Barátta mín: Karl Ove Knausgård

 D011D868-DEB7-49DB-9D2F-4A99CE2BB422

Nú er lokið baráttu minni við að lesa sögu Knausgårds, sem hann kallar, Barátta mín, Min Kamp. Hún er 3769 blaðsíður og síðasta bókin ein er 47 klukkustundir og 37 mínútur í hlustun.Ég ætla ekki að reyna að endursegja hana. Ég hlusta á hana sem hljóðbók á norsku. Það er Anders Ribu sem les. Hann gerir það listavel. Fyrstu þrjár bækurnar las ég í fyrra. Síðan tók ég mér hlé en ég er vön að ljúka bókum sem ég byrja á.

Barátta  mín kom út á árunum 2009 - 2011 og sló rækilega í gegn.Ekki bara í Noregi heldur um allan heim.

Knausgård er fæddur í Osló 1968 en elst upp í Tromøya við Arendal og síðan í Kristiansand í Suður-Noregi. Móðir hans var hjúkrunarkona og faðirinn kennari. Hann á einn  bróður. Karl Ove var lítill í sér. Hann var stöðugt hræddur við föður sinn en hændur að móður sinni. Hann var metnaðarfullur, bráðþroska en stöðugt óöruggur um sjálfan sig. Hann ákveður snemma að hann ætli að verða rithöfundur. Ekkert annað kemur til greina.

Í raun er fjölskylda Knausgårds ósköp venjuleg. Án stórátaka. Um það er þessi bók.

Hvað er það sem gerir hana að mest seldu bók Noregs? Sjálfsagt eru á því margar skýringar. Ein er frásagnarmátinn.Flæðið í frásögninni minnir meira á læk en straumþunga á. Hann segir frá hversdagslegum hlutum.

Dæmi:Þegar strákarnir kúka út í skógi. Hann segir ekki bara frá því sem atviki sí svona,heldur innan frá, tilfinningunni í þörmunum í smáatriðum, með tilheyrandi stunum og hljóðinu sem myndast þegar maður rembist.   Hann segir frá morgninum eftir kvöldið, þegar hann gekk ekki frá eftir  kvöldmatinnEldhúsvaskurinn fullur, allt í bendu, leirtau, pylsupotturinn með fljótandi fituskán og sprungnum   pylsum, brauðmylsna  og leikföng hvað innan um annað á gólfinu. Hann lýsir þessu nákvæmlega og það verður eins og málverk. Hann segir frá eigin kynlífsvandamálum, og að hann byrjar ekki að fróa sér fyrr en hann er 18 ára. . 

Þetta er sjálfsævisaga, hann breytir ekki nöfnum, hvorki á stöðum né fólki. En það getur enginn sagt frá sjálfum sér án þess að segja um leið frá öðru fólki. Hann  lætur þetta ekki aftra sér og segir frá foreldrum, föðurfjölskyldu og móðurfjölskyldu, vinum og vinkonum.Og seinna frá konum og börnum. Þetta er eins og í raunveruleikaþætti. Myndavélin er í höfðinu á honum. 

En af hverju gerir hann þetta?  

Tilfinning mín er að einfaldlega að hann hafi neyðst til þess. Þetta hófst á tíma þegar hann var með ritstol, ófær um að skrifa. Hann var búinn að gefa út tvær bækur og hafði fengið hrós. finnst honum hvíla á sér krafa umskrifa stóra verkið í lífi sínu. Hann minnir á langhlauparann sem hefur náð góðum tíma á millivegalengdum en rekst á ósýnilegan vegg.

Ég held að bókin sé til komin af brýnni þörf Knausgårds tilað gera upp líf sitt. Í staðinn fyrir að leggjast á bekkinn hjá sálfræðingi og tala, skráir hann hugsanir sínar. Í staðinn fyrir sálfræðing sem hlustar, geta allir sem vilja lesið.

Mér finnst ég sjá Karl Ove vaxa, þroskast og verða til meðan ég les. En mikið var ég stundum orðin örvæntingarfull, hvað ætlaði að verða úr þessum unga manni? Allan tímann þótti mér samt vænt um hann og vonaði hið besta. Hann hefði getað verið sonur minn.

Bækurnar  eru ekki í tímaröð. Fyrsta bókin er um æsku hans og um dauða föðurins. Hún vakti miklar deilur því hann var svo berorður. Seinna þegar hann er að verja sig, segir hann að allt sem skrifar í bókinni sé eðlilegt og gerist í raunveruleikanum hjá venjulegu fólki.  Enginn hneykslist. Það er til alkóhólismi í öllum fjölskyldum, fólk er ótrútt, menn fróa sér svo dæmi séu tekin. Það er fyrst þegar þetta er hengt á raunverulegt nafn, sem fólk hneykslast.

Í síðustu bókinni segir Knausgård frá því þegar hann situr með vini sínum og fylgist með uppistandi nú  sem verður þegar fyrsta bókin er að koma út. Það varð vesen. Föðurbróðir hans snerist gegn honum. Forlagið réði lögfræðing, fólkið í Noregi komst í uppnám og skiptist í tvo flokka. Það var ekki um annað talað. Knausgård er þegar hér er komið sögu, orðinn fjölskyldumaður, á konu og þrjú börn.   Hann býr í Svíþjóð og er að sjá um börnin sín og samtölin við forlagið verða þétt.

En allt í einu er eins og sagan taki u-beygju. Hann er ekki lengur að segja frá húsverkunum og vini sínum sem er í heimsókn. Sagan verður eins og ritgerð. Í fyrstu snýst frásögnin um bókmenntir, síðan tekur hvað við af öðru. Hann fer vítt og breytt um veraldarsöguna, gerir upp afstöðu sína til hugmyndasögu, skoðar gildismat kristninnar með því að rýna í forna texta, rekur ástandið sem leiddi til seinni heimsstyrjaldarinnar, fjallar sérstaklega um Hitler, Helförina og bókmenntir sem henni tengjast.

Í fyrstu hélt ég að ég hefði ruglast á hljóðdiskum og tekið disk sem tilheyrði einhverri annarri sögu. Ég tók diskinn úr spilaranum og gáði. Nei, engin mistök.

Ég áætla að um það bil fjórðungur sjöttu bókar hafi farið í þennan útúrdúr (Síðasta bókin er eins og fyrr sagði 47 tímar og 37 mínútur í hlustun).

Ég játa að mér fannst  mikið til um þekkingu hans en stundum var erfitt að  fylgja honum. Ég var sérstaklega hrifin af krufningu hans á textum úr Biblíunni og þá rifjaðist upp fyrir mér Knausgård hefur unnið sem ráðgjafi hjá hópnums sem annast nýjustu þýðinguna á Biblíunni í Noregi.

Svo var frásögnin allt í einu komin á sinn stað, Knausgård heldur áfram að segja frá daglegu lífi sínu með Lindu og börnunum og hann er að bíða þess að bók 2 komi út. Hann segir frá veikindum Lindu konu sinnar.Linda sem er líka rithöfundur og er andlega veik, þjáist af geðhvarfasýki. Ein bók Lindu Boström, Velkomin til Ameríku ,hefur verið þýdd á íslensku.

Veikindin eru öllum erfið og mér finnst átakanlegt hvernig líf þessarar fjölskyldu er undirlagt af veikindunum.

Nokkurn veginn þarna endar bókin.

Knausgård hefur náð markmiðum sínum en líf hans er í rúst. 

Ég finn til léttis að vera búin með þessa bók, hafa haldið út. Mér fannst ég skuldbundin en er líka þakklát.

Ég veit ekki hvort það er siðferðilega rétt að gera það sem Knausgård gerði. Ég á eftir að vinna úr því.

Nú fylgist ég með lífi hans og fölskyldu hans í gegnum netið. Ég er búin að lesa bók Lindu konunnar. Hún er eins knöpp í forminu eins og þessi er löng. Mæli með henni.

Ég ætla ekki að missa af því þegar hann kemur næst til Íslands. Og svo vona ég að hann hætti að reykja. Mér er annt um Knausgård


Bloggfærslur 23. apríl 2018

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband