Tvær barnabækur: Gerður Kristný: Heimspeki pönksins

6E8E8A66-F2FC-4632-AB5B-53BA1AC228BC
Gerður Kristný

Þegar ég vil endurræsa barnið í mér, les ég gjarnan barnabækur. Í þetta skipti las ég tvær bækur eftir Gerði Kristnýju, Iðunn og afi pönk og Meira pönk, meiri hamingja. Þær eru báðar komnar inn á Hljóðbókasafn Íslands. Safnið mitt. Gerður les þær sjálf, hún er afbragðs lesari.

Bókin er um Iðunni, vinkonur hennar, fjölskyldu og nágranna. Afinn, sem er eilífðarpönkari, fer með stórt hlutverk.

Í  fyrri bókinni hverfist söguþráðurinn um þegar nýja hjólið hennar sem hún fékk í afmælisgjöf týnist.  Sú seinni segir frá því þegar Iðunni langar svo mikið á útihátíðina í Krækiberjadrekahalagili. Gerður er snillingur í að búa til löng samsett orð. Þegar mamma Iðunnar vildi ekki leyfa henni að fara, fékk hún að slá upp tjaldi í garðinum og halda þar sína útihátíð. Henni lauk þó með slíkum hætti að mamma hennar féllst á að þau færu öll á hátíðina í Krækiberjadrekahalagili.

Það sem einkennir þessar bækur

 Það sem einkennir þessar bækur er hugarflug og uppátæki  aðalpersónunnar,Iðunnar. Hún er sögumaður og minnir mig í senn á Emil í Kattholti og bræðurna Jón Odd og Jón Bjarna. Um leið er hún allt öðru vísi.

Ég sagði frá því í byrjun að mig hefði langað til að ná til barnsins í mér til að uppfæra sálina. Það tókst ekki. Að sjálfsögðu. Barnið sem ég var er afar ólíkt Iðunni. Ég upplifði mig frá upphafi minnis míns sem mikilvægt hjól í framleiðsluvél sjálfþurftarbúskaparins. Já, og kunni því vel. Mér finnst þó merkilega gaman að fylgjast með hugmyndum og uppátækjum Iðunnar og er tilbúin að hlaða því inn  til viðbótar við mitt áttræða  barnasjálf (ég er að vísu bara 79 ára og 11 mánaða svo ég geri eins  og börnin.). En það sem mér fannst allra allra skemmtilegast við lestur þessara bóka, var að Gerður Kristný með sinn fágaða og tæra texta skyldi vera að skrifa um pönk.

 Enn vantar mig myndirnar

 Myndirnar sem eru í bókinni gat ég ekki nýtt mér af því að ég hlusta í stað þess að lesa. Ég veit að myndirnar eru gerðar af Halldóri Baldurssyni, hann bregst ekki. Ég kem til með að kaupa eða fá bækurnar að láni. Ég get nefnilega enn skoðað myndir, þótt lestrarleiknin hafi yfirgefið mig.

Draumurinn

Nóttina eftir að ég las fyrri bókina, dreymdi mig draum sem ég mundi glöggt þegar ég vaknaði. En yfirleitt man ég ekki drauma. Mér fannst sem ég væri að hlusta á umfjöllun um bækur. Þar sagði höfundur  frá því að öll börn sem læsu bókina sjálf, fengju sælgæti, sem verðlaun. Þau væru hluti af bókakaupunum.

 Draumurinn var svo raunverulegur að strax þegar ég vaknaði fór ég að hugsa um hvernig þetta væri framkvæmanlegt!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Jakobsböckerna: Olga Tokarczuk

 

CB4F98A1-587C-439E-935F-1DF2FDC9C9B6
Villuráfandi í Póllandi

Eftir að ég fór að lesa/hlusta á Jakobsbækur Olgu Tokarczuk hef ég ekki verið með sjálfri mér. Ég hef verið villuráfandi um  Pólland og löndin þar austur og suður af. Og tíminn er síðari hluti átjándu aldar.

Jakobsbækurnar eru 7 talsin og enginn smádoðrantur allar saman komnar í einni bók, 912 blaðsíður. Ég les/hlusta á  bækurnar á sænsku, því þeim hefur ekki verið snarað á íslensku. Þetta þarf að þýða  hugsa ég. Það ættu að vera til þýddar bækur eftir alla Nóbelsverðlaunahöfunda. Olga Tokarczuk ( fædd 1962) fékk verðlaunin 2018.  Ef einhvern langar til að týna sjálfum sér í lestri er þetta bókin.

Um hvað er bókin?

Þetta er söguleg skáldsaga sem styðst við  atburði sem gerðust og sögur fara af. Jakob Frank er einhverskonar miðpunktur, þó finnst mér ekki rétt að tala um hann sem aðalpersónu. Hann var lærður Gyðingur en fékk vitrun og trúði því sjálfur að hann væri Messías, sem Gyðingar voru að bíða eftir. Hann virðist hafa verið góður kennimaður því fljótlega myndaðist trúarhreyfing sem byggði á kenningum hans.

Heimur trúar og kraftaverka

En það er ekki Jakob og trúarbrögð hans sem er kjarni þessarar bókar. Það sem  hreif mig var hversu vel höfundi tekst að draga upp mynd af lífi fólks þessa tíma og af hugarheimi þeirra sem lifa þar. Ósjálfrátt varð mér hugsað til hvernig þetta var hér á okkar litla landi  og dettur strax í hug Jón lærði og hugarheimur hans tíma sem Viðar Hreinsson lýsir svo snilldarlega. En margt er þó ólíkt. Pólland var ólgandi samsuða fjölmargra menningarhópa og trúarbragða, Ísland var einangrað og einnar trúar samfélag. Mér finnst samfélagslýsing Tokarczuk framúrskarandi. Þarna gat allt gerst. Menn  uppljómast í bókstaflegum skilningi, lýsa eins og lampar og gamla konan Jenta er stödd í einhverri vídd sem við þekkjum ekki, einhverstaðar milli lífs og dauða. Uppáhaldspersónan mín í sögunni er gamli sveitaklerkurinn, sem hefur ofurtrú á mætti upplýsingarinnar. „Ef manneskjan veit nóg, breytir hún rétt“. Hann hafði því sjálfur sett saman alfræðirit fyrir Pólverja. Hann elskaði bækur. „Ef allir væru að lesa sömu bækur“, hugsaði hann, myndu þeir skilja hver annan betur. Það eru ekki bara ólík tungumál sem standa í veginum, þessir ólíku menningarhópar nota hver sitt stafróf.

Lokaorð

Þótt Jakobsbækurnar fjalli um 18. öldina, er ég ekki í neinum vafa um að tilgangur höfundar sé að færa okkur spegil til að spegla samtíð okkar í.

Þetta er bók til að lesa mörgum sinnum, þannig er það með allar góðar bækur.  


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2021
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 83
  • Frá upphafi: 190486

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband