Flækjustigið eykst: Púkinn á fjósbitanum fitnar

image

Ég held að flækjustig sé tiltölulega nýtt orð. Og ég held að við höfum i rauninni litla þörf fyrir það. Oftast birtist þetta orð, tengt málefnum sem brenna á fólki.  Þau eru umrædd og velkjast í kerfinu. Það sem þau eiga sameiginlegt er að það hefur aldrei staðið til að leysa  þau.  Dæmi um slíkt mál eru kjör öryrkja og eldri borgara, málefni flóttamanna og salernismál ferðalanga ( þetta eru einungis dæmi, listinn yrði of langur). Í stað þess að setja fókus á hvað er aðalatriði hvers máls, þá er settur í gang einhvers konar spuni. 

Þegar ég heyri orðið flækjustig verður mér hugsað til þjóðsögunnar um Púkann á fjósbitanum sem ég veit að allir mínir lesendur kunna. Og ég sé fyrir mér mynd af fjósi, fjósinu á bernskuheimili mínu.  

Það eru forréttindi að hafa alist upp í sveit, fyrir tíma tækninnar. Að vísu fylgdi því endalaus vinna. En ég ætla ekki að ræða um það hér. Fjósið var á vissan hátt griðastaður, því fylgdi heimspekileg ró og hlýja. Þarna stóðu þær kýrnar eða lágu á básunum sínum og fengu sína þjónustu tvisvar á dag og millimál. Þær voru þvegnar um júgrin, mjólkaðar, þeim var brynnt og svo fengu þær tugguna sína. Auk þess var mokað undan þeim, þ.e. flórinn. Þær voru ekki bara bundnar á bás, þær voru einnig með halaband. Halabandið kom í veg fyrir að þær óhreinkuðu halann í flórnum og slettu forinni með halaslætti um sig alla og  svínuðu sig út.

Ég sé fyrir mér fjósið í Odda hjá Sæmundi. Ég held að það hafi verð líkt fjósi bernsku minnar nema stærra, fleiri kýr og geldneyti. Og þó var einn reginmunur. Í okkar fjósi var enginn biti og enginn Púki. En ef púkinn hefði verið þarna, þá hefði honum verið létt um vik, að binda kýrnar saman á hölunum (með halaböndunum) og leysa þær síðan af básnum. Þá hefði svo sannarlega flækjustigið magnast í fjósinu.

En til baka að stjórnmálum dagsins í dag. Fjósamennirnir nota nú spuna í staðinn fyrir blótsyrði. Þeir eru að meira að segja með spunameistara á launum og stundum fleiri en einn. Púkinn er enn á fjósbitanum og hann fitnar og fitnar. 

En hvað sem liður púkum og spunameisturum eru málin einföld. Neyð er neyð, lygi er lygi og spilling er spilling. 

Myndin er af listaverki Alfreðs Flóka, Geðveiki


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það eru forréttindi að hafa alist upp í sveit, fyrir tíma tækninnar

Ja þú segir nokkuð! Ekki fannst mér það, mér finnst ég ekki hafa séð ljósið fyrr en ég komst útúr "Idiotie des ländlichen Lebens". – Þú kannski fyrirgefur einum áttræðum.

Gunnlaugur Þorleifsson (IP-tala skráð) 18.10.2015 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 83
  • Frá upphafi: 187231

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband