27.10.2021 | 18:08
Olga og Ástarflótti: Tvær bækur Bernhards Schlinks
Olga
Ég er að undirbúa mig fyrir bókakvöld en það er búið að vera erfitt að finna tíma til að hittast sem hentar öllum. Mikið erum við þessar fullorðnu konur tímabundnar . Í þetta skipti lásum við tvær bækur eftir Bernharð Schlink, þann sama sem skrifaði Lesarann, sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir þó nokkru.
Ég ætla fyrst að tala um Olgu. Þetta er saga konu frá því í byrjun 20. aldar, en um leið er hún saga Þýskalands og saga þriggja stríða. Ég segi þriggja,því þá er meðtalið stríðið við innbyggja Afríku um land.
En fyrst um Olgu sjálfa.
Olga var meðfærilegt barn. Hún bara stóð stillt og prúð og virti hlutina fyrir sér. Fiktaði ekki. Hún missti ung báða foreldra sína og ólst upp hjá ömmu sinni, sem var hörð við hana. Og Olga flutti frá henni um leið og hún gat. Hún var námfús og langaði að fara í háskóla en á þeim tíma var það ekki í boði fyrir konur í Prússlandi, svo hún lærði að verða kennari.
Ástin
Ástin kom snemma til Olgu. Hún varð ástfangin af vini sínum og skólabróður, Herbert, í framhaldsskóla. Þau voru fyrst vinir og sálufélagar. Síðan þróast vinátta þeirra yfir í ást og kynlíf. Hún og þessi vinur hennar, eru ekki af sama sauðahúsi. Hún er alþýðustúlka en hann er af ríku og fínu fólki. Herbert fer samt ekki í háskóla eins og hún hafði gert ráð fyrir. Hann fer í herinn.
Fjarlægðin
Olgu gekk vel að kenna og hafði yndi af því. Hún hélt áfram að elska sinn gamla vin þótt hann væri farinn á vit ævintýra, landvinninga og landkönnunar. Þau skrifuðust á. Alla vega hún honum. Því hluti bókarinnar byggir á slíkum bréfum.
Þjóðin og stríðið
Olgu er lýst sem sterkri og vel gerðri manneskju.Hún tekur þátt í félagsstarfi kennara og kýs krata. Um miðjan aldur veikist hún illa og missir heyrn. Þá þarf hún að hætta kennslu. En hún kunni að sauma. Svo eftir það vann hún fyrir sér með saumaskap. Ég ætla ekki að rekja sögu Olgu og Herberts lengra hér, því eins og ég sagði fyrr í þessum pistli, er höfundurinn kannski fyrst og fremst að segja sögu Þýskalands.
Þessi bók stækkaði heiminn
Ég hélt að ég þekkti talsvert sögu 20. Aldar þó nokkuð en nú bættist við stríð Þjóðverja í Vestur- Afríku. Ef til vill væri réttara að tala um þjóðarmorð þeirra á Hereróum. Þarna hóf maðurinn sem Olga elskaði feril sinn sem hermaður.Þetta er nokkurn veginn landsvæðið þar sem nú er Namibía. Vissi Olga hvað hann var að gera? Eða er ástin raunverulega blind?
Lokaorð
Þessi bók skildi mig eftir með margar ósvaraðar spurningar. Það er gott. Á eftir las ég smásögur eftir sama mann, Ástarflótti. Reyndar fannst mér þær naumast vera smásögur, þær eru svo efnismiklar. Flestar þeirra, ef ekki allar fjalla þær um blekkingaleik manneskjunnar við sjálfa sig þegar hún reynir að svindla ögn á eigin prinsippum sérstaklega þegar kemur að ástinni.
Þökk sé þeim
Höfundur þessara bóka Bernhard Schlink er fæddur 1944. Hann er lögfræðingur að mennt og hefur starfað sem slíkur.
Þegar ég hef lokið bók, lesið eða hlustað finn ég til þakklætis. Ekki bara til höfundarins heldur líka til allra hinna sem færa mér þær. Það var Elísa Björg Þorsteinsdóttir sem þýddi Olgu. Hún svíkur aldrei. Það var Helga Elínborg Jónsdóttir sem las. Hún bregst Ekki.Hluti bókarinnar var reyndar lesinn af karlmanni. Nafns hans var ekki getið. Það virðist vera einhverjir vankantar á því hjá Hljóðbókasafninu að birta nöfn lesara er þeir eru fleiri en einn.Þetta þarf að laga. Sögurnar í Ástarflótta þýddi Þórarinn Kristjánsson. Þekki hann ekki. Það er Sólveig Hauksdóttir sem les. Sólveig er sérstakur lesari. Þessa bók las hún listavel.
Það verður gaman að spjalla um þessar bækur við stöllur mínar þegar bókakvöldið rennur upp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2021 | 21:28
Þjófur í Paradís : Indriði G. Þorsteinsson
Þegar ég kom af jarðarför gamals vinar, ákvað ég að lesa bók Indriða G. Þorsteinssonar Þjófur í Paradís aftur. Ég las hana á sínum tíma og vissi að fjölskyldan í bókinni tengdist þessum vini mínum. En við ræddum það aldrei.
Mér fannst bókin góð þegar ég las hana á sínum tíma, en var með efasemdir um hvort skáld hefðu rétt til að ýfa upp sár fólks, sem hefur orðið fyrir mótlæti í lífinu.
Við jarðarförina sótti sama hugsun að mér.
Indriði G. er reyndar einn af mínum uppáhaldsrithöfundum, hann er svo góður stílisti.
Heim komin af jarðarförinni las ég sem sagt bókina þ.e.a.s. ég hlustaði. Það er höfundurinn sjálfur sem les. Ég komst við.Voðalega hefur líf þessarar fjölskyldu verið erfitt. Allt í senn,félagslega og fjárhagslega. Líklega hefur þó vansæmdin verið verst. Það er hægt að afplána dóm fyrir sauðaþjófnað en orðsporið fylgir ævilangt.
Sagan
Sagan Þjófur í Paradís er knöpp að forminu til. Hún hefst á brúðkaupi þar sem orð falla sem verða til þess að ákvörðun er tekin um að láta til skarar skríða og ganga úr skugga um hvort eitthvað sé til í orðrómi sem lengi hefur verið á sveimi. Sú rannsókn leiðir síðan til réttarhalda og dómur felldur.Eins og í fleiri knöppum sögum, er það ósagða áhrifamest.
En aftur að vini mínum sem var borinn til grafar. Ég held að hann hafi aldrei rætt þessi mál við nokkurn mann og það hvarflaði ekki að mér að fitja upp á slíkri umræðu við hann. Við ræddum um pólitík, hann var með stéttabaráttuna á hreinu og vandaði arðræningjunum ekki kveðjurnar. En auðvitað er það eins og að skvetta vatni á gæs. Í heimi er orðið ekki til, einungis orðið ARÐUR eða GRÓðI og því meira sem þeir græða (ræna) því stoltari eru þeir.
Ekki veit ég hvað vakti fyrir Indriða þegar hann valdi að skrifa um þetta mál sem varð svo örlagaríkt fyrir þessa fjölskyldu
Kannski hefur hann fyrst og fremst séð að þarna var gott söguefni.
Líklega hefur hann ekki hugsað til aðstandenda.
En Indriði má þó eiga það að bókin er góð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2021 | 15:25
Slétt og brugðið: Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Útkoma bókarinnar, Slétt og brugðið eftir Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur árið 2021 hafði farið fram hjá mér.
Það var nafnið á bókinni sem vakti áhuga minn, ég hélt að bókin fjallaði um prjónaskap. Fljótlega sá ég þó að svo var ekki, en ákvað samt að lesa hana. Bókin fjallar um konur á miðjum aldri. Þær hafa hist í saumaklúbbi síðan í menntaskóla. Þegar þessi saga hefst, hafa þær ákveðið að breyta inntaki klúbbsins, sleppa handavinnunni. Í stað þess ætla þær að kynna sér gyðjur, sækja til þeirra kraft og fyrirmyndir.
Þótt konurnar séu sex í klúbbnum, snýst frásagan einkum um tvær þeirra, Freyju og Eddu. Þær eru báðar lærðar hjúkrunarfræðingar. En nú, eftir að hafa bætt við sig námi, vinnur önnur á fæðingardeild en hin á líknardeild .
Lesandinn fær þannig lítillega að kynnast upphafi og endalokum lífsins. Það er Freyja sem er aðalpersóna. Við fáum líka að kynnast Eddu vinkonu hennar, en hinir klúbbfélagarnir eru meira í bakgrunni.
Gyðjur
Það er Linda sem fær hugmyndina um að kynna sér gyðjur. Henni finnst hún vera stödd á flæðiskeri, henni hefur verið sagt upp en hún hefur verið blaðamaður til margra ára. Hún heldur því fram að konum vanti fyrirmyndir í lífinu og þær þyrftu á styrk að halda.
Þetta er sem sagt kvennabók, jafnvel bók fyrir stelpur. Frásögnin er létt og leikandi. Oft fyndin, jafnvel meinhæðin.
Þetta er bók um framgang og samskipti og um vináttu. Ég hefði gjarnan viljað að höfundurinn hefði farið dýpra í gyðjufræðin en auðvitað get ég gert það sjálf seinna.
Að lestri loknum kynnti ég mér hvort fleiri bækur væru til innlesnar eftir Árelíu Eydísi og fann tvær, Söru og Á réttri hillu: Leiðin til meiri hamingju í lífi og starfi. Auðvitað er ég búin að lesa þær báðar. Þegar ég var búin með Á réttri hillu, sem er bók um hagnýta sáifræði og sjálfsrækt, rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað er þetta hún Árelía sem ég hef verið á námskeiðum hjá, meðan ég var enn á vinnumarkaði og var að fylgjast með því sem var efst á baugi í stjórnendafræðum. Af hverju fattaði ég þetta ekki strax? Og svo. Breytir það einhverju? Nei, líklega ekki og ef einhverju þá er það bara til hins betra. Gallinn er bara sá að líklega er ég vaxin upp úr svona bókum.
Árelía hefur sem sagt skrifað fleiri, fleiri bækur. Ein þeirra heitir, Sterkari í seinni hálfleik og er flokkuð sem sjálfstyrkingarbók. Bók fyrir mig og fólk á mínum aldri (ég er að verða áttræð) gæti heitið, Sterkust í framlengingu. Kannski skrifar Áróra einhvern tíma slíka bók. Ekki veitir af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2021 | 14:18
Vesalingarnir og Maríukirkjan eftir Victor Hugo
Þegar ég vil gera virkilega vel við mig, kýs ég að lesa langar bækur. Ég hef verið að flytja búferlum og í rótinu sem fylgdi flutningunum ákvað ég að finna mér verulega langa bók. Fyrir valinu urðu fyrstVesalingarnir eftir Victor Hugo og síðan kom Maríukirkjan. Fleira fann ég ekki innlesið eftir þetta mikla skáld. Ég hafði áður, sem unglingur, lesið Maðurinn sem hlær en fann hana nú ekki sem hljóðbók.
Vesalingarnir
Fyrst las ég Vesalingana. Ég hafði ekki lesið hana áður en þekkti til hennar í gegnum kvikmyndir og í gegnum frábæra leiksýningu í Þjóðleikhúsinu byggða á efni hennar.
Fyrst um skáldið
Victor Hugo er franskur, fæddur 1802 og dó 1885. Hann skrifaði ljóð, skáldsögur og leikrit. Auk þess var hann virkur í pólitík. Þetta voru umbrotasamir tímar mikilla atburða og Victor var mitt í hringiðu pólitískra hræringa. Í skáldskap fylgdi hann rómantísku stefnuunni og í pólitík var hann lýðræðissinni. Auðvitað spegla bækurnar pólitískar hugmyndir hans. Í grunninn eru Vesalingarnir æsilegur reifari í fjórum bindum. Fyrstu tvö bindin eru þýdd af Einari H. Kvaran, síðari tvö eru þýdd af Vilhjálmi Þ. Gíslasyni. Þessar þýðingar voru gerðar úr dönsku. Nú hefur Torfi Tulinius yfir farið þýðingarnar, borið þær saman við frumtextann og fært til betri vegar. Torfi hefur einnig skrifað eftirmála. Bókin í heild er 38 klukkustundir og 14 mínútur í hlustun. Sigurður Skúlason las. Hann gerði það vel eins og hann á vanda til.
Vesalingarnir er æsileg frásögn þar sem slegið er á alla strengi mannssálarinnar. Satt best að segja fannst mér oft erfitt að hlusta á lýsingar á neyð og kvöl fólksins. Ekki bætti úr skák vitneskjan um að það er ennþá mikil neyð og það eru enn stundaðar pyndingar á fólki. Ekki góð koddalesning.
Maríukirkjan
Maríukirkjan kom út í Frakklandi 1831. Bókin sem ég var að hlusta á er þýdd af Björgúlfi Ólafssyni og kom fyrst út á Íslandi árið 1945, held ég. Margir þekkja hana undir nafninu Hringjarinn í Notre Dam. Þetta er byggt upp sem söguleg skáldsaga frá 15. öld, sögusviðið er París. Í raun er þetta fyrst og fremst ástarsaga. Saga um vonlausa ást. Afskræmdi krypplingurinn Qvasimodo fellir hug til hinnar undurfögru sígaunastúlku Esmeröldu. Stór hluti sögunnar fer fram í Notre Dam. Auk þess skrifar höfundurinn kafla um skipulag borgarinnar og húsagerðarlist. Victor Hugo var rétt um þrítugt þegar bókin kom út. Þvílík flæðandi mælska. Það er Björgúlfuur Ólafsson sem þýðir þessa bók sem kom út á íslensku 1945, held ég. Það er fúlt að skrifa held ég. En því miður hefur Hljóðbókasafnið ekki nægilegar góðar bókfræðilegar upplýsingar fyrir grúskara eins og mig. Það er Guðmundur Ingi Kristjánsson, hann skilar efninu vel.
En svolítið gat ég lesið mér til, stafað mig í gegnum. Þessi Björgúlfur er ótrúlega spennandi karl. Fæddur 1882 (af kynslóð ömmu minnar). Hann þjálfaði Vestmanney inga í knattspyrnu, var herlæknir í her Hollendinga í Indónesíu, stofnaði Skeljung og var bóndi á Bessastöðum og fleira og fleira. Ég get að sjálfsögðu ekki borið þýðingu hans saman við frumtextann en þessi bók er á flæðandi góðri og gróskumikilli íslensku.
Eftirmáli
Í reynd eru báðar þessar bækur eiginlega ofjarl minn. Til að njóta þeirra til fulls, væri upplagt að lesa þær undir handleiðslu góðs kennara og bókmenntafræðings, t.d. Torfa Túliníusar.
Það er einhver tign yfir löngum efnismiklum bókum. Það er eins og að dvelja í dómkirkju, þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja.
Myndin er af kirkjuklukkunum í Bjarnanesi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (25.7.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 82
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 53
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar