Um ellina eftir Cicero :Lærdómsrit Bokmenntafélagsins

7583661C-BAF1-4A93-82E0-844804EFDAA2Elli

Fáir tala vel um ellina þótt fólk undantekningalaust vilji verða gamalt. Er það kannski byggt á misskilningi? Það er ekki seinna vænna að kynna sér það, verðandi áttræð. Allt í einu birtist mér bókartitillinn Um ellina eftir Cicero, Maco Tullius inn á vef Hljóðbókasafns Íslands. Hún kom út 1962  en það er nýbúið að lesa hana inn . Bókin er skrifuð á 1. öld fyrir Krist. Þar sem hún var á latínu var hún um langt skeið aðgengileg fyrir menntaða einstaklinga þess tíma. Allir sem hugðu á „æðri menntun“ urðu að tileinka sér latínu. Meira að segja ég varð að læra hana. Reyndar fannst mér hún skemmtileg en hef nú tapað henni niður.

Bókin er þýdd af Kjartani Ragnars. Hún hefst á sagnfræðilegum inngangi eftir  Eyjólf Kolbeins. Í innganginum segir hann frá stjórnskipulaginu í Róm þessa tíma, ferli Ciceros sem embættismanns og menntun hans.

Cicero skrifar þessa bók er þegar hann er 62 ára. Þessi inngangur Eyjólfs var mikilvægur mér sem lesanda til að meðtaka efni bókarinnar.

Ritinu sjálfu fylgja fjöldi neðanmálsgreina  til að skýra textann enn frekar. Þótt þetta stöðuga rof á texta við að lesa neðanmálsgreinarnar, trufli lesandann í að njóta hins eiginlega texta, reyndust mér þær afar gagnlegar til að skilja og njóta  og ígrunda efni hans.

Þörf lesning

Áður en ég hóf lesturinn var ég vægast sagt forvitin um ástæðuna fyrir því af hverju Cicero fannst brýnt að verja ellina. Að lestri loknum, sýnist mér að honum hafi gengið hið sama til og fjölmörgum Íslendingum nú, sem gagnrýna það að gömlu fólki sé ýtt til hliðar  um leið og ákveðnum aldri er náð. Hann bendir á að nauðsynlegt sé að gera greinarmun á heilsubresti og elli. Enn fremur bendir hann á hversu mikilvægt það sé að ástunda dyggðugt líferni til að njóta ellinnar.

Reyndar segir hann fjölmargt annað sem trúlega er jafn mikilvægt nú og þá.

En Cicero fékk sjálfur ekki að njóta ellinnar lengi því hann var veginn  í pólitískum átökum  ári eftir að hann lauk við að skrifa bókina.

Lokaorð

Mér finnst gaman að því að lesa þessa bók og fannst margt viturlegt sagt. Þó tók ég eftir því að þar er hvergi vikið að konum . Ef svo hefur verið fór það fram hjá mér.

Þessi pistill minn verður sá síðasti á árinu. Mig langar því til að óska lesendum mínum árs og friðar. 


Kolbeinsey: Bergsveinn Birgisson


A0CE6B35-D035-483E-98F6-413ECED7F7CCKolbeinsey

Kolbeinsey eftir  Bergsvein Birgisson er einstök bók. Fyrst fannst mér hún galgopaleg og grótesk. Við annan lestur (ég les bækur oft tvisvar) fannst mér hún í senn fyndin og full af speki. Sagan fjallar um tvo þunglynda karlmenn á miðjum aldri. Þeir hafa verið vinir frá því í barnæsku og nú er annar þeirra  á geðdeild, hinn er lítið  betur settur en hann á  kærustu og son frá fyrra sambandi. Það er hann sem er sögumaður.  Lífsgleðin hefur yfirgefið hann. Þetta er fræðimaður og skáld sem byggir afkomu sína á skriftum og  fyrirlestrahaldi. Það hefur ekkert komið fyrir  en allt í einu hellist yfir hann kvíði og lífsleiði. Hann sér engan tilgang í lífi sínu og aflýsir fyrirlestrahaldi sem hann hefur tekið að sér.

Það er kærastan hans sem stingur upp á að hann heimsæki vin sinn á sjúkrahúsið, telur að það geti e.t.v. gert honum gott sjálfum.

Vinurinn tekur honum illa og hefur allt á hornum sér. Honum er líka vægast sagt tekið illa af starfsfólki spítalans. Hjúkrunarkonan sem hefur aðalumsjón með vininum setur honum fyrst skilyrði um að hún sé til staðar þegar þeir hittast og loks er hann settur í heimsóknarbann.

Það er þá sem hann ákveðu að frelsa vin sinn frá heilbrigðiskerfinu. Þeir félagar leggja í langa óvissuferð. Fljótlega verða þeir þó þess vísari að hjúkrunarkonan eltir þá. Við það upphefst mikill eltingarleikur. Hjúkrunarkonan er ægileg, nánast eins og norn.

Ég ætla ekki að rekja þessa sögu frekar enda er það ekki sagan sem slík sem er aðalatriði þessarar bókar heldur samtal vinanna og hugmyndir sögumannsins um hvað það er sem skiptir máli í lífinu.

Ósjálfrátt varð mér hugsað,  til ýmissa vísana. Hvað minnir þessi bók á? Fyrst varð mér hugsað til Barna náttúrunnar eftir Friðrik Þór, þegar gamla fólkið flúði af elliheimilinu. Því næst hugsaði ég um hversu hjúkrunarkonan ægilega minnir um margt á kollega sinn í Gaukshreiðrinu. Loks velti ég fyrir mér hvort þunglyndu vinirnir væru e.t.v. nútímaútgáfa af þeim fóstbræðrum Þorgeiri og Þormóði. Sá þó fljótlega að ekkert af þessu skiptir máli . Það sem gerir þessa bók góða er frábær stíll höfundar þar sem hann í senn leikur sér með orð og leitar svara við tilvistarlegum spurningum. Auk þess er hann svo fyndinn að , ég sem sjaldan hlæ , skellihló innan í mér. Það eru svo margar skemmtilegar setningar í þessari   bók að ég er strax farin að huga að því að lesa hana í þriðja skipti.  


Vilborg Davíðsdóttir: Bækurnar um Auði djúpúðgu


8FDB015D-695E-4DE4-B7E1-B76D3B9AB364Frændur okkar Írar og Skotar

Þegar líða tekur að jólum, við upphaf jólabókaflóðsins, fyllist ég af einhvers konar samviskubiti yfir bókunum sem ég á enn ólesnar frá fyrri jólabókaflóðum.    Kvalin af sektarkennd rýk ég til að lesa „gamlar“ bækur.

Nú hef ég um nokkurt skeið verið að lesa bækur Vilborgar Davíðsdóttur, um forsögu þess að Auður djúpúðga flýði til Íslands.

Bækurnar eru þrjár talsins. Sú fyrsta kom út 2009 og heitir einfaldlega Auður. Hún hefst á því að segja frá Auði í foreldrahúsum á  Suðureyjum. Mér fannst sem verið væri að lýsa óvenju  hugmyndaríkum stelpukrakka en samkvæmt þáverandi siðvenjum, var hún komin á giftingaraldur. Orðin mannbær (hræðilegt orð). Það var drifið í að  finna handa henni mann. Hann hét Ólafur hvíti. Hún flytur með honum til Dyflinnar og elur honum barn, soninn Þorstein. Þegar til kemur hafnar hann barninu,telur það annars manns barn. Eftir það flytur Auður í Katanes, þar sem hún rekur myndarbú.

Næsta bók kom út 2012. Hún ber nafnið Vígroði.

Hún hefst á frásögu af heimsókn Auðar til ættingja sinna en hún hafði haldið sig fjarri þeim um árabil af ótta við að faðir hennar, Ketill flatnefur, vilji gifta hana á ný (giftingar þessa tíma voru brask með auð og völd). Af því verður þó ekki. Vegir þeirra Ólafs hvíta liggja saman á ný og hann sér að sér varðandi faðerni barns þeirra. Þau sættast.

Það horfir ófriðlega fyrir víkingabyggðir norrænna manna á Bretlandseyjum og Auður missir bæði son sinn Þorstein og mann sinn, Ólaf.

Þriðja bókin Blóðug jörð kom út 2017. Hún fjallar um síðustu ár Auðar á Bretlandseyjum og atburði sem leiddu til  þess að hún sá sér engra kosta völ nema að flýja til eylandsins í Norðrinu. En einnig þar er úthellt blóði. Þessari sögu Auðar djúpúðgu líkur þar sem saga Auðar í Laxdælu hefst.

Stéttaskipting?

Þótt sagan sem Vilborg segir, sé um margt lík sögunum sem við þekkjum sem Íslendingasögur, er hún um margt ólík.

 Í fyrsta lagi bætist við heill heimur, þar sem sagan er sögð frá sjónarhorni þræla og ambátta, saga hinna ófrjálsu. Í öðru lagi bætist við ítarleg frásaga af lifnaðarháttum, bæði í hvunndagslífi og stríði. Vilborg skapar nýjan heim á grundvelli þjóðfræða og sögu.

Það liggur mikil vinna í þessari bók/bókum.

Vangaveltur

Samkvæmt rannsóknum á erfðamengi okkar Íslendinga, erum við skyldari Írum og Skotum en Skandinövum. Ástæðan er sú að meiri hluti landnámskvenna kom frá Bretlandseyjum. Þetta lærði ég, þegar ég hlustaði á frábæran fyrirlestur, Þar talaði Agnar Helgason en hann hefur, ásamt fleiri fræðimönnum, rannsakað erfðamengi okkar Íslendinga.

Ekki veit ég hvað vakti fyrir Vilborgu Davíðsdóttur þegar hún hófst handa við að skrifa forsögu Auðar djúpúðgu. Það er að segja þann hluta hennar, sem gerðist áður en hún kom til Íslands.

Reyndar held ég að það sem fyrir henni vaki sé að skapa nýjan og áður óþekktan heim sem rúmar allt fólk, háa sem lága. Í hennar sögu fá konur og þrælar og ambáttir rödd. Já, og meira en það. Konur og ófrjálsir eru í aðalhlutverki í stað höfðingja og stríðshetja.

Innskot um bækur Svíans Jan Guillou

Fyrir um það bil tveim árum var ég á kafi í að lesa/hlusta á bækur Jan Guillou um Arn Magnusson og Birger jarl.  Tímasetning þessara bóka er að vísu talsvert seinna en bækur Vilborgar. Margt er þó líkt.  Þar segir af höfðingjum og valdamiklum konum. Þrælum bregður fyrir  og þá í svipuðu hlutverki og við þekkjum þá frá okkar góðu gömlu Íslendingasögum.

Bækur Guillou

eru stórskemmtilegar.

Mikið fæst ekki fyrir lítið

Til baka til Vilborgar. Það er betra að vera með athyglina í lagi þegar maður les/hlustar á bækur Vilborgar. Hún gefur engan afslátt á því að muna vensl og ættir. Það er líka betra að læra landafræði Bretlandseyja. Vilborg kryddar oft frásögn sína með Gelísku. Það ýtir við manni til að hafa í huga að Bretlandseyjar þessa tíma voru í það minnsta tvítyngdar.

Það er mikið sem situr eftir  þegar maður hefur lesið þessa bók. Ég mun minnast aðventunnar 2021 sem aðventunnar sem ég fór til Bretlandseyja með viðkomu í Færeyjum.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Des. 2021
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband