Vandlæting dagsins

Þótt það sé ýmislegt rætt og ráðslagað um megrun og matarræði er lítið talað um það sem er mikilvægast: Kílóin koma jafnt og þétt án þess að þú takir eftir því en ef þau á annað borð yfirgefa þig þá þá fara þau í grömmum. Og svo liggja þau í leyni og koma aftur sem kíló.


Vandlæting dagsins

Almennt er ég hlynnt málfrelsi en þó finnst mér að það beri að takmarka það í heitu pottunum í Sundlaugum Reykjavíkur, að minnsta kosti í Laugardalslauginni (þar sem ég er) og hafa viðurlög. Væri ekki hægt að kasta burt körlum sem einoka pottana með pólitísku karpi (þetta eru yfirleitt karlar) úr heitum pottum alveg eins og konum af facebook sem ganga fram af mönnum með femínískri umræðu?

Vandlæting dagsins

Af hverju eru ekki merktar hjáleiðir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur alveg eins og gert er fyrir þá sem aka bíl? Ég hef oft undrast þetta enda rekist á hættuleg dæmi um þessa vanrækslu. Eitt dæmi er t.d. við Suðurlandsbrautina, við Laugardalinn. Þar hefst ný og fín hjólabraut, ef hjólað er í vestur frá Glæsibæ, en lýkur út í mýri eða verra en það, í púkkinu sem búið er að setja undir brautarendann. Það er ekki einu sinni viðvörun um að brautinni ljúki þarna.

Þórhildur Þorleifsdóttir er uppáhalds leikstjórinn minn

Mikið afskaplega er gaman að fara í leikhús þegar vel tekst til. Í gær fór ég í Þjóðleikhúsið og vissi ekki á hverju ég átti von, er með fasta miða og það var ákveðið fyrir mig hvaða sýningar eru valdar. Ég vissi þó að ég var að fara á gamanleikrit. Ég var dálítið uggandi af því ég hlæ ekki að hverju sem er. En þegar ég vissi að Þórhildur Þórleifsdóttir myndi sjá um leikstjórnina var ég alveg róleg, ég er búin að sjá margar leiksýningar sem hún hefur stýrt og hún hefur aldrei brugðist mér.

Leikritið TVEGGJA ÞJÓNN á sér nokkra sögu. Það var fyrst flutt 1746 á Ítalíu og flokkast undir það sem kallast Commedia dell´arte en það hefur verið umskrifað mörgum sinnum síðan. Söguþráðurinn er glundroði, misskilningur á misskilning ofan og yfirgengilegir og oft klúrir aulabrandarar. Þetta hljómar kannski ekki sem spennandi og alls ekki fyrir mig en ég hló allan tímann.

Við eigum svo flinka og skemmtilega leikara og þeir fóru á kostum. Leiksviðið var afar hugvitsamlegt og auðvelduðu listafólkinu að skapa óborganlegt kaos. Síðast en ekki sístir voru tónlistarmennirnir, þeir fóru á kostum og það var STUÐ í salnum. Mér fannst alveg sérstaklega gaman að sjá KK í sínu hlutverki, með hárkollu og uppáklæddur í fölbleikum jakka. Hann minnti mig á hinn óviðjafnanlega Tage Danielsson sem ég hafði sérstakt dálæti á og mér hlýnaði um hjartaræturnar. 

Það er ekkert hægt að gera nema hrósa og dást að þessu leikhúsverki en mín alvarlega innri kona spyr uppáþrengjandi, "og hvaða lærdóm dregur þú svo af þessu verki". Og ég svara henni, "það gefur mér en eitt nýtt sjónarhorn til að skoða lífið".


Hin ótrúlega ganga Harolds Fry

Rachel Joyce   Rachel Joyce

Nú hef ég loks lokið við að lesa bókina sem svo margir hafa mælt með við mig, þ.e. Hin ótrúlega pílagrímsganga Harolds Fry. Sagan er um mann sem ætlaði að póstleggja bréf en ákveður að fara í staðinn og hitta konuna sem bréfið var stílað á.  En til þess að svo verði þarf hann að ganga endilangt England. Þetta er óvænt skyndiákvörðun, hann er ekki vanur göngumaður og hann er bara í mokkasíum. Hann lætur konuna sína vita af þessu og hún skilur hvorki upp né niður. Á leiðinni rifjar hann upp atvik úr lífi sínu og smám saman fær lesandinn heillega mynd af göngumanninum og hvað liggur að baki þessu ferðalagi. Göngumaðurinn öðlast líka nýja sýn á sjálfan sig og líf sitt.

Þetta er lipurlega skrifuð saga og skemmtileg á köflum, sérstaklega frásagan af samferðafólkinu. En slunginn fréttamaður sem hitti göngumanninn af tilviljun sá að þarna var upplögð frétt til að mata fjölmiðla á og Harold Fry varð "heimsfrægurEnglandi og það hópaðist að honum fólk. Nú stóð þannig á í Biblíulestri mínum að ég var stödd í Lúkasarguðsspjalli (17-26) þar sem segir frá fólkinu sem þrengdi svo að Jésús að hann varð að láta rjúfa þekjuna til að það væri hægt að láta rúmið með lamaða manninum síga niður til hans. Eitt augnablík fannst mér ég ekki vita í hvorri frásögninni ég var stödd enda ætlast höfundur greinilega til þess að sagan um Harold Fry minni að einhverju leyti á frelsarann. En Harold Fry gerir engin kraftaverk í sinni ferð og trúir ekki á þau en hann finnur sjálfan sig ef svo mætti segja og það er merkilegt og kraftaverksígildi.

En mér fannst þessi bók ekki eins skemmtilegt eins og af er látið, satt að segja fannst mér hún um margt fyrirsjánleg og klisjukennd. Kannski hafa aðdáendur bókarinnar verið búnir að segja mér of mikið.


Spennusaga um röraframleiðslu í GAMLA SOVÉT

200px-Vladimir_Dudintsev 

EKKI AF EINU SAMAN BRAUÐI, spennusaga um röraframleiðslu í gamla SOVÉT. Hún er eftir Vladimir Dudintsev og kom út hjá Almennabókafélaginu 1958 sem bók mánaðarins. Bókin er þýdd af Indriða G. Þorsteinssyni.

Þetta er fyrsta bókin sem ég hef lesið á ævi minni um röragerð. Ef ég hefði vitað efni bókarinnar fyrirfram hefði líklega komið hik á mig, því hvernig er hægt að ímynda sér að bók um framleiðslu röra geti verið skemmtileg og spennandi. Sagan gerist í Sovétríkjunum og fjallar um hugvitsmanninn Lobatkín sem hefur fundið nýja aðferð við að steypa rör og þarf hann að heyja langa og erfiða baráttu við að koma uppfinningunni í gegnum kerfið. Spillingin og skriffinnskan er eins og þykkur veggur og ekki bætir úr skák að hann er ekki með réttu menntunina. En hann trúir á hugmynd sína (hún byggir á því að nýta miðflóttaaflið) og fer með sigur.

Ekki spillir að sagan er um leið ástarsaga. Hugvitsmaðurinn ber heitar tilfinningar til tveggja kvenna, æskuástar sinnar sem óþolinmóð að bíða eftir því að hann sé tilbúinn (ekki að hugsa einungis um rör) og hinnar trygglyndu Nödju sem stendur eins og klettur við hlið hans í blíðu og stríðu. Bókin lýsir í raun ástarferhyrningi:karlmaður, tvær konur og rörsteypuvél.

Þetta er fróðleg bók og hún segir líka pólitíska sögu. Það er líklega ástæðan fyrir því að AB gaf hana út á sínum tíma. Mér fannst hún strembin á köflum, aðallega flæktist rússneska nafnahefðin fyrir mér en maður þarf að kunna a.m.k. þrjú nöfn á hverri persónu til að koma henni fyrir sig þegar maður les og svo kann ég náttúrlega ekki að bera nöfnin fram (í huganum) og þess vegna sitja þau verr í mér.

Bókin sem er 300 síður er sögð stytt í þýðingu og ég velti fyrir mér hvað hefði verið klippt burt, úr ástarsögunni eða um rörin. Ég myndi kannski skilja betur hvað hann sá í konunni sem var æskuástin hans og hvernig miðflóttaafl nýtist við að steypa rör.

Ég hafði gaman af að lesa þessa bók, hún rifjaði upp fyrir mér ýmislegt um þessa tíma og svo hugsa ég allt öðru vísi um rör sem eru svo ómissandi fyrir okkur þótt við leiðum sjaldan hugann að framleiðslu þeirra.

Höfundurinn átti erfitt uppdráttar ekki síður en hugvitsmaðumurinn í bókinni enda er byggist saga hans á raunverulegum atburðum í stáliðnaði. http://en.wikipedia.org/wiki/Vladimir_Dudintsev


Spámenn í eigin landi; Profeterne i Evighedsfjorden

Síðasta bók danska rithöfundarins Kim Leine heitir PROFETERNA VID EVIGHEDSFJORDEN (Gyldendal 2012). Bókin hefur fengið mikið lof í Danmörku og kom samtímis út í 10 löndum (samkvæmt bókarkápu). Þetta er söguleg skáldsaga frá átjándu öld og fjallar um samskipti Dana og Grænlendinga. Aðalpersóna sögunnar er Norðmaður sem kemur til náms í Kaupmannahöfn, hann langar að læra læknisfræði en pabbinn vill að hann læri til prests og það gerir hann. Hann sækir síðan um að verða prestur/trúboði á Grænlandi þar sem hann dvelst í 7 afdrifarík ár. Sagan fjallar fyrst og fremst um þessi ár, um viðbrögð þessa unga manns við aðstæðunum sem hann fer inn í og um fólkið sem hann kynnist, Dani og villimennina eins og þeir eru kallaðir í bókinni. Að þessum 7 árum hefur hann brotið allar brýr að baki sér á Grænlandi og er tilneyddur að hugsa sinn gang. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að hann fái hvergi notið sín nema á Grænlandi og tekst að verða sér aftur út um stöðu þar, því bruninn í Kaupmannahöfn hefur þurrkað út syndir hans, þ.e.  þau gögn sem til eru um feril hans.

Bókin er um margt lýsandi fyrir  hugsunarhátt þess tíma, þó finnst mér höfundur stundum full bjarsýnn um hversu Morten Pedersen Falk sé upplýstur og vel að sér.

Kim Leine er hreinn snillingur í að draga upp mynd af atburðum og aðstæðum. En stundum finnst mér að hann kunni sér ekki hóf. Langar og nákvæmar lýsingar á meltingu matarins, líðan einstaklingsins og hægðum reyna að minnsta kosti talsvert á umbyrðarlyndi mitt um hvað eigi erindi inn í frásögn. Útúrdúrinn um hvalveiðar þess tíma var líka fullnákvæmur fyrir minn smekk þótt í ljós kæmi að hann tengdist vissulega örlögum einnar persónu sögunnar. Ég var líka orðin óþolinmóð meðan ég var að lesa mig í gegn um kaflann um brunann í Kaupmannahöfn sem er reyndar frábærlega dregin frásögn af kaótiskri atburðarás. En kannski segir þetta meira um mig sem lesanda en um hvernig höfundi hefur tekist  við að segja þessa sögu. Sagan rígheldur manni allan tímann og mér leið oft heldur ónotalega. Er það ekki þannig sem góðar bærkur eiga að vera. Ég lét aðalpersónuna fara í taugarnar á mér, rétt eins og hann væri fjölskyldumeðlimur eða í vinahópnum, fannst hann vera tvístígandi í afstöðu sinni og oft kolruglaður. Mér fannst hann líkjast alltof mikið aðalpersónunni í KALAK, Kim en þá bók byggir höfundur á eigin persónu. En það er engin vafi á hvar samúð höfundar liggur, hún er hjá hinum innfæddu. Frásagan um spámannninn Maríu Magdalenu og Habakuk mann hennar er hátindur þessarar sögu en þar segir af merkilegri tilraun heimamanna til að komast undan kúgun Dana og stofna frjálst samfélag á eigin forsendum.

Mér varð oft hugsað til annarrar góðrar bókar sem er líka byggð á sögulegum forsendum, Snorra á Húsafelli eftir Þórunni Valdimarsdóttur, sem er frábær bók og fjallar um nokkurn veginn sama tímabil. Það gerir Íslandsklukkan reyndar líka svo okkur skortir ekki góðar frásagnir af 18. öldinni. Rökkurbýsnir Sjóns fjallar um enn eldri tíma.

Ég mæli með þessari bók þótt hún sé bæði löng og ströng. Kort af Grænlandi og af Kaupmannahöfn þess tíma auðvelda lesanda að nýta sér þessa sögulegu frásögna. Ég vona að við eigum eftir að eignast hana í íslenskri þýðingu.


Ert þú að fara að hlaupa gamla mín?

Ég byrjaði aftur að skokka í sumar. Ég veit ekki hvernig sú ákvörðun varð til í kollinum á mér en allt í einu var hún þar fullsköpuð. Ég hafði lengi verið slæm í annarri mjöðminni og fór til sjúkraþjálfara til að reyna að ná þessu úr mér og það gerði hann svona nokkurn veginn. Hann sagði að öll hreyfing væri góð og ég skyldi gera það sem mér þætti skemmtilegt. Og þá vissi ég það.

Ert þú að fara að hlaupa gamla mín, sagði ungur maður við mig í næstfyrsta skokkinu mínu. Þessi þrekvaxni drengur gekk í miðjum hópi félaga sem studdu hann allir með því að hlæja pínulítð. Mér fannst þetta ekki skemmtilegt en ákvað að láta það ekki á mig fá. Síðan hefur mér mikið farið fram og er búin að fjárfesta í þægilegum fötum. Hlaupaáætlunin er einföld. Hleyp annan hvern dag eins lengi og mér finnst henta þann daginn. Oftast hleyp ég 6-7 kílómetra. Fyrstu 10 mínúturnar eru alltaf erfiðastar en þegar ég er búin með 15 mín finnst mér ég geta hlaupið endalaust. Ég veit þó að það er blekking.

Það hefur ýmislegt truflað þessa áætlun, svo sem slæmt kvef og utanlandsferð, við því er ekkert að gera. Þegar ég ákvað að byrja aftur að skokka setti ég mér það mark að prófa 20 sinnum á sjá svo til. Ég var farin að sjá árangur strax eftir fimm skipti.

Það er alveg einstök ánægja að hlaupa í góðu veðri í litadýrð haustsins. Ef til vill þarf ég að fara að setja mér ný markmið, lengja vegalengdina eða auka hraðann. En eitt er þó á hreinu, veika mjöðmin er betri en hún var í upphafi ef eitthvað er.


Minni spámennirnir

Nú hef ég loks lokið við lestur Gamla Testamentisins og velti fyrir mér hvernig menn meti hverjir séu stórir eða litlir spámenn. Ef marka má texta Biblíunnar frá 2011 (Hið íslenska Biblíufélag, JPV útgáfa) er mælikvarðinn hversuu langorðir eða stuttorðir menn eru. Ég hafði kannski ekki velt þessu svo mikið fyrir mér áður en einhvern veginn myndað mér þá skoðun að stærð eða mikilfengleiki spámanns mótaðist frekar af því sem hann hefði að segja og/eða hversu miklivægan boðskap hann flytti.

Minni spámennirnir eru tólf talsins og allir karlkyns. Þeir heita Hósea, Jóel, Amos, Óbadía, Jónas, Míka, Nahúm, Habakkuk, Stefanía, Haggaí, Sakaría og Malaki. Þeir eru hver með sínu móti, þeir móttaka boðskap sinn ýmist í gegnum beint samtal við Guð eða þeir sjá sýnir eða dreymir drauma. Þeir eiga það sameiginlegt að þeir lifa á efiðum tímum og þeir hafa miklar áhyggjur af þjóð sinni. Það virðist ekki fara á milli mála að þeir telja að hörmungarnar sem dunið hafa yfir Júda og Ísrael stafi af því að þjóðin hafi gerst honum fráhverf og af því hann elskar þessa þjóð/þjóðir einstaklega mikið. Það þarf því að blíðka Guð og standa við sáttmálann sem hann gerði við Móses á sínum tíma. Þótt þetta virðist vera aðalbjargráðið þá bregður oft fyrir ásökunum í garð annarra þjóða sem hafa ýmist kúgað eða svikið Ísrael. Einn spámaður, Amos, hellir sér yfir a.m.k átta þjóðir aukn þess sem hann fordæmir stórveldin. Óbadía einbeitir sér að því að úthúða einni þjóð. En þetta eru magnaðir textar þótt sé síður en svo létt að setja sig inn í hugarheim þessara manna, svo ég tali ekki um draumfarir þeirra eða sýnir. Satt best að segja fannst mér meira til þeirra koma en stóru spámannanna sem voru hræðilega langorðir og oft endurtekningasamir.

Ég held að ég haldi mest upp á Míka af þessum tólfmenningum. Hann er skýr, boðar dóm og endurlausn. Í framtíðarlandinu/ríkinu mun Guð, "dæma meðal margra lýða og skera úr málum voldugra þjóða langt í burtu. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum, engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar". Jóel boðar þveröfugt:"Búið yður í heilagt stríð...Smíðið sverð úr plógjárnum yðar og lensur úr sniðlum yðar".

Nú þegar Gamla Testamentið er búið sný ég mér að því nýja. Ég er örlítið á eftir áætlun en kem til með að vinna það upp því nú tekur við texti sem ég þekki betur.


Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Okt. 2012
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 82
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband