30.1.2013 | 12:18
Í heimi fullkomnleikans
Saga Auðar Övu Ólafsdóttur, UNDANTEKNINGIN hefst á gamlársdag. Hin fullkomna fjölskylda, María og Flóki eru að því komin að skála í kampavíni fyrir nýju ári og tvíburarnir eru komnir í ró. Lífið leikur við þau. Eða virðist svo. En eiginmaðurinn hefur ákveðið að nota einmitt þessa stund til að segja konunni sinni frá því að hann sé að flytja að heiman. Hann hefur fundið ástina, hina einu sönnu að því er virðist í bili. Hann ætlar að flytja til samstarfsmanns síns og hefur í raun lengi vitað að hann er samkynhneigður, eina undantekningin frá því er hrifning hans af Maríu sem nú er liðin hjá.
Heimur Maríu hrynur. Hann hrynur ekki allt í einu heldur smátt og smátt og lesandinn fær að fylgjast með örvæntingu hennar þegar hún smám saman kemst að því að hjónabandið var alls ekki eins og hún hafði ímyndað sér heldur fullt af lygum.
Á kjallaranum býr hin smávaxna Perla sem lifir í sínum tilbúna heimi. Hún segist vera hjónabandsráðgjafi og er að skrifa bók um það efni og hún er jafnframt að vinna fyrir þekktan glæpasöguhöfund og leggja honum til efni í plott og persónur. Það hefur ekki verið mikil þörf fyrir ráð Perlu og félagsskap hennar á efri hæðinni meðan allt lék í lyndi en nú leitar María huggunar hjá þessari skrýtnu konu.
Mér finnst einkennilegt að lesa texta Auðar Övu, það er eins og myndin sem hún dregur af fólki og atburðum sé svo einföld og tær. Það er hvorki hægt að staðsetja atburði í tíma eða rúmi og það er ekki pláss fyrir smáatriði en þó virðist allt svo skírt. Hann er líka á sinn hátt óraunverulegur og tilbúinn þótt ég trúi honum alveg. María virðist lifa í ríkum heimi, hún hefur allt til alls. Í venjulegum heimi eru peningaáhyggjur hluti af skilnaðaráhyggjum fólks en þannig er það ekki hjá Maríu. Auk þess dúkkar allt í einu upp vellríkur pabbi hennar sem hún hefur ekki þekkt fram að þessu, enn molnar myndin af heiminum sem hún hafði tekið sem sjálfsagða fram að þessu. Fyrir utan þennan litla heim Maríu er hinn stóri heimur sem kemur okkur ekki mikið við, þó hefur María lifibrauð sitt af því að vinna að hjálparstörfum.
Áður en tvíburarnir fæddust höfðu María og Flóki lagt drög að því að ættleiða barn. En þar sem slíkar umsóknir taka oft langan tíma gengur það ekki í gegn fyrr en eftir að fjölskyldufaðirinn flytur að heiman. María stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun. Er hægt að svíkja barn?
Mér fannst þessi bók að vissu leyti ráðgáta, hvað er Auður Ava að fara með þessari frásögn af lífi fólks í þessum ríka heimi einfaldleikans? Kannski kemst dvergurinn Perla næst því að svara þessu þegar hún kemur út úr sínum skáp og segir "Það getur verið svo einmanalegt að deila lífi með fólki sem maður hefur mestmegnis fundið upp sjálfur."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2013 | 22:30
Góð bók:Íslendingablokk Péturs Gunnarssonar
Hef lokið við að lesa bók Péturs Gunnarssonar og byrjuð að lesa hana í annað sinn. Þessari bók hæfir nefnilega ekki neinn græðgislestur. Þetta er bók sem þarf að lesa hægt og staldra við. Ég hafði svo lítið heyrt um þessa bók að ég vissi ekki á hverju ég átti von en treysti Pétri til að koma með eitthvað sem mér fyndist læsilegt.
Þetta er skáldsaga sem gerist á einu ári. Hún er samsett úr mörgum stuttum köflum og það koma fjölmargar persónur við sögu, þær tínast inn í söguna, án frekari kynningar. Það er eins og við fáum að kíkja inn til þeirra eða vera fluga á vegg í lífi þeirra stutta stund. Smám saman áttar maður sig á því að þær tengjast. Framvindan er hæg. Oftast fáum við að fylgjast með karlmönnum komnum yfir miðjan aldur. Einhvern veginn tekst höfundi að gera þetta fólk allt ljóslifandi. Það gera samtölin og hvað fólkið er að hugsa og svo að sjálfsögðu tengingarnar sem Pétur finnur við heimslitterarúrinn, vísindin og við þennan hversdagslega heim sem við lifum í. Oft urðu þessar tengingar til þess að ég hló upphátt (fyrir þá sem ekki þekka mig: Ég er ekki hláturmild, brosi oftar eða bara hugsa mitt).
Pétur er sem sagt ekki að sækja tengingar og tilvitnanir í neinar ruslbækur. Oftast held ég hann vitni þó í Biblíuna og Gleðileikinn guðdómlega eftir Dante. Mikið fannst mér gaman að vera búin að lesa fyrrnefndu bókina, það var eins og koma á sínar heimaslóðir og að sama skapi fannst miður að hafa aldrei lesið Dante (ég ákvað með það sama að bæta ráð mitt og nú liggur Gleðileikurinn Guðdómlegi á náttborðinu).
Það er erfitt að lýsa þessari bók en ég vona þó að ég hafi komið því til skila að mér finnst þetta skemmtileg og gefandi bók. Það eina sem mér finnst að hafi tekist vel er titill bókarinnar sem mér fannst fráhrindandi. Ein persóna sögunnar, Kata, er rithöfundur hún fær hugmynd að skrifa bók um fólk í blokk og hún er ekkert að veltast við titilinn. Bókin hennar á að heita Skrifblokk. Það er góður titill.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.1.2013 | 20:45
DIE TOTE VON CHARLOTTENBURG: Glæpasaga frá millistríðsárunum
DER TOTE VON CHARLOTTENBURG er alveg þokkaleg glæpasaga frá millistríðsárunum í Þýskalandi. Það er greinilegt að höfundurinn Susanne Goga hefur sett sig vel inn í þennan tíma og stundum verður þetta næstum eins og upprifjun á sögunni. Aðalpersónan Kommisar Leo Wechsler er aðlaðandi persóna og unnusta hans Clara Bleibtreu hefur greinilega það hlutverk að sveigja sögusviðið dálítið í áttina að stöðu kvenna þessara tíma. Og auðvitað lífgar ástarsagan á milli ekkjumanns með tvö börn og sjálfstæðu fráskildu konunnar upp á dramatíkina.
Þetta er sem saga klassísk leynilögreglusaga, mótun atburða og umhverfis svipar örlítið til handbragðs Agöthu Christie og ekki þótti mér það verra.
Ég keypti þessa bók í sumar í Berlín út á nafnið því við hjónin bjuggum vikutímabil í þessu hverfi. Ekki get ég sagt að ég hafi þekkt mig þar aftur við lesturinn, aftur á móti komu margir aðrir staðir Berlínar kunnuglega fyrir.
Ég las mér til á bókarkápu að höfundur hefur skrifað fleiri bækur með Leo Wechsler á undan þessari. Ég er ekki viss um að mér hafi fundist nógu mikið til um þessa bók til að eltast við þær enda spillir alltaf að lesa framhaldssögur aftur á bak.
Góð og léttlesin bók og ég mæli með henni fyrir þá sem vilja viðhalda þýskunni sinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2013 | 21:04
Sturlunga: Fátæklingar eru fórnarlömb allra tíma
Þegar Ólafur Hildisson var lítill drengur að alast upp í Breiðafirði var faðir hans færður til féránsdóms og dæmdur sekur skógarmaður en drengurinn gerður fjórðungsómagi og héraðsfari um Breiðafjörð. Svo hélt fram þar til hann var tólf ára gamall en eftir það dvaldist hann hjá Þorgils á Staðarhóli. Hann hefur þá líklega verið talinn matvinnungur. "Hann átti fátt í fémunum, hross nokkur átti hann og var óhraklegur að klæðum, eina fatakistu og öxi mjög góða". Ólafur litli var sem sagt niðursetningur sem var látinn gannga á milli bæja og það þaarf ekki mikið ímyndunarafl til að sjá að líf hans hefur ekki alltaf verið létt.
Þegar Ólafurr sem unglingur spyr Þorgils húsbónda sinn ráða um hvað hann eigi að taka til bragðs til að sjá sér farborða, ráðleggur hann honum að fara norður á Strandir að afla fjár og sagði að það væri margra siður. Þetta var sjáfsagt ekki illa meint og trúlega hefði gengið vel ef Ólafur hefði ekki lent hjá Má Bergþórssyni sem var bæði illmenni og ótýndur glæpamaður sem lifði í skjóli ríks frænda síns Hafliða Mássonar. Ólafur réð sig sem háseta á skip hjá honum en var hýrudreginn og ekki nóg með það heldur stal Már frá honum því litla sem hann átti, svo hann fór við illan leik slippur og snauður. Við þetta vildi hann að sjálfsögðu ekki una og reyndi að rétta hlut sinn sem hann gerði að þeirra tíma sið og af hlutust bæði víg og meiðingar. Þannig dróst hann inn í deilumál stórhöfðingja, Hafliða Mássonar og Þorgils Oddasonar.
Síðar er Ólafur veginn af tapsárum keppinaut sem átti erfitt með að verða undir í knattleik. Og enn vill svo til að sá hinn sami reynist vera skjólstæðingur Hafliða. Og enn magnast deila Þorgils og Hafliða.
Meira fáum við ekki að vita um fátæka drenginn Ólaf Hildisson enda algjör aukapersóna í sögunni. Sagan um hann er þó svo skýr og ljóslifandi að maður sér hann, fleiri persónur og atburði alveg fyrir sér. Hún er t.d. óborganleg frásögnin af því þegar Hafliði ætlar að sækja að honum heima á Staðarhóli og Þorgils sendir alla sína karla af bæ því hann vill láta Hafliða og förunauta halda að þar væri enginn til varna. En þegar þeir ríða að bænum sækir að fjöldi kvenna gyrðar í brækur með sverð í hendi.
Sturlunga er svo sannarlega þétt saga og mikið af snilld hennar má lesa á milli línanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2013 | 15:29
Sturlunga: Úr öskunni í eldinn
Síðastliðið ár varði ég nokkrum tíma dag hvern til að lesa Biblíuna og lauk henni í árslok. Hugmynd mín var sú að þetta kæmi nokkurn veginn í staðinn fyrir blaðalestur þar sem ég hafði komist að þeirri niðurstöðu að dagblöðin færðu mér hvorki fróðleik né skemmtan. Kannki dálítið harður dómur. Nú hef ég ákveðið að lesa Sturlungu á sama hátt, sem sagt í litlum skömmtum en ítarlega.
Nú eru liðnir 13 dagar af árin 2013 og ég fera að velta því fyrir mér hvort ég hafi ekki farið úr öskunni í eldinn, því ekki gerir Sturlunga minni kröfur til árvekni lesandans en Biblían. Reyndar hef ég lesið báðar þessar bækur áður, grautað í Biblíunni en hraðlesið Sturlungu, það hjálpar. Báðar þessar bækur geta státað af voldugum ættartölum ef það er þá eitthvað til að státa af. Það sem aðskilur þær við lestur er að í Biblíunni getur maður nokkurn veginn litið fram hjá þessum romsum, með fáum undantekningum þó en í Sturlungu skipta ættartölin miklu máli um alla framvindu.
Ég les Sturlungu í útgáfu Svarts á hvítu, sem er mikil hjálp því hún er svo aðgengileg og styður lesandann með heilli bók með kortum, töflum, ættartölum og ítarefni. Lesturinn verður eins og nokkurs konar ferðalag í tíma og rúmi. Nú kemur sér vel að vera nokkuð staðkunnug á mörgum stöðum á landsbyggðinni en hæfileiki minn til að geta ferðast í tímanum á vonandi eftir að eflast við þá áreynslu sem það er að setja sig inn í hugmyndir þessa tíma.
Ég hugsa mér gott til glóðarinnar að lesa nýútkoma bók Einars Kárasonar um skáldið Sturlu Þórðarson og hef þegar lesið tvær fyrri bækur hans sem sóttar eru í efni Sturlungu.
Það eru margar persónur í Sturlungu og lítil von til að þeim verði nokkmurn tíma gerð skil í skáldskap, enda ekki æskilegt, hver og einn lesandi er einnig skáld. En það er ein persóna sem hafði farið gjörsamlega fram hjá mér við fyrri lestur sem mér finnst nú að gæti verið heillandi sögupersóna eða kannski miklu frekar kvikmyndahetja en það er einstæðingurinn Ólafur Hildisson. Ég sé hann fyrir mér á tjaldinu (kvikmyndatjaldi hugans) sem Ólaf Darra.
Meira um lestur Sturlungu og Ólaf Hildisson í næsta bloggi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2013 | 23:55
Djúpfrysting: Ein aðferð til að varðveita þjóðararfinn
Bloggar | Breytt 12.1.2013 kl. 01:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2013 | 00:00
Tredve dager i Sandefjord: Vigdis Hjort
Var að ljúka bókinni Tredve dager i Sandefjord eftur Vigdis Hjort. Ég fékk þessa bók í jólagjöf. Mér fannst það einkennileg tilviljun þar sem ég hafði nýlega óskað eftir því að Bókasafn Norræna hússins að það keypti bókina (viðskiptavinir safnsins mega gjarnan koma með óskir um bókaval). Ástæðan fyrir þessum áhuga mínum var, að ég sá af tilviljun viðtal við höfundinn í ágætum norskum bókmenntaþætti. Þar var tekið viðtal við Vigdís Hjort, ég hafði aldrei áður heyrt hana nefnda (það hefur reyndar verið þýdd eftir hana ein bók).
Viðtalið snerist um efni nýútkominnar bókar og það var greinilegt að bókin hafði vakið athygli í Noregi. Og kannski engin furða þar sem bókin byggir á eigin reynslu höfundar þegar hún fer í fangelsi. Vigdís hefur skrifað bækur bæði fyrir börn og fullorðna, er þekkt sem dagskrárgerðarmaður hjá NRK og hefur m.a. séð um barnatímana.
Í bókinni segir frá Tordis sem er dæmd til ökuleyfissviptingar í 3 ár, 50 þús. króna sekt (norskar) og í 30 daga fangelsi vegna umferðalagabrots. Í örstuttum inngangi í minnispunktastíl segir frá aðdraganda dómsins síðan tekur við lýsing á fangelsisdvölinni. Hún er skrifuð eftir á og ekki í tímaröð heldur er farið fram og til baka í tíma. Lengst er dvalið við fyrsta daginn sem virðist aldrei ætla að líða. Þetta er lítið kvennafangelsi sem flokkast sem opið fangelsi af því fangarnir hafa sjálfir lykla að herbergjum sínum.
Inntak frásagnarinnar fjallar um lífið í fangelsinu í belg og biðu, rútínurnar, það sem var gert og það sem ekki mátti gera, handavinnuna, saumastofuna (sem var skylda) en mest er þó sagt frá konunum, samföngunum. Konurnar eiga sér allar sína sérstöku sögu og oft grimm örlög en Tordís veit aldrei hvað er satt. Þannig eru fangelsi. Smáatriðum er oft vel líst, þau skipta máli. Það er minna sagt frá og líðan eða viðbrögðum Tordisar sjálfrar við því að vera í fangelsi mitt á meðal þessara kvenna sem tilheyra allt öðrum umgengishóp en hún á að venjast. Annarri stétt. Miðstéttarkonan Tordis hefur engan undirbúning fengið í að vera í fangelsi og lesandanum, mér, kom á óvart hversu viðkvæm hún er og vanbúin að takast á við þessa nýju reynslu. Mér finnst nefnilega samkvæmt allri lýsingu að þetta hafi verið hinn notalegasti staður, minnti mig dálítið á heimavist en af þeim hef ég mikla og góða reynslu. Í þeim heimavistum vorum við stúlkurnar lokaðar inni og höfðum alls engan lykil að eigin herbergjum. En ég hef aldrei verið í fangelsi og ekki dómbær en grunar að vanlíðan og sterk viðbrögð Þórdísar stafi af einhverju öðru en að vera lokuð inni. Tórdís breytist við innkomuna í hrætt barn, hún veit ekki hvernig hún á að vera, vill þóknast öllum og þorir ekki að vera hún sjálf, reynir að aðlagast.
Reyndar grunar mig, lesandann, að ef til vill liggi einhvers staðar hundur grafinn, þ. e. í fortíð hennar sjálfrar og eða drykkja en hún fjallar hvergi ýtarlega um það, en það er eins og það svífi svona yfir vötnunum. Hún er búin að lofa sjálfri sér að þegar hún sleppur út skuli hún fara á ærlegt fyllerí og það gerir hún.
Fjórtán síðustu línurnar í bókinni gefa mér þó örlitla von um að vesalings Tórdís, sem ég er farin að hafa mikla samúð með, muni ef til vill og kannski komast á réttan kjöl.
Ég er ekkert hissa á Norðmönnum að hafa hrokkið við með útkomu þessarar bókar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2013 | 23:37
Góðverk og vandinn að við að eiga peninga
Orðatiltækið að gera góðverk er þekkt í málinu. Oftast tengjum við það við það eitt að láta gott af okkur leiða. Í sumar sem leið heimsótti ég dómkirkjuna í Malaga á Spáni. Þetta er mikilfengleg gömul kirkja sem sem er grundvölluð á gamalli mosku frá dögum Mára. Enn má sjá merki þess í skreytingum að moska hefur staðið þarna á þessum grunni. Eftir að hafa skoðað kirkjuna sem er falleg, kom ég út í spánskan hvunndag. Í einskonar fordyri fyrir framan kirkjuna sátu tvær fátækar konur með börn sín og báðust beininga. Ég gekk fram hjá þeim, á eins og fleiri "ríkir" vesturlandabúar í erfiðleikum með að horfa á örbirgð svona auglitis til auglits. Ég var þó ekki komin nema örskot út á götuna þegar ég sagði við manninn minn: "Ég ætla að gefa þeim" og svo sneri ég við og gaf þeim það sem ég átti handbært af smápeningum.
Þegar biskupinn yfir Íslandi lýsti því yfir að hann hygðist beita sér fyrir söfnum meðal þjóðarinnar til tækjakaupa fyrir Landsspítalann háskólasjúkrahús, varð mér hugsað til þessa kvenna. Það er að sjálfsögðu engin nýlunda fyrir mig að kirkjan líti á það sem hlutverk sitt að aðstoða bágstadda. Sjálf hef ég oftar en ég hef tölu á gefið til Hjálparstofnunar kirkjunnar en þegar sjálfur biskupinn lýsir yfir áhuga sínum á að beita sér fyrir tækjakaupunum sama ár og ríkið hefur þó tvöfaldað framlag sitt til þess hins sama, renna á mig tvær grímur. Hver á bágt? Auk þess fannst mér votta fyrir að þau systkinin hroki, hræsni og lýðskrum væru í ferð með biskupnum, en það er kannski ekki við hann að sakast þau eru svo víða að troða sér. Eða hvað?
Það er langt síðan ég sagði skilið við Þjóðkirkjuna, það gerði ég að vel yfirveguðu máli. Ég dáist þó alltaf að trú fólks þegar mér finnst hún sönn, einlæg og heiðarleg og viðurkenni rétt fólks til að rækta trú sína. Ég hef litið svo á að hlutverk kirkjunnar væri að boða trú og vera sálusorgari og það væri ærið starf. Ég eins og fleiri hef fyrir löngu tekið það sem sjálfsagðan hlut að það sé hins opinberra, velferðarkerfis að sjá um lækningar og velferð og ég hefði verið fullkomlega sátt við það ef biskupinn hefði nefnt í ræðu sinni að það væri kannski ekki úr vegi að hækka skattaprósentna á þá sem á annað borð eru aflögu færir. Ég veit að þannig er þessum málum best fyrir komið. Ég veit líka að smápeningarnir sem ég gaf konunum við Dómkirkjuna í Malaga duga skammt, þær hefðu þurft á annarri og meiri hjálp að halda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.7.): 11
- Sl. sólarhring: 23
- Sl. viku: 85
- Frá upphafi: 190482
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 56
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar