkt. Í báðum tilvikum verður gatan eins konar persóna og í báðum tilvikum er stéttaskiptingin lúmskur óvinur, sem ræður örlögum fólks. En það sem er mest sláandi við þennan samanburð er að Gata kvennanna gerist öll á um það bil einu sumri en Gata bernskunnar fjallar um uppvöxt stúlku fram að tvítugu eða þar um bil. En auðvitað er framvinda sagnanna afar ólík.          


Gata bernskunnar: Tove Ditlevsen

11F341B0-FFB3-4A47-AC21-BB6BFC7B4B31
Gata bernskunnar

Þegar ég var að leita að bók Kristínar Marju Baldursdóttur, Gata mæðranna í  bókasafni Hljóðbókasafnsins, kom líka upp bókin Gata bernskunnar. Sú bók er eftir danska rithöfundinn Tove Ditlevsen (1917 – 1976). Ég hafði ekki lesið þá bók en kannaðist við höfundinn frá því að ég lá í dönsku blöðunum alls staðar þar sem ég komst í þau en þessi blöð fundust ekki á mínu heimili. Tove Ditlevsen svaraði aðsendum bréfum lesenda sem leituðu til blaðsins vegna vandamála til að fá ráðgjöf. Mér fannst þessi dálkur afar merkilegur, sérstaklega þetta með vandamálin, problem. Á mínu heimili tíðkaðist ekki að tala um vandamál. Þó þekkti ég orðið.

Á þessum tíma hafði ég ekki hugmynd um að Tove Ditlevsen væri þekktur rithöfundur í Danmörku. Það lærði ég seinna og fyrirvarð mig  fyrir að hafa haldið að hún væri einhvers konar danskur vandamálasérfræðingur.

Ég ákvað að lesa Götu bernskunnar á undan Götu kvennanna og það er hún sem ég ætla að skrifa um í þessum pistli.

Bókin kom út í Danmörku 1943 og íslenskri þýðingu 1972. Bókin byggir á hennar eigin bernsku, ég veit ekki hvort hún flokkast sem sjálfsævisöguleg skáldsaga. Hún fjallar um líf barnsins og síðar unglings á 5. hæð í bakhúsi á Vesturbrú í Kaupmannahöfn á millistríðsárunum. Þetta eru tímar atvinnuleysis og fátæktar en Ester, svo heitir aðalpersónan, er heppin.  Fjölskyldufaðirinn hefur vinnu.Lesandinn fær að kynnast, fjölskyldu, vinum og nágrönnum með augum barnsins. Athyglisgáfa barna er oft skarpari en fullorðinna, þau veita einnig athygli sem látið er ósagt. Ester gengur vel í skóla en foreldrar hennar vilja ekki að hún fari í menntaskóla, mamma hennar vill að hún læri húshald.

Hún byrjar að vinna fyrir sér á pensjónati en gefst upp og fær síðan vinnu sem ritari á skrifstofu. Stéttaskipting

Vegir ástarinnar er oft grýttir. Ekki síst fyrir stúlku sem finnst hún ekki lengur tilheyra eigin stétt. Hún samsamar sig ekki lengur með fjölskyldu sinni. Ester er full vanmetakenndar og loksins þegar hún er búin að finna ástina, skemmir hún sambandið vísvitandi.

Um Tove Ditlevsen

Tove var afkastamikill rithöfundur. Hún skrifaði ljóð, smásögur, skáldsögur og bækur sem byggðar eru á eigin ævi. Mér finnst þetta merkilegt, því líf hennar var enginn dans á rósum. Hún stríddi við erfið veikindi, fyrst áfengisvanda og síðar eiturlyf. Hún þurfi að leggjast inn á geðdeild.

Það var mikið rót á lífi hennar, hún var fjórum sinnum gift og féll fyrir eigin hendi.

Lokaorð

Mér fannst bókin Gata bernskunnar frábær og er ákveðin í að ná mér í fleiri bækur eftir þennan höfund. Ég er svo heppin að tilheyra kynslóðinni sem kann dönsku nægilega vel til að geta lesið/hlustað á danskar bækur á frummálinu.

Næsti pistill verður um Götu mæðranna.      


Yfir bænum heima :Kristín Steinsdóttir

D19BC4E6-5115-43CB-BB2B-BAC1A3F0ADCD

Yfir bænum heima

Við sem erum blind eða sjónskert þurfum oft að bíða lengur eftir bókum en þeir sem geta keypt þær eða fengið þær lánaðar á bókasöfnum. Og ekki eru allar bækur lesnar inn.

Þegar bók Kristínar Steinsdóttur , Yfir bænum heima, kom loksins, tók ég því fagnandi. Kristín er Austfirðingur eins og ég og þess vegna finnst mér ég eiga eitthvað í henni og því sem hún skrifar.

Þessi bók fjallar um hernámið, sambúð hers og þjóðar. Í þessu tilviki sambúð Seyðfirðinga við setuliðið.Kristín byggir þessa sögu á minningum. Hún man ekki sjálf eftir stríðsárunum en elst upp með fólki sem man hernámið og auðvitað hefur hún sjálf unnið sína rannsóknarvinnu nú, þegar hún tekst á við að gera þessa bók.

Við lesendur fáum að kynnast Seyðisfirði stríðsáranna í gegnum fjölskyldu Snjólfs og Rúnu og barna þeirra; dætranna Ástu og Þrúðu og bræðranna Nonna og Ingimundar. Afstaða fólksins er ólík þótt þetta sé samstæð fjölskylda. Snjólfur er krati og vinnur að verkalýðsmálum. Það er kreppa og atvinnuleysi. Þegar vinna gefst er oft gengið fram hjá Snjólfi vegna skoðana hans og Rúna ákveður að taka kostgangara til að reyna að sjá fjölskyldunni borgið. Kostgangarnir og vinafólk fjölskyldunnar víkka enn sjóndeildarhringinn og viðhorfin til stríðsins. Já og síðar til hersins þegar hann kemur í bæinn.Í stað atvinnuleysis er rífandi vinna. Það eru lagðir vegir og byggðir braggar út um allt. Og ef menn hafa skoðun á þessu öllu saman skiptir hún ekki máli, því heimamenn ráða engu. Seyðfirðingum er kennt að lifa við stríðsástand. Þegar flauturnar gjalla eiga þeir að fara niður í kjallara og dúsa þar þangað til hættan er liðin hjá og flauturnar  blása hana af. Þetta reynir á fólk.

Mér fannst merkilegt að lesa þetta, því ég hafði oft lesið um fólk í útlöndum sem þurfti að leita sér skjóls í kjöllurum eða loftvarnarbyrgjum, en aldrei hér.

 

Frásaga þessarar bókar af hernáminu ber keim af fólkinu sem segir söguna. Þetta er ekki saga  mikilla átaka eða spillingar. Auðvitað verður til vinskapur og ástasambönd. En lífið er hverfult á stríðstímum. Bretarnir fara og Bandaríkjamenn koma í staðinn. Mér sýnist sem fólkið á Seyðisfirði sakni Bretanna, þótt Kaninn sé flottari og ríkari.

Lesandi er ekki bara móttökutæki, hann er túlkandi og fyllir jafnvel í eyður ef honum sýnist svo.  

Mér fannst gaman að lesa/hlusta á þessa bók. Sem Austfirðingur átti ég þegar sem barn mína mynd af Seyðisfirði. Þar var menningarmiðstöð Austfirðinga. Þar höfðu verið gefin út blöð og prentaðar bækur. Föðursystir mín bjó þar en að vísu í sveitinni. Ég fór  í heimsókn  til hennar með ömmu minni með Esju eða Herðubreið. Ég var hissa á því hvað þarna voru margar búðir eða verslanir og skildi ekki á hverju Seyðfirðingar lifðu. Stríðið var víðsfjarri. Fannst mér.

Ég var fimm eða sex ára og logandi hrædd við flugvélar. Börn hlusta þegar fullorðnir tala. Fyrstu minningar mínar, þær allra fyrstu, eru um stríð. Ein lítil minning er um pabba sem var að flá sel í hlaðvarpanum á Streiti. Mér fannst gaman að horfa á og hann var líka duglegur að útskýra allt fyrir mér. Og þá kom flugvél sem lækkaði flugið og mig langaði til að flýja en var alveg máttlaus og gat ekki hreyft mig. Pabbi hélt áfram að flá selinn og nú útskýrði hann að nú væri líklega best að láta eins og ekkert sé. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að lesa bók Kristínar.

Mér fannst bókin góð því hún nær að grípa hvernig stríðið snerti líf venjulegs fólks. Þetta er aldarfarslýsing stríðsáranna.  

Myndin er frá Seyðisfirði, tekin í sumar.
 


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Feb. 2021
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.9.): 7
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 190973

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband