Medan han lever ( Meðan hann lifir):Elaine Eksvärd

00D76611-70EC-436F-BB72-43756F7FD57C

Elaine Eksvärd er nú orðin þekkt persóna í sænskum fjölmiðlum. Hún skrifar blogg, rekur rágjafarstofu sem heitir Snacka Snyggt, er eftirsóttur fyrirlesari og hefur verið ráðgjafi virtra fyrirtækja og opinberra stofnana. Einu sinni var hún það ekki, hún var bara lítið barn. 

Móðir hennar var brasilískur innflytjandi en faðirinn ósköp venjulegur Svíi. Eða virtist vera það. Þegar foreldrarnir skildu, var gerður ósköp venjulegur skilnaðarsamningur, hún var áfram hjá móður sinni, pabbinn varð helgarpabbi.Elaine elskaði pabba sinn út af lífinu, henni fannst hann skemmtilegur og góður. Hann gældi við hana og á kvöldin horfðu þau saman á vídeó. Auk þess leyfði hann allt sem mamman bannaði.

Elaine var líka eðlilegt barn að því leyti, að hún hélt að lífið sem pabbi hennar bauð henni upp á, væri eðlilegt líf. Hún þekkti ekkert annað. Smám saman fór hana þó að gruna að sumt væri ekki í lagi. Skilningur hennar á því sem var að gerast og uppgjörið við föðurinn kom löngu seinna.

Í bókinni (ég las bókina á sænsku) skiptist hún á að segja frá réttarhöldum og eigin lífi, sérstaklega bernskunni.  Þetta er áhrifamikil frásögn og það er á vissan hátt merkilegt að sjá hvernig þessi töff kona verður lítil þegar kemur að uppgjörinu við skömmina, svikunum. Eru til alvarlegri svik heldur en að svíkja barn sem maður á að verja fyrir öllu illu?

Þegar Elaine var 33 ára gömul kærði hún föður sinn fyrir kynferðislega áreitni. Hann hafði sent henni klámmyndband. Hún hafði reyndar áður reynt að kæra hann en var vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum. Nú hafði hún sönnunargagn. Móðir hennar hafði líka á sínum  tíma reynt að fá breytingar á umgengnisrétti og leitað til barnaverndaryfirvalda en var ekki trúað. 

Gælurnar sem pabbinn gerði við dóttur sína veru engar venjulegar gælur og myndböndin sem þau horfðu á voru gróft porr. 

Mér fannst erfitt að lesa þessa bók, það er ónotalegt að fá nákvæmar lýsingar á því hvernig barnið bregst við misnotkun, heldur í lengstu lög í að svona eigi þetta að vera. 14 ára sagði hún skilið við föður sinn og innsýn hennar kemur smámsaman. Lengi hélt hún í vonina að hann myndi iðrast og biðja hana fyrirgefningar, sem aldrei varð.

Frásaga Elaine af unglingsárum sínum þegar hún var í senn að takast á við að þroskast og við skömmina virkaði ruglingslega á mig enda mikið í gangi. En þrátt fyrir allt ruglið ákveður hún að læra eitthvað nytsamlegt og velur sér fagið retorik (mælskulist). Það hafði aldrei neinn trúað henni og hana langaði að ná valdi á málinu til að geta sannfært fólk.

Í kaflanum um æskuna minnti unglingurinn Elaine mig stundum á kóreönsku stúlkuna Yaonmi sem ég skrifaði um í síðasta bloggi. Þær leita báðar til trúarhreyfinga en einungis tímabundið. Í báðum tilvikum vilja þær tjá sig um reynslu sína.

Elaine segir frá reynslu sinni til að útskýra fyrir fólki hve misnotkun er lúmsk og hversu vandamálið er alvarlegt. Til að gera þetta enn augljósara bætir hún statistikk við frásögn sína, tölfræði sem, ef ég skil rétt, byggist á áætluðum tölum að hluta. Þessari  viðbót við frásögnina fannst mér ofaukið.

Það var tilviljun að ég valdi þessa bók, ég vissi ekki um hvað hún var. Forsíða var svo falleg en hún er af lítilli stúlku sem horfir kotroskin á heiminn. Meðan ég las, sá ég litlu stúlkuna fyrir mér. Opinn svipur barnsins gerir frásöguna enn áhrifameiri.

Ég las bókina í andrúmslofti umræðu um valdbeitingu og alls kyns kynferðislega áreitni sem konur hafa þurft að þola. Áhrifin eru sterk en ég finn að ég fyllist bjartsýni. Þessi umræða á eftir að breyta miklu. Ég er nefnilega viss um að þeir sem áreita og beita valdi, vita alveg hvað þeir eru að gera. Þess vegna geta þeir hætt, breytt hegðun sinni.  Þeir hafa komist upp með það. Ástæðan er í höfðinu á þeim en ekki í klofinu eins og oft er látið í veðri vaka. En ástæðan er líka í samfélagi sem lætur þeim líðast.  

Bókin um litlu stúlkuna sem seinna vann dómsmal gegn föður sínum er vel skrifuð enda ekki fyrst bók höfundar.    

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 15
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 90
  • Frá upphafi: 187238

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 79
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband