Færsluflokkur: Bloggar
18.10.2014 | 12:42
Hjarta kennarans
Eftir að hafa lifað og hrærst í menntamálum í yfir 40 ár bar ég nokkurn ugg í brjósti hvernig gengi að kveðja þennan vettvang, fylgjast sátt við af hliðarlínunni og hefja nýtt líf. Eða þannig. Það kom mér meira að segja á óvart hvað þetta varð mér í reynd auðvelt og hvað ,,nýja lífið" er áhugavert og gefandi.
Einstaka sinnum fæ ég þó í mig viss ónot, ég fæ verk fyrir brjóstsmalirnar, mitt gamla kennarahjarta fer að slá óreglulega. Þá veit ég að mér finnst eitthvað verulega mikið að inni á vellinum.
Nú er það glæfraskapurinn með framhaldsskólann sem fer fyrir brjóstið á mér. Hér er rétt að stinga því inn að vinna mín að skólamálum, varðaði oftast nemendur sem af ýmsum ástæðum áttu erfitt uppdráttar í skólakerfinu. Það var starf mitt. Ég kom að vinnu með fjölmörgu öðru fólki, sem leituðu lausna fyrir þennan hóp. Ég er ekki viss um að allir geri sér almennt grein fyrir hvað þessi hópur er fjölbreytilegur. En það sem gerði starfið svo oft gefandi var að oft fundust leiðir þegar öll sund virtust lokuð og oft varð ég vitni að miklum framförum og persónulegum sigrum einstaklinga.
Eitt af stöðugu áhyggjuefnum þeirra sem vinna með nemendur sem þurfa stuðning eða sérstakar lausnir, er hvað taki við að loknum grunnskóla. Hvað passar mér hugsa nemendurnir, hvað passar mínu barni hugsa foreldrar. Framhaldsskólarnir hafa nú á síðari árum margir hverjir lagt sig fram um að mæta þessari þörf en öll þróunarvinna tekur tíma.
En oft tefjast þessir nemendur á leið sinni í gegnum menntakerfið og eðli málsins samkvæmt þurfa þeir lengri tíma. Þess vegna finnst mér nú þyngra en tárum taki að fylgjast með yfirlýsingum menntamálaráðherra og að hvergi virðast örla á skilningi á því að það er verið að skerða eitt af ekki of mörgum bjargráðum sem voru til staðar í framhaldsskólakerfinu, það er verið að þrengja tímatakmörk. Það við blasir að stóra vandamál framhaldsskólanna hjá okkur er, of mikið brottfall og að allt of nemendur útskrifast og ráðherra leggur það eitt til að stytta námið.
Það er í raun rangt að líta á vandamál framhaldsskólanna, vandamálið er okkar allra. Við erum að tala um kynslóðina sem tekur við, sem erfir landið. Það þarf að vinna að úrbótum í samvinnu við skólafólk, þá sem þekkja best til.
Hann orðaði það vel skólamaðurinn sem rætt var við í sjónvarpinu í gær sem sagði að raunveruleikinn á bak við hvert og eitt brottfall væri oft flóknari en menn gerðu sér grein fyrir. Þetta kannaðist ég vel við, það var eins og ég væri komin aftur í vinnuna. Mitt gamla kennarahjarta tók aukaslag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2014 | 20:37
Gagnrýni um gagnrrýni
Ég horfi alltaf á Kiljuna. Ef ég missi af henni horfi ég á hana á seinkun. Og ég er afskaplega þakklát fyrir þennan þátt sem er fjölbreyttur og því við allra hæfi.
Samt var það eitthvað sem pirraði mig í gær, ég var ósátt. Ég var ekki alveg viss hversvegna og ákvað að sofa á því. Nú veit ég hvers vegna.
Umfjöllunin í upphafi þáttarins um nýjar bækur var ekki boðleg. Gagnrýnendurnir og þáttastjórnandi töluðu niður til höfundanna og ég sat eftir með tilfinninguna að þeim hefði leiðst lesturinn. Það hvarflaði jafnvel að mér að þeim leiddist oft að lesa bækur, því nú er orðinn til frasinn, að frásögnin þurfi að vera á þann hátt að lesandinn nenni að fletta. Þáttastjórnandi greip allt of oft inn í tal viðmælenda sinna, það var eins og allir væru í tímaþröng.
Þátturinn lyftist þó allur þegar fjallað var um Þórarin Eldjárn. Þakka skyldi. Þórarinn stendur alltaf fyrir sínu. Hann hefur skrifað í 40 ár og lagt sitt að mörkum til íslenskrar menningar. Flest skólabörn þekkja Þórarin Eldjárn og kunna að meta hann. Það var gaman að hlusta á hann tala um líf sitt og skáldskap. Það var líka gaman að hlusta á samferðafólk hans. En ég saknaði þess að ekki var minnst á hlutverk hans sem þýðanda. Gleymdist það eða á að fjalla um það síðar?
Samtalið við Steinar Braga var afar vel heppnað. Steinar Bragi var hreinskilinn og stendur vel með sjálfum sér og sínum bókum.
Niðurstaða: Þessi umfjöllun un nýgræðingana var þó að því leyti góð að ég mun strax á morgun panta þessar tvær bækur til að sjá hvort ég nenni að fletta.
Og svo er náttúrlega hitt vandamálið, sem ég þekki betur. Það er þegar bækur verða of spennandi og maður getur ekki stillt mig um að kíkja í endirinn. Þetta kom síðast fyrir mig í fyrradag, þegar ég var að lesa Gunnars sögu Keldugnúpsfífls. Ég sofnaði ekki fyrr en ég las sögulokin.
M
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2014 | 22:02
Fjárhagsvandi þjóðarinnar- Lausn for ever
Allt í einu birtist hún mér lausnin, á fjárhagsvanda þjóðarinnar.
Ég hafði ekkert verið að hugsa neitt um hann. Þvert á móti, fullkomlega afslöppuð. Ég var á leið í matarboð til vinkonu minnar sem býr vestur á Melum. Leiðin lá framhjá holunni þar sem einu sinni átti að rísa hús íslenskrar tungu, Þjóðarbókhlaðan mér á hægri hönd. Þá skyndilega kom lausnin til mín.
Við seljum íslenskuna. Við eigum ekkert dýrmætara, það hlýtur að fást gott verð. Við höfum hvort sem ekki ráð á henni. Og þá munu kaupendur sem við veljum, auðvitað, byggja reisulegt hús í holunni og Melarnir munu blómstra sem aldrei fyrr.
Af hverju hefur engum dottið þetta í hug fyrr. Fjárhagsvandi okkar mun gufa upp því nýir eigendur íslenskunnar munu að sjálfsögðu sjá hag sinn í að reka öflugt ,,Ríkisútvarp" og skólakerfi fyrir þjóð sem talar þetta einstaka, fágæta mál.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2014 | 14:26
Illska: Eiríkur Örn Norðdahl
Loksins lét ég verða af því að lesa,bókina Illsku eftir Eirík Örn Norðdahl. Hún kom út 2012 og var keypt hér inn á heimilið sama ár. Hún fékk bæði mikla umfjöllun og mikið lof á sínum tíma. Ég held að það hafi fælt mig frá lestrinum, ég vil vera viss um að feta mína eigin slóð og festast ekki í fari annarra, þegar ég les. Og svo var líka ríkulega búið að gera grein fyrir því að bókin fjallaði um hræðilega hræðilega atburði og grimmd.
Nú þegar ég er búin, veit ég ekki almennilega hvað mér finnst. Á köflum fannst mér erfitt að lesa þessa bók. Hún er þung í hendi (rúmt kíló) en textinn er ekki tyrfinn í sjálfu sér en ákveðið klúrt tungutak truflaði mig stundum, bæði af því ég er ekki von svona tali en kannski ekki síður vegna þess að mér fannst það ekki segja mér neitt. En hvað um það, ég fann fljótlega að þessum höfundi er mikið niðri fyrir og bókin er útpæld og því lagði ég mig fram um að fylgja honum. Sagan gerist á tveimur tímaplönum í tveimur löndum. Annars vegar segir frá ungu fólki á Íslandi og hins vegar fólkinu í Litháen sem nær samfellt áralangt styrjaldarástand gerir ýmist að böðlum eða fórnarlömbum.
Unga fólkið Agnes, Ómar og Arnór er menntafólk. Þau eiga sér ólíkan bakgrunn og lesandinn fær að kynnast þeim smám saman eftir því sem sögunni vindur fram. Inn á milli er tölulegur fróðleikur um stríð og voðaverk.
Agnes, háskólanemi úr Kópavogi á ættir að rekja til Litháen er að skrifa mastersritgerð. Hún hefur valið sér viðfangsefnið að skoða hvort skyldleiki sé á milli pópúlisma og nýnasisma. Hún kynnist Ómari. Ómar er skilnaðarbarn og hefur alist upp til skiptis hjá foreldrum sínum sem eiga það sameiginlegt að skipta oft um búsetu. Hann er einfari, e.t.v vegna þess að hann verður fyrir erfiðri lífsreynslu. Arnór er barn einstæðrar móður á Ísafirði, ofurgreindur piltur með áráttuhegðun og seinna nýnasisti. Hann verður viðfang Agnesar í rannsókninni og seinna ástmaður. Þessir þrír einstaklingar eru höfuðpersónur, því um þau hverfist frásögnin. Fjórða persóna bókarinnar er Snorri sonur Agnesar og Ómars (eða Arnórs), mér finnst hann nýstárlegasta og best dregna persóna þessarar bókar, hann er enn ómálga en höfundur lætur hann hugsa sitt. Hugsanir barnsins um móður sína og mjólkina eru dásamlegar.
Þessi bók er samsafn mislangra texta sem lesandinn púslar síðan saman í heildstæða frásögn. Við fáum textabrot um átök úr einkalífi ungs fólks á Íslandi í nútímanum og helför Gyðinga í litlu þorpi í Litháen.
Lengi vel hélt ég að ég gæti dregið einhvern lærdóm af því hvernig þessi tvenns konar stríð tengjast en eftir að hafa lesið bókina finnst mér ég vera jafnnær. Kannski er ég ekki enn búin að raða púslinu rétt og það er á vissan hátt góð tilfinning að geta haldið áfram að púsla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2014 | 22:23
Þess vegna hleyp ég
Í hvert skipti sem ég fer út að skokka lofa ég sjálfri mér að pína mig ekki, taka þetta rólega, vera góð við sjálfa mig. Og í hvert einasta skipti (næstum) svík ég sjálfa mig. Metnaðurinn tekur ráðin af mér en ég tek ekki eftir því, hugurinn er annars staðar og ekki alltaf þar sem ég vil að hann sé. Mér hættir til að detta inn í gagnlausar vanahugsanir. Þær eru gjarnan bundnar við staði, ekki meira um þetta í bili.
En í dag var gaman. Eftir u.þ.b. sex kílómmetra (af átta) vissi ég allt í einu af hverju ég hleyp. Það er vegna þess að stundum, þegar vel gengur, rekst ég á stelpurnar sem ég einu sinni var, sem ég týndi síðan.
Nú skil ég betur af hverju karlmennirnir horfa á fótbolta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2014 | 15:10
Ýmislegt um risafurur og tímann:
Sumarið hefur verið ódrjúgt til bóklestrar, ég veit ekki hversvegna en bækur hafa ekki kallað á mig. Þær hafa a.m.k. ekki verið háværar. Hef verið að takast á við að lesa Illsku eftir Eirík Örn Norðdahl. Sú bók er ekki beinlínis góð koddalesning (rúmt kíló) og svo er efnið heldur engin léttavara. Auk þess ól ég á efasemdum um efnistök bókarinnar. Meira um það seinna því ég gerði hlé á lestrinum til að undirbúa mig fyrir fyrsta bókakvöld ,,lestrarfélagsins" sem verður á morgun.
Við höfðum ákveðið að lesa tvær bækur eftir Jón Kalmann, Ýmislegt um risafurur og tímann og Snarkið í stjörnunum. Þá síðari hafði ég lesið og þarf bara að rifja upp. Bókina um Risafurur og tímann, hafði farið ólesin upp í hillu. Ég veit ekki hvers vegna.
Það var svo sannarlega léttir að skipta Illsku út fyrir Risafururnar, hún er léttari í hendi og frásögnin bókstaflega svífur. Þetta er saga frá hugarheimi 10 ára drengs sem fer í heimsókn til afa síns og ömmu í Stavanger en þræðir í frásögninni liggja bæði inn í framtíð og fortíð. Stundum er hægt að lesa textann eins og ljóð. Þótt frásögnin hoppi eins og síkvikur hugur, myndar hún heild og segir sögu. Þetta er saga um fólk, örlög. En það er þannig með þetta fólk, eins og fólkið í lífinu, að maður fær aldrei að vita allt um það og það kannski eins gott að gera sér grein fyrir því.
Drengurinn í þessari bók lifir í frjóum hugarheimi sem hann skapar jafnóðum. Þar dvelja með honum ýmsar persónur sem hann velur sér og sumar eru ekki af þessum heimi heldur úr bókum. Bítlarnir gera innrás og svo eru persónurnar sem hann kynnist á mörkum þess mannlega og ævintýralega.
Þessi bók kom út 2001 og kannski hefði verið öðru vísi að lesa hana þá, það er svo mikill hraði á öllu og mér finnst vera einhver krafa á mig að lesa bækur jafnóðum og þær koma út. Þess vegna fresta ég því oftast. Bókin minnti mig á aðra bók sem ég las um leið og hún kom út. Populär musik i Vittula eftir Mikael Niemi. Það er einhvers konar klökkvi sem einkennir þessar bækur, maður uppgötvar að tíminn stendur ekki kyrr og maður syrgir.
Ég man eftir þessari hugsun frá sjálfri mér þegar ég var barn en ég var reyndar mun jarðbundnari en drengirnir sem Jón Kalmann og Mikael Niemi lýsa. Líklega hef ég verið líkara Hjalta litla í bókum Stefáns Jónssonar. Af hverju voru bækur Stefáns flokkaðar sem barnabækur? Eiginlega er Ýmislegt um risafurur og tímann barnabók.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2014 | 17:41
Hér er fækkað hófaljóni: Minningagrein um hest
Ég er ein af þeim sem hef aldrei verið fullkomlega sátt við frasann, að maður eigi ekki að bindast hlutum. Að hluta til er þetta til komið vegna þess að mér fellur vel við að hafa gamalt dót í kringum mig, því fylgja hlýjar minningar og að hluta til ber ég umhyggju fyrir því að nýta, í stað þess að sóa.
Þessi tilfinningasemi mín á þó alveg sérstaklega við um bíla. Ég hef alltaf hugsað um bíla eins og hesta. Þar sem ég var alin upp við hestöfl en ekki vélarkraft er mér eiginlegt að um leið og ég sest undir stýri á bíl, huga að eiginleikum hans út frá sömu forsendum og maður gerði í gamla daga og læt eðli bílsins ráða aksturslaginu. Þetta hefur gefist vel og ég er búin að eiga bæði jálka og gæðinga. En lokins er ég komin að efninu.
Í dag kvaddi ég einn af mínum bestu bílum, hann var ekki bara traustur og vakur, hann var sannur gæðingur. Ég hafði ætlað mér að láta þetta verða minn síðasta bíl, hann hafði alla burði til þess, en þá varð óhapp og það var ekki mér að kenna. Sem betur fer urðu engin meiðsli á fólki.
Nú veit ég ekki hvort ljóðið um Vakra Skjóna eða Eldri Rauð á betur við, en ég er alveg viss um að Gamli Sorrý Gráni passar engan veginn því það var vel hugsað um þennan bíl og hann var alls ekkert gamall og lúinn. En mat tryggingafélagsins hljóðaði upp á að verð bílsins stæði ekki undir viðgerðarkostnaði og það tekur að sér að sjá um útförina. Án undirleiks.
En mikið á mín kynslóð gott sem ólst upp við að læra ljóð. Ég er búin að fara með kvæðið um Vakra Skjóna mér til hugarhægðar og ég ætla að láta vísuna um Eldri Rauð fylgja þessari minningagrein:
Einu sinni átti ég hest
ofurlítið skjóttan
það var sem mer þótti verst
þegar að Dauðinn sótt'ann
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2014 | 10:08
Mýsnar héldu áfram að vera daprar
Í gær las ég grein í Fréttablaðeiðinu eftir Teit Guðmundsson lækni. Hún fjallaði um þunglyndi og að nú hefðu komið fram kenningar í Bandaríkjunum sem virtust kollvarpa þeim hugmyndum sem hefðbundið meðferðarmódel byggir á. Þessi kenning gerir ráð fyrir að skortur á boðefninu seratoni valdi depurð. Reyndar kom fram síðar í greininni að rannsóknin sem byggt er á hefur einungis verið reynd í músum. Ég hafði af þessu allmiklar áhyggjur því ég veit hversu alvarlegur sjúkdómurin er og það væri hörmulegt ef allt það fólk sem nú reiðir sig á þá líkn sem meðöl þó veita þeim, stæði á köldum klaka Satt að segja létti mér við að heyra um mýsnar. Því ég þykist þess fullviss að læknar eigi eftir að spyrja sjúklinga sína um álit þeirra sjálfra á eigin líðan.
Við lestur greinarinnar rifjaðist upp saga frá námsárum mínum í Uppsölum. Ég nam þar uppeldisfræði en þar sem uppeldisfræði og sálarfræði tengjast voru ýmsir fyrirlestrar sameiginlegir. Eitt sinn sátum við fyrirlestur hjá sálfræðingi sem fjallaði um kenningagrunn sálfræðinnar út frá atferliskenningum. Hann sagði að þar sem atferli mannsins væri svo flókið væri stundum erfitt að stilla upp rannsókn sem væri fullkomlega vísindaleg. Því væri oft farin sú leið að brjóta atferlið niður í smáar einingar eða gera tilraunir á dýrum.
Og svo kom það sem mér fannst svo skemmtilegt að ég man enn einmitt þennan fyrirlestur.
Hann sagði:Lengst var seilst í þessa veru í sálfræðideildinni í Uppsölum, þegar tveir sálfræðingar skrifuðu lokaritgerðir um viðbrögð ánamaðka við ljósi.
En burt séð frá þessum útúrdúr vona ég að Teitur eigi eftir að segja okkur meira um meðferð þeirra sem þjást af þunglyndi. Pistlarnir hans eru góðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.9.2014 | 17:23
Enginn kunni að lesa bækurnar
Þegar ég bjó á Blönduósi, leit ég oft við á bókasafninu í lok vinnudags. Eftir að hafa kynnst bókaverðinum, Þorvaldi, var mér stundum boðið í kaffi og ég fékk jafnvel að gramsa í gömlum bókum sem ekki voru skráðar. Eitt af því sem vakti sérstaka athygli mína var stór og mikill bókahaugur, þessar bækur voru öðru vísi en aðrar bækur á safninu. Þær voru í fallegu bandi og prentunin líka ólík. Þegar ég spurði Þorvald út í þetta, benti hann mér á að skoða hvar þær væru prentaðar. Þá kom í ljós að bækurnar voru allar prentaðar í Winnipeg.
Í framhaldi af athugun minni, spurði ég Þorvald, hvernig stæði á því að þessar bækur væru komnar til hans. Hann svaraði einfaldlega. ,,Það var enginn eftir til að lesa þær". Þessar bækur voru sem sagt gjöf að vestan frá elliheimilinu á Gimli.
Oft síðan hefur mér orðið hugsað til bókahaugsins frá Gimli. Skyldi einhvern tíma fara eins með bækurnar sem eru á okkar söfnum núna?k
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2014 | 15:27
Af bænahaldi
Nú er svo komið að það eru einungis elstu Breiðdælingar sem muna eftir Rósu á Hrauni. (Hún hét fullu nafni Sigurrós Ingibjörg Gísladóttir, fædd 1876 og hún vildi hafa nafn bæjarins sín í fleirtölu, Hraunum) Hún hafði með hjálp góðra manna orðið sér úti um jarðarskika og reist sér bæ. Hún var orðin leið á að vera vinnukona og langaði að búa að sínu. Þetta var torfbær með túnbletti í kring og afar fallegum garði.
Einhvern tíma þegar ég átti leið um Dísarstaðahjallann (gönguleið milli Norðurdals og Suðurdals), ég hef eflaust verið á leið til Kristínar frænku minnar á Hóli. Ég ákvað ég að koma við hjá Rósu. Vissi að henni fannst gaman að fá gesti og fór reyndar líka sjálf á bæjarráp ef svo bar undir. Ég bankaði, beið, og bankaði. Af einhverjum ummerkum sem ég man ekki lengur hver voru, kom hún ekki til dyra. Þegar ég var í þann veginn að snúa fáa, birtist allt í einu höfuð í baðstofuglugganum, mér fannst eins og hún væri gröm en hún bauð mér inn.
Ég var bara unglingur og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að taka á þessu. Vildi hún ekki fá mig í heimsókn eða hafði hún einfaldlega lagt sig. Svo ég spurði hana af hverju hún hefði ekki opnað. ,,ég var að lesa sagði hún". Eitthvað fannst mér það ótrúlegt, sá ekki að hún væri með gleraugu og ekki heldur nokkra bók. Ég spurði því áfram hvað hún hefði verið að lesa (frekjan í krakkanum, mér). ,,Ég var að lesa húslesturinn" svaraði hún. Svo drukkum við kaffi saman.
Þegar ég ræddi þetta seinna við föður minn sagði hann mér að hún hefði sjálfsagt vilja halda áfram hefð frá því sem hún þekkti þar sem hún var í vist og líklega kynni hún það utanbókar sem oftast var farið með.
Ekki vissi ég til að hún væri sérstaklega guðrækin, maður veit svo lítið um fólk. Mér fannst það merkilegt að hún skyldi vilja lesa húslestur ein yfir sjálfri sér. Rósa átti ekki útvarp og líklega hefði hún hlustað á sunnudagsmessuna. Ekki man ég eftir bænahaldi í útvarpi á þessum tíma, kannski hefur það verið en ég leit svo á að fólk væri yfirleitt sjálfbjarga um slíkt enda kunnu flestir einhverjar bænir.
Ég fór að velta þessu fyrir mér vegna umræðna um útvarpsmessur, andakt og bænahald. Mætti ekki bæta húslestrum við?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.7.): 0
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 42
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar