Náðarstund:Útfararsiðir í Húnaþingi

Enn og aftur lendi ég í því að lesa bók, sem er hrósað upp í hástert en mér finnst hún svo gölluð á köflum að ég fer hjá mér. Ég var að ljúka við Náðarstund, sem heitir á frummálinu Burial rites.

Eiginlega er sagan um tilurð bókarinnar ekki síður áhugaverð en sjálf bókin. Unglingsstúlka fra Ástralíu kemur til Íslands sem skiptinemi og í einsemd sinni í kulda og vetrarmyrkri norðurhjarans, heillast hún af sögunni um síðustu aftöku á Íslandi. Þegar hún kemur aftur í heimahagana, tekur hún upp þráðinn og rannsakar heimildir um málið. Hún hefur greinilega einnig kynnt sér sögu- og þjóðfræði og loks lærir hún skapandi skrif. (Þessi samantekt mín er samtíningur af netinu.)

Bókin kom út á ensku 2013 og fékk afar góðar móttökur. Hún kom út í íslenskri þýðingu (Jón Stefán Kristjánsson) árið eftir. Ég held að það sé hægt að segja að hún hafi fengið góðar viðtökur hér líka, en með undantekningum þó. Mér fannst sagan um unga skiptinemann svo merkileg að ég ákvað að les bókina sem hún skrifaði, þótt mig grunaði innst inni að mér myndi ekki falla hún. 

Þetta er ekki fyrsta bókin sem ég les um málin sem spunnust vegna morðbrennunnar á Illugastöðum. Áður hafði ég lesið Yfirvaldið (Þorgeir Þorgeirsson) og Enginn má undan líta (Guðlaug Guðmundsson). Ólíkar bækur en góðar hvor á sinn hátt. Þegar ég bjó í Húnaþingi, hellti ég mér út í lestur þjóðlegs fróðleiks úr byggðarlaginu. Hugmynd mín á bak við þá skorpu var, að þannig næði ég  betra sambandi við Húnvetninga. Ég bjó þar í 5 ár og náði alveg ágætu sambandi, hvort sem það var lestrinum að þakka eður ei. Þetta var úturdúr og aftur að bókinni um  Agnesi. 

Eins og ég gat um í upphafi byggir höfundur bók sína á miklum rannsóknum á sögu og lifnaðarháttum á Íslandi í upphafi 19. aldar. Stundum fannst mér þjóðfræðin yfirgnæfandi. Kannski hefði það verið allt í lagi ef hún hefði verið rétt. Þetta var eins og lesa bók sem höfundur skifar á máli sem ekki er móðurmál hans, en kann ekki nógu vel. Fyrir mig sem er alin upp í sveit fyrir tíma rafmagns, síma og traktora, var þetta oft beinlínis pínlegt. Reyndar getur verið að stór hluti íslenskra lesenda séu svo fjarri þessum veruleika að þeir geti lesið textann án þess að truflast af vitleysunum. Dramatíkin og rómantíkin er alveg í lagi. Bókin er spennandi.  Reyndar minnti hún mig oft meira á Rauðu ástarsögurnar en á Dostójevskí.

Ég lauk lestri bókarinnar á degi Druslugöngunnar. Það var vel við hæfi. Samúð höfundar er hjá Agnesi. Natan er ekki sá maður sem hún hugði og þar að auki misnotar hann barnunga stúlku í rúminu við hliðina á henni. En það er enn betra að lesa um Skepnuskap Natans Ketilssonar í grein Helgu Kress í Tímariti sögufélagsins (LII: 2014). 

Af því ég er orðin sjóndöpur, var ég einnig  með bókina sem eBók á ensku (þá getur maður stækkað letrið að vild). Satt að segja fannst mér sá texti þjálli, ég er þó ekki að kasta neinni rýrð á þýðinguna. Kannski hef ég bara skilið enskuna verr og því stuðast minna af vandræðalegum lýsingum á sveitalífi sjálfþurftarbúskaparins.

Að lokum: Ef þú, kæri lesandi ert ekki búinn að lesa, Yfirvaldið þá skaltu gera það. Frábær texti. Og ef þú hefur þegar lesið  þá bók, þá er allt í lagi að gera það aftur. 

Og 

Ef einhver spyr, hvers vegna voru þessir menn myrtir, þá trúi ég ,,réttarsálfræðilegun" skýringum Helgu Kress best. Natan nýddist á þessum konum. En er ekki meira en trúlegt að hann hafi líka nýðst á Friðriki? 


Bloggfærslur 30. júlí 2015

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 67
  • Frá upphafi: 187467

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband