31.12.2012 | 18:04
Charlotte: Glæpasaga frá Hollandi
Ég held að þetta sé fyrsta hollenska glæpasagan sem ég hef lesið, man ekki betur og ég las hana á þýsku. Hún heittir Charlotte og er eftir Felix Thijessen. Hún segir frá því þegar Charlotte heimsækir vellríkan hótelkeðjueiganda, Otto Runing og segir honum að hún sé dóttir hans. Charlotte er alin upp hjá móður sinni og sambýliskonu hennar í húsbát. Þegar móðir hennar deyr óvænt segir "hin móðir" hennar henni hver faðirinn er. Auðvitað veit Charlotte, sem er orði 18 ára gömul, að hún hlýtur að eiga sér föður eins og önnur börn en hún hefur ekki gert ráð fyrir að fá að vita hver það er og sættir sig við að hann sé nafnlaus sæðisgjafi. En þegar móðir hennar er dáin og hún fær alveg óvænt að vita hver faðirinn er, langar hana til að kynnast honum. En hvað gengur henni til? Langar hana til að vera hluti af fjölskyldunni eða ásælist hún peningana?
Fjölskylda, konan og tvær dætur taka þessu illa. En Runing sjálfur efast um að þetta sé rétt en fær eiginlega aldrei tækifæri til að bregðast við aðstæðum því hann er myrtur á golfvelli þar sem hann hefur ákveðið hitta menn sem hann ætlar að ræða viðskipti við.
Nú er vesalings Charlotte ekki bara móðurlaus heldur líka föðurlaus, ef hún hefur þá átt einhvern tíma einhvern föður. Það er lögfræðingur fjölskyldunnar sem tekur að sér rannsóknarhlutverkið í þessari sögu og atburðarásin á eftir að vinda upp á sig.
Ég ætla ekki að fara nánar út í það ef einhver lesenda minna á eftir að lesa þessa sögu. Höfundurinn er vel þekktur í heimalandi sínu og hefur verið verðlaunuð í (fékk Gouden strop fyrir 1999 og Diamanten Kogel 2006 fyrir Finistere Wasser). En þessi bók fær engin verðlaun hjá mér enda ræð ég ekki yfir neinu slíku. Mér finnast persónurnar klisjukenndar, atburðarásin ótrúverðug og persónur sem höfðu verið kynntar til sögunnar gufuðu upp.
En ég lauk samt við að lesa bókina, ég held að það hafi verið mest út af húsbátnum en mér hefur alltaf þótt húsbátalífi ævintýralegt en hef ekki haft tækifæri til að kynnast því af eigin raun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2012 | 12:25
Lífið gæti ekki verið betra: Das zweites Leben des Herrn Ross
Mikið er Håkan Nesser óskaplega góður rithöfundur. Af því að ég (og maðurinn minn) elskum Svíþjóð fylgjumst við vel með sænskum bókum. Ég veit ekki hvað ég hef lesið margar bækur eftir Håkan Nesser en það er fyrst þegar ég les hann þýsku sem ég fatta hvað hann er raunverulega góður. Ástæðan fyrir þessum viðsnúningi, er að mig langar mikið til að vera almennilega læs á þýsku og vinkona mín og sem hefur verið í tungumálaskiptum við mig (sprachaustausch) kom með tvær bækur til mín og sagði:Þessar bækur verður þú að lesa, mömmu finnast þær frábærar. Hún útskýrði jafnframt fyrir mér að þýddar bækur veru yfirleitt léttari en bækur sem væru samdar beint á þýsku. Fyrri bókin var hollenskt (ég á eftir að gera henni skil síðar) var eins og maður segir ALLT Í LAGI en þegar ég tók til við að lesa bókina um Herrn Ross heillaðist ég. Ég hafði reyndar lesið hana áður og þá á sænsku (Berättelse om herr Ross).
Hún fjallar um meinaleysingjann Anton Valdimar Ross sem er svo óáhugaverð persóna að fólk tekur ekki eftir honum, konan hans segir að hann sé eins og mubla og samstarfskona hans segir að hann sé leiðinlegur. En þegar hann vinnur óvænt í happdrætti ákveður hann að reyna að finna sér stað í tilverunni segir upp vinnunni og kaupir sér lítinn sumarbústað án þess að láta fjölskylduna vita.
Hins vegar er sakleysinginn Anna sem hefur þvælst út í eiturlyf en strýkur af meðferðarheimili eftir að hún er höfð fyrir rangri sök. Það er algjör tilviljun að örlög þessara tveggja eiga eftir að blandast saman og verða að máli sem lögreglan í Kymlinge þarf að takast á við.
Gunnar Barbarotti er minn uppáhalds lögreglumaður. Í þessari bók er hann skilinn við fyrri konuna og nýtekinn saman við þá seinni, ástina sína Marianne. Lögreglumenn Håkans Nessers koma aldrei til sögunnar fyrr en það er vel liðið á bókina. Þannig er það líka í þetta skpti en Barbarotti er fótbrotinn enda nýdottinn ofan af húsþaki þar sem hann var vann að viðgerðum á húsinu þeirra Marianne og stórrar sameiginlegrar fjölskyldu þeirra.
Þetta er sem sagt frábær lesning. Nesser hefur einstök tök á því að skapa og viðhalda spennu. Lesandinn fylgir honum í ofvæni allan tímann en hvað mig varðar var það ekki bara út af glæpnum heldur miklu frekar út af því hvernig fólkinu sem ég var búin að kynnast og taka ástfóstri við í bókinni myndi reiða af.
Svona eiga bækur að vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2012 | 16:59
Opinberun Jóhannesar
Ef Kolbrún Bergþórsdóttir væri beðin um að ritdæma Biblíuna í Kiljunni, myndi hún eflaust segja að hún væri allt of löng og það væri þörf á fá góðan ritsjóra að bókinni, stytta hana mikið og raða efninu betur saman. Og það hefur mörgum dottið í hug og kannski gert, ekki veit ég það. En nú er ég sem sagt endanlega búin með þessa bók og kem aldrei til með að lesa hana aftur í heild sinni. En mér fannst gott, til þess að fá yfirsýn, að hafa þennan hátt á því með því fékk ég góða yfirsýns og nokkra innsýn. Í heildina á ég ekkert erfitt með að skilja Biblíuna, hún er barns síns tíma en hún hefur ekki fært mér skilning á meðborgurunum mínum sem tala um hana eins og helga bók. Ég er engu nær. Líklega er skýringa ekki að leita þar heldur í einhverju sem snertir eðli mannsins og þörf hans til að trúa á eitthvað æðra. En af hverju þá allar þessar ljótu sögur um þennan vonda Guð? Biblíunni lýkur, eins og margir vita, á Opinberun Jóhannesar sem líkist um margt Daníelsbók. Mér koma þessi skrif fyrir sjónir eins og óráðshjal vitfirrts manns sem sér sýnir. Inn á milli eru vissulega nokkur vísdómsorð en bókin í heild "meikar ekki sens" enda er hún miklu líkari draumi. En eins og allir vita virðist margt rökrétt og eðlilegt í draumi sem ekki er það í raunveruleikanum.
Ég hef oft heyrt talað um einmitt þessa bók Biblíunnar en aldrei lesið hana fyrr sjálf. Satt best að segja vakti umtalið ekki áhuga minn, það var gjarnan í einhvers konar samsæriskenninga- heimsendastíl. Ég var svolítið leið yfir að bókinni sem ég var nokkurn veginn búin að taka í sátt skyldi ljúka þannig.
Þegar ég skoðaði í dagbók mína í morgun til að færa inn "afrek" mitt: Lauk við lestur Biblíunnar, sá ég að þar stendur að, laugardagurinn 29. des sé gamlársdagur en það var markmiðið sem ég hafði sett mér. Skyldi þetta boða eitthvað?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2012 | 23:47
Enn um Biblíulestur
Nú líður senn að lokum Biblíulestrar míns. Hóf hann á nýársdag og ætla að ljúka honum á gamlaársdag, þetta útheimti að lesa 3-4 blaðsíður dag. Mér hefur gengið sæmilega að halda áætlun, það hafa komið dagar sem mig langaði hreinlega ekki til að setjast niður með þessa stóru bók en ég lærði það fljótlega af reynslunni að það borgar sig ekki að láta safnast fyrir, því dagsskammturinn 3-4 bls. er nokkuð hæfilegt, við langan lestur ýmist tapaði ég athyglinni eða fannst þetta staglkennt, sem það auðvitað er.
Nú er ég stödd í Fyrra almenna bréfi Péturs. Mér er engin launung á því að mér hefur þótt þessi lestur misskemmtilegur og mismikið gefandi. T.d hafði ég fyrirfram hugmyndir að Jóhannesarguðspjallið bæri af hinum guðsspjöllunum, en það fannst mér síður en svo og mér fannst Postulasagan bæði langdregin og ruglingsleg. En það lifnaði heldur betur yfir mér og Biblíulestrinum þegar ég komst í Bréf Páls. Þau eru að vísu ólík. Páll er sannur guðfræðingur sem reynir að túlka boðskap Jesús þannig að hann nýtist fólki í raunverulegu lífi. Ég ber mikla virðingu fyrir fólki sem elskar ekki bara kenningar og svo fannst mér eins og ég kynntist líka manninum Páli. Nú er helst vitnað í Pál vegna þess sem hann segir um stöðu konunnar en ég hef aldrei heyrt því beinlínis flíkað að hann segir líka að menn eigi að vera góðir við konurnar sínar.
Eftir að hafa fylgt Páli á flakki hans um Austurlönd nær og Miðjarðarhafið og fylgst með andagift hans sem hann miðlaði söfnuðunum var það eins og stórt spor afturábak að lesa Hebreabréfið sem er afskaplega lögmálstengt. En þar er þó að finna þessa dásamlegu setningu:"Gleymið ekki gestrisninni, því vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita af." Ætli Bertold Brecht hafi lesið þetta áður en hann skrifaði Góðu sálina í Sesúan?
Ég er sem sagt að verða búin með þennan lestur og hef þegar öðlast nokkra yfirsýn yfir þetta rit, meiri en ég gerði mér vonir um við upphaf þessarar ferðar. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að þarf meiri og ýtarlegri lestur til að skilja þessa bók og ég veit líka að það finnst margvíslegur skilningur.
Þegar ég hóf þennan lestur vakti fyrir mér að skilja hvers vegna þessi bók hefur fylgt mannkyninu svo lengi sem raun ber vitni og um leið og það gerir svo lítið með hana. Að lesti loknum er ég engu nær. Reyndar eru þetta tvær spurningar en ekki ein, líklega þarf að svara hvorri fyrir sig.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.12.2012 | 22:54
Vandlæting dagsins: Ekkert má lengur
Ekkert má lengur.
Það má ekki einu sinni segja að manni leiðist jólasveinar. Mér varð þetta á yfir kaffiibolla í öllu jólahjalinu og fékk sterk viðbrögð. Reyndar var ég bara að lýsa tilfinningum mínum gagnvart jólasveinum almennt, ekki að tala um neinn sérstakan. Viðbrögðin urðu meiri en ef ég hefði efast um að sjálfur Jésús Kristur hefði fæðst á jólunum.
Viltu svipta foreldra ánægjunni af því að gleðja börnin?
Nei
Viltu svipta börnin því að nota ímyndunaraflið?
Nei
Auðvitað ekki.
Mér sjáfri leiðast bara jólasveinar, svona almennt.
Ég vona bara að það sé ekki hægt að flokka þetta undir rasisma.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.12.2012 | 23:13
Þú ert nú meira andskotans fíflið
Þú ert nú meira andskotans fíflið sagði Jesúsa Palancares við viðmælanda sinn þegar það gekk alveg fram af henni hversu hann var skilningssljór. Viðmælandinn var Elena Poniatowska rithöfundur og blaðamaður, hún vann að því að skrifa sögu þessarar fátæku, alþýðukonu. Hún var heilluð af mergjuðum talsmáta hennar og vissi að hún hafði lifað mikla umbrotatíma. Elena Poniatowska var vel stæð frönsk menntakona af pólskum og mexíkóskum ættum. Hún var fædd 1932 í Frakklandi en flutti með foreldrum sínum til Mexíkó 1942. Jésúsa var fædd 1900 og því jafngömul öldinni. Hún var ein af konunum sem barðist í byltingunni þótt hún væri ekki skráð sem hermaður. Fyrst fylgdi hún föður sínum barnung og síðar manni sínum sem hún hafði verið neydd til að giftast kornung.
Þegar sem barn var þurfti Jesúsa að ganga í gegnum meiri erfiðleika og gengur að lýsa í stuttri frásögn. Fjölskylda hennar varð að yfirgefa heimahagana, til að bjarga lífi sínu. Vegna deilna um erfðamál flýr faðir hennar með konu og börn. Það verða miklar sviptingar í lífi fjölskyldunnar. Jesúsa hefur misst móður sína, systkini, föður sinn og mann fyrir, eða rétt um tvítugt. Hún hefur barist við hlið hermanna í styrjöld en að stríðinu loknu kann hún ekki að leita sér að vinnu. Hún er ólæs og þekkir ekki einu sinni á klukku. Konan sem Elena Poniatowska hittir fyrir og tekur viðtöl við er ekki bara fátæk og ómenntuð, hún er líka hræðilega mikill einstæðingur. En sá/sú sem hefur mikið reynt hefur lært að lifa með það. Hún hefur komið sér upp varnarkerfi, herkænsku og að því er virðist yfirnáttúrlegum brögðum til að takast á við það sem á dynur. En það hefur ýmislegt orðið undana að láta. Jesúsa hefur misst allt traust á manneskjunum, á heiminum og á Guði nema þeim Guði sem hún finnur í andatrúarkirkjunni. En þar getur hún talað beint við allt dána fólkið sem hún þekkir og fengið huggun.
Höfundur sögunnar dembir lesandanum beint inn í kaótískt líf Jesúsu. Það er hún, Jesúsa, sem talar allan tímann, hún segir frá ævi sinni. Það er stundum erfitt að fylgja henni, bæði eru árin orðin mörg, Jesúsa kemur víða við því líf hennar hefur ekki verið beinn og breiður vegur. Frásagan er ekki í tímaröð og svo koma margar persónur við sögu. Það sem gerir lestur bókarinnar erfiðan og snýr að mér er að ég vissi svo lítið, ég var svo ófróð um mexíkóska menningu, sögu og landafræði.
Höfundur bókarinnar leggur áherslu á að bókin sé skáldsaga en ekki ævisaga. Hún notar viðtölin við Jesúsu sem efnivið í sögu sem hún hefði aldrei getað skrifað án hennar. Hér segir bláfátæk kona frá lífinu eins og það snýr að henni með sínum eigin orðum. Í fyrstu var ég efins um að bókin gengi upp en allt í einu fannst mér að ég þekkti þessa konu, mér fannst ég finna hjá henni takta sem ég þekkti frá annarri konu sem ég þekkti einu sinni vel. Undir lokin sá ég líka ýmislegt sameiginlegt með henni og mér, þó ekki orðbragðið.
Þessi bók hefur ekki bara gefið mér tækifæri til samlíðunar með einstakri konu, hún hefur líka frætt mig mikið um land og þjóð sem ég þekkti svo lítið, sérstaklega hefur hún kennt mér margt um hlutskipti fátæklinga, um kúgun og ofbeldi. Ég veit þó að ég er ekki fróðari en svo að ef ég hitti Jesúsu, kannski í andatrúarkirkjunni, myndi hún trúlega segja við mig: Þú ert nú meira andskotans fíflið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2012 | 22:11
Vandlæting dagsins
Af hverju hefur enginn fréttamaður úrskýrt fyrir mér hvað sé tvöfalt kjördæmaráðsþing (Framsóknarflokksins)? Eiga allir að skilja þetta? Og af hverju skil ég það þá ekki? Spurði félaga mína í bókbandinu í að þessu í dag og fékk tvær hugsanlegar skýringar. 1. Tvöfalt kjördæmaráðsþing: Er tvöfalt fjölmennara en venjulegt einfalt kjördæmaráðsþing. 2. Tvöfalt kjördæmaráðsþing: Eru tvö þing hvort á eftir öðru sama daginn. En ég hugsa: Gæti kannski verið að þau færu fram á sama tíma en væru aðskilin og kannski alls ekki á sama stað. Eru slík þing bara háð í Framsóknarflokknum?
Eiga allir að vita þetta og af hverju vissu vinir mínir það þá ekki? Ég tek það fram að annar viðmælandi minn á sterk tengsl inn í Framsóknarflokkinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.7.): 0
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 80
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 52
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar