Sálumessa yfir spænskum sveitamanni:Ramón J. Sender

image

Ég var næstum búin að gleyma að segja frá þessari bók, hún lætur svo lítið yfir sér. Hún kom upp í hendurnar á mér af tilviljun, stundum er eins og góðar bækur leiti mig uppi. Ég þekkti ekkert til höfundarins og man ekki eftir umræðu um hana.  Strax og ég sá nafnið vissi ég að þetta væri bókin. Ég hef komist á bragðið að lesa bækur sem rekja ættir til gömlu góð latínunnar (því miður einungis í þýðingum). 

Bókin er stutt, tekur bara tvo og hálfan tíma í afspilun (ég hlusta á bækur). Hún gerist í litlu sveitaþorpi á árunum milli stríða. Sögumaður er kaþólskur prestur, sjónarhornið er hans. Það er allt afar friðsælt í þessu litla þorpi. Í föstum skorðum. Kjör alþýðunnar eru eðlileg, fólk hefur í sig og á. Þar búa þó tveir eða þrír auðugir menn í fínum húsum. Eini fátæklingurinn, sem sagt er frá, býr í helli og á ekki einu sinni dýnu til að sofa á. Þar deyr hann. Litli drengurinn sem fer með prestinum (kórdrengur) í hellinn til að veita hinum deyjandi manni hinstu smurningu, verður svo hrærður af því að sjá lífskjör sveitunga síns, að það átti eftir að verða örlagavaldur í lífi hans. 

Í þessu þorpi er ein óforskömmuð kerling, Jerenima, nokkurs konar Gróa á Leiti. Hún dreifir sögum og er nokkurs konar fréttaveita þorpsins. Prestinum er um og ó. 

Rammi sögunnar er vinna prestsins og skyldur hans við Guð og menn. Þótt prestur sé sögumaður og sé fyrst og fremst að tala um starf sitt, er hetja sögunnar litli kórdrengurinn sem fór með honum í vitjun inn í hellinn til að þjónusta nær allslausan deyjandi mann. Það eina sem hann átti var sonur í fangelsi. Ég ætla ekki að spilla lestri bókarinnar fyrir hugsanlegum lesendum með að rekja efni hennar frekar. Læt hér nægja að segja að lesandinn skynjar, þótt það sé hvergi beinlínis sagt, að það sé einhver hætta yfirvofandi, þrátt fyrir að allt sé friðsælt í litla þorpinu. 

Höfundurinn Ramón J. Sender er fæddur 1901 í Chalamara Huesca í austurhluta Spánar. Hann var sjálfur þátttakandi í borgarastyrjöldinni sem hófst 1936 og lauk 1939. Í þessu stríði missti hann bæði konu sína og bróður og varð sjálfur að flýja föðurland sitt. Hann lifði í útlegð allt fram til dauða Francós (1975). Hann er nú talinn einn af merkustu höfundum Spánar. (Þegar ég hóf lestur bókarinnar vissi ég ekkert um þennan mann en ég hef lesið mér til). Litla sagan sem ég var að lesa er á yfirborðinu lágstemmd, ekki saga stórra atburða. En í reynd er verið að segja sögu borgarastyrjaldarinnar í hnotskurn, þorpið er smækkuð mynd. 

Bókin kom út á spænsku 1953 og á íslensku 1986 í þýðingu Álfrúnar Gunnlaugsdóttur og Þorgeirs Þorgeirssonar, hann þýddi ljóðin. Þetta er bók sem maður notar um orð eins og Perla eða snilldarverk. Ég er búin að lesa hana þrisvar og leiddist ekki. Þannig er þessi bók. 

Myndina tók ég á Spáni í fyrra en hún er víðsfjarri slóðum þessarar sögu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 84
  • Frá upphafi: 187307

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 76
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband