Leikhúsferð á Sókrates : Trúðaópera í Borgarleikhúsinu

image

Á seinni árum hef ég lært að skilja óánægjuna eftir heima þegar ég fer í leikhús og ég finn alltaf eitthvað til að gleðjast yfir í hverju verki. En aldrei hefur það þó komið fyrir mig á mínum langa leikhúsferli, sem áhorfandi, að mér hafi fundist að verkið væri beinlínis samið fyrir mig. Þetta gerðist í  Borgarleikhúsinu í gær þegar ég fór að sjá trúðaóperuna Sókrates. Hvernig gátu þau vitað að ég vildi einmitt sjá svona leikrit núna?

Við hjónin fórum sem sagt á Sókrates í Borgarleikhúsinu í gær, við vissum ekki á hverju við áttum von, höfðum áður séð Jesús litla eftir sama höfund, Berg Þór Ingólfsson. Það verk var dásamlegt. En Sókrates var nú enginn frelsari, eða hvað? 

Leikhópurinn fjallaði um heimspeki Sókratesar og spurði grundvallarspurningar og hann var efninu trúr að því leyti, að við fengum engin svör. Það er okkar að svara. Þótt ég hefði farið í leikhúsið með opinn hug og við öllu búin, tókst leikhópnum hvað eftir annað að koma mér á óvart og það gladdi mig. Um leið og leikritið sýndi litróf mannlífsins, grimmd, tryggð, græðgi og ráðaleysi í skoplegu ljósi skildi hún þó eftir einhverja von. Ég yfirgaf leikhúsið full þakklætis. 

En þá má segja að hefjist annar þáttur þessarar merkilegu leikhúsferðar. Við hjónin fórum á stoppistöð strætó til að taka vagninn heim. Ég var undir biðina búin, það er svo gott að hafa eitthvað skemmtilegt að hugsa um þegar maður bíður eftir strætó. Biðin reyndist lengri en ég hafði gert ráð fyrir og það var óskaplega kalt. Ég velti fyrir mér hvað ég gæti tekið mér fyrir hendur í anda Sókratesar. Það lágu tvær innkaupakerrur afvelta í snjónum við strætóskýlið og ein innkaupakarfa. Mig langaði að nota tímann og fara með þær þar sem þær áttu að vera og reyndi að hugsa ekki neikvætt um þetta fólk sem vinnur spjöll á eignum verslana með kæruleysislegri umgengni við innkaupakerrur og við hin verðum að borga í vörunum sem við kaupum. Mér tókst þetta ekki alveg og þess vegna skrifa ég þetta fólk og við hin. Ég ákvað að fara ekki með kerrurnar, fólk myndi bara halda að ég væri að stela þeim en ég reisti þær við svo þær færu ekki alveg á kaf í snjóinn. 

Strætó kom ekki.

 Mér var orðið verulega kalt og ákvað að taka gamla takta frá því að ég stóð yfir fé og berja mér og hoppa um leið jafnfætis. Þetta eru orðnir verulega gamlir taktar, því ég hef ekki staðið yfir fé síðan 1952. En þetta var líka gaman, mér hlýnaði og ég velti fyrir mér hvort Sókrates hefði einhvern tíma þurft að berja sér. Ég var ágætlega klædd og fór að hugsa um búnað hermannanna á susturvígstöðvunum í Seinni heimsstyrjöldinni. Þeim var oft svo hræðilega kalt á fótunum. Ein konan sem Svetlana Aleksievits segir frá því þegar búið var að taka hana til fanga og hún gekk fram hjá hrúgu afhögginna fóta félaga sinna. Þjóðverjarnir
ætluðu að taka stígvélin til handagagns en næðu þeim ekki af gaddfrosnum líkunum. Önnur stúlka segir frá flókastígvélunum sínum, sem voru góð þangað til hlákan kom. 

Strætó kom ekki

Ég spurði manninn minn hvort við ættum ekki að hringja á leigubíl. Hann sagði að úr því við værum búin að bíða svona lengi, gætum við beðið svolítið lengur. Þetta fundust mér góð rök og við biðum. Allir strætóar voru á tíma og renndu framhjá nema okkar strætó sem er númer 14. Þessi strætó hefur reynst okkur vel, hann hefur aldrei brugðist okkur og hvers vegna ættum við að bregðast honum með því að taka leigubíl. Og við biðu og okkur skorti ekki umræðuefni eða eitthvað til að hugsa um. Kannski hefur orðið slys. Vonandi hefur enginn slasast.

Strætó kom ekki. 

Þegar hinir strætóarnir renndu fram hjá í annað (eða var það í þriðja) skiptið sagði maðurinn minn:"Við tökum bíl"

Leigubílstjórinn sem ók okkur, spurði hvort við notuðum stundum strætó, eftir að hafa fengið svar gaf hann okkur strætómiða sem einhver viðskiptamaður hafði skilið eftir í bílnum. Hann bað okkur líka afsökunar á því að það væri enn kalt í bílnum, hann væri nýkominn af bráðamóttökunni (hún ætti kannski frekar að heita hæga móttakan). Hann hafði fyrr um daginn skorist á höfði. Hann hafði hrasað í hálkunni þegar hann var að aðstoða farþega og skorist á höfði. Hann ók sjálfur á Bráðamóttökuna og nú var búið að sauma/líma sárið. Svo ók hann okkur heim og bíllinn var orðinn þokkalega heitur og ég hugsaði enn um Sókrates.

Ég gekk frá strætómiðanum og hugsaði:"Tveir srætómiðar plús einn er næstum helmingurinn af því sem kostar að taka leigubíl. Hefðum kannski átt að taka bíl strax. En þá hefðum við misst af eftirleiknum á stoppistöðinni.   

Þetta var sem sagt góð leikhúsferð. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er skemmtilegur texti Bergþóra.  Smitar út frá sér jákvæðninni.  :)

Ásþór Ragnarsson (IP-tala skráð) 30.11.2015 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 96
  • Frá upphafi: 187294

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 87
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband