Kertin brenna niður: Ekki öll gömul gildi, góð gildi

Bókin Kertin brenna niður kemur út árið sem ég fæðist 1942 í Ungverjalandi, hún er skrifuð meðan styrjöldin geisar af manni að nafni Sándor Márai sem sjálfur hefur upplifað aðra grimma styrjöld. Þegar ég hóf lestur bókarinnar hafði ég einhverjar væntingar um að bókin færði mér einhvers konar skilaboð eða uppgjör við stríð. Sándor Márai er fæddur í austurrísk- ungverska keisaradæminu, hann var af saxneskum uppruna en móðir hans var ungverskmælandi. Hann tilheyrði efna- og yfirstétt þess tíma og vann sem blaðamaður og rithöfundur. Hann kaus að skrifa á ungversku en skrifaði einnig á þýsku. Fæðingarstaður hans er nú í Slóvakíu. Hann kaus að búsetja sig í Ungverjalandi en flutti síðan úr landi vegna yfirtöku kommúnista.

En aftur að bókinni. Sögusvið bókarinnar er Miðevrópa á blómatíma austurríska- ungverska keisaradæmisins. Hún segir frá því þegar gamall maður sem býr í höll býður til sín æskuvini sínum sem hann hefur ekki séð í 40 ár. Í kringum þetta rifjar húsráðandi, sem er fyrrverandi hershöfðingi, upp æsku sína og þó einkum vináttu sína við gest sinn. Þeir eru báðir fæddir á síðari hluta 19. aldar og höfðu kynnst í herskólanum í Vín sem ungir drengir og verið óaðskiljanlegir öll æskuárin. Sagan er eitt samfellt samtal en það er eiginlega bara einn sem talar, hershöfðinginn og gestgjafinn, því væri kannski nær að kalla þetta einræðu. Ræða hans fjallar um vináttu, karlmennsku, ást og um hugsanleg svik.

Það hafði verið mikill aðstöðumunur hjá þessum tveimur drengjum, sonur lífvarðarforingjans, hershöfðinginn er efnaður, vinurinn pólskur fátæklingur. Sonur lífvarðarforingjans þarfnast vinar, því hann er veikbyggður og lasinn og það er honum lífsspursmál að eignast vin. Fátæki pólski drengurinn græðir á þessu, eða það gæti maður haldið. En hann er ekki bara fátækur, hann er með sérgáfu í tónlist sem er um leið veikleiki hans. Hvað er slíkur maður að gera í herskóla? En þegar þeir sitja sem gamlir menn í höll hershöfðingjans er fátt sem minnir á litla veika drenginn, það er eins og það sé komin allt önnur persóna til sögunnar.

En það er trúlega til lítils að segja þessa sögu því það er ekki sagan sjálf heldur stíllinn og hvernig hún er sögð sem skapar galdurinn. Langar og nákvæmar lýsingar á umhverfi einkenna söguna. Það er ekki atburðarásin sem skiptir máli í sjálfu sér heldur hugmyndir sögumannsins um gömul gildi, vináttu, karlmennsku, ást og tryggð.

Satt best að segja hrökk ég oft við vegna þessara gömlu gilda. Ég gat ekki betur séð en að rasismi í einhverju fegruðu formi og kvenfyrirlitning væru veigamiklir þættir þessa gildismats. En auðvitað er þetta gamall maður og barn síns tíma en hvergi örlaði á gagnrýnni afstöðu höfundar, að mér fannst.

Það hefnir sín greinilega að hefja lestur bókar á fölskum forsendum. Gamli maðurinn í bókinni saknaði ekki bara æsku sinnar, vináttu og ástar, sem honum fannst hann vera svikinn um, heldur saknaði hann fyrst og fremst horfins heims, stórveldis austurríska-ungverska keisaradæmisins. Einhvers staðar las ég að það hefðu fallið 20 milljón manns í í fyrri heimstyrjöldinni og 62 milljónir í þeirri síðari (það er deilt um þessar tölur og enginn mun nokkurn tíma vita hversu margir dóu). Það er ekki nema eðlilegt að ég hugleiði að maður sem upplifði slíkt myndi segja eitthvað gegn stríði.

Ég geng út frá því að höfundur sé að einhverju leyti að segja sögu síns fólk, sína sögu og minnir mig á annan mann sem ég las mér til mikillar ánægju á sínum tíma; Elías Canetti. Hann er líka að segja frá horfnum heimi þjóðahrærunnar í Evrópu á tímum keisaradæmisins. En frásaga Canettis fékk mig aldrei til að hrökkva við vegna þess að yfirstéttadramb þessa tíma gengi fram af mér.

En þetta er sem sagt afar vinsæl saga sem hefur fengið lof virtra gagnrýnenda út um allan heim. Hjalti Kristgeirsson færir okkur þessa sögu og snýr henni á íslensku. Hvernig gat þessi bók farið fram hjá mér þegar hún kom út hér árið 2005? Mér fannst orðfærið á bókinni stirt og kenndi það þýðingunni. Það er alltaf vandi hvernig á að flytja skáldverk sem er ort á tungumáli sem hefur aðra byggingu yfir á annað mál. Ég sé að Hjalti hefur verið tilnefndur til þýðingarverðlaunanna fyrir einmitt þessa bók.

 Er eitthvað að mér?

En það eru margir gullmolar í þessari bók, þeir fóru ekki fram hjá mér. Samtal fóstrunnar og hershöfðingjans er sláandi: "Hvað viltu þessum manni? Spurði fóstran. - Fá fram sannleikann, sagði hershöfðinginn. Sannleikann þekkir þú sjálfur (segir fóstran). Nei ég þekki hann ekki segir hershöfðinginn. ... Víst þekkir þú staðreyndirnar, sagði fóstran...Staðreyndir eru ekki sama og sannleikur svaraði hershöfðinginn". Fóstran er yfir nírætt og hershöfðinginn er yfir sjötugt þegar þetta samtal fer fram. Það er líklega út í hött að vera að ergja sig á íhaldssemi og forstokkuðu gildismati. Svona var Evrópa þessa tíma. Hefur eitthvað breyst?


Loksins bók fyrir karlmenn um karlmenn

Ef ég væri ekki í félagsskap stallsystra minna í lestrarfélaginu myndi ég trúlega einangrast í því að lesa Biblíuna og þýskar glæpasögur. Þessi sérviskulegi lestur hefur verið frekar einmanalegur, svo ekki sé meira sagt en þetta hefst af því að setja sér markið. Við konurnar í lestrarfélagi settum okkur fyrir að lesa 3 bækur fyrir 11. desember og nú er ég búin með eina, og ekki af verri endanum.

Ást í meinum eftir Rúnar Helga Vignisson er safn smásaga (15 sögur), reyndar stendur á bókarkápu að hér sé um sögusveig að ræða. Það mun þýða að sögurnar tengist og myndi einhvers konar heild. Ég hef alltaf átt svolítið erfitt með að lesa smásögur sem er merkilegt því mér finnst smásögur vera merkilegt fyrirbæri. Eg dreg það oft í lengstu lög að lesa þær því mér finnst þær vera áleitnar/ágengnar og er hrædd við að þær skapi hjá mér óþeglegt hugarrót, jafnvel þótt þær séu góðar og kannski einmitt þess vegna.

 En ég renndi mér sem sagt í að lesa Ást í meinum til að gera skyldu mína gagnvart stöllum mínum. Og hún var akkúrat eins og ég hafði búist við, sögurnar voru ágengar, undurfurðulegar og skildu eftir skrýtnar kenndir en þær voru spennandi svo það var erfitt að leggja bókina frá sér.

Sögurnar fjalla flestar um samskipti fólks og væntingar. Það sló mig hversu viðbrögð fólksins í sögunum eru óhuggulega hófstillt þegar kemur í ljós að væntingarnar skila sér ekki út í raunveruleikann. Fólkið í bókinni virðist hvorki vera  vonsvikið eða biturt. Það er eins og það hafi einhvern veginn misst eignleikann til að vona. Það býst svo sem ekki við neinu. Og núna þegar ég er að skrifa þetta finnst mér að það sé einmitt svona sem við bregðumst við sárindum, frekar en með tárum eða gauragangi

Mér fannst þetta vera bók um karlmenn. Reyndar fjallar hún að sjálfsögðu líka um konur en ég man ekki til að ég hafi áður svona vel fjallað um tilfinningalíf karlmanna. Sögurnar gerast í nútímanum og ég hafði á tilfinningunni að það væri verið að tala um fólk sem ég þekki eða myndi gæti rekist á næst þegar ég fer eitthvað út og ég kem til með að horfa í kringum mig og svipast um eftir því.

Ég las sögurnar af svo miklum ákafa og gleymdi að skyggnast eftir því hvernig þær raðast í þennan fræga sagnasveig, var að hugsa um að renna í gegnum þær upp á nýtt en nennti því svo ekki enda á ég eftir að ræða um sögurnar sveiginn við stöllur mínar og þær leiða mig þá vonandi í allan sannleikann.

Þetta er góð bók og hún snart mig. Kannski er hún alls ekki fyrst og fremst um karlmenn. Kannski eru karlmenn ekki eins ólíkir konum og oft er látið.


Kvöl og pína í Hörpu síðastliðinn fimmtudag

Það er ekki ónýtt fyrir konu sem er nýbúin að lesa Guðspjöllin að fá að hlusta á sinfóníuhljómsveitina flytja Krist á Olíufjallinu eftir Beethoven. Ég hafði aldrei heyrt þetta verk áður vissi ekki að það væri til svo það kom mér á óvart. Þetta er órartóría með þremur einsöngvurum. Textinn sem er á þýsku segir frá örvæntingu Krists. Hann talar við Guð almáttugan og biður hann að taka þennan kaleik frá sér en bæti svo við þessari mögnuðu setningu:Þó ekki sem ég vil heldur sem þú vilt.

Ég sakna dálítið að hafa ekki með frásögnina af því þegar hann kom að lærisveinunum sofandi og þegar Pétur missti kjarkinn og afneitaði honum, ekki bara einu sinni.

En líklega hefði þetta ekki passað inn í þann ramma sem verkinu var settur því það er upphafið, fullt af kvöl og pínu. Mér virtist flytjendur standa sig vel í að koma þessu magnaða og sérstaka verki til skila. En þar sem ég var á 1. bekk hafði ég ekki góða yfirsýn yfir sviðið og þótti það miður. Sérstaklega fannst mér vont að sjá ekki kórinn en á móti kom að ég sá og heyrði einsöngvarana frábærlega. Sveinn Dúa Hjörleifsson sem fór með hlutverk Krists hefur afar fallega rödd en hann virðist einnig hafa mikla leikhæfileika. Mér fannst merkilegt að sjá þennan uppáklædda mann nánast breytast fyrir augunum á mér í örvæntingarfullan og þjáðan mann sem gerir það upp við sig að hann ætlar að drekka þann bikar í botn sem er að honum réttur.


Af Bilíulestri

Nú hef ég fyrir nokkru lokið við Guðspjöllin og er komin áleiðis inn í Postulasöguna. Ég hafði hlakkað talsvert til að ljúka Gamla Testamentinu og komast í það nýja, því þá væri ég kunnugri og það stæði nær mér, sem á það sameiginlegt með öðrum Vesturlandabúum að vera alin upp í kristni. Og vissulega reyndist mér það léttari lesning en ég er ekki viss um að það hafi verið skemmtilegri lestur en GT, sem kom mér stöðugt á óvart.

Það sem mér fannst merkilegast við að lesa Guðspjöllin er að lesa sömu söguna sagða af fjórum sögumönnum. Þeir fyrstu þrír segja söguna nokkuð samróma en sá fjórði Jóhannes segir hana einhvern veginn í annarri tóntegund. Það er óhjákvæmilegt að maður fari ósjáfrátt að bera saman einstakar frásagnir og jafnvel velti fyrir sér hver þeirra sé best. Ég reyni þó að stilla mig um það. Í fyrsta lagi er það tímfrekt og í öðru lagi eru sjáfsagt margir búnir að vinna þá vinnu og ef mig langaði í alvöru samanburð þá myndi ég leita uppi bók um efnið. En það ætla ég ekki að gera, það eru svo margar bækur ólesnar.

En nú er ég sem sagt að lesa söguna um útbreiðslu kristinnar trúar eftir daga Krists, það sem oft er talað um sem frumkristni. Þetta hafa verið merkilegir tímar og minna mig svolítið andrúmsloftið í kringum 68, þegar ungt fólk trúði því að það vari hægt að breyta heiminum og það væri þeirra, okkar. Satt best að segja trúi ég því enn.


Pukehornet - Púkahornið, listin að deyja á réttum stað

220px-Kerstin_Ekman_2011

Þegar ég hafði ákveðið að lesa bækur Kerstin Ekman í heild sinni og nú í réttri röð, fannst Pukehornið ekki á íslenskum söfnum (samkvæmt Gegni). Nema á þýsku. Mér fannst þetta merkilegt en lagði ekki í þýskuna en nú hefur Norræna húsið bætt úr þessu.

Ég hélt að ég væri að lesa síðustu glæpasögu Ekman en málið er kannski ekki alveg svo einfalt. Það er vissulega lík í þessari bók og talvert um drykkjuskap og glæpi en það er ekki undir sömu formerkjum og ég er vön úr glæpasögum en þetta tilheyrir umhverfi bókarinnar allt nema líkið.

Sagan gerist í Uppsölum á 6. eða 7. áratug síðustu aldar í hverfinu Púkahornið sem er niðurnítt hverfi sem stendur til að rífa til að rýma fyrir nýjum byggingum. Það búa eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst fátæklingar en þessi saga er um örlög Ögdu Wallin sem á þarna eignir sem hún leigir frá sér. Agda er farin að eldast og hún er svo feit að hún er eiginlega hnöttótt og ef hún dettur þá getur hún ekki staðið upp.

Fyrri hluti sögunnar er sagður út frá sjónarhorni leigjandans Pär, sem býr hjá henni og aðstoðar hana, hann hafði ekki getað borgað leiguna. Síðari hlutinn er sagður af rithöfundi, konu sem leigir íbúðina á hæðinni fyrir ofan Ögdu. Pär er kynlegur kvistur og eiginlega ófær um að búa einhvers staðar annars staðar en í þessu hverfi en rithöfundurinn er menntakona sem á eiginlega ekki þar heima.

"Glæpurinn" verður til strax í upphafi sögunnar, Agda Walin dettur og getur ekki risið upp. Líklega hefur hún einfaldlega fengið heilablóðfall, svo það er ekki bara þyngdin sem hamlar henni. En Pär leynir dauða hennar og lætur eins og hún sé rúmliggjandi. Um þennan þykjustuleik snýst sagan og tvísýnin um hvort það takist og hvernig þetta muni eiginlega enda heldur spennunni í sögunni út í gegn.

Mér fannst þessi bók ekki síst áhugaverð vegna þess að á áttunda áratug síðustu aldar bjó ég í Uppsölum og sögusvið Púkahornsins (Petterslund) liggur ekki fjarri mínum gömlu heimaslóðum, Kvarngärdet. Það var reyndar þá ekki til lengur en ég sé það fyrir mér.

Mér fannst gaman að lesa þessa bók þótt ég væri eiginlega svikin um glæpinn. Ég fékk sögu af fátæklingum og fylliríjum í staðinn, allt er mjög samfærandi. Kerstin Ekman er snillingur í að láta mann halda að allt hafi verið nákvæmlega eins og hún segir, þ.e. í raunveruleikanum.

Reyndar tókst henni að koma mér að óvart alveg undir lokin


Vandlæting dagsins

Fór út að skokka og verið var ljúft, úðarigning og næstum logn. Það er allt of mikið gert að því að tala illa um veðrið. Veðrið er næstum alltaf betra en ég á von á miðað við umtalið.

Og af hverju eru veðurfréttamenn næstum hættir að tala um úrkomu, ofankoma skal það vera. Hvað er athugavert við úrkomu, er ekki rigningin góð?


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Nóv. 2012
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.7.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 84
  • Frá upphafi: 190487

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband