Var að ljúka við bók Kristínar Eiríksdóttur og það reyndi á mig. Ég vissi dálítið um bókina fyrir fram af því ég hafði hlustað á Kristínu lesa upp úr henni og svo hafði ég hlustað á tal fólks um bókina. Ég klæddi mig því í tilfinningabrynju og potaðist í gegn um hana. Ég er viðkvæm sál en ég kann að verja mig.
En hvað er það sem á svona erfitt og hvers vegna er ég þá að lesa það? Tvær spurningar.
Sú fyrri. Það sem er erfitt er að mæta öllu þessu fólki sem á svo bágt, er svo óhamingjusamt og þjáist með því. Fólkið hennar Kristínar er varnarlaust og maður horfir upp á það eyðileggja líf sitt og annarra. Líf persónanna er svo ljótt og ógeðslegt en samt hef ég mikla samúð með þeim.
Síðari spurningin. Ég les þessa bók af því ég hef trú á Kristínu og af því henni tekst að lýsa veruleika sem ég þekki ekki á þann hátt að ég trúi honum. Ég trúi meira að segja lygalaupnum Jennu (aðalpersónunni) og er full hneykslunar og vorkunnar.
Hvítfeld er fjölskyldusaga, fjölskylduharmleikur. Það birtist stöðugt nýtt og nýtt sjónarhorn, í brennidepli er ógnin sem stafar af lyginni. Ég verð hér að gera þá játningu að mér finnst almennt allt of illa talað um fjölskylduna sem stofnun eða hvernig sem við viljum nú skilgreina hana. Það hafa margir gert á undan Kristínu, Ibsen, Strindberg, Osborne, svo dæmi séu tekin.
Í bókinni Öreigarnir frá Lodz (eftir Steve Sem-Sandberg) er Rabíinn látinn segja:Lygin á sér enga byrjun. Lygin er eins og rót sem greinist til hins óendanlega niður á við. Maður fylgir þráðunum niður á við en finnur aldrei eitt einasta augnablik sannfæringar eða skýrleika, einungis óbærilega örvæntingu og uppgjöf. Lygin byrjar alltaf á afneitun. Í þeirri bók er verið að tala um áhrif lyginnar á samfélag, bók Kristínar áhrif fjölskyldur. Skyldi vera svo mikill munur?
Það er mikill kraftur í þessari bók en ef ég á að setja eitthvað út á hana er það að mér fannst höfundur hefði mátt flétta alla þræði enn betur saman í bókarlok.
Ég held að þetta sé bók fyrir ungt fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2013 | 13:52
Suðurglugginn: Gyrðir Elíasson: Tær snilld
Það er svo merkilegt með bóklestur að oft fellur manni við bækur og höfunda án þess að hafa hugmynd um hvers vegna. Ég held t.d. að mér hafi alltaf fallið vel við bækur Gyrðis, alla vega man ég ekki eftir neinni undantekningu frá því. Ánægja mín með bækur hans byrja alltaf strax og ég sé þær, þær eru svo fallegar að utan og hún heldur áfram að magnast þegar ég handleik þær, það er svo gott að koma við þær og svo sökkvi ég mér í lesturinn.
Suðurglugginn er lítil saga og það gerist ósköp fátt. Rithöfundur hefur fengið sumarbústað að láni hjá vini sínum og hann er að vinna að því að skrifa bók en skriftirnar ganga ósköp hægt. Lesandinn fær að vita að þessi bók á að fjalla um hjón en rithöfundinum gengur illa að blása lífi í þau og þau lifna aldrei almennilega við, finnst honum. En við fáum heilmikið að vita um höfundinn sjálfan, það er hugarheim hans og það sem hann tekur sér fyrir hendur frá degi til dags en stundum er reyndar spurning um hvort það sé miklu meira líf í honum en hans eigin hálfdauðu persónum.
Rithöfundurinn er sérvitringur sem vill ekki nota tölvu við skriftir, heldur Olivetti ritvél, hann er fáskiptinn, nánast durtslegur og ef ég byggi í næsta bústað við hann væri ég löngu hætt að bjóða honum góðan daginn, hvað þá brosa til hans. En hvað er það þá sem gerir þessa bók svo skemmtilega og heillandi? Ég veit það ekki. Kannski er það stíllinn, málið er svo tært. Kannski er það það innihaldið. Því þótt þessi maðurinn sé bæði fáskiptinn og durtslegur þá eru hugrenningar hans á vissan hátt hrífandi, maður einhvern veginn kannast við þær og hugsað hvað eftir annað, "af hverju datt mér þetta ekki í hug" eða "þetta er alveg eins og ég hugsa".
Nei ég kann ekki að útskýra af hverju ég heillast af bókum Gyrðis og það er allt í lagi. En oft vildi ég að þær væru lengri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2013 | 19:40
Die Apothekerin eftir Ingrid Noll: Ísmeygileg glæpasaga
Die Apothekerin eftir Ingrid Noll er ísmeygileg morðsaga. Það er lyfsalinn/lyfjafræðingurinn sjálfur sem segir söguna, hann er kona. (Mikið eiga nú Þjóðverjar gott að þeir þeir þurfa aldrei að vera neitt að vandræðast með kyn starfstétta, þeir bæta einfaldlega in-endingunni við ef um konu er að ræða). Hún liggur á sjúkrahúsi á kvenlækningadeild vegna áhættu í meðgöngu og til að stytta sér stundir segir hún stofufélaga sínum Frau Hirte, frá lífi sínu. Hún veltir því einig fyrir sér að slík frásögn geri henni gott og rétt eins og þegar sjúklingur segir sálfræðingi frá lífi sínu. Og líf hennar hefur vægast sagt verið ævintýri líkast, eða martröð.
Lyfjafræðingurinn Hella Moormann lítur á sig sem fórnarlamb. Þegar hún var 12 ára varð henni á, fyrir slysni, að verða völd að dauða bekkjarbróður síns. Hún á góða og umhyggjusama fjölskyldu sem hjálpar henni í gegnum erfiðleikana en af frásögn hennar má ráða að hún á í erfiðleikum með að tengjast fólki, sérstaklega karlmönnum og hún á bara eina trausta vinkonu. Þessi vandræði hennar verða til þess að hún laðast að fólki sem á líka í vandræðum, fyrst og fremst óreglufólki. En frásögn hennar fjallar þó mest um samband hennar og Levins sem er ónytjungur sem á ríkan afa. Í fyrstu hafði ég mikla samúð með þessari konu og beið eftir því að hún losaði sig við þennan augljóslega ómögulega elskhuga sem lifði á henni. Og það gerði hún reyndar en ekki á þann hátt sem ég hafði haldið. Það kemur nefnilega í ljós að hana langar ekki bara til að koma reglu á líf sitt og eignast barn/börn, hún vill líka gjarnan eiga stórt einbýlishús til að ala þau upp í. Henni og sambýlismanninum kemur saman um að það sé algjör óþarfi að afinn sem er aldraður lifi áfram í þessu stóra og fína húsi.
Afinn lifir ekki lengi eftir þetta og Hella og Levin flytja inn í villuna en þá kemur í ljós að maðurinn sem hún elskar tengist ráðskonu afa síns nánar og á annan hátt en Hella hafði gert ráð fyrir og hann er reyndar líka flæktur í vafasöm viðskipti með sambýlismanni hennar, þ.e. ráðskonunnar. Svo það er margt fólk sem þvælist fyrir þessari ljúfu og konu sem er haldinn atvinnusjúkdómi lyfjafræðinga sem lýsir sér í mikilli nákvæmni og að vilja hafa allt í röð og reglu.
Kvöld eftir kvöld fær Frau Hirte að hlýða á frásögn hennar og sögumaður veit ekki alltaf hvort hún er vakandi eða sofandi. Eftir því sem líður á frásögnina hef ég minni samúð með vesalings lyfjafræðingnum en hún lítur greinilega á sig sem fórnarlamb eða þolanda. Þetta er ísmeygileg saga um morð frá öðru sjónarhorni en maður á að venjast.
Ingrid Noll er þekktur höfundur í heimalandi sínu og sumar sögur hennar, m.a. þessi, hafa verið kvikmyndaðar. Ég sá á Gegni að það er til diskur einmitt með þessari sögu í Þóðarbókhlöðunni og víðar. Ef ég hefði átt videótæki í lagi hefði ég verið búin að nálgast eintak.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2013 | 23:31
Bjartur í Sumarhúsum í götulögreglunni:Reykjavíkurnætur
Mér finnst ég vera farin að lesa bækurnar hans Arnaldar Indriðasonar meira af samviskusemi en spenningi. Nema að ég lesi þær af hollustu minni við pabba hans sem mér finnst einhver besti stílistinn meðal íslenskara rithöfunda. Nei, ástæðan fyrir því að það hefur dregist að ég lesi hann er fyrst og fremst vegna þess að ég er í augnablikinu leið á glæpasögum almennt. En það á eftir að líða hjá.
Þegar maður dregur svona lengi að lesa bók eftir Arnald Indriðason er maður eiginlega búin að fá að vita efni bókarinnar fyrir fram. Frá vinum og kunningjum og í fjölmiðlum. Ég vissi að bókin væri um Erlend ungan, áður en hann byrjaði sem rannsóknarlögreglumaður, ég vissi að hún fjallaði um óreglufólk á áttunda áratugnum og ég vissi að konan sem hann átti börnin með kom eitthvað við sögu.
Samt kom bókin mér á óvart. Það kom mér á óvart hvað Erlendur var raunverulega gamall ungur maður. Þó hann væri búinn að vera öll sín æskuár í Reykjavík var hann enn sami sveitapilturinn, með hugann fyrir austan eða á heiðum uppi. Honum hafði ekki gengið nógu vel í skóla svo það varð ekkert af því að hann gengi menntaveginn þó hugur hans stæði til mennta. Frásagan um skólagöngu Erlendar minnir mig á viðtal sem ég las einu sinni við Halldór Ásgrímsson nema að Halldór dreif sig til mennta. Það gerði Erlendur ekki enda er honum stöðugt lýst sem algjörlega framtakslausum einfara. Hann getur ekki einu sinni tekið á sig rögg og litið á konur heldur lætur sér nægja að sofa hjá einu konunni sem eltist við hann þótt hvergi komi fram að hann hafi neitt gaman af því. Og þegar hún verður ólétt hummar hann bara. Hann er álíka góður að orða tilfinningar sínar og Bjartur.
En þessi hægláti maður finnur til með utangarðsfólkinu og kann að umgangast það og hann er ekki síður þrjóskur í leit sinni að einhvers konar réttlæti fyrir þetta fólk en Bjartur er þrjóskur við hokrið í heiðinni.
Þetta er sem sagt góð bók og skemmtilegt að lesa hana þótt ég láti brumsháttinn í Erlendi fara í taugarnar á mér. Ég þoli nefnilega ekki svona karlmenn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2013 | 17:43
Bjarna-Dísa:Forynja úr fortíðinni eða stúlka af holdi og blóði
Kristín Steinsdóttir er óhrædd við að klæða skuggaverur fortíðarinnar í hold, þannig að þær verði þekkjanlegar og manneskjulegar í nútímanum. Í bókinni um Ljósu sem kom út 2010, fjallar hún um formóður sína og nú skrifar hún um Bjarna-Dísu sem er afturganga. Ég nota orðið skuggaverur af því að um báðar þessar konur eru litlar heimildir svo þeim bregður fyrir nánast eins og skuggum.
Sagan segir frá síðustu dögum Þórdísar Þorgeirsdóttur vinnukonu úr Seyðisfirði þegar hún fær að fljóta með bróður sínum, Bjarna, upp á Hérað að heimsækja móður sína og systur. Bjarni er reyndar að fara niður á Eskifjörð en leggur þessa lykkju á leið sína enda hægari leið en að fara beint til til Eskifjarðar, yfir Fönn eins og það var kallað. Meðan Bjarni útréttar á Eskifirði dvelur Þórdís á Þrándarstöðum þar sem móðir hennar og systir dvelja, líklega sem matvinnungar. Bjarni gistir á Þrándarstöðum á leið sinni til baka frá Eskifirði. Veðurútlitið er slæmt þegar þau leggja af stað morgunin eftir og á eftir að versna. Það er ætlunin að fara Vestdalsheiði sem venjulegast er farin upp frá Gilsárteigi sem liggur talsvert utar í Eiðaþinghá en Þrándarstaðir en þá liggur leiðin inn Gilsárdal sem er aflíðandi á fótinn. Til að komast á þessa leið frá Þrándarstöðum er strax á brattann að sækja. Í óveðrinu tapar Bjarni áttum og veit ekki gjörla hvar hann er staddur og Þórdís örmagnast og er skilin eftir grafin í fönn. Bjarni kemst við illan leik til byggða en leitarflokkur er sökum óveðurs er ekki sendur af stað fyrr en á fimmta dægri.
Á meðan að Þórdís bíður björgunar berst hún við sinn versta óvin, hræðsluna. Hún hefur alla tíð verið myrkfælin, hrædd við það sem býr í myrkrinu og birtist manni þegar minnst varir, sérstaklega þegar maður er einn og óviðbúinn. Hér dregur Kristín inn í frásögnina margar gamlar sagnir um drauga og yfirnáttúrleg fyrirbæri og hvernig þau sóttu að fólki og sátu um líf þess. Ef ekki í raunveruleikanum þá að minnsta kosti í þeirra hugarheimi. Þórdís bíður í þröngri holunni í fönninni full af angist. Bjarni bróðir hennar hafði skilið eftir hjá henni varninginn sem hann var sendur eftir á Eskifjörð, m.a. brennivínaskút. Í örvæntingu sinni á flótta undan djöfulskapnum sem ásækir hana leitar hún huggunar í brennivíninu. Þegar leitarmenn loks koma á vettvang eru þeir jafn hjátrúarfullir og hún og telja að þeir hafi fundið illvætt eða afturgöngu og vinna á henni. Hér er ég líklega farin að segja of mikið.
Á ferð sinni og í fönninni rifjar Þórdís upp líf sitt. Hún hefur búið við bág kjör, þvælst á milli bæja og byggðarlaga, fyrst með foreldrum sínum og síðan ein sem niðursetningur og vinnukona. Húsbændur og höfðingjar eru harðir og vondir. Það er greinilegt með hverju hjarta Kristínar slær. Stundum minnti frásögn hennar mig á Oddnýju Guðmundsdóttur rithöfund sem allt of fáir þekkja.
Mér fannst gaman að lesa þessa bók, hún er af mínum slóðum en stundum átti ég erfitt með að fylgja Kristínu í öllu þessu hjali um hjátrú, álfa og yfirnáttúrlega hluti. Þessir atburðir gerast í lok 18. aldar. Eiginlega finnst mér svo stutt síðan. Fólkið hennar Þórdísar Einarsdóttur langalangömmu minnar (f. 1826) hefur upplifað þessa tíma og því mögulega og trúlega talað um þessa svaðilför. Um slíka atburði snerust umræðurnar á bæjunum og þannig urðu þjóðsögurnar til. Ömmurnar segja svo barnabörnunum sínum.
Það var sem sagt gaman að lesa þessa bók og Kristínu tekst það sem hún ætlar sér það er að láta Þórdísi, verða af holdi og blóði, glæða hana lífi. Bjarna-Dísa er sem sagt ekki afturganga lengur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 7
- Sl. sólarhring: 20
- Sl. viku: 81
- Frá upphafi: 190478
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 52
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar