29.1.2021 | 16:38
Lestur er að yfirtaka líf mitt og það er ljúft
Um þessar mundir er lestur að yfirtaka líf mitt. Það er ljúft. Enda hvað get ég annað gert? Komin á eftirlaun og hef ekki annað að sýsla en stöku heimilisstörf. Kuldinn er í þann veginn að taka útivistina frá mér.
Ég les margar bækur samhliða. Í fyrsta lagi er það Sturlunga, sem ég lít á sem eilífðarpúsluspil og til þess að létta undir með mér að raða henni saman gríp ég í að lesa Auðnaróðal Sverris Jakobssonar. Og ekki í fyrsta skipti. Auk þess hlusta ég á kvöldsöguna, Egill Skallagrímsson.
Undursamleg bók
Fyrir þó nokkru heyrði ég þátt um rithöfundinn Romain Rolland (1866 1944) og bók hans Jóhann Kristófer. Ég fletti honum upp á Hljóðbókasafninu og og hann finnst þar. Þetta eru margar og nokkuð langar bækur. Íslenska þýðingin er í 5 bókum. Sú fyrsta, sem ég hef hafið lestur á, tekur 18,05 klst. í hlustun. Ég ákvað að lesa/hlusta hálftíma á dag í henni. Lauslega áætlað tekur þetta þá u.þ.b. árið.
Það sem m.a. laðaði mig að þessari bók, var að þýðandinn af fyrstu þrem bókunum, er Þórarinn Björnsson, gamli skólameistarinn minn. Hann þýddi líka Litla prinsinn. Tvær síðari bækurnar þýddi Sigfús Daðason.
Tvær heimsstyrjaldir
Bækurnar komu út í Frakklandi á áunum 1904 til 1912. Á Íslandi komu þær út á árunum 1947 til 1967. Það eru sem sagt tvær heimsstyrjaldir á milli.
Þótt ég sé ekki langt komin, finnst mér ég geta fullyrt að þetta sé dásamleg lesning.
Stundum finnst mér eins og ég þurfi að réttlæta allan þennan lestur. Líklega gamall draugur frá uppvaxtarárunum þegar jafnvel heyrðist talað um krakka sem læsu sér til óbóta.
Nú á kóvíttímum, þegar ég kemst ekki neitt og hef ekkert að gera, tek ég lestur sem verkefni.
Langar bækur heilla mig.
Nú gæti virst að bækur friðarsinnans Romain Rollands rími ekki alveg við vígaferlin í Sturlungu og hetjuskapinn í Egilssögu. Vissulega ekki. En samhliða lestur á þessum bókum og á bók Rollands fær mig til að álykta, að okkur Íslendingum hafi farið fram. Við erum friðsamari. En það er best að álykta varlega. Við erum í hernaðarbanda lagi sem býr yfir stórvirkari vopnum en Egill kallinn, hvað þá Sturlungar sem notuðu að mér sýnist einkum grjót og íkveikjur.
Nýju bækurnar
En ég les ekki bara gamlar bækur. Nýju bækurnar lokka. Auk þess er ég samviskusamur lesandi og finnst næstum skylda að fylgjast með því sem er að koma út. Í næsta pistli langar mig til að segja frá nýjum bókum sem hafa hrifið mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2021 | 15:12
Ótti markmannsins við vítaspyrnu:Peter Handke
Ótti markmannsins við vítaspyrnu
Þessi titill á bók er í raun einn mest sláandi bókartitill sem ég man eftir. Bókin er eftir Austurríkismanninn Peter Handke, (fæddur 1942 ), sem fékk Nóbelsverðlaun 2019. Hún kom út á þýsku 1970.
Verðlaun gera gagn
Fyrir verðlaunin og þá miklu umræðu sem kom í kjölfarið vissi ég lítið sem ekkert um þennan rithöfund en hann er umdeildur fyrir skoðanir sem hann hefur sett fram um stríðið á Balkanskaga. Síðan þá hef ég lesið/hlustað á þrjár bækur hans.
Það er nokkuð um liðið síðan ég lauk lestrinum. Það tekur mislangan tíma að melta bækur og sumar bækur þarf að lesa oftar ei einu sinni til að fá botn í þær. Mér fannst bókin minna mig á einhverja aðra bók sem ég hafði lesið áður og var ekki í rónni fyrr en ég hafði fundið út, hver sú bók var. Vík að því síðar.
En fyrst um Ótta markmannsins Þýðingin er eftir vin minn Franz Gíslason (fæddur 1935 dó 2006). Hún kom út hér 2020. Ekki veit ég hvenær Franz vann að þessari þýðingu en það er Jón Bjarni Atlason sem býr þýðinguna til prentunnar og semur ítarlegan eftirmála.
Um hvað er bókin?
Sagan segir frá byggingarverkamanninum og fyrrverandi markverði, Bloch. Hún hefst þegar hann mætir til vinnu og yfirgefur síðan vinustaðinn fullviss um að honum hafi verið sagt upp. En svo var ekki. Sagan er í raun ein löng frásaga af hugsunum Blochs og því sem hann tekur sér fyrir hendur á ráfi hans, fyrst um heimaborg sína og síðan um landamæraþorp. Í fyrstu fannst mér þetta bara óvenjunákvæm og hlutlæg frásögn um hugarheim manns. Síðan áttaði ég mig á því, að ekki var allt með felldu. Það sem virtist vera nákvæm og hlutlæg lýsing var frásaga um sjúkan hug. Sjúkan mann. Eftir að mér varð það ljóst, breyttist lestur minn, athygli mín beindist að innri rökræðu mannsins og hvernig þessi innri rökræða leiddi hann afvega. Því er m.a. lýst nákvæmlega hvernig hann drepur konu. Það er næstum eins og ekkert hafi gerst. Þó veit hann fullkomlega hvað hann gerði. Þótt þetta sé vissulega saga um mann í geðrofi, held ég ekki að það sé eingöngu það sem vakir fyrir höfundi. Hann er ekki bara að segja frá ástandi geðveiks manns. Hann er að rannsaka tungumálið og hvernig það nýtist manninum og tengsl tungumálsins við hugsun. Hugsar tungumálið að einhverju leyti fyrir okkur? Nú finn ég að ég næ ekki utan um það sem mig langar til að segja. En þótt það geti virst óskemmtilegt að fylgja sjúkum manni eftir í rugli hans, tekst höfundi að segja þessa sögu á þann hátt að bókin heldur í mann. Er undarlega spennandi.
Á hvern minnti sagan?
Til að finna það út notaði ég útilokunaraðferðina, það var auðvelt, vegna þess að ég hef ekki lesið svo margar bækur á þýsku. Sagan heitir; Og sagði ekki eitt einasta orð eftir Heinrich Böll. Böll fékk Nóbelsverðlaunin 1967.
Auðvitað las ég þá bók líka til að sannreyna hvort og þá hvernig hún væri lík bók Handkes. Og auðvitað er hún allt öðru vísi en þó liggur einhver þráður á milli. Það sem er fyrst og fremst líkt með þessum tveim höfundum er tilfinningin sem maður fær meðan á lestrinum stendur.
Lokaorð
Báðar þessar bækur eru gefandi og eftirminnilegar.
Ég veit að von er á þýðingu á einni bók í viðbót eftir Peter Handke og hlakka til að lesa hana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2021 | 19:59
Tíkin eftir Pilar Quintana
Ég veit ekki hvernig er best að lýsa þessari bók. Mér leið eins og ég væri sjálf nýflutt í þorp á landsbyggðinni, þar sem ætlast væri til að ég vissi allt sem máli skipti og gæti bjargað mér. En það getur náttúrlega enginn. Í Tíkinni er mér, lesandanum, dembt óviðbúnum inn í atburðarás sem ég kann ekki að túlka. Smám saman kynnist maður fólki og aðstæðum. En þó aldrei nógu mikið til að finnast maður tilheyri.Það tekur þrjár kynslóðir.
Þessi saga hefst á samtali. Konan sem afgreiðir á barnum segir Damaris að hún hafi misst tíkina sína frá 1o hvolpum.
Damaris
Á yfirborðinu er þessi saga um Damaris en í rauninni er hún um líf í smáþorpi og um náttúruna. Þessi náttúra er full af lífi og grósku, dauða og rotnun. Hún er svo ólík okkar náttúru, að á tímabili efaðist ég um eigin forsendur til að skilja. Þorpið hennar Damaris er í fjarlægri heimsálfu í landi sem sjaldan er fjallað um í fréttum og þá helst í sambandi við kaup á fíkniefnum.
Damaris tekur að sér einn af móðurlausu hvolpunum. Hann er svo lítill að hann er enn blindur og kann ekki að lepja. Þetta er tík, móðirin hefur drepist út af því að éta eitur.
Eiginmaður Damaris, Rogelio, er veiðimaður og þau eru barnlaus. Damaris hefur ekki tekist að verða ófrísk þótt hún hafi reynt öll þau ráð sem barnlausu fólki standa til boða þar um slóðir. Hún þráir að verða móðir. Hún annast því hvolpinn af mikilli ástúð og gefur honum nafnið sem hún hafði ætlað stúlkunni sem hún aldrei eignaðist.
Þorpið í sögunni er á Kyrrahafsströnd Kólombíu. Öðru megin er strönd og haf á hinn veginn er frumskógur.
Við upphaf sögunnar, þegar Damaris tekur tíkina í fóstur er hún kona sem er að reyna að sætta sig við barnleysið. En í þessu gróskumikla landi í jaðri frumskógarins trúir fólk því ekki, að nokkur kona kjósi sér eða sé sátt við barnleysi.
Áður
Lesandinn fær að vita sögu Damaris í bútum, jafnframt því sem sögunni vindur fram.Ef Damaris væri af okkar slóðum, myndum við tala um að hún hafi átt erfiða æsku. Hún er barn einstæðrar móður(pabbinn hljóp frá móðurinni , þegar von var á barni). Móðirin vinnur í næstu borg, kemur henni fyrir hjá systur sinni og borgar með henni þegar peningarnir endast. Móðirin deyr af slysförum þegar telpan er að verða 15 ára. Damaris heldur áfram að vera í fóstri hjá frænku sinni. En 17 ára kynntist hún Rogelio og þau flytja saman.
Enn áður
Þegar Damaris er á áttunda ári verður hún fyrir áfalli sem hún jafnar sig aldrei á. Hún er að leika sér við vin sinn og jafnaldra, son ríka fólksins í þorpinu. Þau eru í leik sem hann kallar LANDKÖNNUNARLEIÐANGUR. Þegar þau koma að hafinu langaði hann að bleyta á sér tærnar í sjónum. En aldan tók hann. Það sem gerði áfallið enn verra var að henni var kennt um slysið. Fósturfaðir hennar barði hana daglega þangað til líkið fannst. Foreldrar litla drengsins yfirgáfu húsið eftir slysið. Hún var sorgmædd. Seinna tóku Damaris og maður hennar að sér að sjá um húsið og fengu að búa í íbúð húsvarðar.
Það sem gerir þessa bók svo einstaka er að um leið og við fáum að vita talsvert um líf Damaris, fáum við að kynnast ættingjum hennar, nágrönnum og lífinu í þessu litla þorpi.
Mér finnst að ég viti heilmikið meira um þetta fjarlæga land eftir lestur þessarar litlu bókar, þótt þar sé ekki minnst á eiturlyfjabaróna.
Máttur náttúruaflanna umlykur tilvist mannsins. Á stígnum í skóginum fléttast rætur trjánna saman og krónur þeirra lokast yfir höfði manns. Stundum er eins og maður og náttúra renni saman í eitt. Ríka fólkið notar ál, asbest og gerviefni í húsin sín til að forða þeim frá því að verða náttúrunni að bráð.
Lokaorð
Ég finn að mér tekst ekki nógu vel að lýsa þessari góðu bók, hvað þá skýra hvers vegna mér finnst hún vera ein besta bók sem ég hef lesið. Ég gefst upp enda er besta leiðin fyrir þig lesandi minn að lesa bókina sjálfur.
Höfundur bókarinnar Pilar Quintana (fædd 1972) sló í gegn með þessari bók og er margveðlaunuð. Það er Jón Hallur Stefánsson sem þýðir hana á íslensku. Hann skrifar líka eftirmála og segir frá höfundi. Ég er full þakklætis. Olga Guðrún Árnadóttir les bókina fyrir Hljóðbókasafnið og gerir það vel eins og henni er lagið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.1.2021 | 17:23
Líkami okkar, þeirra vígvöllur: Christina Lamb
Líkami okkar, þeirra vígvöllur
Ég hélt að ég hefði fylgst þokkalega vel með heimsfréttum en komst að því að ég vissi ósköp lítið. En það var ekki bara við mig að sakast, það var svo margt sem ekki hafði komist í fréttir, stundum af því að fréttamönnum þótti það ekki fréttnæmt, stundum af því að það var of hroðalegt til að segja það.
Christina Lamb er breskur blaðamaður sem nú hefur skrifað bók um hvernig nauðgunum er skipulega beitt í stríði til að skaða baráttuþrek andstæðingsins með því að nauðga konum og stúlkubörnum. Þannig tekst þeim ekki bara að eyðileggja líf kvennanna, þeim tekst einnig að brjóta niður samstöðu fjölskyldna og vina. Þetta er hægt að gera af því kynlíf kvenna er svo hlaðið tabúum að það er ekki hægt að tala um það. Lamb nefnir sem dæmi í bók sinni fjölda tilvika þar sem nauðganir eru ekki nefndar á nafn þegar samið er um skaðabætur í lok styrjalda. Fyrir konurnar eru nauðganir verri en dauðinn. Fórnarlömbin eru skilin eftir helsærð með harm sinn og skömmina, sem fylgir því að hafa verið nauðgað.
Þótt búið sé að setja inn í alþjóðlega lagatexta að nauðgun sé glæpur hefur ekki enn verið felldur einn einasti dómur.
Fórnarlömb styrjalda
Lamb er reyndur blaðamaður. Í Írakstríðinu tók hún eftir að félagar hennar í blaðamanna stétt vísuðu aldrei til kvenna varðandi heimildir. Ekki ein einasta frétt var höfð eftir konu. Það var eins og þær væru ekki til. Síðan þá hefur hún einbeitt sér að því að skoða afleiðingar styrjalda á líf fólks, frekar en að fylgjast með því hvað er að gerast á vígvellinum eða hver vann hverja orrustu. Saga stríða fjallar um karlmenn og er skrifuð af karlmönnum. Það hefur hvergi verið reistur minnisvarði með nöfnum kvennanna sem var nauðgað.
Í þessari bók kemur höfundur víða við. Hún tekur viðtöl við fjölda kvenna. Hún talar við Jasídakonur sem hefur tekist að flýja ógnarstríð Ísis. Hún hittir þær í yfirfullum flóttamannabúðum á eynni Leros og enn aðrar í Þýskalandi. Þar var tekið á móti stórum hópi kvenna sem voru greinilega veikar eftir áföll sem þær höfðu orðið fyrir og horft upp á.
Lamb heimsækir flóttamannabúðir Róhingja í Bangladesh og fær að vita að Róhingjar eru svo vanir því að reynt sé að útrýma þeim, að þeir áttu orð í tungumálinu sínu sem þýðir þjóðarmorð. Lamb heimsækir Nígeríu í tvígang og hittir mæður skólastúlknanna sem var rænt. Hún bregður upp mynd af því sem virðist vonlaust ástand, annars vegar spillt stjórnvöld og hins vegar hryðjuverkasamtökin Boku Haram.
Höfundur veltir hvað eftir annað fyrir sér eðli illskunnar án þess að komast að niðurstöðu. Á einum stað veltir hún fyrir sér hvort stríðsmenningin yrði betri ef fleiri konur væru hermenn. Ég gef lítið fyrir þessar pælingar. Mér finnst nær að ræða hvernig menn, karlar jafn sem konur, geti lært að lifa án hernaðar.
Hvað græði ég á því að segja sögu mína?
Spurði ein stúlkan blaðamanninn áður en hún gaf kost á viðtali. Kannski getur það orðið til þess að aðrar stúlkur sleppa við að upplifa það sama og þú, var svar blaðakonunnar Christina Lamb. Og akkúrat þetta er hugmynd hennar á bak við við þessa mögnuðu bók. Og það er líka hugmynd mín þegar ég segi ykkur frá henni. Mér finnst að okkur beri skylda til að setja okkur inn í hvað stríð þýðir í raunveruleikanum. Það er mikilvægt fyrir okkur að vita hvað flóttafólkið er að flýja og gera okkur grein fyrir því hvers konar líf bíður þess í flóttamannabúðunum.
Mér finnst þessi bók góð vegna þess að hún dregur upp heillega mynd af því sem fréttir láta oft ósagt. Hún skilur mikið eftir, eitt af því er þakklæti fyrir að búa ekki við stríð.
Titill bókarinnar, Líkami okkar, þeirra vígvöllur, segir í hnotskurn efni bókarinnar. Hann er hafður beint eftir einum viðmælanda.
Það sem gerir þessa bók eftirminnilega og hrífandi eru viðtölin við konurnar. Kannski ætti ég frekar að segja stelpurnar því margir viðmælendur hennar eru kornungar stúlkur. Fyrir mig er þetta eftirminnilegasta bók ársins. Mig langar til að sem flestir lesi hana því hún miðlar mikilvægri þekkingu sem skiptir máli. Mér finnst hún eiga sérstakt erindi til allra sem tengjast utanríkismálum og pólitík. Þannig á hún líka erindi til okkar sem kjósum fólk til forystu og viljum að Ísland sé stefnumótandi land í verkefninu að bæta heiminn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.9.): 2
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 190975
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar