Ofríki: Umsögn um góða bók og til varnar Breiðdælingum

image

Var að ljúka við lestur áhrifaríkrar bókar sem minnir okkur á hvað stutt er síðan úrræðaleysi fólks fyrr á árum var algjört, þegar kom að andlegum sjúkdómum. Reyndar finnst mér oft að við séum vanmegnug enn í dag en það er önnur saga. Þetta er bók Jóns Hjartarsonar (fyrrverandi fræðslustjóra) um Ólaf Ásgrímsson f. 1860 í Kleifarhreppi hinum forna. Ólafur er óbreyttur alþýðumaður og hefði trúlega ekki komist í bók nema vegna þess að hann og fjölskylda hans verða fyrir ógæfu sem þau réðu ekki við. Samfélagið sem þeim fannst þau tilheyra brást þeim. Ólafur tók þessu ekki þegjandi, hann leitaði réttar síns og skrifaði 7 blaðsíðna ákæruskjal. Málið gekk fram og til baka í kerfinu og þess vegna getum við vitað meira um þessa fjölskyldu en annars hefði verið. 

Framan af fara ekki sögur af Ólafi, hann vinnur fyrir sér, fyrst sem vinnumaður og síðar sem sjómaður. Hann kvænist Steinunni Sveinsdóttur 1885 og þau eignast fjórar dætur (fæddar 1888, 1890, 1899 og 1901. Litla stúlkan sem fæddist 1899 dó sama ár og sú yngsta fæddist). 1904 fær Ólafur hálfa jörðina Randversstaði í Breiðdal til ábúðar. Þetta var kirkjujörð og það var presturinn í Stöðvarprestakalli sem veitti honum jörðina. Hann hafði þá um nokkurt skeið stundað sjó á Djúpavogi, þar sem hann bjó með Steinunni konu sinni. Það var þar sem Steinunn veikist af geðveiki og varð ófær um að sjá um sjálfa sig hvað þá aðra. Ólafur vildi reyna að líta betur til með henni og útvegar sér því þessa jörð. En geðveikin er skæður sjúkdómur og hann réði ekki neitt við neitt og sveitungarnir litu hann hornauga og jörðin drabbaðist niður. Í stað þess að veita honum þá hjálp sem hann óskaði eftir, var tekin ákvörðun um að flytja hann nauðugan í sinn fæðingarhrepp. Þetta er árið 1910. Ólafur kærir meðferðina á sér og fjölskyldu sinni og upphófst nú málarekstur sem stóð í mörg ár. 

Þetta er vel sögð saga, texti höfundar knappur, tær og hrífandi. Samúðin liggur óskipt hjá fórnarlömbunum í þessum harmleik. Bófinn er oddviti í Breiðdalshreppi, reyndar fá sveitungar hans í heild að deila sök með honum. 

Mér var satt að segja dálítið brugðið að heyra þessar ályktanir um hreppstjórann sem ég þekkti af afspurn og hafði aldrei heyrt neitt misjafnt orð um. Og spurði sjálfa mig hvort hann ætti sér ekki einhverjar málsbætur? Hvað hefðu sveitungar hans gert ef hreppstjóri  hefði pungað út með styrk til veiku konunnar?

Kannski hefði hann  getað komið betur til móts við þessa fjölskyldu. En hann virðist fara að lögum? Breiðdalshreppur er á þessum tíma fátæk sveit eins og flestar sveitir voru á þessum tíma á Íslandi. Fólkið sem þá bjó í Breiðdal hafð upplifað mikil harðindi. Dóttir umrædds hreppstjóra sagði frá því að móðir sín hefði átt það til að segja við barnabörnin þegar þau voru matvönd: "Ég vildi óska að þú ættir eftir að upplifa hungursneyð." Þetta sagði hún mér.

Í hreppnum var þá starfandi bókasafn og eitt líknarfélag, sem einkum reyndi að styðja við fjölskyldur berklasjúklinga. Á þessum tíma hafði farið fram mikil umræða á landsvísu um hvernig haga skyldi fátækrahjálp, mér þykir ólíklegt að hún hafi farið fram hjá Breiðdælingum. Það var meira að segja rætt um hvað væri hægt að gera fyrir geðveika.  Í þeirri umræðu kom fram að það ætti að gera fátæktrahjálpina  mannúðlegri og að halda skyldi saman fjölskyldum. 

En þó það séu u.þ.b. 100 ár síðan snertir þessi litla saga mig djúpt. Mér finnst afgreiðsla hreppstjórans minna helst á ýmsar afgreiðslur Útlendingastofnunar á málum flóttafólks sem sent er úr landi. Lögin um sveitafesti var Dyflinarreglugerð þess tíma. 

Að lokum þetta er afar falleg og læsileg bók sem er gott að hafa í hendi. 


Bloggfærslur 9. mars 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 187269

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband