Sóleyjarsaga: Elías Mar

F6896175-A668-4104-BE56-B627B9CA715DSóleyjarsaga
Ég hafði aldrei lesið Sóleyjarsögu og skammast mín fyrir að segja frá því. En ég var svo heppin að ég kynntist Elíasi Mar.


Sóleyjarsaga segir frá fjölskyldu sem býr í bragga á Skólavörðuholtinu, þar sem nú er Hallgrímskirkja. Þau berjast í bökkum því það er litla vinnu að fá og auk þess er fjölskyldufaðirinn drykkfelldur ofbeldismaður. Elsti sonurinn, Eiður Sær er með skáldadrauma og fluttur að heiman. Sóley, aðalpersóna sögunnar er 18 ára og yngsta barnið, Sólvin litli, er kominn að fermingu.
Þó Sóleyjarsaga hverfist í kringum Sóleyju og sé hennar saga, er sagan um leið saga þorpsins Reykjavíkur , sem rembist við að verða borg, eins og unglingsgrey sem vill vera tekinn í tölu fullorðinna. Þetta er líka síðast en ekki síst samtímasaga, saga tíðaranda.
Það sem heillar mig þó mest við þessa bók, er frásagnarmátinn. Elías beitir þeirri aðferð að það skiptast á kaflar sem eru svo vel skrifaðir, að þeir minna á ljóð og upplýsandi kaflar, sem líkjast um margt góðri blaðamennsku. Mestu máli skiptir þó að hann hefur vald að galdra fram þá blekkingu að lesandanum finnst hann þekkja þetta fólk og þetta umhverfi. Ég byrjaði að lesa bókina áður en ég lagði í langferð, lauk fyrra bindi á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll. Ég hlusta á bækur, les ekki, því gat ég ekki tekið bókina með mér. Mitt fyrsta vek, þegar ég kom í flugrútuna, komin úr langferð, var að sækja seinna bindið í Hljóðbókasafnið og halda áfram að hlusta.


Það sem einkennir stíl Elíasar eru þurrar hlutlægar lýsingar, lesandinn fær að fylgjast með því sem gerist eins og í gegnum augu og hugskoti persónanna. Þannig er lesandinn frjáls að því að taka afstöðu, láta sér líka vel eða illa. Í köflunum þar sem mér finnst líkjast blaðamennsku, fer höfundur í fræðarahlutverkið og fellir dóma. Þarna kunni ég síst að meta hann. Ég velti því t.d. fyrir mér hvort persónan Erlendur Mikjáll eigi nokkurt erindi í bókinni. Þó má e.t.v. segja að þarna hafi birst einna greinilegast mynd af aldarhættinum og ólíkum hugmyndum manna um rétt og rangt og hver bar hina raunverulegu ábyrgð á hörmungum mannanna.

Ég var sem sagt heilluð af þessari bók,bý enn að hluta til í bragganum, horfi á Sóleyju laga kjólana sína til að eltast við tískuna, hlusta á stunur veiku konunnar, móður hennar, og hef áhyggjur af handritinu sem aldrei var skilað til skáldsins. Mér er kalt. Það skýrist af svellinu undir gólfinu.


Sóleyjarsaga kom út í tveimur bindum, það fyrra kom út 1954 og það síðara 1959.
Það fór ekki hjá því að mér varð oft hugsað til Uglu í Atómstöðinni þegar ég las um Sóleyju. Hvernig er varið skyldleika þessara kvenna?
Atómstöðin kom út 1948 ef mér skjátlast ekki.

Þótt það væri yfirlýstur tilgangur Elíasar að kryfja samtíð sína og leggja sitt að mörkum til að breyta henni er fjölmargt í þessari bók sem talar beint inn í okkar eigin samtíð. Bara ef við leggjum við hlustirnar.


Takk Elías.

 


Bloggfærslur 8. janúar 2018

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 16
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 187159

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 65
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband