Játningar mjólkurfernuskálds

Í þessari atrennu ætlum við í lestararfélaginu að einbeita okkur að barna- og unglingabókum. Reyndar lesum við einnig eina fullorðinsbók, svona til að halda áttum en hún er fljótlesin. Ég hef nú lokið við fyrstu barnabókina sem er eftir Arndísi Þórarinsdóttur. Mér finnst þetta skemmtileg tilbreyting, minnir mig á gamla daga þegar ég var á kafi í barnabókum. Ég held að það tímabil ævi minnar hafi í raun hafist 1973 og það var tilviljun sem réði því eins og fleiru í mínu líf.

Ég hafði verið við nám í Noregi og þar sem einn kennari minn var Thordís Örjasæter rithöfundur og gagnrýnandi. Hún var frábær kennari. Ári seinna hafði hún samband við mig og spurði hvort ég væri til í að taka þátt í samnorrænu verkefni um umfjöllun um börn og barnamenningu í dagblöðum. Verkefnnið var ekki stórt, það fólst í því skoða dagblöðin í eina viku og skrá hve mikið væri fjallað um börn og barnamenningu. Þetta sama var gert á hinum Norðurlöndunum. Verkefninu lauk síðan með því að við sem verkið unnum áttum að kynna niðustöður okkar, einn frá hverju landi á Norrænni ráðstefnu um barnameningu sem haldin var í Danmörku. En þá var komið babb í bátinn hjá mér því ég var nýbúin að eiga barn og enn með það á brjósti enda var barnið ekki nema tveggja mánaða. En ég var áræðin og á ráðstefnuna fór ég. Líklega hefu þessi ráðstefna hleypt af stað einhverri umræðu i fjölmiðlum því að a.m.k. eitt dagblað, Vísir ákvað að bæta umfjöllun um barnabækur við annars ágæta umfjöllun um menningarmál. Það var leitað til mín og ég tók það að mér undir frábærri leiðsögn Ólafs Jónssonar gagnrýnanda. Þetta var sem sagt upphafið að nokkuð löngu tímabil sem ég las barna- og unglingabækur af kostgæfni.

Þetta rifjaðist alltt upp þegar lestrarfélagð ákvað að nú skyldi tekinn skurkur í barnabókalestri og lesnar 3 bækur ætlaðar börnum. Játningar mjólkurfernuskálds var fyrsta bókin sem ég las. Mér fannst bókin nokkuð spennandi og oft skemmtileg. Hún fjallar um unglingsstúlkuna Höllu sem hefur asnast til að taka að sér að dreifa fýkniefnum og er nöppuð við fyrstu tilraun. Heimur hennar hrynur. Reyndar ekki bara hennar heimur heldur líka heimur pabbanna hennar og vina. Mér fannst það skemmtilegt í bókinni þegar í fyrsta skipti var talað um pabbana án útskýringa, rétt eins og það væri eðlilegasti hlutur í heimi (sem það reyndar er) að barn sé alið upp af tveimur karlmönnum. Reyndar ber þetta hrun í unglingaheiminum upp á sama tíma og hið svokallaða hrun verður í fullorðnisheiminum. Feður hennar neyðast til að  minnka við sig. Fjölskyldan flyst í annað bæjarhverfi þar sem þau fá að búa ódýrt eða ókeypis í íbúð aldraðrar frænku sem liggur á spítala. Unglingurinn Halla byrjar í nýjum skóla sem er allt öðru vísi en gamli skólinn hennar. Orðsporið fylgir henni og móttökur kennara og nemenda mótast af því. Halla reynir í fyrstu að komast inn í hóp "góðu" krakkanna en þegar það tekt ekki söðlar hún um og reynir að komast inn í heim hinna, þ.e. þeirra sem eru í uppreisn og með vafasamt orðspor. En til þess að það takist verður hún að breytast og láta sanna að hún sé verðug.

Þessi bók hreif mig ekki, kannski er allt of langt síðan ég hef lesið unglingabækur og e.t.v eru unglingar öðruvísi  nú en þá. En til þess að maður hrífist af bók verður maður að trúa henni. Þegar ég les fer höfundurinn með mig inn í heim sem trúi og læt mig varða á meðan ég er þar. Persónurnar eru fólk sem ég þekki og er ekki sama um. Í þessari sögu var allt of margt sem mér fannst ekki ganga upp. Kannski þekki ég bara allt of vel til í skólakerfinu. Það var reyndar ekki mikið sem var sagt um Hagaskóla og það gat svo sem passað en nýi skólinn sem stúlkan var í var undarlegur og kennararnir eins og úr einhverri annarri eldri sögu. Mér fannst aðalpersónan Halla ekki heldur nógu vel dregin eða mér féll ekki við hana. Hún hafði t.d. ekki minnstu samúð með gömlu frænku sinni sem fjölskyldan naut góðs af en það virtust feður hennar reyndar ekki hafa heldur. Ég skil núna hvers vegna sumar gamlar konur ánafna Kattavinafélaginu eigum sínum þegar þær deyja.

Ég las þessa bók samt til enda og var í raun létt þegar mál Höllu leystust á besta veg og frænka hennar var kannski ekki eins veik og það leit út fyrir. Kannski hefur mér ekki verið alveg sama um þetta fólk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 71
  • Frá upphafi: 187452

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 61
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband