29.11.2013 | 17:51
Mitt eigið Harmagedón:Unglingabók en ekki síður fyrir fullorðna
Var að ljúka við bók Önnu Heiðu Pálsdóttur, MITT EIGIÐ HARMAGEDÓN. Hún var verkefni leshópsins en ég var ekki búin að verða mér úti um hana þegar hún var tekin fyrir. Hún er vinsæl á bókasöfnum (sagði bókavörðurinn mér) og ég lét setja mig á biðlista og það stóðst á endum, sama dag og við hittumst í leshópnum, var hringt til mín frá safninu.
Stöllur mínar í leshópnum fóru lofsorði um bókina og mér þótti ekkert verra að lesa hana þótt ég vissi svona undan og ofan af um hvað hún fjallaði. Þetta er saga unglingsstúlku sem er að segja skilið við bernskuna og fara inn í fullorðinsheiminn. Hún er í alla staði eðlileg og dugleg stúlka, hún býr ein með pabba sínum í Neðra Breiðholti, móðir hennar er dáin og systir hennar í útlöndum. Sagan gerist á einu sumri, hún vinnur á leikskóla og hlakkar til að byrja í FB um haustið. Hún er mikill námsmaður og stefnir á að læra læknisfræði. En þótt það geti virst svo sem hún lifi í tryggum heimi er ekki allt sem sýnist, heimurinn sem hún lifir í þrengir að henni. Hún er fædd inn í fjölskyldu sem lifir öðru vísi, þau eru Vottar Jehóva. Sá eini heimur sem hún þekkir er heimur þeirra.
Hún veit þetta en það hefur fram að þessu ekki truflað svo mikið líf hennar og hún er trúuð. Það er ekki fyrr en hún eignast vinkonu í vinnunni á leikskólanum að hún finnur að hún er ófrjáls, hún má ekki eignast vini utan safnaðarins, þeir eru verkfæri Satans. Og svo er eins og hennar heimur hrynji. Það er margt að gerast samtímis, vinur hennar veikist og er við dauðans dyr af því blóðgjöf er forboðinn í heimi Votta, hún verður ástfangin og hún fær fréttir af atvikum tengdum dauða móður sinnar fyrir 6 árum. Hún veit að ef hún yfirgefur söfnuðinn mun henni verða afneitað. Hún elskar föður sinn og systur og hún er ráðvillt og örvæntingarfull.
Mér fannst merkilegt að lesa þessa bók, hún sýnir manni inn í óþekktan heim. Inn í heim sem er svo prívat og falinn að það er næstum eins og að liggja á gægjum að kíkja þangað inn. Ég hef ,,þekkt" Votta, bjó með þeim í húsi í nokkur ár, ég vissi að þeirra heimsmynd var önnur en mín og ég virti það. En mig grunaði ekki þetta með kúgunina og útskúfunina, þessa miklu grimmd. Ég trúi höfundi þessarar bókar, ég er einhvern veginn viss um að hún veit hvað hún er að tala um. Hún sannfærði mig um hugmyndaheim þessa safnaðar, aftur á móti var ég ekki alltaf sannfærð um að sú mynd sem hún begður upp af lífi unglinganna sé sannferðug. Það væri gaman að heyra um það frá þeim.
En ég held að þetta sé ekki bara bók um Votta. Ég held að þessi bók hafi miklu víðari skírskotun, hún fjallar um það að vera ,,öðru vísi" og einnig og ekki síður um hitt að ætla sér að lifa utan við heiminn, einungis eftir eigin reglum og á eigin forsendum. Og allt í einu fór ég að hugsa um okkar litla Ísland sem heldur að það geti staðið utan við heiminn en þá er ég kannski farin að teygja líkinguna dálítið langt. Og þó.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.11.2013 | 13:22
Flís af tánögl: Gullfóturinn 1972 var 0,00830471 g
Þegar ég fór til Óslóar til náms i sérkennslu haustið 1971 skildi ég eftir skuld hjá kaupmanninum á horninu. Sá hét Sigurjón Sigurðsson og hann rak Örnólf sem var óvenjuleg búð á þessum tíma, í henni fékkst allt og hún var nær alltaf opin. Þar fékkst meira að segja mjólk en mjólk mátti einungis selja í mjólkurbúðum í þá daga. Þar var einnig hægt að kaupa kjöt og prjónavörur en slíkt mátti aldrei selja í sömu búð. En ég ætla ekki að tala um reglugerð Reykjavíkur um sölubúðir, heldur skuldalistann sem ég skildi eftir, sem var þó alls enginn hali.
Ég hafði nokkrar áhyggjur af þessu þegar ég fór og líka úti og þegar ég kom heim var eitt af minum fyrstu verkum að fara í Örnólf til að borga. Á þessum tíma var óðaverðbólga, meiri en nú og ég bauðst til að bæta úr því með að borga verðbætur (það orð kunni ég þó ekki þá svo ég hef sagt eitthvað sem þýddi það sama). ,,Það er bókhaldslega ekki hægt" sagði Sigurjón og skuldin var gerð upp eins og hún stóð.
Allt þetta rifjaðist upp þegar ég fór að reyna að reikna út skuldaleiðréttinguna þegar ég var að skokka. Skyldi hún vera bókhaldslega framkvæmanleg? Og hvað tapaði Sigurjón mikið á mér 1972? Ég leitaði fanga í Ársskýrslu Seðlabankans frá 1972, einstaklega skemmtileg lesning. Það er verið að tala um það sama og nú, en orðfærið og áherslurnar eru aðrar. Það er mikið talað um útflutning versus innflutning og um gengisfellingu en lítið um verðbólguna sem slíka. En það er talað um gullfótinn, það fannst mér lang mest spennandi. Gullfóturinn var þá 0,00830471 grömm af skýra gulli miðað við krónu. Þá veit ég það. Þannig var það 1972 en hvað skyldi hann vega núna?
Það hefur vafist fyrir mér (og sjálfsagt) fleirum að skilja háar tölur, þegar upphæðirnar skipta tugum og hundruðum miljarða en nú sé ég að lágu tölurnar eru ekki síður snúnar. Hvað skyldi nú 0,0083071 vera stór flís af nögl? Og hvað er þessi flís þá stór núna? Er kannski enginn fótur undir krónunni ? Og hvernig verður þetta með skuldaleiðréttinguna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2013 | 21:36
Marcoeffekten: Heimsósómaglæpasaga, morð og ofbeldi
Var að ljúka við fyrstu glæpasöguna sem ég hef lesið eftir Jussi-Adler-Olsen og sannaði fyrir sjálfri mér, sem ég reyndar vissi áður, að þessar bækur eru ekki fyrir mig. Ástæðan fyrir því að ég las bók, sem ég vissi að var ekki fyrir mig, var að mig langaði til að nýta mér hina ágætu þjónustu Norræna bókasafnsins að lána bækur rafrænt. Bókin, sem er dönsk, var að vísu á sænsku.
Bókin er um glæpi, græðgi og spilllingu. Glæpaklíkur stýra betli a götum Kaupmannahafnar, starfsmenn þróunarhjálpar stela og svífast einskis, milliliðir mata krókinn og fyrrum barnahermenn henta vel til endurnýtingar fyrir hvern sem borgar. Þvi miður er efniviðurinn kunnuglegur en það er smurt á. Aðalpersóna bókarinnar er síður en svo aðlaðandi, vakti andúð mína. Barnalegur, pirraður og algjörlega menningarsnauður en þó væminn.
Þó er þrennt sem gerir þessa bók læsilega.
1. Einstæðingurinn, vegabréfslausi og föðurlandslausi Marco sem er hetja bókarinnar. Hann slítur sig lausan frá kúgurum sínum og berst við ofurefli um leið og hann reynir að verða eðlilegur maður. Reyndar er það sem hann er að fást við ofurmannlegt.
2. Lýsingar höfundar á Kaupmannahöfn eru frábærar, borgin Kaupmannahöfn er önnur best dregna persóna sögunnar. Hún lífnar við.
3. Þessi höfundur kann svo sannarlega að skapa spennu.
Niðurstaða og lokaorð. Mér leiddist bókin. Of mikið ofbeldi og of langdregnar spennuþrungnar senur. Og svo þetta stöðuga þras og ónot milli samstarfsfólks.
En kannski er ég ekki sanngjörn. Þessi bók er 5. bókin í röð bóka um deild Q innan dönsku lögreglunnar og líklega er þetta eins og í öðrum seríubókum, þær eru í raun framhaldsglæpasögur og það þarf að byrja fremst, því þannig kynnist maður persónunum og aðstæðum. Konan í búrinu er hér í bókaskápnum og nú er spurinng hvort ég freistist til að lesa hana, þó þessi höfundur sé ekki fyrir mig...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2013 | 17:52
Með ekkert í eyrunum
Ég hef tekið eftir að flest fólk er með eitthvað i eyrunum þegar það skokkar og velti því jafnvel fyrir mér að kaupa mér haganlegt tæki til að hlusta á. Og gerði tilraun. Þá fyrst gerði ég mér grein fyrir að það sem mér finnst ánægjulegast við að skokka er að vera ein með sjálfri mér, í eigin heimi. Hann er skemmtilegri en mig grunaði, ég er stöðugt að uppgötva eitthvað nýtt sem kemur mér á óvart:
Dæmi: Það er einn ákveðinn kafli á leið minni sem ég kvíði alltaf fyrir. Þetta er á Suðurlandsbraut, spottinn milli Kringlumýrarbrautar og Reykjavegar. Þegar þangað er komið er ég búin að skokka rúmlega 4 km og þetta er aðeins á fótinn. Aðeins tvisvar hefur mér ekki leiðst. Annað skiptið var þegar ég heyrði að einhver var rétt á eftir mér og mér datt allt í einu í hug að ég skildi ekki láta hann fara fram úr mér og jók hraðann. Bilið hélst og ég var að niðurlotum komin, loks alveg upp við ljósin á Reykjavegi seig hann fram úr. Leggjalangur karlmaður á besta aldri, ég meina ungur. Ég upplifði þetta frekar sem sigur en tap og tók eftir að mér hafði bara ekkert leiðst þessi annars erfiðasti kafli skokksins.
Í hitt skiptið sem mér leiddist ekki þessi spölur í var gær. Allt i einu var ég komin alla leið án þess að hafa leitt hugann að því hvar ég var og án þess að hafa hugsað allar vanahugsanirnar, þetta verður leiðinlegt, ætlar þetta aldrei að enda, af hverju er ég eiginlega að þessu, gömul kona? Ég hafði verið að hugsa um pólitík, hvernig skyldi nú þetta fara með endurgreiðsluna til skuldsettra heimila. Hverjir myndu græða og hverjir myndu bera kostnaðinn? Ég reyndi að reikna dæmið en gerði mér þá grein fyrir að ég kunni ekki að reikna dæmi með svo mörgum óþekktum stærðum. Gafst upp og ákvað að hugsa frekar um hvað mér þætti réttlátt.
Um það ætla ég ekki að fjalla hér, þá er ég kominn út fyrir bloggrammann. Það sem ég ætlaði að leiða líkur að með þessum litla pistli er tvennt. Það er alveg óþarfi að gefa sér að eitthvað sé leiðinlegt og..... pólitík er beinlínis skemmtileg, svona þegar hún laumast inn í huga manns án þess að maður taki eftir því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2013 | 15:20
Það felllur ekki á gull: Dagur íslenskrar tungu
Á degi íslenskrar tungu ætla ég að hugsa málið og hugsa um málið. Reyndar hugsa ég mikið um málið. kannski meira en ég hugsa málið eða málin. Mér finnst málið þjást af verðbólgu og hún rýrir gildi þess. Einhverjum dettur í hug að krydda mál sitt, leggja áherslu á það sem hann vill segja með því að bæta við forskeyti eða setja orðið í nýtt samhengi. Það er gott svona einu sinni eða tvisvar en svo apa aparnir eftir og ,,snjallyrðið" verður klisja, tugga. Af hverju talar fólk stöðugt um nýsköpun en ekki sköpun. Er ekki öll sköpun ný? Guð lét sér jú bara nægja að skapa heiminn, hann nýskapaði hann ekki. Af hverju tala menn nú allt í einu allir um regluverk en ekki bara reglur? Og gera menn sér enga grein fyrir að það er ekkert frumlegt lengur að berja augum og það á bara alls ekki við nema stundum að segja að einhver stígi á stokk. Ég tala nú ekki um að leiða saman hesta sína, hvað eftir annað hef ég séð notað um fólk sem ætlar að vinna saman, en orðtakið er um allt annað. Og hvernig í ósköpunum dettur fólki í hug að nota orð eins og púðursnjór þegar við eiga hið undurfagra orð lausamjöll?
Reyndar veit ég að það er margt fólk sem vandar mál sitt, það er allt of lítið um það rætt en ég tek eftir því. Það eru líka margir sem hafa mikinn áhuga á málrækt. Oft sé ég talað um máræktarfólk af vanvirðingu, það fær á sig stimpla svo sem málfarsfasistar og þaðan af verra. En það skaðar engan, góður málstaður stendur alltaf með manni og mér verður hugsað til gamla kennarans míns Oddnýjar Guðmundsdóttur rithöfundar sem skrifaði málfarspistla í Þjóðviljann. Það fellur ekki á gull hefði Oddný sagt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.11.2013 | 23:55
Árið sem tvær mínútur bættust við tímann: Rachel Joyce
Nú hef ég lokið lestri á bók sem heitir Árið sem tvær mínútur bættust við tímann. Hún er eftir Rachel Joyce en hún er líka höfundur Hinnar ótrúlegu pílagrímsgöngu Harolds Fry, sem kom út í fyrra sem sló aldeilis í gegn um allan heim. Báðar þessar bækur hafa notið mikilla vinsælda, líklega vegna þess að höfundur slær einhvern tón sem kallar fram notalegheit og vellíðan. Það hafði ég að minnsta kosti lesið mér til um áður en ég tók bókina mér í hönd.
Eiginlega eru þetta tvær sögur sagðar nokkurn veginn samtímis. Annars vegar er sagt frá drengnum Byron sem býr hjá fölskyldu sinni í georgísku húsi, einhvers konar setri. Faðir hans vinnur í London en móðir hans sér um hús og börn. En það er samt faðirinn sem ræður ríkjum, hann segir til um hvernig allt á að vera. Þessi saga segir fyrst og fremst frá einu sumri 1972 og þá er Bryan 13 ára. Hin sagan sem er sögð samtímis er um Jim, sem býr einn í húsbíl úti á heiði þó ekki lengra í burtu frá þéttbýlinu að hann gengur til vinnu sinnar þar sem hlutverk hans er að þurrka af borðum í kaffihúsi stórmarkaðar. Jim er stöðugt að reyna að verja sig gegn því að eitthvað hræðilegt hendi og hann gerir það með því að framkvæma einhvers konar,,ritúöl" sem eiga að tryggja öryggi hans, hann heilsar öllu sem hann á í húsvagninum tvisvar, hann lokar ekki bara vagninum þegar hann kemur inn, heldur þéttir hann allar glufur með einangrunarlímbandi og fleira og fleira. Sagan um Jim gerait í nútímanum, nú hafa farsímar komið til sögunnar. Eftir því sem sögunni vindur fram, fær lesandinn að vita harmleik fjölskyldu Byrons á sveitasetrinu og við kynnumst fólkinu í lífi Jims. Í lok bókarinnar fáum við að vitta hvernig þessir tveir menn í tengjast og hvað þeir eiga sameiginlegt.
Það eru margar áhugaverðar persónur í þessari bók, við kynnumst þeim reyndar einungis út frá sjónarhorni annars vegar Byrons og hins vegar Jims. Þetta er lipurlega skrifuð bók og bygging hennar er hugvitssamlega gerð. Stundum þegar ég les bækur eins og þessa fer ég að hugsa þetta er höfundur sem hefur farið í langt ritunarnám í háskóla. Ég held að sú hugsun spretti af einhverri óskýrri mynd af því að það vanti eitthvað, ég veit ekki hvað.
Þetta er falleg bók sem gott er að hafa í hendi. Hún er kaflaskipt og hverjum kafla fylgir lítil falleg mynd sem er táknræn fyrir innihald kaflans. Reyndar las ég söguna að hluta til í rafrænu formi á ensku. Það gerði ég til að hvíla augun því sjónin er farin að gefa sig. Ég saknaði þó bókarinnar allan tímann en þetta leiddi þó til þess að ég átti betra með að leggja mat á þýðinguna. Bókin sem heitir Perfect á ensku er þýdd af Ingunni Snædal. Texti hennar er afar fallegur hún er góð íslenskukona og hittir hinn rétta tón fyrir þessa bók.
Þegar ég hafði lokið við Vonin blíð, eftir Heinesen, leið mér eins og ég ímynda mér að fólki líði sem fær svo kölluð fráhvarfseinkenni. Mér leið ekki alveg vel, mig langaði að fara aftur inn í bókina og vera þar, ég var með heimþrá til Færeyja og 17. aldarinnar. Nú þegar ég hef lokið við bókina Árið sem tvær mínútur bættust við tímann, líður mér ágætlega ég sakna hennar ekkert. Hún er búin.
Bloggar | Breytt 16.11.2013 kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2013 | 19:20
Hverju höfum við efni á?
Í umræðu undanfarinna daga um hverju við höfum við efni á, verður mér hugsað til orða séra Jakobs Jónssonar sem hann lét falla í harðvítugri deilu um hvort VIÐ hefðum efni á að setja klukkur í turn Hallgrímskirkju sem nýlega var búið að reisa. Þá eins og nú (og kannsski enn frekar) voru margir sem stóðu höllum fæti í samfélaginu og höfðu lítið á milli handanna. Ekki man ég hvar þessi orð birtust en ég tók eftir þeim og þau breyttu hugsun minni. Reyndar vissi ég eins og allir að Jakob hafði samúð með lítilmögnum og því komu orð hans mér á óvart.
Hann lagði út af Biblíunni og vitnaði í orð sem Kristur lét falla þegar konan í húsi Símonar líkþráa brúkaði hin dýru alabasturssmyrsl til að hella yfir meistara sinn. Lærisveinarnir urðu gramir og spurðu:Til hvers er þessi sóun? Þetta hefði mátt selja dýru verði og gefa fátækum. Það var þá sem Jesús lét hin fleygu orð falla.FÁTÆKA HAFIÐ ÞIÐ JAFNAN HJÁ YKKUR EN MIG EKKI ÁVALLT.
Nú vil ég taka það fram til að koma í veg fyrir misskilning að ég er ekki trúuð kona og pólitískt séð stend ég með þeim sem minna mega sín. En einhvern veginn kemur umræðan um klukkurnar í Hallgrímskirkju alltaf upp í hugann þegar rætt er um hvað VIÐ höfum efni á. Og enn klingja þær í höfði mér klukkurnar hans séra Jakobs, nú þegar svo mikið er rætt um menningarmálin. Reyndar oftast af fólki sem virðist hafa efni á öllu mögulegu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2013 | 23:23
Við erum öll á leiðinni frá Auschwitz
Ég hef nýlega lokið við að lesa bók eftir sænska rithöfundinn og fjölmiðlamanninn Göran Rosenberg. Hún heitir Ett kort uppehåll på vägen från Auschwitz og fjallar um föður hans. Í raun er hann að reyna að nálgast föður sinn sem er látinn, til að reyna að skilja hann og örlög hans og um leið sjálfan sig. Til að kynnast föður sínum skoðar sonurinn vegferð hans. Bókin er skrifuð sem eintal sonar við föður, það er næstum eins og þeir séu á göngu saman.
Faðir hans var einn af þessum sem var svo "heppinn" að lifa Auschwitz af. Hann var sem unglingur einn af þeim sem var lokaður inni í gettóinu í Lodz og fjölskyldan hans var í síðasta "farminum" til Auschwitz. Hann og bróðir hans lifðu af af því þeir voru verðmætir sem vinnuafl en það var mjótt á munum. Faðirinn endar síðan í Svíþjóð fyrir röð tilviljana. Svíþjoð er í uppsving og vantar vinnuafl. Hann fær til sín æsku- eða á maður að segja unglingsástina sína sem lifir Auschwitz einnig af. Þessi bók er ekki um hana, hún er helguð föðurnum, sonurinn reynir að rekja slóð hans frá Auschwitz , fara í sporin hans ef svo mætti segja. Hann hefur þessa þörf því það er svo margt sem hann ekki veit og ekki skilur. Það hefur ekki verið rætt á heimilinu um það sem foreldrar hans gengu í gegn- um. Þau reyna að horfa ekki um öxl og einbeita sér að lífinu í nýja landinu. Faðir hans hefur góða vinnu og reyndar móðir hans líka en það er eitthvað sem ekki er eins og það ætti að vera. Loks tekur hans sitt eigið líf.
Þetta er merkileg bók, hún er í senn fræðandi og afhjúpandi. Hún fjallar um það sem fólk er megnugt að gera öðru fólki. Hún fjallar um líf sem glatast.
Ég hef lesið margar frásagnir um Helförina en þessi var á einhvern hátt sérstök, líklega vegna þess að maður skynjaði allan tímann viðkvæmni ungs drengs sem ekki nær að ljúka samtali við föður sinn. Frásagan um lífið í Lodz var í óþægilega miklu samræmi við sögu sem ég hef áður lesið eftir Steve Sem-Sandberg De fattiga i Lódz en það gerir bókina bara enn betri. Enn á ný birtist hinn umdeildi Mordechai Chaim Rumkowski, hvað gerir fólk þegar það þarf að velja á milli tveggja afarkosta? Frásögnin af því þegar samið var um að framselja börn, gamalmenni og sjúka er hræðileg. Kannski aðallega vegna þess að þetta gerðist í raun.
Það e nokkuð um liðið síðan ég las þessa bók en ég hef átt erfitt með að festa eitthvað á blað um hana. Líklega vegna þess að hún gekk nærri mér. En nú þegar margir minnast kristallnæturinnar, eins konar upphafs Gyðingaofsókna, fannst mér best að láta þetta frá mér. Þetta er bók sem skilur mikið eftir og þá kannski ekki síst það að við þurfum að vera á verði. Það voru nefnilega miklu fleiri þátttakendur í Helförinni en við kærum okkur um að vita og það er margt í nútíma okkar sem við verðum að horfast í augu við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.11.2013 | 19:27
Spillt stjórnarfar: Færeyjar 17. aldar í boði Heinesen
Var að ljúka við að lesa VONIN BLÍÐ eftir Heinesen. Hún kom út 1964 og var snúið á íslensku 1970 af Magnúsi Jochumssyni og Elíasi Mar. Ég hef ekki lesið þessa bók áður, hún hefur einhvern veginn orðið afgangs þegar ég "datt í" Heinesen á sínum tíma eftir að ég vikudvöl í Þórshöfn. Heinesen fékk norrænu bókmenntaverðlaunin fyrir þessa bók (deildi þeim með Olof Lagercrantz).
Rammi sögunnar er skýr og á vissan hátt þröngur. Frásagan er í bréfaformi, presturinn og magisterinn Peder Börresen skrifar vini sínum og sálusorgara bréf þar sem hann greinir frá lífinu í Þórshöfn. Fyrsta bréfið er skrifað 7. apríl 1669 um borð í, Jómfrúnni, skipinu sem flytur hann til Þórshafnar og það síðasta er dagsett 8. júlí 1670.
Presturinn hefur vegna starfa síns aðgang að vettvangi allra, hárra sem lágra. Það leynir sér ekki af frásögninni að hjarta hans slær með fátæklingum og framferði valdastéttarinnar hneykslar hann, enda er hún gjörspillt. Sagan lýsir aldarfari og raunverulegum atburðum. Á þessum tíma ræður Christoffer Gabel lögum og lofum í Færeyjum, hann hefur eyjarnar að léni frá Friðriki 3. og hefur raðað í kringum sig sínum líkum, mönnum sem svífast einskis og misnota vald sitt. Fátæklingarnir eru ofurseldir kúgun, grimmd og girnd þessara manna og kannski ekki síður því fádæma mannfjandsamlega, trúarlega hugarfari sem var ríkjandi innan kirkjunnar. Allt helst þetta í hendur. Meðan á lestrinum um stendur er ég stöðugt að bera ástandið i Færeyjum saman við ástandið hér á landi, þ.s ég ber það saman við þá mynd sem hefur prentast inn i mig í gegnum söguna og kannski ekki síst i gegnum sögulegar skáldsögur. Þetta eru nokkurn veginn tímar Jóns lærða og öríitið á undan því sem lýst er í Íslandsklukku Laxness. Einhvern veginn hef ég það á tilfinningunni að Höfn (Þórshöfn) hafi verið meiri "stórborg" en Reykjavík þeirra tíma og að Færeyjar hafi verið enn meira undir hælnum á Dönum en Ísland var. Við eigum að minnsta kosti ekki eins krassandi sögur af kráarlífi, drykkjuskap og hórdómi nema ef vera skyldu fylliríin á Magnúsi í Bræðratungu og ekki sögur af setuliði fyrr en löngu síðar. Reyndar minnir mig að fyllerí Magnúsar í Bræðratungu hafi tengst Eyrarbakka en ekki Reykjavík.
Mér varð líka við lestur bókarinnar hugsað til annars rithöfundar sem nýlega var í fréttum (fékk sömu verðlaun og Heinesen) þ.e. Kim Leine og skrifum hans um kollega Peders í Profeterna i Evighetsfjorden Þessi saga gerist í enn annarri nýlendu Dana, Grænlandi. Kim Leine er ekki eins knappur í forminu en óneitanlega eru karakterarnir llíkir.
Það var gaman að lesa þessa bók og nú langar mig að lesa mér meira til um færeyska sögu og fara aftur til Þórshafnar. En auðvitað fjalla allar sögur að einhverju leyti og kannski fyrst og fremst um okkur sjálf og okkar tíma. Það er það sem gerir þær svo hrífandi. Ef Heinesen hefði t.d. skrifað þessa bók í dag þá væri auðvelt að skoða hana í ljósi HRUNSINS. En andstætt íslenskum fátæklingarnir (nú sem fyrr) standa fátæklingarnir í bók Heinesen ekki með valdstéttinni og óréttlátu dómskerfi. Þeir veita andóf.
Ég hlakka til að ræða þessa bók við stöllur mínar í lestrarfélaginu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.7.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 45
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 32
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar