Hanaat skilja allir en hvað með hestaat?

Í gær varð ég áheyrandi að samtali stúlkna sem sátu við næsta borð við mig á einskonar kaffihúsi (ég segi viljandi ekki hvar). Þær voru báðar að vinna í tölvum jafnframt spjallinu.  Önnur þeirra var greinilega að reyna að koma saman texta um atburð sem hún vildi auglýsa eða láta vita um. Hún segir við vinkonu sína:,,Ég vildi að ég gæti skrifað þetta á ensku, það er svo létt, það er miklu auðveldara að vera catchy á ensku."

Mér var hugsað til stúlkunnar í dag, þegar ég enn og aftur las um það í Fréttablaðinu að fólk ætlaði að leiða saman hesta sína. Þarna var þó augljóslega átt við fólk sem ætlaði að fara að vinna saman, ekki keppa. Eins og það er oft smellið og myndrænt að nota orðatiltæki, er það klaufalegt og vandræðalegt að nota þau rangt.

Kennarinn í mér fór af stað og velti fyrir sér hvernig mætti kenna fólki betur að tala og skrifa íslensku. Grípandi íslensku, vera catchy. Í staðinn fyrir að benda því á að lesa hinn frábæra kafla í Njálu um þegar Gunnar Hámundarson og Starkaður Barkarson leiddu saman hesta sína, mætti einfaldlega segja þeim, að leiða saman hesta sína er nokkurs konar hanaat, með hestum. Hanaat skilja allir og hafa jafnvel séð það í bíó eða í sjónvarpinu.

Grínlaust. Það er einhver misskilningur í gangi. Það er ekki léttara að skrifa ensku en íslensku, maður þarf bara að kunna málið og geta leikið sér með það. Tengt það eigin tilfinningum.

Að leiða saman hesta sína þýðir að etja saman tveimur graðhestum  og láta þá berjast. Það þýðir ekki að ríða út saman eða spenna tvo hesta fyrir eyki. Þessari skemmtan er afar vel lýst í LIX. kafla Njálu, mjög catchy. Það mætti jafnvel sýna stubb með hanaatssenu.( Nú er eins og mig rámi í að Hrafn Gunnlaugsson hafi gert eða ætlað að kvikmynda hestaat. Man það þó ekki. 

Ég er ekki að skrifa þetta hér, af því ég haldi að vígi íslenskunnar standi eða falli með því hvort fólk kunni að nota akkúrat þessa líkingu. Þaðan af síður til að hneykslast á stúlkunni sem langaði til að tjá sig frekar á ensku. Það sem fyrir mér vakir er, að höfða til annarra og biðja þá um að skoða með mér hvernig við gætum lyft fram íslenskunni, gert hana meira spennandi. Læra að nota hana hér og nú og miðla því maður vill miðla. Það er ekki við ungt fólk að sakast og ekki heldur bara skólana og kennarana. Hér er að verki samfélagið í heild sinni. 

Að lokum þetta. Maður þarf að vera skratti góður í tungumáli til að það þjóni manni eins vel og móðurmálið. Allt annað er blekking.


Bloggfærslur 27. febrúar 2015

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 86
  • Frá upphafi: 187309

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 78
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband