Skeggbarn fer á konungsfund : Kjalnesingasaga: Orð skulu standa

 image

Ekki veit ég hversu margir lesenda minna, hafa lesið Kjalnesingasögu. Hún er knöpp í formi og full af kennileitum sem flestir þekkja eða kannast við. Vegna þess að ég var að reyna að nálgast boðskap sögunnar, flysja ég í burtu fjölmargt sem kryddar, svo sem bardaga og ástalíf.   

Þegar Helgi bjóla nam Kjalarnes var nesið viði vaxið. Hann lét gera braut í gegnum skóginn/kjarrið frá býli sínu til jarðar sem hann byggði Andríði, sem síðar varð fóstbróðir sona hans. Þar hét síðan Brautarholt. Til marks um skógarþykknið er sagan af kvígunni Mús, sem týndist en fannst  þremur vetrum síðar á nesi einu, og  var  komin með tvo dilka með sér. Þar heitir síðar Músarnes.

Andríður kvongaðist og búnaðist vel í Brautarholti, þau hjón eignuðust soninn Búa, sem þau af einhverjum ástæðum komu í fóstur til Esju á Esjubergi, en hún hafði verið samskipa Andríði til Íslands. Esja var forn í skapi segir í sögunni og á vissan hátt er hún aðalhetja þessarar sögu, um það verður ekki fjallað hér. 

Búi óx úr grasi. Hann var undarlegur, bjó sig út með vopni sem ekki tíðkaðist á Kjalarnesi og e.t.v. hvergi á norðurhveli jarðar. Hann vafði um sig slönguvað, eins og Davíð forðum þegar hann grandaði Golíat. Hann vildi heldur ekki blóta hin helgu goð. 

Þetta var náttúrlega óþolandi fyrir stjórnvöld þeirra tíma á Kjalarnesi og Þorsteinn barnabarn Helga bjólu fékk hann dæmdan útlægan. Nú urðu miklar sviptingar. Þorsteinn reynir að koma lögum yfir Búa.  Búi bregst hart við, drepur hann og brennir hofið, helgidóminn. Það sem verra er, Þorgrímur Helgason, bjólu, vegur fóstbróður sinn, Andríð. Það mæltist ekki vel fyrir. Enn magnast átök með Búa og Kjalnesingum.  En Búi sleppur úr hverri raun, það kom sér vel að eiga fjölkunnuga fósturmóður. En þar kom að jafnvel henni þótt nóg komið. Hún hjálpaði honum að fara af landi burt. Á fund Haralds Noregskonungs. 

Og þar með hefst í raun skemmtilegasti kafli sögunar. Hann er allur hinn ævintýralegasti. En einmitt þessi kafli hefur trúlega valdið því að Kjalnesingasaga var sett í nokkurs konar ruslflokk hjá fræðimönnum. 

Þegar Búi kemur á fund Noregskonungs, sitja óvinir hans þar á fleti fyrir. Noregskonungur setur honum fyrir að leysa þrautir. Fyrst á hann að sækja tafl til Dofra konungs. Þar tók á móti honum Fríður Dofradóttir og kynnir fyrir föður sínum. Dofri nefnir hann skeggbarn og veitir honum áheyrn og veislur góðar fyrir hennar orð. Þessa fyrstu þraut leysti hann. Meira um það seinna. Síðan er honum gert að glíma við blámann sem var eins konar berserkur. Dofri braut hann á bak aftur (bókstaflega). Að þessum þrautum leystum fer Búi heim en nú með blessun konungs. 

Nú bregður svo við að Búa gengur allt í haginn. Hann nær sáttum við fyrrum óvini, kvongast og verður vel stæður höfðingi. En þá er honum allt í einu stillt upp frammi fyrir gömlu loforði. Sonur hans og Fríðar er kominn til Íslands og vill að hann gangist við sér. Drengurinn heitir Jökull, bráðmyndarlegur, sem færir fram þessa frómu ósk en Búi hafnar og vill að þeir útkljái málið með glímu. Það hefði hann ekki átt að gera, því glíman fer svo að Jökull gengur að honum dauðum. 

Kjalnesingasaga á það sameiginlegt með öðrum  góðum  sögum, að það er hægt að lesa hana oft og í hvert sinn finnur maður eitthvað nýtt eða öðlast nýjan skilning á efninu. Í þetta sinn fannst mér að Kjalnesingasaga fjallaði um, hversu mikilvægt það er að standa við orð sín. Tvisvar í sögunni verða það sem kalla mætti viðsnúning (twist eða vendipunktur). Þegar Þorgrímur Helgason, bjólu, vóg fóstbróður sinn Andríð, sneri gæfan við honum bakinu. Það sama á sér stað þegar Búi efnir ekki heit sitt við Fríði Dofradóttur. Mér sýnist af þessum tveimur dæmum að það sé ógæfumerki að standa ekki við orð sín. 

Í þessari yfirferð hef ég sleppt mörgu merkilegu í þessari stuttu en þó efnismiklu sögu. Þór Rögnvaldssson gerði leikrit, Búasögu, út frá efni sögunar, sögusvið var flutt til okkar tíma. Þetta leikrit,var sett upp hjá Borgarleikhúsinu (1999). Ég sá ég ekki þá sýningu (var þá enn búsett úti á landi). En ég las ljóð Gríms Thomsen, Búarímur. Frábær kveðskapur.

Í ljósi breyttra viðhorfa í fræðaheiminum, hefur Kjalnesingasaga flust ofar á virðingartommustokk fornbókmenntanna og er nú jafnvel lesin í menntaskólum. Lýkur hér umfjöllun minni um þessa góðu bók. Og þó ég trúi því, að sagan sé að vissu leyti skemmtisaga, eins og allar góðar sögur, þá finnst mér boðskapurinn skýr: STATTU VIÐ ORÐ ÞÍN.

 

 

 


Bloggfærslur 11. maí 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 71
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 60
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband