Hendur í hári: Hugleiðing á hárgreiðslustofu

Meðan ég sat í stólnum á hárgreiðslustofunni hugsaði ég til fólksins hefur tekið að sér að laga mig til í gegnum árin. Allt frá því að ég var lítil stúlka hef ég hugsað um hendurnar á því. Ég er nefnilega hársár, eða svo var sagt. En hverjum finnst gott að vera hárreittur. Ég held að ég geti sagt að ég hafi hatað hárborða, reyndar tek ég ekki oft svo sterkt til orða. En mamma hafði hlýjar hendur. 

Þar sem ég er með gróft og stíft hár var ég í eilífum vandræðum með hárið á mér meðan það átti að vera mjúkt og liðað. Ekki tók betra við á tímum túberinganna. Konan sem tók að sér að laga til á mér hárið áður en stúdentsmyndin var tekin, sagði að hárið á mér væri eins og vírbursti. Á tímabili trúði ég því að rakarar væru bestir í að klippa hár og fann rakarastofu miðsvæðis, það hentaði mér og þangað fór ég. En sá draumur átti eftir að hrynja. Þessi rakari var að vísu bæði fljótur og snjall með skærin en hann var einnig umboðsmaður hljómsveita og virtist nota rakarastofuna til að vinna að þeim málum. Einu sinni þegar ég sat í stolnum, kom til hans óánægður kúnni úr hljómsveitabransanum sem vildi fá leiðréttingu sinna mála. Úr varð rifrildi, sem stóð út klippinguna. Þeir voru báðir þrútnir af reiði og ég var á tímabili hrædd um eyrun á mér. Ekki held ég að þeir hafi leyst vandann en ég kom ekki aftur á þessa rakarastofu. Næsti rakari sem ég fór til hafði orð á sér að vera góður að finna réttan stíl sem hæfði hverjum og einum. Hann sagði mér strax í upphafi að ég væri með svipað höfuðlag og fyrrverandi konan sín. Síðan fór hann mjúkum og nærfærnum höndum um höfuð mitt og klippingin varð snilld. Ég skynjaði söknuð mannsins eftir konunni í handtökum hans. Þetta var allt hið vandræðalegasta og fór annað næst. 

En ég ætlaði að skrifa þennan pistil um hárgreiðslukonurnar sem ég minnist best í gegnum árin. Ég verð ævinlega þakklát konunni sem rakaði á mér kollinn, þegar ég var í lyfjameðferðinni og gat ekki hugsað mér að horfa á hárflyksurnar á koddanum. Hún var nærgætin og góð. Ekki var hún síðri hárgreiðslukonan sem fékk það hlutverk að snyrta nýja hárið mitt. Mér leist svo vel á hana að ég ákvað að halda mér við hana næstu árin. Þetta var um aldamótin og til hennar fór ég á  5 vikna fresti alveg þangað til hún þurfti að elta manninn sinn út til Noregs eftir Hrun. Hendur hennar voru kraftmiklar, fumlausar og þéttar. Höfuðnuddið sem var innifalið í hárþvottinum var óviðjafnanlegt. Ég saknaði hennar mikið og hélt að ég myndi aldrei finna hennar líka. En eftir að hafa prófað mig áfram, fann ég hana. Hún var að vísu allt öðruvísi góð. Handtök hennar eru svo mjúk að í fyrstu óttaðist ég að hún væri ekki neitt. 

Allt þetta var ég að hugsa á hárgreiðslustofunni. En svo þegar ég fór að skrifa það niður, byrjuðu gagnrýnisraddirnar í höfðinu að segja:" Af hverju ertu að skrifa um þetta væri þér ekki nær að skrifa um eitthvað sem máli skiptir, eins og stríðið í Sýrland, vanda flóttafólks eða bara vandræðagang eigin stjórnvalda, sem geta ekki gert upp við sig hvort við séum sjálfstæð þjóð sem hefur efni á því að hafa skoðanir."

Ég veit vel að ég er forréttindakona, ég bý fjarri átakasvæðum og þjóðin mín er ein af ríkustu þjóðum heims. En hvað getur gömul kona gert?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 85
  • Frá upphafi: 187246

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 78
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband