Bók er blekking: Eftirþankar eftir lestur Náðarstundar

Góð bók er blekking. Meðan þú ert að lesa hana trúir þú hverju orði og lifir og hrærist heiminum sem höfundurinn hefur skapað. Þannig er þetta að minnsta kosti með mig. Þetta gera höfundar með þeim galdri sem þeim einum er lagið. Allt verður að virðast satt, persónur, umhverfið sem þær hrærast í og framvinda sögunnar. Góðum sögumanni fyrirgefst ýmislegt, en lesandinn hrekkur svolítið við. Ég var t.d leið út af börnunum í Sölku Völku, sem hún hafði tekið að sér en duttu svo barasta út. Ég hafði áhyggjur af þessum börnum en töfrar bókarinnar héldust samt. 

Verst ef staðreyndaheimurinn stenst ekki. Þá hrynur veröldin. Allir góðir sögumenn vita þetta og leggja sig fram við að hafa hann sem ljósastan. Þetta vissi t.d. sveitungi minn, Gísli á Brekkuborg sem var svo góður sögumaður að ég trúði hverju orði. Hver saga var full af smáatriðum sem ómögulegt var að rengja, þótt maður vissi innst inni að kallinn var að búa þetta til. Hann gat t.d. hafið söguna svona:

Einu sinni kom ég að Hlíðarenda. Það var um haust og fé enn á fjalli. Veðrið var rysjótt og sat fólk inni við yfir kaffi og bakkelsi. Mér var boðið í elhúsið. Þarna var margt karlmanna, þeir voru roggnir og töluðu um að veðurspáin væri slæm, það væri að ganga í óveður og svo var rætt um landsins gagn og nauðsynjar. Ég spurði eftir húsmóður, en í því snarast hún inn í útifötum og segir, ef ykkur vantar meira kaffi, þá er það á brúsanum, ég ætla að fara að ná inn fénu. 

Þessa sögu heyrði ég ekki sjálf, enda er hún um fólkið mitt, ég fékk hana í endursögn og fannst hún góð.

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég lítinn pistil um Náðarstund (Burial Rites), bók eftir Hannah Kent. Ég hafði ekki notið þess að lesa hana því heimurinn sem hún lét söguna gerast í stóðst ekki reynsluheim minn. Töfrarnir hrundu. Hann var of nærri mér. En ég trúði auðveldlega á sínum tima að þriðji hundurinn í ævintýri H.C Andersen hefði augu, sem voru eins stór og Sívali turninn. Og trúi því reyndar enn, en þetta er ævintýri. 

Trúlega hefði frásögn Hannah Kennt sloppið ef hún hefði ekki verð svona ofurnákvæm. Ég er svo viðkvæm fyrir smáatriðum, (ég átti t.d. bágt með allar nýju lopapeysurnar í myndinni Kaldaljós. Þær voru allt of nýjar og svo pössuðu mynstrin á þeim ekki inn í tímasetningu sögunnar). Umhverfi bókar er sviðsmynd frásagnar og er eitt af meðulunum sem höfundur beitir til að töfra og blekkja. Fá okkur til að trúa sér.

Ég hóf lestur Náðarstundar viðbúin því að láta engin smáatriði setja mig út af laginu en ég hélt ekki út. Töfrarnir rofnuðu. 

Það var allt of mikið bruðlað með ljósmeti og kaffi. Silkináttkjóllinn kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Ég hafði lært að náttfatnaður hefði ekki tíðkast í fátæktarlandinu Íslandi (en það gæti verið rangt hjá mér). Það er fráleitt að ætlast til þess að lesandinn trúi því að konur séu ófærar um að taka á móti lömbum og hrista í þau líf (einhvern veginn svona var þetta orðað). Fyrr í sögunni er höfundur búinn að láta Agnesi bæði slá og hlaða upp vegg, hvorugt taldist nú beinlínis til kvenmannsverka, svo það var eðlilegt að lesandi hefði þegar ályktað, að hún væri vel að manni.

Lýkur hér vangaveltum mínum um þessa framandi bók út frá íslenskan veruleka. Ég er á vissan hátt þakklát höfundi, því bókin varð til þess að það rifjaðist upp fyrir mér af húnvetnskum fróðleik sem ég varð mér úti um þegar ég dvaldist með því góða fólki.

Að lokum læt ég fylgja með, Brot úr Iðrunarsálmi Agnesar. Þetta er úr fórum  Elínborgar M. Jónsdóttur fræðikonu sem nú er látin:

Önd mín fagnar

Endar lífs hér tómið

Allt burt dragnar

hryggð og neyðargrómið.

Nátt frá leiðst,

náð mér greiðist.

Nú fyrir beiðist.

Hár guðs heiður hljómi.

(Orðrétt eftir blaði frá Elínborgu)

 

 

 

 

 

 

 

  


Bloggfærslur 2. ágúst 2015

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 85
  • Frá upphafi: 187246

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 78
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband