Bóklestur og listin að þvo neftóbaksklúta

Ég á erfitt með að hugsa mér lífið án bóka. Ég hef alltaf haft bækur í kringum mig og þannig hefur það verið frá því að ég man eftir mér. Heima hjá mér í sveitinni, þar sem ekki var einu sinni komið rafmagn, þótti ekkert sjáfsagðara en að ræða um bækur sem lesnar voru, fólkið skiptist á skoðunum og átti sér sína upáhaldshöfunda. En auðvitað var fólk miselskt að bókum eða bókhneigt eins og það  var kallað. Til þessarar umræðu heyrðu einnig hneykslunarraddir þeirra sem höfðu uppi efasemdir um hvorrt þessi iðja væri ekki varasöm. Sérstaklega man ég eftir að ég hlustaði á umtal í sveitinni um þær sem lásu mikið og það var látið að því liggja að e.t.v. ættu þær frekar að  verja tíma sínum til að hirða betur börnin og heimilishaldið. Ég man líka eftir ágætum manni sem bjó hjá okkur um skeið, hann var mikill neftóbaksmaður og mamma og við stúlkurnar þvoðum klútana fyrir hann (og fleiri). Ekki held ég að móðir mín hafi talið þetta eftir sér frekar en annað en það má vera að við systur höfum haft um þetta einhver orð. Að minnsta kosti hafði hann það á orði að það væri nú fleira en tóbakið sem væri fíkn, það væru bækur einnig. Hann tilnefndi einnig bæ, þar sem hann hafði dvalið langdvölum, þar sem enginn gat lagst til svefns án þess að taka sér bók í hönd.

Þetta með bóklesturinn í Breiðdalnum rifjaðist upp fyrir mér þegar það rann upp fyrir mér að ég hef nú næstum samtímis lokið við lestur fimm bóka sem ég þarf nú að skiljast við. En ég legg gjarnan í vana minn að vera með margar bækur í takinu. Þessar bækur eru:

LANDNÁM,ÆVISAGA GUNNARS GUNNARSSONAR eftir Jón Yngva Jóhannesson, FLUGAN SEM STÖVAÐI STRÍÐIÐ eftir Bryndísi Björgvinsdóttur, GOLDSTEIN, GEREON RATHS DRITTE FALL eftir Volker Kutscher, FARANDSKUGGAR eftir Úlfar Þormóðsson og ANNA RÓS eftir Þórunni Elfu Magnúsdóttur (bókin sem hefði átt að lesast á undan í SKUGGA VALSINS). Auk þessa les ég minn áætlaða skammt af Biblíunni en það er áramótaákvörðun, ekki heit, sem ég tók, (sú fyrsta á ævinni).

Ég sé það núna þegar ég sit með allar þessar bækur fyrir framan mig að bókaval mitt hefur mótast í bernsku. Þá var aðgangur að bókum ekki jafn mikill og góður og nú svo þeir sem voru leshneigðir, haldnir lesfíkn, lásu allt sem að kjafti kom og það reyndist mér vel. Þannig fékk ég innsýn í fjölmargt sem ég hafði aldrei leitt hugann að. Það sama er hér uppi á teningnum.

Goldstein bókin er lögreglusaga á þýsku sem fjallar um viðfangsefni lögreglunnar og þó sérstaklega það sem Gereon Rath er að fást við í Berlín í kringum 1930. Flugan sem stövaði stríðið er barna- og unlingasaga með boðskap. Farandskuggar er ljúfsár saga manns sem er að kveðja gamla móður sína og kannski aðallega að leita að sjálfum sér. Anna Rós er sagan sem ég hefði átt að lesa á undan bókinni um Skugga Valsins. Landnám, ævisaga Gunnars Gunnarssonar er sagan um Gunnar, skáldskap hans og um okkur Íslendinga, hvernig við tókum og tökum honum.

Nú hef ég sem sagt lagt allar þessar bækur til hliðar í bili (nema Bibíuna að sjálfsögðu sem ég les daglega og bókina um Gunnar sem gaman er að slá upp í og glöggva sig á) og þegar hafið lestur á nýjum. Reyndar hefur hvarflað að mér hvort ég sé ef til vill ein af þeim konum sem ætti kannski að hugsa svolítið betur um heimilið. Ég hef ekki tekið afstöðu til þess enn hvort rétt sé að ræða um bóklestur sem fíkn en segi fyrir mig ef svo er þá er það bara af hinu góða. Ég þarf ekki að þvo neina tóbaksklúta, sem betur fer en játa að gamla velgjutilfinninginn kemur enn upp í hálsinn þegar ég horfi á Kiljuna og sé Braga handleika tóbakið og tóbaksklútinn. Mikið vildi ég að hann væri búinn að þessu áður en hann kemur í þáttinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband