Axel Munthe: Sagan um San Michelle

image

Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa þessari bók hún er allt öðru vísi en það sem ég hef áður lesið. Þetta eru margar og misstórar frásagnir sem tengjast lífi höfundar, raðað nokkurn veginn í tímaröð. Þetta er þó ekki ævisaga í bókstaflegum skilningi. Hann segir sjálfur í formála bókarinnar að hann hafi leitast við að þurrka allt persónulegt út úr sögunni. Hann fjallar t.d. ekki um foreldra sína eða bernsku heldur ekki um börn sín eða konurnar tvær sem hann giftist. Hann talar heldur ekkert um Viktoríu drottningu ( Svía) sem hann tileinkar bókina en hann var líflæknir hennar til margra ára. 

Uppistaða bókarinnar eru frásagnir um ungan sænskan lækni sem menntast í París og verður læknir þar en lendir í útistöðum við samstarfsmann sinn og meistara Charcot og fer þá til eyjarinnar Capri og sest að í San Michele. Þar lætur hann drauma sína rætast um hið fullkomna líf. Hann segir ýmsar sögur úr vinnu sinni með sjúklinga, bæði ríka og fátæka. Hann verður nokkurs konar tískulæknir og er sérfræðingur í geðlækningum þessa tíma. Hann er þó fjarri því að aðhyllast byltingarkenndar hugmyndir um þjóðfélagsbreytingar. En hugur hans stendur til að hjálpa fátækum, því hann er afar upptekinn af misskiptingu auðs. Hugmyndir hans um umbætur byggja á kærleika. Allar frásagnir hans um störf lækna eru afar áhugaverðar, sérstaklega í ljósi þess að hann er samtíðarmaður margra lækna sem áttu eftir valda straumhvörfum í lækningum.

Margar frásagnir hans fjalla un samband hans við dýr, bæði eigin gæludýr og um villt dýr. Hann er sérstakur fuglavinur og vinnur að umbótum varðandi dýravernd. Sögur hans um samband manns og náttúru er í ætt við þessar hugmyndir, þar með talin skrýtin frásaga af ferðalagi um Lappland.

Inn í allar frásagnir hans blandast rómantískar hugmyndir hans um glæsta fortíð Grikkja og Rómverja, hann er heillaður af fegurð byggingalistar þeirra tíma. Sagan um San Michele er um viðleitni til að endurreisa glæsileika fortíðarinnar á rústum fornminja sem enn stóðu í fyrstu heimsókn hans til eyjarinnar. Hann vann að því verki árum saman. 

Þessi saga fjallar um allt þetta og margt fleira en dauðinn er stöðugt nærverandi í frásögninni og verður enn meira ríkjandi þegar á líður. Dauði og forgengileiki og óræð framtíð í eilífðinni. 

Auðvitað er ég búin að lesa mér til um manninn Axel Munthe, sem er sænskur afkomandi innflytjenda frá Flandern. Ég er mest undrandi að tilvist hans skuli hafa farið fram hjá mér eins og ég reyndi að setja mig inn í sænska menningu á sínum tíma. Hann var fæddur í Oskarshamn 1857 og dó í Stokkhólmi 1949. Bókin um Sam Michele kom út á ensku 1929, hann sá svo sjálfur um að þýða hana á sænsku. Bókin kom svo út á íslensku 1933 og það voru Karl Ísfeld og Haraldur Sigurðsson sem þýddu. Íslenska bókin er prentuð í Félagsprentsmiðjunni. Hún er forkunnarfögur, það er gaman að horfa á þessa gömlu prentuðu bækur, fyrir tíma stafrænnar tölvutækni, allt er svo vel gert. Eintakið sem ég fékk að láni í Borgarbókasafninu er auk þess innbundið í skinn (kjölur og horn). Mér þykir miður að það tíðkast að líma plast utan á bækurnar og spillir það útliti fallegra bóka. Þetta er vondur siður.

Ég hlustaði á bókina sem hljóðbók, fyrst. Hún er lesin af Þórarni Guðnasyni, lækni. Það er vel gert en það vantar formálann sem ég hef nú lesið með hjálp stækkunarglers. En formálinn var afbragð og skýrði margt og bætti öðru við. 

Bókin er 488 blaðsíður og það er upplifun að lesa hana. 

Hann segir sjálfur um bókina: "Það gerist á hinu hættulega landi, sem liggur milli ímyndunar og veruleika."


Bloggfærslur 21. júlí 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 79
  • Frá upphafi: 187197

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 66
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband