BIBLÍULESTUR

Dore_Moses 

Í mörg ár hefur ég lagt það í vana minn að lesa dagblað eða dagblöð yfir morgunkaffinu. Þetta er orðið að sterkum vana og ég hef kunnað því vel að taka á móti nýjum degi á þann hátt og stundum á ég erfitt með að greina á milli hvort er mikilvægara, kaffið eða blaðalesturinn. Nú er ástandið á dagblaðamarkaðnum aftur á móti þannig að blöðin sem mér berast skila mér oft litlu. Ég hætti að kaupa Moggann af póltískum ástæðum, sá mér ekki annað fært þegar yfir blaðið var settur nýr ritstjóri sem mér fannst vanhæfur vegna ábyrgðar sinnar á málum sem eru enn óuppgerð. Ekki meira um það hér. Ókeypis blöðin eru fyrst og fremst auglýsingablöð og þar sem mig vantar fátt, þarf ég ekki á þeim að halda enda finnast mér auglýsingar ekki miðla því til mín sem ég þyrfti hugsanlega að vita um vörur. Þessi blöð eru síðan oft skreytt með viðtölum eða upplýsingum um fólk, oftast glansmyndir af lífi sem ekki hefur neitt fréttagildi fyrir mig. Í morgun var t.d. sagt frá tvennum pörum sem eiga von á barni. Af hverju er ég að lesa þetta, ég þarf þess ekki.

En ávaninn að lesa með morgunkaffinu er sterkur og nú eftir að ég komst á eftirlaun hef ég enn þá meiri tíma til að lesa. Einhvern tíma í lok s.l. árs kviknaði sú hugmynd að ég skyldi skapa mér nýjan lestrarvana með morgunkaffinu. Og eftir nokkra umhugsun tók ég ákvörðun um, að þetta árið skyldi Biblían lesin, frá orði til orðs. Ég kann ekki fyllilega að skýra hvernig þetta val á lesefni varð til. Ég er Biblíunni ekki ókunn en ég hef aldrei lesið hana skipulega alla. Og þar sem mér er sagt að hún sé vissulega undirstaða vestrænnar og austrænnar menningar ályktaði ég svo að ef til vill væri hún ekki síðri til skilnings á samtímanum en dagblöðin eins og þau eru í dag. Ég reiknaði út að með því að lesa 3-4 blaðsíður á dag lyki ég henni á ári. Nú er að verða liðinn mánuður síðan ég hóf biblíulesturinn og ég hef staðist áætlun. Í dag er ég stödd í kaflanum um viðbrögð við holdsveiki. Eins og oft kemur biblían mér hér á óvart. Það er nefnilega ekki bara fjallað um holdsveiki fólks heldur er einnig fjallað ítarlega um holdsveik hús og hvernig brugðist skuli við slíkri uppákomu.

Það merkilegasta við þennan bibíulestur minn eru viðbrögð fólks sem ég segi frá þessu uppátæki mínu. Fólk heldur ýmist að ég sé að grínast, að ég sé stórskrýtin ef ekki biluð (sem ég er kannski) eða ég sé einfaldlega að gera mig merkilega. Svona er nú menning okkar sérkennileg þegar kemur að þessari svo kölluðu undirstöðu.


Bloggfærslur 27. janúar 2012

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 15
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 187348

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband