Veröld sem var:Stefan Zweig

image

Veröld sem var, kom út hér á íslensku 1958. Hún var svo mikið lesin og rædd af minni kynslóð og eldri, að mér fannst næstum að ég hefði lesið hana. Kannski hefur hún verið lesin í Ríkisútvarpið. Eftir að hafa lesið bókina, Aftur á kreik (Timur Vermes) sem fjallar um endurkomu Hitlers og sjónarhorn hans á nútíð og fortíð, ákvað ég að lesa sjónarhorn annars Austurríkismanns á þróun Evrópu. 

Zweig (1881-1942) var fæddur í Vín en Hitler (1889 - 1945) í Braunau. Zweig var af efnaðri gyðingafjölskyldu en Hitler af millistéttarfjölskyldu. Báðir hafa þeir skrifað bækur um ævi sína. Bók Hitlers, Mein Kamp, las ég þegar ég var ung og forvitin. Ég ætla aldrei að lesa hana meir. Heimsmynd þessara manna er svo ólík að þeir hefðu getað verið hvor af sínum hnettinum.

Í raun er ekki rétt að tala um þessa bók sem ævisögu, Zweig gefur takmarkaðar upplýsingar um sitt persónulega líf. Ég saknaði þess að fá ekki meira að vita. Þetta er í raun aldarfarslýsing, saga menningar þessa tíma. Hún minnti mig strax á aðra bók sem ég hef lesið, Mein Leben eftir Marcel Reich-Ranicki (1920-2013) pólskþýskan gyðing, sem lánaðist að flýja úr gettóinu í Warsjá og varð síðar mikill menningarpostuli í Þýskalandi. 

En ég ætlaði að skrifa um Zweig og Veröld sem var. Þetta er eins og fyrr var sagt menningarsaga. Bókin hefst á því að lýsa lífinu í Vín á árunum fyrir Fyrri heimsstyrjöldina. Höfundur lýsir Vín sem paradís á jörð, menningin, vísindin og viðskiptin blómstra. Þetta er tími framfara, það er verið að vinna að því að þróa lýðræði og jafnrétti. Vínarbúar eru " glaðsinna og njóta lista. En fyrst og fremst vilja þeir njóta lífsins, "leben und leben lassen" er mottó Vínarbúa, andstætt Þjóðverjum sem lögðu meiri áherslu á framleiðslu og veraldleg verðmæti. En það voru engu að síður Austurríkismenn og Þjóðverjar sem hófu þessa styrjöld og það voru þessi lönd sem sátu uppi með að greiða skaðabæturnar. Þessi styrjöld leiddi í raun til næstu styrjaldar. 

Kjarni þessarar bókar er lýsing höfundar á menningarlífi Evrópu. Zweig fékk klassíska menntun og gat síðar, m.a. vegna góðra efna, lifað eins og fiskur í menningarvatni Evrópu.  Hann þekkti alla helstu menningarpostula þess tíma. Mörg nöfn koma við sögu og ég þekki aðein brot af þeim. En  auðvitað vissi ég að þessi saga myndi enda illa. Ég vissi að Zwðeig hafði stytt sér aldur ásamt sambýliskonu sinni. Þetta gerðist í Pedropolis í Brasilíu og hann skildi eftir kveðjubréf, þar sem hann segir að þeim hafi verið um megn að horfa upp á harmleikinn í Evrópu, þar var ekki bara slátrað fólki, heldur öllum þeim gildum sem hann trúði á. 

Þetta var afar fræðandi bók, áður hafði ég einungis lesið Manntafl eftir þennan höfund. Ég vildi að ég hefði lesið bókina fyrr, þá hefði hún verið hluti af menntun minni. En seint er betra en aldrei. 

Eftirmæli: Ég hafði sama háttinn á með þessa bók og Aftur á kreik, ég hlustaði á hana til skiptis á íslensku og þýsku. Þetta tekur tíma en mér finnst ég einhvern veginn nær kjarna efnisins. Og svo las ég mér auðvitað heil mikið til um höfundinn oh þessa tíma. Lestur sumra bóka nálgast það að vera verkefni, frekar en lestur. Og þið sem lesið þetta. Lesið endilega þessa bók, hún fjallar um heim sem við tilheyrum. 

Að lokum. Zweig lýsir vel hvernig það er að missa landið sitt, þjóðerni sitt, fólkið sitt og öll gildi sem maður trúir á. Hann lýsir því að vera flóttamaður. Zweig var vel settur, menntaður og efnaður og hann var búinn að fá landvistarleyfi í Brasilíu. Engu að síður bugaðist hann og treysti sér ekki til að lifa lengur. Mér verður hugsað til flóttamanna dagsins í dag. Þetta fólk er allslaust og það er að reyna að bjarga lífi sínu. 

Við erum ánægð með okkur að "bjarga" örfáum.

Zweig var mikill friðarsinni, það er það sem við þurfum að einbeita okkur að.

Ég hef aldrei komið til Vínar en myndin sem fylgir tengist efninu. Hún er frá heimsókn minni í sumar  til Sachenhausen 

 


Bloggfærslur 12. mars 2016

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 76
  • Frá upphafi: 187269

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 72
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband