Fávitinn

image

Ég fæ stundum svo mikið dálæti á bókum og höfundum þeirra að það jaðrar við áráttu eða það er eins of að vera ástfangin. Núna byrjaði þetta með Karamazovbræðrunum sem ég las með bókaklúbbnum. Síðan tók Fávitinn við og nú hef ég hafið lestur á Glæpi og refsingu. Reyndar tók ég nokkrar bækur Tolstojs sem hliðarspor. Ég er ofurseld Rússum og það er ekkert óþægilegt. Allar þessar bækur eru þýddar af Ingibjörgu Haraldsdóttur. 

Fávitinn reyndist mér strembnari lesning en Karamasovbræðurnir, hann gekk á vissan hátt nærri mér. Það er eitthvað svo átakanlegt með þennan unga mann sem kemur heim til Rússlands eftir að hafa dvalið langdvölum erlendis vegna veikinda sinna en snýr nú heim til föðurlandsins eftir að hafa fengið lækningu. Að því er virðist. Hann á enga að og hefur misst langan kafla úr lífi sínu, ekki menntast og er allslaus. Að því er virðist. En hann er þó greifi og leitar því uppi fjölskyldu eina ættingja síns sem hann veit um. 

Þótt við liggi, að honum sé þar vísað á dyr, sér frænka hans Lísaveta og maður hennar, hershöfðinginn, Ivan Fjodorovits, aumur á honum. Þar með hefst flókin atburðarás sem ég ætla ekki að rekja hér. Hann kynnist mörgu fólki og af misjöfnu sauðahúsi og það eru þessir karakterar og samtölin sem gera þessa bók að meistaraverki. Reyndar væri stundum réttara að tala um einræður en um samtöl. Nær öllum þessum persónum er svo vel lýst að mér finnst ýmist að ég þekki þær og ef ekki, ef ég myndi mæta þeim á götu myndi ég þekkja þær og heilsa þeim með virktum. 

Þegar furstinn/fávitinn kemur heim til Pétursborgar, kemst allt í uppnám, að minnsta kosti hið innra með fólki. Hann er nefnilega góður. Elskar alla, er fullkomlega hreinskilinn, kann ekki að ljúga eða látast. Þetta raskar öllu jafnvægi í þessu stéttskipta þjóðfélagi sem byggist á ættum, peningum og spillingu. Fólk fer ósjálfrátt að spegla sig í honum og þar að auki er hann efnaður. Það hefur nefnilega komið í ljós að  velgjörðarmaður hans, sem stóð að því að vista hann á heilsuhælinu, hefur látið eftir sig arf og furstinn er lögmætur erfinginn hans. 

En þetta er ekki samtalsbók með myndum af fólki, þetta er ástarsaga með glæp og hún er spennandi. Mikið er ég fegin að Dostojevskí skrifaði sínar bækur áður en það þótti sjálfsagt að setja ritsjóra yfir rithöfunda til að sníða vankanta af bókum. Þessi bók er full af útúrdúrum og ég nýt þeirra. Hún tekur u.þ.b. 40 stundir í lestri. Það er ein vinnuvika. Það er eins gott að vera hætt að vinna. 

Ef þið hafið gaman af því að hlusta á fyllibyttur en viljið spara útgjöld við að fara á bar, lesið Fávitann. Ef ykkur langar að hlusta á heimspekilegar umræður og/eða guðfræðilegar,lesið Dostojevskí. Og ef ykkur langar hlusta á yfirgengilega lygalaupa, lesið kallinn.

Það er merkilegt hvað margt er líkt með Íslandi í dag og með Rússlandi 19. aldar.

Mig langar að ljúka þessum pistli með orðum Lísavetu, frænku furstans. Hún er artarleg kona  og heimsækir frænda sinn með föruneyti á hælið í Sviss en þangað er hann kominn af því sjúkdómur hans (flogaveiki) hefur tekið sig upp. Hann þekkir hana ekki lengur vegna ástands síns og hún ergir sig á öllu og langar heim:

,,Ég fékk að minnsta kosti að gráta á rússnesku yfir þessum vesalingi ...nú er nóg komið af þessari vitleysu, það er kominn tími til að hlýða skynseminni.  Allt þetta, öll þessi útlönd, og öll þessi Evrópa yðar, allt er þetta einber ímyndun, og við hér í útlöndum erum ekki annað en ímyndun... minnist orða minna, þér eigið eftir að sjá þetta sjálfur... " 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 187198

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband