Arnaldur Indriðason: Petsamó

IMG_0112

 

Nú hef ég lokið við að lesa Petsamó eftir Arnald Indriðason og velti fyrir mér, hvað það sé við Arnald sem lætur hann bera af öðrum glæpasögurithöfundum. Það er sjálfsagt ekkert eitt heldur margt og mig langar til að setja á blað, hvað mér finnst einkenna þennan höfund.

Í fyrsta lagi skrifar hann góðan texta, svo góðan að maður tekur ekki eftir því. Samtölin eru eðlileg og hann skapar persónur, sem eru svo lifandi að manni finnst að maður myndi þekkja þær ef maður myndi rekast á þær af tilviljun. Jafnvel aukapersónur eru svo vel dregnar að stundum minnir handbragð Arnaldar á teiknara sem rissar upp myndir af fólki með fáum dráttum. Þetta gerir Arnaldur án þess að það hvarfli að manni að nota orð eins og klisjukennt.Aðalpersónurnar byggir hann upp og lætur þær þróast bók eftir bók.

Arnaldur er meistari í því að ná tíðaranda liðins tíma. Sögur hans færa mann inn í liðinn tíma, hann er nokkurs konar laumusagnfræðingur. Í Petsamó dregur hann upp mynd af styrjajdaráunum seinni. Stríðið kom öðru vísi við okkur Íslendinga en stríðandi þjóðir. Hér olli það umróti á lífsháttum fólks sem má líkja við byltingu. Arnaldur nær vel blæ þessara ára og lýsingar hans eru ekki svarthvítar, hann notar alltaf allan litaskalann.

Það sem mér finnst enn eitt einkenni Arnaldar er hversu framgangur sögunnar er hægur og oft lágvær. Það er enginn asi á karakterum Arnaldar og ég kann því vel. Þeir sem hafa tekið að sér að ráða gátuna, ná fyrst og fremst árangri með samtali. Þeir skapa nánd og stundum trúnað og að lokum geta þeir raðað saman heillegri mynd. Þess vegna var ekki laust við að ég fylltist efasemdum þegar, sagan í Petsamó þróaðist yfir í að verða hasar. Ég kunni ekki almennilega við það. En Thorson er engin hetja frekar en Erlendur og hann vinnur enga sigra í þeim átökum. Hasar kemur vel út í spennumyndum en ég veit enn ekki hvort ég kann við slíkt í bók eftir Arnald Indriðason.

Að loknum lestri á Petsamó get ég einbeitt mér að lestri Auðnaróðals eftir Sverri Jakobsson en ég hef verið að lesa þessar tvær bækur samhliða. Ég er nú þar stödd þar sem verið er að fjalla um átökin í kring um Hólastað og Guðmund góða. Sverrir á það sameiginlegt með Arnaldi að hann kryddar ekki frásögn sína með hasar og æsilegum lýsingumm á átökum. Þó væri næg tilefnin. Í staðinn einbeitir hann sér í að kortleggja tengsl höfðingja og ekki síst hvernig þeir styrkja þessi tengsl í gegnum giftingar og með samböndum við ástkonur, frillur. Auðnaróðal fjallar um tíma mikilla sviptinga og ég vænti þess að við bókarlok viti ég meira um hvað Sverrir telur að hafi verið hreyfiafl sviptinga þessara tíma.

Já, það er nóg til af spennandi lestrarefni og sumt má eða þarf maður að lesa oft. Það er ekki verra.


Bloggfærslur 27. desember 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 187273

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 76
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband