31.12.2013 | 14:58
Veiðimennirnir: Jussi Adler- Olsen
Ég var dálítið óviss um hvort ég ætti að birta þetta bókablogg því ég gafst næstum upp á því sjálf eins og bókinni sem ég var að skrifa um. En ég læt það samt fara úr því að ég var á annað borð búin.
Eftir að hafa lesið Markoeffektinn sem er síðasta bók höfundar um lögreglumanninn Carl og samstarfmenn hans á deild Q, ákvað ég að lesa fyrri bók eða bækur til að skilja betur vinnubrögð og samskipti fólksins á þessum vinnustað. Fyrir valinu varð Veiðimennirnir sem kom út í Danmörku 2008, bókin var til á heimilinu. Lesturinn sóttist mér heldur seint vegna þess að ég hafði of lítinn tíma, það var slæmt því slíkar bækur þarf maður helst að hespa af á sem stystum tíma. Þannig nýtur maður best spennunnar.
Þessi bók fjallar um glæpaklíku. Sagt er frá nemendum í fínum heimavistarskóla fyrir börn ríkra foreldra. Þau hafa unun að fara út fyrir öll leyfileg mörk og eru full af illsku og kvalalosta. Þetta sameinar þau. Síðar halda þau hópinn og þau komast áfram í samfélaginu, flest. Í miðju frásagnarinnar er eina stúlkan í hópnum. Hún lendir upp á kant við félaga sína og endar sem utangarðskona. Hún er auk þess ekki heil á geðsmunum og hyggur á hefndir. Og henni tekst. Það gengur mikið á í þessari bók.
Það sem gerir hana sérstaka er að er að líferni auðmannanna og ástandið í samfélaginu minnir um margt á stöðuna hér fyrir hrun, enda er bókin skrifuð 2008. Glæpamennirnir eru ekki bara spilltir þeir eru siðblindir. En Carl er bara venjuleg glæpasögulögga, óstöðugur í rásinni, í vandræðum í ástamálum, pirraður og upptekinn af sjálfum sér. Ég held ég lesi ekki fleiri bækur um hann bili. Ég var bara að reyna að skilja hvers vegna þessar bækur eru svo vinsælar. Og skil það ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2013 | 23:49
Paradísarstræti: Gömul kona segir frá lífi sínu
Næst síðasta daginn í vinnu minni við yfirsetu í Háskóla Íslands núna fyrir jólin, rétti samstarfskona mín að mér bók og sagði að ég mætti eiga hana. Mér fannst þetta skemmtilegt af því það kom mér svo á óvart. Ég þekkti þessa konu svo lítið og svo er okkur yfirsetufólkinu bannað að lesa meðan við vöktum. Bókin kom mér einnig á óvart, ég hafði ekkert um hana heyrt í jólabókarkynningunum.
Bókin heitir Paradísarstræti: Lena Grigoleit austur-prússnesk bóndakona segir sögu sína. Hún er eftir Ullu Lachauer sem er kvikmyndagerðar- og þáttagerðarmaður. Tildrögin að því að hún ákvað að skrifa þessa bók, var að hún var stödd í Litháen árið 1989 í leit að sviðsetningu fyrir mynd sem verið var að vinna að. Sögusviðið var gamla Prússland. Henni var bent á Lenu Grigoleit, eina eftirlifandi íbúann í Bitehnen frá PRÚSSLANDSTÍMANUM. Þannig hófust kynni þeirra. Ulla hreifst af þessari konu og langaði að skrifa sögu hennar en áhuginn á þessum skrifum var gagnkvæmur, Lenu langaði að segja sögu sína en kannski ekki síður heimabyggðar sinnar Bitehnen í Memelhéraði. Hana langaði að segja hvernig allt var áður en stríðsátök eyðilögðu menninguna, lögðu byggðarlagið í rúst og og fjöldi fólks var ýmist drepinn eða hafði tekist að flýja.
Memelhérað er löng og mjó landræma (140x20 km) meðfram ánni Memel (Neman) á landamærum Litháen og Rússlands í dag, þetta svæði tilheyrði Prússlandi til styrjaldarloka fyrri heimsstyrjaldar en þá var ákveðið í Versalasamningunum að það skyldi verða sjálfstætt svæði þar til íbúarnir hefðu kosið um stöðu þess. Til þess kom þó aldrei því Litháen hafði lagt það undir sig. Síðar, í síðari heimstyrjöldinni lögðu Þjóðverjar það undir sig en töpuðu styrjöldinni eins og allir vita og eftir það tilheyrði Memelhérað Litháen sem Rússar lögðu undir Sovétríkin. Þetta virkar flókið og það er það og ef eitthvað er, þá er það enn flóknara. Á svæðinu bjó fólk af ólíku þjóðerni, þýskumælandi, Litháar, Pólverjar og fjöldi Gyðinga.
Lena Grigoleit fæddist inn í tvítyngda fjölskyldu, þar var töluð þýska og litháíska jöfnum höndum. Móðir hennar var tekin sem fangi af Rússum í fyrra stríði sem barn og lærði því rússnesku. Lena giftist manni frá Stór-Litháen eins og það er kallað til aðgreiningar frá prússneska svæðinu. Bróðir hennar og uppeldisbróðir börðust með Þjóðverjum og féllu en maður hennar flúði tímabundið þar sem hann hafði verið opinber starfsmaður Litháa. Þegar sovétherinn náði yfirhöndinni í stríðinu flúðu þýskumælandi íbúarnir suður eftir og þar á meðal Lena og hennar fólk. Seinna sneri hún þó heim aftur, heim í bæinn sinn og bjó þar í fyrstu í sambýli við rússneska hermenn sem höfðu kom ið sér þar upp bækistöð. Og þarna býr hún alla tíð með fjölskyldu sinni þótt það væri reyndar búið að taka stóran hluta jarðarinnar eignarnámi fyrir samyrkjubúskap. Fjölskyldan er seinna send, eins og margir Litháar til Síberíu, þar sem hún dvelur í fimm ár.
Þessu öllu lýsir Lena og mörgu fleira. Það er erfitt að skilja hvernig hægt er að lifa venjulegu lifi eftir allt þetta en Lena lýsir svo mörgu fleiru, hún segir frá bernsku sinni og ástum og veltir fyrir sér hvort hún hefði orðið hamingjusamari ef hún hefði gifst æskuástinni sinni. Hvernig hefði hann t.d. staðið sig í Síberíu. En það merkilegasta við þessa frásögn að mínu mati eru þó vangaveltur hennar um mannlífið, þjóðerni, menningu og tungumálið. Hún elskar ljóð og talar oft um hvað skáldin hafi auðgað líf hennar. Hún saknar þýskunnar en er þó búin að gera upp við sig að hún sé og vilji fyrst og fremst vera Lithái.
Það var gaman að lesa þessa bók en ég get ekki sagt að það væri auðvelt. Höfundur talar um að frásögn Lenu sé blæbrigðarík og full af orðkyngi. Það fann ég ekki í þessari bók og veit ekki hvort er við höfundinn eða þýðendurna að sakast. Eftir lesturinn hef ég hellt mér í að lesa ýtarefni um söguna og svæðið og er meira að segja búin að skoða hjólaleiðir, hótel og flug. Það verður gaman.
Bloggar | Breytt 31.12.2013 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.12.2013 | 19:12
Svar við bréfi Helgu: Hvað hefði Jón Sigurðsson gert í sambandi við skuldaniðurfellingu
Helga mín, ég var búin að lofast til að segja þér hvað Jón Sigurðsson hefði gert í sambandi við skuldaleiðréttingarmálin, en ég hafði ekki tíma til þess i gær af því ég var að fara að sjá Hús Bernhörðu Alba.
Mér finnst við Íslendingar höfum lært of of lítið af því hörmulega máli. Þá var afkomu fólks ógnað vegna plágu sem herjaði á sauðfé, en sauðfjárrækt var þá undirstöðuatvinnuvegur. Valið stóð á milli þessa að skera niðurskurðar eða lækninga. Jón aðhylltist lækningaleiðina enda voru á þeim tíma komin lyf og hann fékk til liðs við sig menntaða ráðgjafa (danska dýralækna).Niðurskurður var harkaleg aðgerð sem kom illa við fjárhag landsmanna. Inn í þetta fléttaðist ágreiningur um hvernig féð hefði smitast. Þjóðin sem á þessum tíma útleggst efnaðir karlmenn skiptist sem sagt í tvær fylkingar og því lauk svo að Jón og lækningamennirnir urðu undir.
Nú kannt þú að spyrja , Helga mín, hvað þetta hafi með skuldaniðurfellingu að gera en mér finnst augljóst að Jón sem var á móti niðurskurði hefði ekki viljað fara þá leið, hann var lækningamaður og fé er fé þótt það séu skuldir. Hann hefði kosið að greina vandann og lækna hann. Í hans tilviki var það að kenna landsmönnum að baða fé en þeim fannst það vesen alveg eins og við viljum ekki nú hlusta erlenda ráðgjafa sem telja að við eigum ekki stöðugt að púkka upp á skammtamalausnir. Mér finnst sem sagt nú, 1. desember gott að hugsa til Jóns og hvað hann hefði gert.
Og að lokum, fannst leiksýningin góð. Þetta er ljót saga um kúgun sem þrífst í skjóli innilokunar og þröngsýnis. Andrúmsloftið er bæði kæfandi og þrúgandi. Leikstjórinn bætir leikhúsgestum það upp með því að bæta við köflum með vísunum í nútímann og ráðleggingum ef svo mætti segja sem fylla mann bjartsýni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.7.): 5
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 57
- Frá upphafi: 190402
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar