Stalín ungi: Simon Sebag Montefiore

Stalin-young 

Þegar ég var búin að lesa ævisögu Hannesar Hafstein, Jóns Sigurðssonar, Ingibjargar Einarsdóttur og Þóru biskups og Stephans G. komst ég að því að ég var einhvern veginn föst í 19. öldinni. En þetta voru allt Íslendingar og sjónarhornið var íslenskt svo ég fór að velta fyrir mér hvort ekki væri fróðlegt að stækka sjóndeildarhring minn og fara utan. Ég ræddi þetta við manninn minn og hann rétti mér þá bók og sagði þú gæti t.d. lesið þetta. Þetta var bók um Stalín, Stalin; den röde zhar og hans hof eftir Simon Sebag Montefiore.

Nú vill svo til að ég hef aldrei haft neinn áhuga á Stalín. Mér fannst hann óviðfelldinn og auk þess fór í taugarnar á mér að íslenskir róttæklingar þyrftu að vita einhver ósköp um rússnesku byltinguna. Mér nægði þá að vita að þeir væru á villigötum og hefðu trúlega verið það frá upphafi.

Eftir að ég var komin með bókina í hendurnar og búin að lesa 150 síður (hún er 768) komst ég að því að það var til önnur bók eftir þennan höfund um þennan sama mann og hana er búið að þýða á íslensku. Hún heitir Stalín ungi, og ég ákvað að taka þetta í tímaröð (reyndar kom þessi bók út á eftir hinni) og lesa hana fyrst.

Nú er ég langt komin með Stalín unga. Söguþráðurinn er nokkurn veginn þessi: Þegar Stalín var ungur átti hann afskaplega bágt. Faðir hann var drykkfelldur og geðsjúklingur, hann barði bæði Stalín og móður hans og þau urðu oft að flýja heimilið. Stalín var oft veikur sem barn og varð einnig fyrir slæmum slysum. Móðir hans, aftur á móti, var afskaplega dugleg kona sem sá vel um son sinn, þótt hún berði hann líka. Hún hafði mikinn metnað fyrir hans hönd og kom honum í prestaskóla. Stalín ungi var bæði gáfaður, söngvinn og ástundunarsamur framan af. Hann var lestrarhestur og orti ljóð og fékk þau birt í virtu bókmenntatímariti áður en hann var 17 ára. Aumingja ungi Stalín.

Stalín hafði mikinn áhuga á bókmenntum og stalst til að lesa forboðnar bækur. Lesturinn spillti honum, hann fór að vera gagnrýninn og tengdist mönnum sem vildu vinna gegn óréttlætinu, kirkju og stjórnvöldum. Einkunnir hans hröpuðu og svo fór að hann lét reka sig úr klausturskólanum. Eftir þetta lá leið Stalíns beint upp á við ef maður hugsar þetta út frá valdastiganum (niður á við ef maður hugsar það siðferðilega). Hann var í fararbroddi byltingarmanna sem svifust einskis. Hann var forsprakki í hópi  ungra manna sem fjármögnuðu byltinguna og stýrði ræningjagengum sem rændu banka, póstvagna og skip. Þeir kúguðu einnig fé af ríku fólki og stunduðu skemmdarverk. Bölvaður óþokkinn. Mórallinn hjá Stalín og kollegum hans minnir um margt á það sem nú er að gerast hjá herskáum Múslímum en af því ég á eftir að lesa um síðari æviár hans veit ég að þetta á bara eftir að versna.

Þetta er búin að vera fróðleg lesning. En ég á erfitt með að átta mig á höfundinum. Hann hefur greinilega kynnt sér mikið af heimildum og fjölmargt áður óþekkt (það hafa opnast gáttir á söfnum eftir að Sovétríkin liðu undir lok). En það sem er sérstakt við hann, fyrir utan þennan aragrúa af nöfnum, er að stundum er eins og maður sé að lesa slúðurpressuna. Bókin er uppfull af slúðri og ef hann kemur því ekki inn í textann setur hann það í  neðanmálsgreinar. Auk þess notar höfundur mörg, sterk og gildishlaðin lýsingarorð. Þessi lýsingarorð eru nær eingöngu neikvæð. (Mér var ósjálfrátt hugsað til bókar Páls Eggerts Ólafssonar um Jón Sigurðsson forseta sem ég hef kíkt í en ekki lesið {hún er 5 bindi} en hún er uppfull af gildishlöðnum jákvæðum lýsingarorðum). Ég var búin að lesa mér til um höfund Stalínsbókanna. Hann er virtur breskur sagnfræðingur og hefur fengið verðlaun fyrir að skrifa sagnfræðirit sem opna sagnfræðiheiminn fyrir almenningi. En ég verð að játa að stundum kunni ég ekki við framsetningu hans, hann talar oft niðrandi um konur og hefur greinilega ekki lært neitt um femínisma (ég meina það). Það hefði þurft að fá femínista til að lesa bókina yfir því umfjöllun hans um konur er eins og hann sé enn staddur á 19. öldinni.

Nú velti ég því fyrir mér af hverju Stalín varð svona vondur maður og hvernig sagan hefði þróast ef hann hefði lokið prestnámi og orðið prestur eða kennari eða ef hann hefði dáið þegar vagninn ók yfir hann eða ef hann hefði yfirgefið félagana og hjúkrað konunni sinni þegar hún var veik, bjargað lífi hennar og orðið ábyrgur fjölskyldufaðir. Reyndar dreg ég í efa að keisaradæminu hafi verið viðbjagandi en það hefði kannski allt farið betur ef mensévíkar hefðu náð yfirhöndinni í stað bolsévika. Þessu fáum við aldrei svör við.

Reyndar hefði ég viljað allt öðru vísi bók. Mig langar að lesa bók þar sem spurt er spurninga um hvernig  illskan verði til og heiðarlega umfjöllun um hvernig þau samfélög eru sem eru gróðrarstía fyrir illsku en þá verð ég að leita á önnur mið.

Mig langaði ekki til að lesa um fræga menn sem eru poppaðir upp og skrifað um í slúðurfréttastíl en samt er er ég búin að lesa bókina um Stalín unga sem er 458 síður og er í þann að hefja lestur á: Stalín, rauði keisarinn og hirð hans (mín þýðing á titlinum Stalin: The Court of the red Tsar). Það hlýtur því að vera eitthvað til í því að þessi höfundur hafi fundið leið til að koma sögulegum staðreyndum á framfæri við almenning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú ertu búin að koma mér á bragðið; þetta ætla ég að lesa. En það er nú svo að ævisögur svona risa, eru svo margar, að stundum þarf að bíða ansi lengi eftir "réttu" ævisögunni. Margt var ég búin að lesa um Karl Marx, áður en ég datt niður á þá langbestu.

Guðrún Ægisdóttir (IP-tala skráð) 9.5.2013 kl. 14:23

2 identicon

Hver skrifaði þá bók?

Bergþóra Gísladóttir (IP-tala skráð) 12.5.2013 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 6
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 69
  • Frá upphafi: 187443

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 59
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband