Mánasteinn: Sjón: Glimt frá liðnum tíma

Hef verið að undirbúa mig fyrir bókakvöld í bókaklúbbnum mínum, öðrum af tveimur. Verkefnið var ekki stórt núna, við settum okkur fyrir  lesa Mánastein sem er lítil bók. Auðvitað er svolítið öðru vísi að lesa bók þegar hún hefur fengið mikla umfjöllun og lof í fjölmiðlum. Við því er ekkert að gera annað en muna að ég er ein með minni bók og veruleiki hennar kemur til mín eins og mér þóknast að skilja hann. 

En það eru ekki fjölmiðlaumfjöllun sem truflar mig þegar kemur að bókum eftir Sjón, heldur hitt að ég næ stundum ekki almennilega sambandi við bækurnar hans og það setur mig í klemmu. Þessi klemma stafar af því að mér líkar svo vel við Sjón eins og hann birtist í fjölmiðlum þegar hann kemur fram sem fulltrúi lista og menningar að mig langar að líka við bækurnar hans. Hann er minn maður. Það breytir þó ekki því að stundum finnst mér ég ekki átta mig á því hvað hann er að fara, skil það sem hann segir en veit ekki af hverju hann segir það. Þetta er vandræðalegt.

Bókin Mánasteinn er eins og stuttmynd frá árinu 1918 en hún er ekki um fullveldið, frostið, spænsku veikina eða Kötlugosið. Reyndar bregður öllu þessu fyrir í sögunni en sagan er um drenginn, einstæðinginn Mánastein sem finnur farveg fyrir líf sitt og tilfinningar í gegnum að horfa á kvikmyndir. Strax í upphafi bókarinnar kemur fram að Mánasteinn laðast að karlmönnum og karlmenn laðast að honum.  Á þessum tíma var það bæði synd,skömm og jafnvel glæpur en við því var ekki mikið að gera.

Frásagan um Mánastein er knöpp og það er ekki mikið sýnt inn í hugskot þessa pilts nema þegar kemur að kvikmyndunum og hvernig þær birtast honum og halda síðan áfram að móta sýn hans á veruleikann. Annað fáum við flest að skoða utan frá. Hann er illa læs 16 ára og býr hjá langömmusystur sinni.Hann á enga að. Sjón bregður því oft upp súrrealistiskum myndum, það er kunnuglegt hjá honum og hann gerir það vel.

Það er nýnæmi fyrir mig að skoða íslenskan veruleika frá þessu sjónarhorni, ég hef lesið um evrópskt framúrstefnufólk frá þessum tíma en þegar kemur að árinu 1918 og okkur hér, hugsa ég um frostaveturinn mikla, vöruskort og dauða. Amma mannsins míns dó í spænsku veikinni frá sex börnum. Föðuramma mín fyrir austan var þá búin að eignast átta börn, en veikin náði sem betur fer ekki austur á land. Sjón kynnir til sögunnar auðkonu Annie Winifred Ellerman og vini hennar sem koma við á Íslandi á ferð sinni um heiminn. Hann minnist líka á  vinkonu hennar H.D Hilda Doolitle. Þetta fólk er svo órafjarri mér og mínum veruleika að mér fannst nær óhugsandi að heimur þeirra og drengsins, lítilmagnans Mánasteins gætu runnið saman. 

Þegar hér var komið sögu í hugleiðingum mínum og skrifum um drenginn Mánastein og hvað Sjón væri að segja með þessari bók, ákvað ég að gera hlé og  ljúka skrifunum þegar ég væri búin með ,,skylduskokkið". Og viti menn. Allt í einu rann upp fyrir mér að ég hafði misskilið allt saman. Sjón var ekki að skírskota til fortíðar heldur til eigin samtíðar og jafnvel framtíðar. Asni gat ég verið. Ég er svo bundin á klafa íslenskrar söguhefðar. Hann var að vísa til unga fólksins í Breiðholtinu þar sem hann ólst upp og unga fólksins á Hlemmi. Hann var að skírskota til fólks sem þarf að finna sér leið til að skilja heiminn og lifa af.

Niðurstaða: Þetta er merkileg  þroskasaga unglings sem verður að að takast á við veruleika sem ekki er viðurkenndur af öðrum. Hann finnur sína leið. 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 4. mars 2014

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 79
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband