Um Torfhildi Hólm

290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6BTorfhildur Hólm

Ég hef verið óvenju kvefsækin þetta sumarið. Mér finnst orðatiltækið „kvefsækin“ ekki nógu gott, það er eins og það gefi í skyn að einstaklingurinn í, þessu tilviki ég, hafi sjálf og viljandi sótt mér þessar pestir. En svo var ekki. Þær réðust á mig.

Nóg um það. Pestir eru ekki alvondar ef þær eru í vægari kantinum. En það voru mínar. Ég gat lesið/hlustað.

 

Í þetta skipti varð Torfhildur Hólm fyrir valinu. Það var ekki félagsskapur af verri endanum.  

 Biskupar

Bækurnar  sem Torfhildur er þekktust fyrir eru  um biskupana Jón Arason og Brynjólf Sveinsson. Þetta eru sögulegar skáldsögur. Ég hef ekki hugmynd um hversu sannferðugar þær eru en ég trúi hverju orði. En það er einkenni góðra bóka að þær eru samfærandi. Biskupar þessa tíma voru voldugir enda var staða kirkjunnar þá önnur en nú.

Um Torfhildi

Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm var prestsdóttir, fædd á Kálfafellsstað í Skaptafellssýslu 1845. Að henni liggja stórar ættir. Það skýrir að einhverju leyti framgang hennar í lífinu. Grunnurinn var lagður heima á Kálfafellsstað. En 17 ára var hún send til Reykjavíkur til að læra hannyrðir og ensku. Hún fór einnig til Kaupmannahafnar. Hún giftist Jakobi Hólm verslunarstjóra á Hólanesi (nú Skagaströnd) en hann dó ári síðar. Þá fór hún til frænku sinnar og fluttist  síðan til Vesturheims og þar hófst rithöfundarferill hennar þegar hún skrifaði þar í blöð.

Til baka á Íslandi

Torfhildur Hólm  flutti til baka til Íslands og hélt skrifum sínum áfram. En ekki bara það, hún gaf einnig út tímarit, bæði Dvöl og Draupni. Hún var fyrst manna til að fá laun frá Alþingi.

Tímaritið Dvöl var til  heima hjá mér, pabbi hafði bundið það inn. Þetta var fyrsta tímaritið sem ég las og mér þótti mikið til þess koma. Mér er sérstaklega minnisstæð umræða um miðilsfundi.

Af hverju hvarf hún?

Það hefur ekki farið mikið fyrir Torfhildi í gegnum árin. Ég man ekki til þess að hún hafi komist á blað yfir listamenn  sem okkur var sett fyrir að lesa eða að um hana væri rætt. Þó voru bækur hennar til á mínu heimili. Þykkar, með smáu letri og óárennilegar. Ég man að ég hugsaði „Þær passa við nafnið“. Sveitabarnið, ég, þekkti vel til torfs í margvíslegum myndum. Nú finnast mér þær vera ljúfir rómanar. Ég held núna  að ástæðan fyrir því að þær rykféllu, sé að að þær féllu ekki að tíðarandanum. Þær fjalla um trú og siðgæði  með rómantísku ívafi, en ekki um frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar sem var þeirra tíma mál málanna.

Lokaorð

Torfhildur var gáfuð kona af góðum ættum. Ef hún hefði verið karlamaður hefði hún líklega orðið biskup. Á þessu græðum við, sem lesum/hlustum á bækurnar hennar.

Torfhildur lést 1918 í spönsku veikinni.   


Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov

0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1EGráu býflugurnar hans Kurkov

 

Þetta er önnur bókin sem ég hef lesið eftir Andrej Kurkov, sú fyrri var Dauðinn og mörgæsin. Báðar bækurnar eru þýddar af Áslaugu Agnarsdóttur. Þetta eru dásamlegar bækur, einkennast af öllu því sem einkennir góða bók. Þær eru skemmtilegar, spennandi og innihaldsríkar og fjalla um mann og náttúru.

En hér ætla ég að tala um síðari bókina,  Gráu býflugurnar.

Bókin gerist í Úkraníu og segir frá   býflugnabóndanum Sergej, sem var áður  öryggisvörður í kolanámum. Hann býr í úkaranísku sveitaþorpi sem allir hafa yfirgefið, nema hann og jafnaldri hans sem var þó engan veginn vinur eða kunningi þótt þeir væru bara tveir strákar í árgangi.Sergej var einu sinni giftur og á dóttur en konan fór frá honum. Nú snýst líf hans um býflugurnar og hunangið sem hann selur eða notar í vöruskiptum. Þær suða stöðugt og í fjarska suðar stríðið.

Það er dálítið einmanalegt að búa í yfirgefnu þorpi, svo hann freistast til að leggja upp í ferðalag, langar til að heilsa upp á gamlan kunningja sem hann hafði hitt á ráðstefnu býflugnabænda fyrir löngu.

 Bókin fjallar um þetta

 ferðalag.

Það eru ekki margir á ferðinni. Hann hefur tekið býflugurnar með sér, því hann er ábyrgur maður og hugsar að þetta sé í rauninni það eina sem hann beri ábyrgð á, þær eigi allt undir honum komið. Hann hefur líka tekið með sér nauðsynlega pappíra. Sem betur fer.Því að þótt stjórnun landsins  sé í molum vantar ekki  skrifræðið.

Líf og stríð

Sagan segir frá fólkinu sem hann hittir á þessu ferðalagi. Það er friðsamt og hjálpsamt og tekur honum vel. Næstum undantekningarlaust. Hann eignast vinkonu sem vill helst fá hann fyrir mann en hann veit að þeim tíma í ævi hans er lokið.

Hann heldur ferðaalagi  sínu áfram til kollega síns, býflugnabóndans á Krímskaga.

Tatarar

Þar hittir hann einungis fyrir konu hans og uppkomin börn. Heimilisfaðirinn er þar ekki lengur, hann er á lista yfir menn sem er saknað.Sergej býðst til  að skoða málið betur og kemst að því að stríð er ekki bara stríð, heldur líka skriffinnska. Og þar sitja ekki allir við sama borð. En þar sem hann  talar rússnesku og er ekki tatari getur hann ýtt við kerfinu. Lík vinar hans er sent heim og hann fær að fylgja honum til grafar.

Hér ætla ég að láta staðarnumið í frásögninni um gráu býflugurnar.

Úkranía, þetta stóra og frjósama land, hefur þurft að þola margt í gegnum árin og aldirnar. Mig hefur  lengi langað til að ferðast þangað.

En nú þegar ég hugsa þangað, koma upp í hugann húsarústir og fólk á flótta.  Já og karlar í  skotgröfum.

Ég á auðvelt með að sjá fyrir mér yfirgefin þorp og húsarústir. En til baka til Sergej. Eftir ferðalagið með býkúpurnar, fór hann heim í yfirgefna þorpið sitt með býkúpurnar sínar, allar nema eina, þá sem fulltrúar skriffinnskunnar höfðu handleikið.

Og enn suðar þetta stríð. Þetta vitum við þótt í augnablikinu heyrist meira frá öðru stríði.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Okt. 2023
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband