Spörum stóru orðin

IMG_0356

Ég hef reynt að halda mig frá því að skrifa um málfar. Finnst mikilvægast að fólk tjái hug sinn, óttast að stöðugar útásetningar gætu hamlað fólki sem ekki er allt of öruggt með sig á ritvellinum. En nú ætla ég að ganga í flokk með málvöndunarfólki,og segja hug minn um einn þátt málvöndunar sem er tilgerðarlegt orðaval.  

Það er allt of mikið um að skringilegheit og skemmtilegheit sem hafa fest i málinu og orðið viðvarandi. Líklega hefur einhver einn sagt þetta svona að gamni sínu, bara svona. Svo fara aðrir að apa það eftir þar til það festist og tekur yfir eðlilegt mál. Þar með ryður það burt blæbrigðum sem fylgja fjölbreyttu orðalagi. Mig langar að taka dæmi.

 

Að stíga á stokk í tíma og ótíma. Orðatiltækið er þekkt úr fornum ritum um fólk sem strengir heit, lýsir einhverju yfir. Mér finnst ópassandi að nota það um fólk sem er að gera eitthvað í vinnunni sinni eins og að syngja eða halda ræðu og oft er kallað að troða upp.

Að leiða saman hesta sína. Alveg óþolandi enda oftast rangt notað. Að leiða saman hesta sína var notað um nú útdauða íþrótt, það er þegar tveir öttu saman stóðhestum. Líklega myndu dýravinir mótmæla slíku nú. Hestar eru látnir takast á og gátu leikið hvor annan grátt. Nú heyri ég þetta oftast notað um fólk sem ætlar að vinna saman að einhverju, t.d ef tvær hljómsveitir ætla að koma fram sameiginlega. 

Berja augum í staðin fyrir að sjá, líta, skoða, rekast á og svo framvegis. Ég veit ekki hvaðan það er komið, gæti verið sniðug tilbreyting en er óþolandi þegar það tekur yfir.

Vinna hörðum höndum. Skemmtilegt líkingamál. Gæti stundum átt við en veður hjákátlegt þegar það er notað í sífellu, t.d um skrifstofufólk eða stjórnmálamenn með manikúreraðar hendur. Ég hef ekki tölu á hvað það var oft notað til að lýsa vinnu samninganefnda í sjómannaverkfallinu.

Mig langar líka að vekja athygli á öðrum orðum, sem eru beinlínis óþörf og koma í stað ágætis orða.

Nýsköpun er hrein vitleysa. Sköpun er alltaf ný. Það er óþarft að taka það fram. Guð skapaði heiminn á sínum tíma. Hann nýskapaði hann ekki. 

Hágæða er vandræðalegt orð. Maður fer að efast um gæðin. Af hverju þetta há?

Allt sem talað er um hér að ofan, er úr fjölmiðlamáli, en í lokin vil ég bæta við einum óþörfum frasa sem mætir manni alls staðar.

Eigðu góðan dag! Ég þoli það ekki en veit að það er vel meint. Af hverju ekki bara:Hafðu það gott, blessuð/blessaður,  bless eða bless, bless?. Guð veri með þér er fallegt en kannski dálítið hátíðlegt. En það gæti átt við, við sérstakar að stæður, t.d þegar fólk er að fara í langt ferðalag. Allt nema eigðu góðan dag. En fólkið sem segir þetta er svo sælt á svipinn. Því líður svo vel að mér líður illa af því ég hugsa ljótt. Ég reyni að brosa hlýlega. Fölsk. Hugsa áfram: Hvernig hefur þetta komist inn málið? Líklega verið í námsefni starfsfólks einhverrar verslunarkeðjunnar. Reyndar veit ég að það er of seint að nöldra um þetta, það er komið inn í málið.

Eigið góðan dag elskurnar sem lesið þetta. Ég er að hugsa um að breyta mér.  

Mynfin er af reiða kallinum sem ég heklaði mér til gamans. Ég sé að ég þarf að hekla eða prjóna reiðu kelinguna. Til að gæta jafnræðis.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

alltaf gaman að lesa pistlana þína.

hafðu það gott :)

Margret Sigrun Jonsdottir (IP-tala skráð) 6.3.2017 kl. 18:02

2 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Sæl Bergþóra og haltu þinni stefnu í túngusiðmentun þjóðarinnar og veitir ekki af. Ég verð ansi oft að slá upp eða spyrja konuna hvernið hitt og þetta stafast, en það er nú að einhverju leiti því að kenna að ég hef búið 1/2 æfina á hinum norðurlöndunum og flækist stafsetningin fyrir mér af þeim sökum. Að berja augum fer mest í taugarnar á mér og sárt að hlusta á þulurnar gaspra þetta og annað verra í rúfinu.

Eyjólfur Jónsson, 6.3.2017 kl. 19:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 54
  • Frá upphafi: 186944

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband