26.2.2020 | 16:01
Skammdegislestur: Fjórir krimmar
Í svartasta skammdeginu fannst mér við hæfi að lesa íslenskar glæpasögur en þær höfðu setið á hakanum of lengi. Líklega síðan í skammdeginu þar áður. Ég las eftirtalda höfunda:
Arnald Indriðason, Yrsu Sigurðardóttur, Lilju Sigurðardóttur og Ragnar Jónasson. Röðin á upptalningunni er ekki virðingarstigi, heldur tímaröð lesturs. Ég hef verið að reyna að kenna sjálfri mér að hugsa ekki línulega um gæði bóka, heldur meta hverja bók út frá eigin verðleikum, rétt eins og ég vil hugsa um fólk. Fyrst las ég Tregastein Arnalds. Arnaldir svíkur ekki frekar en venjulega. En fljótlega eftir að ég var komin inn í bókina fann ég hvað ég er orðin leið á Konráði. Hef reyndar aldrei kunnað að meta hann. Þessi fyrrverandi lögreglumaður situr fastur í eigin fortíð og er bæði svifaseinn og ákvarðanafælinn. Hann þyrfti að fara á námskeið um núvitund. En að öllu gamni slepptu, nýt ég þess að lesa bækur Arnaldar. Hann er svo flinkur að draga upp mynd af 20. öldinni, ekki síst hugmyndaheimi hennar, að það mætti kenna bækurnar sem sagnfræði. Ráðgátan um morðið í nútíma bókarinnar, leysist að lokum og vissulega tengist það liðnum tíma.
Þögn Yrsu Sigurðardóttur sækir efni sitt beint í núið íslensks veruleika, enda liggur styrkur Yrsu í að lýsa hverdagslífi fólks og skapa persónur sem eru svo raunverlegar að manni finnst að maður þekki þær eða allavega einhverja sem er mjög lík. Ég þekki Freyju, Huldar, Guðlaug og Línu ekki bara úr fyrri bókum, ég þekki fólk sem er nauðalíkt þeim, já og Baldur líka. Aftur á móti þekki ég engan sem er í líkingu við Erlu. Sem betur fer. Frásagan einkennist af hraða og glæpirnir vekja viðbjóð en blóð og æla koma sér vel við tæknilega rannsókn lögreglu, hvað er betra en DNA? Það sem mér finnst hrósvert við efnistök Yrsu er að hún sækir efni í gildishlaðna umræðu okkar tíma. Ráðgáta bókarinnar tengist bæði Staðgöngumæðrum og skyldu til bólusetninga. Þessi bók gefur svo raunsanna mynd af íslenskum samtíma að það mætti eflaust nota hana sem sagnfræðilega heimild fyrir næstu kynslóðir. En það sem Yrsa gerir allra allra best eru lúmskt fyndnar lýsingar á hugrenningum fólks. Á eftir Yrsu las ég, Helköld Sól eftir Lilju Sigurðardóttur. Höfuðpersóna sögunnar er hin kraftmikla Áróra. Hún er yngri dóttirin í hjónabandi breskrar konu og íslensks eiginmanns. Systurnar hafa alist upp bæði á Íslandi og Bretlandi. Þegar sagan hefst er faðirinn látinn, móðirin býr í heimalandi sínu, yngri dóttirin Áróra býr einnig þar, hún vinnur við að finna týnt fé fyrir þóknun. Upphæð þóknunar ræður hún sjálf. Þegar eldri systirin Ísafold sem býr á Íslandi hverfur, fer hún til Íslands að leita að henni. Áróra minnir á harðsvíraðan einkaspæjara af gamla skólanum , þótt hún gangi ekki með skammbyssu eða lemji fólk. Hún sér Ísland með gestsauga, sem er bæði skemmtilegt og óþolandi fyrir þau okkur sem sitjum föst í ástkæra föðurlands sjónarhorninu. Það er sumar og henni finnst kalt á Íslandi, af því nafn bókarinnar og henni finnst ekkert til um hinar björtu nætur. Persónusköpun Lilju er skemmtileg. Í stað venjulegs fólks sem við öll teljum okkur þekkja, koma við sögu fólk úr jaðarhópum. Dæmdur svikahrappur og fjárglæframaður með ökklaband ; ólöglegur innflytjandi; og fyrrverandi námshestur með áráttuhegðun. Svo dæmi séu tekin. Mér fannst gefandi að lesa þessa bók.
Síðasta glæpasagan sem ég las til að koma mér í gegnum skammdegiskvíðann var, Hvíti dauði eftir Ragnar Jónasson. Kannski hefur hún goldið þess að vera síðust. Kannski hef ég verið búin að lesa yfir mig af krimmum, því ég átti erfitt með að ná sambandi við söguna. Ragnar hefur þann hátt á að hann staðsetur sínar sögur í liðnum tíma og í aðstæðum sem hefðu getað verið. Aðal sögusviðið er 2012, ungur afbrotafræðingur er að vinna að lokaritgerð og rannsakar gögn frá berklahæli í nánd Akureyrar frá 1983 en þá létust tveir starfsmenn hælisins með voveiflegum hætti. Þetta er lipurlega skrifuð bók, persónur eru vel mótaðar . Helgi aðalpersónan er tvístígandi, á erfitt með að ákveða sig varðandi starf sem honum býðst hjá lögreglunni og hvað hann eigi að gera í sínum eigin málum. Hjónabandið er ekki í lagi.
Reyndar veit ég alveg hvað olli því að trúnaðarsamband mitt við söguna rofnaði. Mér fannst lýsingin á starfsemi hælisins 1983 ótrúverðug. Það voru ekki lengur neinir sjúklingar og ég gat ekki séð fyrir mér heila deild vinna að því að móta starfsferla. Galdur glæpasagna er að fá fólk til að trúa. Kannski er það galdur allra skáldsagna.
Þetta er nú orðin nokkuð langur lestur og ég á ekki von að nokkur lesi þetta til enda. En ég geri þetta ekki síst fyrir sjálfa mig. Af því nokkur tími er liðinn frá því að ég las bækurnar, las ég þær allar aftur og það gleðilega gerðist. Þær urðu enn betri. Líka bókin sem ég náði ekki sambandi við. Kannski hefur spilað inn að það var ekki lengur skammdegi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.2.2020 | 16:27
Til baka til fortíðar ; Paul Gaimard; Maðurinn sem Ísland elskaði
Það er nokkuð um liðið síðan ég hef skrifað um bók. Það er þó ekki vegna þess að ég hafi ekki lesið. Þvert á móti. Það hafa sem sagt hrannast upp bækur sem ég hef ekki skrifað um og ég sit uppi með tilfinninguna að þeim sé ekki fulllokið, að ég hafi ekki gert upp minn hug, að ég hafi ef til vill ekki skilið þær réttum skilningi.Meira um þessar bækur síðar.
Bókin sem ég ætla að fjalla um hér og nú er að því leyti sérstök, að ég sit föst í henni, losna ekki við hana úr huganum, langar til að dveljast lengur í heiminum sem hún hefur skapað.
Þetta er bók Árna Snævars, Maðurinn sem Ísland elskaði, Paul Gaimard og Íslandsferðir hans 1835-1836. Hún fjallar um lækninn, vísindamanninn og landkönnuðinn Paul Gaimard. Þetta er í senn sagnfræðibók og bók fyrir almennan lesanda eins og þær gerast bestar. Höfundur notar heimildir og fer í frumgögn í frönskum söfnum og það sem er mikilvægast, setur hann sögu Gaimard í sögulegt samhengi, ekki bara heimssögulegt heldur rifjar hann líka upp og tengir okkar séríslenska samhengi við heimsviðburði. Sagan lifnar við og maður sér fyrir sér þennan snotra Frakka skoða landið okkar og leggja sig fram um að skilja samfélagið, kynnast fólki og landsháttum.
Reyndar segir Árni Snævarr ekki bara ferðasögu Gaimard á Íslandi, hann rekur sögu hans um heiminn 1817- 1820 og 1826 -1829. Og svo að sjálfsögðu ferðir hans um Norðurlönd með viðkomu í Rússlandi og Prag.
Það er svo gaman að lesa um 19. Öldina og upplýsingastefnuna, hún er svo full af bjartsýni. Þetta er nokkuð löng bók, 497 blaðsíður. Sjálf (vegna fötlunar minnar) hlustaði ég á hana sem hljóðbók og tekur hún 18 tíma í hlustun. Hjörtur Pálsson les bókina og gerir það frábærlega vel. Eðli málsins samkvæmt inniheldur bókin mörg erlend orð og nöfn, sérstaklega frönsk, sem hann ber fram að hætti þarlendra.
Ástæðan fyrir því að Paul Gaimard er okkur Íslendingum svo kær er trúlega vegna þess að Jónas Hallgrímsson orti til hans kvæði, sem hefst á:
Þú stóðst á Heklutindi hám
og horfðir yfir landið fríða.
Síðar í þessu sama ljóði stendur; Vísindin efla alla dáð, sem eru einkunnarorð Háskóla Íslands. Ég hef einu sinni gengið á Heklu og þar sem ég stóð í sporum hans reyndi ég að fara með slitur úr þessu ljóði.
Árni skrifar um líf og starf þessa mæta manns sem þrátt fyrir merkilegt ævistarf átti ekki fyrir eigin útför. Það voru vinir hans og velunnarar sem sáu til þess að honum var sómi sýndur og þess vegna getum við í dag staðið við gröf hans þar sem hann hvílir í Montparnasse kirkjugarðinum. Ég hef líka staðið þar því fyrir ríflega 20 árum tók ég að mér, ásamt manni mínum að gæta barnabarns í París. Það er lærdómsríkt að ganga um París með barn í kerru. Í einni ferð okkar römbuðum við á leiði Pouls Gaimars. Myndin sem fylgir var tekin við það tækifæri.
Lokaorð; Lestur þessarar bókar var eins og að ferðast aftur til fortíðar. Hún hefði alveg mátt vera lengri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 33
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 27
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar