Svo langt frá heimsins vígaslóð

2 

Sagan sem Herta Müller segir í bókinnin, Atemsschaukel heftst í janúar 1945, undir lok seinni heimsstyrjaldar. Rússar höfðu lagt undir sig Rúmeníu og ákveða að senda alla vinnufæra þýskumælandi íbúa í Rúmeníu í þrælkunarbúðir í hefndarskyni og til að flýta fyrir enduruppbyggingu Sovétríkjanna. Fyrir stríð bjuggu u.þ.b. 750 þúsund þýskumælandi íbúar í Rúmeníu, þetta voru ólíkir hópar og margir þeirra höfðu búið þarna í aldir. Móðir Hertu Müller var ein þeirra sem send var í þrælkun en hún var ófús að ræða það. Hún kom til baka eftir 5 ár. Herta segir að hana hafi lengi langað til að segja þessa sögu. Hún leitaði til rithöfundarins Oskars Pastiors sem var í fangabúðunum Gorlvoka í fimm ár en hann var 17 ára þegar hann var sóttur á heimili sitt. Eftir að hún hóf að undirbúa sig fyrir að segja þessa sögu, hitti hún Oskar reglulega og skrifaði niður eftir honum.  En samstarfið þróaðist á þann veg að þau ákváðu að skrifa söguna saman. Oskar lést áður en af því varð. Dauði hans var skáldkonunni mikið áfall, loks ákvað hún að ljúka verkinu og skrifa þessa sögu sjálf en hún byggir á efninu sem þau höfðu unnið að saman. Bókin kom út 2009 og Herta Müller sama ár og hún fékk Nóbelverðlaunin. Seinna kom í ljós að Oskar Pastior hafði um tíma unnið fyrir leyniþjónustu Rúmena. Þetta varð Hertu mikið áfall því hún hafði sjálf unnið ötullega að því að þeir menn sem hefðu starfað fyrir leyniþjónustuna skyldu dregnir til ábyrgðar fyrir drýgða glæpi.

Síðar sagði hún að hún gæti að vissu leyti skilið að Oskar Pastior skyldi leiðast út í slíkt, það var auðvelt að ná taki á honum þar sem hann var samkynhneigður en slíkt var refsivert.

Ungi maðurinn sem Rússarnir sækja á heimili hans og sagan segir frá heitir Leo Auberg og hann á margt sameiginlegt með Oskar Pastior en þetta er þó skáldsaga en ekki æfisaga og hún er bæði hræðileg og átakanleg. Reyndar eru frásagnir af óhugnaði fangabúða ekkert nýnæmi. Það sem kemur á óvart er hversu margt þessar frásagnir um kúgun eiga sameiginlegt, hvort sem valdhafinn heitir Hitler, Stalín eða Bush. Í öllum tilvikum er lögð áhersla á að svipta fórnarlambið mennsku sinni og sjálfsvirðingu.

Sagan er ekki samfelld frásögn í tímaröð, heldur margar litlar frásagnir um lítil atvik eða smáatriði sem tengjast lífinu í búðunum. Undarlegar litlar sögur, sumar fullar af svörtum húmor eða einhverju sem er svartara en svartur húmor. Herta Müller leikur sér mikið með orð og með málið. Oft liggur skáldskapurinn falinn í þessum gráglettna leik hennar með orðin. Við fylgjumst með unga manninum sem veit ekki mikið um lífið og er að byrja að uppgötva ástina á ferð hans að heiman í gripaflutningalest, dvöl hans i búðunum og heimkomunni að fimm árum liðnum. Það er ekki sami maðurinn sem kemur heim. Það er annar maður. Mér finnst ég líka vera önnur eftir að ég las bókina, þannig er um góðar bækur. Af öllum frásögnum bókarinnar var heimkoman sorglegust. Lýsing höfundar á upplifun Leos af því að koma til baka stemmir alveg við sögu Leifs Muller, Býr Íslendingur hér? Það var var ekki hægt að tala því það myndi enginn skilja. Við Íslendingar sem höfum svo lengi búið fjarri "heimsins vígaslóð" þurfum á svona bókum að halda til að minna okkur á að friður er forrétindi og ekki sjálfsagður hlutur.

Ég las bókina á sænsku, hún heitir Andingsgunga. Það var ekki  létt. Ég hélt að sænskukunnátta mín væri allgóð en hún hrökk ekki til og víða greip ég til þess að nota orðabækur en þær hjálpuðu takmarkað. En erfiðið borgaði sig margfalt. Hér á e.t.v. við að skjóta því inn í að ég hef í raun unun af því að lesa efni sem er á mörkum þess að ég skilji það. Í því felst einhvers konar keppni mín við mig og oft verð ég undir. Það gerir ekkert til.

Mér finnst að það ætti að þýða þessa bók á íslensku og ég gæti vel hugsað mér að Hallgrímur Helgason væri kjörinn til verksins. Reyndar hefur ein bók Hertu verið þýdd, það gerði Frans heitinn Gíslason. Hún heitir Ennislokkur einvaldsins. Ég er að lesa hana núna og hún er litlu léttari en sú fyrri sem ég las.

http://www.tagesspiegel.de/kultur/atemschaukel-roman-aus-dem-versunkenland/1582856.html

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Bergþóra,

það gleður mig að sjá að þér líkar við ATEMSCHAUKEL/ANDINGSGUNGA og ég get glatt þig með því að Bjarni Jónsson er langt kominn með að þýða hana á íslensku. Bókin kemur svo út hjá Ormstungu í september, en þá verður Herta Müller gestur bókmenntahátíðarinnar í Reykjavík.

Smáathugasemd: Þú segir að um 750 þús. manns hafi búið í Rúmeníu fyrir stríð. Þú meinar auðvitað "750 þús. Þjóðverjar", þykist ég vita.

Gísli Már Gíslason (IP-tala skráð) 25.3.2011 kl. 23:05

2 identicon

Gaman að fá þessar línur frá þér og gott að fá leiðréttinguna, en ég gleymdi óvart núllunum, það er ekki nógu gott að gleyma þrem núllum. Ég hlakka til að fá Hertu hingað, hef reyndar talsvert skoðað efni um hana og frá henni eftir verðlaunin. Afar áhugaverð

Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 27.3.2011 kl. 01:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 71
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband