Norma: Sofi Oxanen: Hugrenningar við lestur

Nrma

Ég er ekki viss um að ég skilji þessa bók. Þarf maður alltaf að skilja bækur? Og hvað er að skilja bækur? Í hvert skipti sem ég les bók upp á nýtt, skil ég hana nýjum skilningi. Var þá fyrri skilningur rangur?

Þetta er fjórða bókin sem ég les eftir Oxanen. Hinar voru Kýr Stalíns, Hreinsun og Þegar dúfur úr hurfu. Þær eru allar litaðar af andrúmslofti stríðs. Stríð er ýtrasta stig ofbeldis. Sögur Oxanen eru um eftirleikinn.Þegar stríðið er búið. 

Sagan um Normu hefst daginn sem móðir hennar er jörðuð. Hún hefst við jarðarförina. Norma er niðurbrotin. Fram til til þessa, hefur kjarni tilverunnar verið þessi litla eining, hún og mamma. Nú þarf hún að læra að vera bara hún, hún ein. Þær hafa átt saman leyndarmál. Það tengist hári. Norma er ekki normal, hún er með óeðlilegan hárvöxt og auk þess er hár hennar máttugt, Norma skynjar margt sem annað fólk skynjar ekki. Hún sér t.d. fyrir sjúkdóma og dauða. Auk þess er hún svo næm á lykt að hún veit upp á hár, hvað hver og einn hefur borðað, drukkið og hverja hann hefur verið í líkamlega snertingu við. Hún er svona eins og góður þefhundur sem kann að tala.

Fyrst var ég að velta fyrir mér hvort persóna" Norma, tengdist sögn Biblíunnar um, Samson og Dalíu en ofurkraftur Samsonar, var frá hári hans, sem hafði aldrei verið skorið og Dalía sveik hann síðar í hendur óvinanna. Reyndar er til fjöldi sagna um mátt hárs. Það er sjálfsagt ekki út í bláinn að Haraldur hárfagri hét því að skera ekki hár sitt og skegg fyrr en hann hefði lagt undir sig Noreg allan.  

Sagan um Normu er ekki bara um hár og ofurþefskyn Normu, hún er líka um svik og grimmd. Þegar Norma hefur misst móður sína, vaknar hjá henni grunur um að lát hennar sé ekki í raun sjálfsvíg eins og leit út fyrir. Þegar hún fer að grafa í fortíð hennar, opnast iðandi ormagryfja svika og glæpa. Það var í þessari ormagryfju, sem ég tapaði þræðinum. Í stað þess að leita að og finna þráðinn, fór ég að hugsa um hvað höfundurinn væri að fara með þessari bók. Reynsla mín af fyrri bókum Oxanen, er að þær eru hlaðnar boðskap. Það var þess vegna sem ég náði í Biblíuna til að rifja upp söguna um Samson og Dalíu. 

Allar bækur Oxanen, sem ég hef lesið, gerast annað hvort í stríði eða í kjölfar stríðs. Þá fór ég að hugsa um, að stríði er ekki lokið við við undirritun stríðsloka samninga. Það er þá sem eftirmálin fara í gang. Kauplausir fyrrverandi hermenn stofna glæpagengi til að hafa í sig og á og þeir sem töpuðu leita hefnda. 

Í framhaldi fór ég að velta því fyrir mér, af hverju menn gerast atvinnuglæpamenn í stað þess að vinna heiðarlega vinnu, þar sem glæpamannsstarfið virðist ekki vera neinn dans á rósum. Loks fór ég að hugsa um okkar eigin glæpamenn, sem auka tekjur sínar með braski og bankaklækjum, sem er á mörkum hins löglega en kol-siðlaust. Svo hugsaði ég ljótt um mennina sem stela frá mér og þjóðinni með því að svíkja undan skatti. Ég hugsaði þeim þegjandi þörfina. Það nægir ekki að brosa sætt framan í mig af sjónvarpsskjánum. Ég er nefnilega eins og Norma að ég er með ofurskyn. Ég sé hvenær menn ljúga.

Þegar þarna var komið sögu í sögunni og í hugsun minni, var ég löngu dottin út úr bókinni Normu.  Ég lauk henni reyndar en hvað þýðir að lesa bók, þegar maður hefur tapað þræðinum?

Ég skil sem sagt ekki þessa bók, en hún kveiktu hjá mér margar hugsanir og fékk mig til að rifja upp merkilegar sögur, svo sem söguna um Samson. Hana þarf maður ekki að skilja, því það er Guð sjálfur sem er með puttana í atburðarásinni. 

Lokaorð

Niðurstaða mín var því: Bækur sem maður skilur ekki, eru ekki síður dýrmætar en hinar sem maður þykist skilja. Loks fór ég að hugsa um Normalbuxur,sem ég var næstum búin að gleyma. Fyrir þá sem ekki vita hvað Normabuxur eru, voru það síðar hvítar bómullarnærbuxur, sem karlmenn voru í þegar þeir voru ekki í því sem nú kallast föðurland. Þessar buxur lögðust af því þær þóttu svo lítið sexí. Þegar þarna var komið, ákvað ég að hætta að reyna að skilja Normu. 

Ég hefði kannski ekki átt að vera að skrifa um hana en nú er það búið og gert. Hafa ber í huga að pistlar mínir eru um lestur, ekki dómar um bækur. En fyrst og fremst eru þeir skrifaðir fyrir mig sjálfa til að átta mig á því sem ég les og hvað það gefur mér. Bækur taka aldrei neitt frá mér.

 

 

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 18. mars 2017

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 9
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 94
  • Frá upphafi: 187305

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 86
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband