Með lífið að veði: Yeonmi Park


64A890FF-6F3F-47FB-9F9A-3BBF9C19C861Með lífið að veði er efir Yeonmi Park (f. 1993) frá Norður-Kóreu. Hún flýr heimaland sitt þrettán ára ásamt móður sinni. Eldri systir var farin á undan þeim. Þær eru að flýja hungur og vonleysi. Eins og hún lýsir upplifun sinni eru þær tilneyddar. Frá heimaborg sinni, Hyesan, sjá þær ljósin í Kína og þær hafa heyrt að kjör fólksins séu betri þar og auðvelt að fá vinnu.
Kúgunin í Norður-Kóreu er svo algjör að Yeonmi gerir sér ekki einu sinni grein fyrir því að hún er kúguð. Hún þekkir ekkert annað, þannig virkar heilaþvottur best. En ferð þeirra mæðgna er eins og fara úr öskunni í eldinn. Þær fá reyndar nóg að borða en frelsið sem þeim hafði verið lofað af þeim sem “hjálpuðu” þeim við flóttann, er ný kúgun. Þær hafa verið seldar mansali. Þær höfðu vonað og trúað að þær myndu finna eldri systurina sem fór fyrst en það á eftir að dragast á langinn. Leitin að henni á eftir að verða eins og stef í gegnum alla frásögnina.
Kaflinn sem fjallar um Kínadvölina er í senn átakanlegur og hrottalegur. Í Kína kynntust þær ekki frelsinu heldur spillingu. Mannlíf þar sem spilling þrífst er ljótt, ómanneskjulegt og grimmt. Að lokum tekst Yeonmi og móður hennar að flýja til Suður-Kóreu í gegnum Mongólíu með hjálp frá kristnum söfnuði.
Í Suður-Kóreu hefst enn nýr kafli í lífi þessarar kornungu stúlku. Hún er 16 ára og fram að þessu hefur líf hennar einungis gengið út á að lifa af. Hún kann ekki á lífið í nýja landinu þar sem allt önnur lögmál ríkja en hún er vön. Hún þarf líka að finna sjálfa sig og hver hún er þegar lífið snýst ekki lengur um að lifa af, heldur að taka eigin ákvarðanir byggðar á eigin sannfæringu. Það er litið niður á flóttamenn að norðan í Suður-Kóreu og Yeonmi sem er hert í baráttu fyrir lífi sínu í Norður- Kóreu og seinna í baráttu við melludólga og mafíósa í Kína, heldur áfram að berjast fyrir lífi sínu. Um leið sér maður af frásögninni glitta í unglinginn, barnið Yeonmi. Hún er bara 16 ára.
Skólaganga hennar frá Norður-Kóreu er í molum og hún hefur mikla þrá eftir að mennta sig og skilja. Í raun er eins og hún vilji gleypa þennan nýja heim. Eða er það heimurinn sem gleypir hana? Síðasti hluti bókarinnar fjallar um hvernig þessi unga stúlka finnur leið, byggir sig upp og slær í gegn. Það er eiginlega sá kafli sem mér fannst hvað erfiðast láta ganga alveg upp.


Mér finnst bókin mjög fræðandi. Þótt ég hafi lesið fréttir og greinar um allan þennan heimsósóma, kúgun í Norður-Kóreu, mansal og spillingu á heimsvísu, er öðru vísi að hlusta á rödd ungrar stúlku sem hefur reynt það á eigin kroppi. Og enn sterkari verður upplifunin af því hún var bara barn. Í raun er Yeonmi svo ung að ég finn að innst inni hef ég áhyggjur af henni næstum eins og hún væri i fjölskyldunni. Það er svo mikil fart á þessari stelpu og það leynast svo margar hættur í hinum „frjálsa heimi“.
Í raun er bókin ótrúlegt afrek miðað við bakgrunn höfundar. Ég hef lesið umræðu þar sem verið er að gera hana tortryggilega og látið að því liggja að hún sé handbendi þeirra sem vilji Norður-Kóreu og eða Kína illt og það hafa verið tínd til dæmi um villur í frásögn hennar.En það gefur auga leið að þessi stúlka hélt ekki dagbók svo ákveðin ónákvæmni í frásögninni er eðlileg.


Helsti ókostur bókarinnar að mínu mati, er að bókin fjallar um svo margt að það er bæði erfitt að henda reiður á fókus og heildarsýn. Þetta er allt í senn, saga einstaklings, saga fjölskyldu og greining stjórnmálaástands. Við þetta bætist hasarkennd spennusaga um lífið í Kína og ævintýralegur flótti mæðgnanna til Mongólíu. Þroskasaga Yeonmi í Suður-Kóreu hálfruglingsleg, líklega vantar höfundinn fjarlægð. Það sem mér fannst sýna best hvar þessi unga stúlka er nú stödd, er hvernig hún notar orðið frelsi sem eitthvað eitt og endanlegt ástand. Það vantar bara að hún skrifi það með stórum staf, Frelsi.
Þótt bókin sé ekki beinlínis skemmtilesning, gat ég ekki að því gert, að einu sinni skellti ég upp úr við lesturinn. Það var þegar hún var að útskýra hversu Norður-Kóreufólk á auðvelt með að skilja heilaga þrenningu. Hugsaðu þér bara Kim Il Sung, Kim Jong-il og Jong-un Kim,(vonandi er þetta rétt)sem þrenninguna, sagði konan, sem var að leiðbeina henni. Þá gengur allt upp!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 5
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 187108

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 58
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband