Þegar dúfurnar hurfu og Risttuules

Estonia_coatofarms

 

Fyrir nokkrum dögum las ég bókina Þegar dúfurnar hurfu. Hún er eftir Sofi Oksanen og er þýdd af Sigurði Karlssyni fyrrum  leikara og nú þýðanda. Bókin kom út á íslensku 2014  Ég hlustaði á hana sem hljóðbók og það var þýðandinn sem las.

Bókin fjallar um stríð, nánar tiltekið um stríðin sem gengu yfir Eistland á árum seinni heimsstyrjaldar, þegar herir Þjóðverja og Rússa og þeirra eigin her skiptust á að hertaka/frelsa landið eftir því hvernig horft er á það. Það er ekki vinnandi vegur fyrir mig Íslendinginn að henda reiður á því sem þarna var að gerast og það er eflaust erfitt líka fyrir heimamenn. Auk   þess er öll þessi saga svo gildishlaðin að það hlýtur að vera höfuðverkur fyrir samviskusama sagnfræðinga að skrá og miðla því sem þarna gerðist.

Þótt Eistland líti á sig sem þjóð með sérstakt tungumál, hafa aðrar þjóðir lengst af setið þar við völd: M.a. Þjóðverjar, Svíar, Danir og Rússar

1918 Lýsti Eistland yfir sjálfstæði sínu (við fall rússneska keisaradæmisins)

1940 Hernumið af Sovétríkjunum

1941 Hernumið af Þjóðverjum

1944 Hernumið af Sovétríkjunum

1991 Öðlast sjálfstæði að nýju

Ég bjó mér til þessa töflu til að átta mig betur á söguþræðinum, því bókin er ekki létt aflestrar.

Þegar dúfurnar hurfu er söguleg skáldsaga  Oksanen skrifar um líf fólks í stríði og viðbrögðum við nýjum stjórnendum. Í þessu landi var ekki hjá því komist að taka afstöðu og vera virkur. Sagan nær yfir árin 1941 til 1966.

Hún lýsir ástandinu með því að fylgjast með nokkrum persónum, venjulegu sveitafólki úr sömu fjölskyldu.

Höfuðpersónurnar eru:

Roland sem er einn af skógarbræðrum, það eru eistneskir lýðveldissinnar, sem börðust fyrir sjálfstæði Eistlands.

Edgar frændi hans er kamelljón, skiptir litum eftir litnum á herbúningi sigurvegarans.

Júdit, sem er vansæl, tekur afstöðu með ástinni. En ástin er munaðarvara sem hæfir illa stríðstímum.

Frásagnarmáti Oksanen er kaldur, nákvæmur og að því er virðist hlutlægur. Stundum nánast eins og skýrsla. Lesandinn skynjar þó stöðuga ógn. Ógn um lífshættu og tortímingu. Ekki bara tortímingu fólksins, heldur tortímingu alls sem gefur lífinu gildi. Stríð er í sjálfu sér vont. Allir tapa.

Það er stríðið sem gerir fólk að svikurum, illmennum og vesalingum. Enginn sleppur alveg.

Þetta er áhrifamikil bók og mig skortir kunnáttu til að lýsa henni svo vel sé.

Það fór ekki hjá því að meðan ég las, kom mér önnur bók oft í hug, sem fjallar um sama efni. Það er Illska eftir Eirík Örn Norðdahl en Eiríkur er ekki bara að kljást við fortíð, hann vill fanga fortíðina í núinu.

Risttuules

En stundum er eins og tilviljanir sé eitthvað annað en tilviljanir. Í gærkvöldi rakst ég á eistneska kvikmynd frá 2014 (í sænska sjónvarpinu). Hún er eftir Martti Helde og heitir Risttuules (Veðramót eða In the Crosswind á ensku) Þetta er frábær mynd. Hún segir frá ungum hjónum og dóttur þeirra sem verða fórnarlömb þjóðernishreinsana þegar 40 þúsund fólks var flutt úr Eystrasaltsríkjunum til Síberíu  1941.  Þetta er þó fyrst og fremst saga konunnar sem fer með dóttur sinni og öðrum konum til að þræla við að höggva við. Þarna strita þær undir harðýðgi manns og náttúru allt þar til örlítið fer að rofa til eftir  dauða Stalíns.

Það sem gerir þessa mynd svo einstaka, er myndatakan. Myndsenurnar eru greinilega gerðar eftir gömlum ljósmyndum. Þetta er eins og fryst augnablik, löng augnablik. Þessi frystu augnablik er sýnd  frá ólíkum sjónarhornum afar hægt. Með þessu fangar myndtökumaðurinn bæði aðstæður og tilfinningar fólksins. Ég get ekki almennilega lýst þessu en myndin er heillandi. 

Myndin er af skjaldarmerki Eistlands

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 82
  • Frá upphafi: 187230

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 71
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband