Leiðin út í heim: Hermann Stefánsson

image

Ég hef beðið eftir þessari bók, ég var viss um að hún væri góð. Pantaði hana í jólagjöf og fékk, en var ófær um að lesa hana vegna sjóndepru. Þetta er lítil, falleg bók, næstum kver. Ég las hana sem hljóðbók en það var gaman að handleika hana.

Ég vissi að hún vísaði í bókina, Palli er einn í heiminum. Reyndar vissi ég heilmikið um hana. Hún hefur fengið tiltölulega mikla umfjöllun, næstum of mikla fyrir þann sem enn hefur ekki lesið hana.  Reyni að láta umfjöllunina ekki taka nýnæmið frá mér. Þó fagna ég allri menningarumræðu. Það er vandlifað og svo er ég sjálf að skrifa um bækur.

Ég hef oft lesið bókina um Palla sem var einn í heiminum, fyrir börn. Þegar ég var búin að hlusta tvisvar á bók Hermanns, ákvað ég að sjá hvort Palli var einn í heiminum, væri til í Hljóðbókasafninu. Og viti menn, hún er þar, lesin af Sólveigu Hauksdóttur. Listavel.  

En nú ætla ég að reyna að koma mér að efninu. Leiðin út í heim er heimspekilegar og tilvistarlegar vangaveltur um lífið, stöðu mannsins og viðhorf hans til sjálfs sín og annarra. Þetta hljómar uppskrúfað, en bókin er það ekki. Hún er skemmtileg, glettin og spennandi.  

Á ég að nota frasann "þroskasaga manns" á óræðum aldri. Hann kemst að því að það felst mikið frelsi í því að vera einn en hann saknar fólks, hann saknar mömmu sinnar. Og svo er spurning um hvort hann sé einn. Er hann tveir? Það sem gerir þessa bók góða er hvernig höfundurinn leikur sér með málið og myndlíkingar. Hann þræðir söguþráðinn í bókinni um Palla, en ég tengi mig meira við Pál/Palla í útfærslu Hermanns. Hann er ekki lengur barn. Það er stígandi í frásögninni, hún verður að hluta til absúrd. Bíókaflinn gæti verið úr framúrstefnubíómynd. Kynlífslýsingin var svo absúrd að hún var beinlínis skemmtileg. Ég sem þoli ekki klám í bókum. Hingað til hef ég auðveldlega getað blaðað hratt í gegnum slíkt, núna þegar ég þarf að hlusta á bækur gegnir öðru máli. Ég er að hlusta. Ég hafði kviðið því að þetta yrði á einhvern hátt nærgöngult, en það var í lagi. Ég hló innra með mér. En hvernig er hægt að enda svona bók? Í Palli var einn í heiminum tekur Palli flugvél traustataki, flýgur út í geim, rekst á tunglið og vaknar upp grátandi í rúminu sínu. Mamma hans huggar hann og við höldum að draumurinn hafi verið honum lexía. Öllum líður vel. 

En hvernig endar Leiðin út í heim? Atburðarásin er á yfirborðinu lík og í barnabókinni. En ég er óróleg út af Palla. Og ekki bara honum, heldur af öllum Pöllum í heiminum, sem eru orðnir of stórir til að mamma þeirra geti huggað þá.

Palli á leiðinni út í heim, vaknar að vísu upp og finnur mömmu sína. En ég veit ekki hvort hann fórst (fór til himna) eða endurfæðist. Skiptir það máli?

 


Bloggfærslur 29. mars 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 187269

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband