Spænskur krimmi: Ósýnilegi verndarinn

DF9467B0-1C58-41F8-A8D4-986825489FD9

Eftir að hafa lesið þrjár bækur um ofbeldi í röð, langaði mig að lesa eitthvað léttara og valdi nýútkomna glæpasögu eftir spænskan höfund. Mér finnst í augnablikinum að allt sem ég les eftir spænskumælandi höfunda gott, en ég get því miður ekki lesið spænsku.  

Bókin er eftir Dólores Redonde (f. 1969) og gerist á Norður Spáni í héraði sem kennt er við Baztán-ána í Baskalandi. Í kynningu, kom fram að bókin er fyrsta bók af þrem. 

Aðalpersóna sögunnar duglegi lögregluvarðstjórinn Amaia Salazar, þarf að rannsaka morð í fyrrum heimabæ sínum. Unglingsstúlka hefur fundist látin. Málið á eftir að vinda upp á sig, þegar kemur í ljós að fleiri stúlkur finnast látnar og að ummerkin eru öll þau sömu.

Amaia dvelur hjá frænku sinni meðan hún vinnur að rannsókn málanna og það kemur í ljós það var ekki að ástæðulausu sem Amaia yfirgaf heimabæ sinn kornung og sneri um leið baki við fjölskyldu sinni og fyrirtæki, gamalgrónu bakaríi. Þegar samskipti hefjast að nýju, rifjast upp erfiðar minningar og á tímabilili mátti ekki á milli sjá hvort væri mikilvægari þáttur sögunnar,  að komast til botns í sálarlífi lögregluvarðstjórans eða að finna morðingann. 

Þetta virtist sem sagt alls ekki vera bók fyrir mig, því ég hef lýst því yfir að ég þoli ekki raðmorð og þaðan af síður bækur með yfirskilvitlegu ívafi. En það var samt eitthvað við þessa bók sem hreif mig,hún er nefnilega vel skrifuð.

Bók sem flytur mann úr stað í tíma og rúmi og lætur manni finnast eins og maður myndi þekkja  persónurnar á götu, ef maður mætti þeim, er vel skrifuð. Ég sá aðstæður ljóslifandi fyrir mér og fannst ég vera stödd þarna í þessu litla sveitaþorpi að leggja tarrotspil með Amaju, frænku hennar og systur. Ég fékk brennandi áhuga á kökunni chanchigorri, sem komið var fyrir á  vettvangi glæps og eyddi hálfum degi við að reyna að finna uppskrift á netinu. En uppskriftirnar stönguðust allar á og ég gafst upp.

Í kynningu á bókinni er hún kölluð “svört” glæpasaga. Það er  meðvitaður tilgangur höfundar að kynna sagnaarf alþýðufólks í Baskalandi. Það er sem sagt engin tilviljun að aðstoðarmaður lögreglukonunnar er með háskólapróf bæði í  mannfræði og fornleifafræði. Þetta eru gagnleg fræði í landi þar sem ókennd dulmögnuð náttúruöfl eru enn á sveimi. Í miðjum lestri ákvað ég að gleyma því hvað mér finnst um raðmorðsbækur og yfirskilvitlegar bækur og fór í staðinn að hugsa um Jordskott, sænska sjónvarpsseríu sem mér fannst alveg frábær.

Það var gaman að lesa  þessa bók og ég bíð spennt eftir hinum tveimur sem á eftir koma. Ég veit að það er búið að gefa þær út.

Þýðandi bókarinnar er Sigrún Ástríður Eiríksdóttir.

Ég hlustaði á bókina sem hljóðbók. Hún er lesin af Helgu Elínborgu Jónsdóttur sem er frábær lesari og augljóslega góð að skila frá sér nöfnum á fólki og stöðum með með spænskum framburði. Mér fannst það setja punktinn yfir i-ið. 

Myndin er af höfundi. Hún er fengin að láni á netinu.

 


Bloggfærslur 3. desember 2017

Um bloggið

Bergþóra Gísladóttir

Höfundur

Bergþóra Gísladóttir
Bergþóra Gísladóttir
Ekki bráðung og hef komið víða við því ég er frekar dýr en planta.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • C9EB8261-F520-405B-9694-8235B40EF253
  • 290974CD-97E2-455E-9941-73B0F9997E6B
  • 800D7FD8-F6ED-4EB2-B141-653DA0360FE6
  • EA321379-6F18-48B5-A676-355C7607B59A
  • 0741CFBA-0D8F-4AA6-8F32-6676B4769C1E

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband