Forgarður helvítis

image

Enn les ég. Og nú hittist þannig á, að bókin sem ég er að lesa talar beint inn í atburðarás stjórnmála dagsins í dag. Bókin er: Eitthvað á stærð við alheiminn, áður hafði ég lesið Fiskarnir hafa enga fætur.  Þetta eru bækur eftir Jón Kalman Stefánsson, þær bera millititilinn Ættarsaga, og taka til þriggja kynslóða. Hefjast á Austfjörðum við upphaf 20. aldar en aðalsögusviðið er Keflavík og Sandgerði. Þetta eru hrífandi bækur. Ég ætla í þessum pistli einungis að fjalla um eitt atriði sem felur í sér umfjöllum um gömul sannindi. 

Ari, sem er aðalpersóna sögunnar er ættaður í föðurætt sína að austan. Tryggvi ömmubróðir hans er áhugasamur um bókmenntir, hann hefur lesið Dante og endursegir söguna fyrir sjómennina á aflaskipinu Sleipni á vertíð á Hornafirði. Skipstjóranum, afa Ara,  er ekki um þetta gefið, mennirnir þurfa að hvílast, segir hann. Það hefur samt eitthvað setið eftir, því hvað eftir annað er vitnað til þessarar bókar í því sem síðar gerist.  

Ég er illa að mér um skipulag eilífðarmálanna, hvernig háttar til í dánarheiminum, úr því þarf ég að bæta. Ég vissi reyndar að menn eru dæmdir af verkum sínum, góðum og vondum. Það sem kom mér á óvart var að þeir sem eru allra verst settir, eru ekki menn vondra verka. Verst eru þeir staddir sem gerðu ekkert þegar þeir höfðu tækifæri til, stóðu álengdar og létu hjá líða að gera það sem þeim bar. Það eru þeir sem í raun hljóta eilífa útskúfun. Þeir fá ekki einu sinni vist í helvíti. 

Af því að ég hafði lesið þessar góðu bækur, hlustaði ég á orð fjármálaráðherra og mannsins sem hefur verið tilnefndur í forsætisráðherrastöðuna í nýju ljósi þegar þeir komu niður stigann í Alþingishúsinu. Báðir lögðu þeir áherslu á að vera dæmdir af sínum góðu verkum en ég hugsaði. Hvernig væri í staðinn að dæma þá af því sem þeir hafa ekki gert. Það er langur listi.

Ég ætla hér einungis að nefna nokkur atriði.

Þeir hafa ekki séð til þess að til þess stýra þjóðmálunum á þann veg að almenningur í landinu njóti góðs af góðærinu sem þó er.

Veikt fólk fær ekki nauðsynlega þjónustu.

Stofnanir í eigu okkar allra eru látnar grotna niður.  

Þeir hafa ekki komið skipulagi á hvernig standa skuli að uppbyggingu ferðamála þannig að tryggt sé að dýrmætar náttúruperlur bíði ekki skaða af.

Þeir hafa ekki komið skipulagi á húsnæðikerfið, svo fjöldi fólks býr nú við erfiðar félagslegar aðstæður.

Menn sem standa hjá og gera ekkert þegar þeim er í lófa lagið að bjarga málum fá hvorki vist í Himnaríki eða Helvíti, það vill enginn hafa þá. Þeir eiga auðvitað ekki að vera ráðherrar né sitja á Alþingi. Þeira bíður útskúfun.

Mikið var ég heppin að vera að lesa þessa bók Jóns Kalmans núna, hann orðar svo vel hugsanir mínar. Og tilfinningar.

P.s. Bókin sem Tryggvi las (á dönsku) var Gleðileikurinn dásamlegi eftir Dante. Hún er reyndar nú til í ágætri þýðingu Erlings E. Halldórssonar. Ég náði ekki að lesa hana áður en sjónin versnaði og það er því miður ekki búið að lesa hana inn hjá Hljóðbókasafni Íslands.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 187241

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband