Færsluflokkur: Bloggar
30.1.2015 | 14:20
Ég stend í þakkarskuld við skáld
Á milli þess að eg les um grimmdina í Egilssögu og fylgist með fólsku nútímans, les ég Gyrði Elíasson. Hann gerir mig hamingjusama. Það er svo mikil léttleiki og heiðskýra í bókunum hans. Þó er sögumaðurinn í sögunum sjálfur oft dapur og það er sjaldan sól.
Lestur er merkilegt fyrirbæri. Hjá mér hefur hann sjaldan skapað hryggð en oft gleði. Sorgleg bók eykur ekki á hryggð mannssálararinnar, heldur mýkir þann harm sem þar er fyrir og losar um.
Bókin sem ég var að ljúka heitir Lungnafiskar. Þetta eru stuttar frasögur, prósaljóð eða örsögur. Reyndar veit ég ekkert hvað á að kalla þær en þær eru skemmtilegar og ég hló oft upphátt og það kom mér á óvart því oftast hlæ ég bara með sjálfri mér eða brosi innra með mér.
Þetta eru stuttar sögur um venjulegt folk við hverdagsllegar aðstæður og ég trúi þeim öllum og hugsa, já svona var þetta. Merkilega oft tekst höfundi að koma mér á óvart og ég trúi frásögninni samt og hugsa. Já, var þetta virkilega svona? Of langar mig til að sagan sé lengri og er svolítið vonsvikin þegar ég hef lestur á næstu sögu. Þessar sögur eru eins og lífið, maður er alltaf að kynnast fólki pínulítið og svo hverfur það úr lífi manns. Oft undarlegt fólk, sem maður maður skilur ekki fyllilega.
Þegar ég les Gyrði, finn ég hvað ég er í mikilli þakkarskuld við skáld. Það er ekki bara gaman að lesa bækurnar hans, það er líka gaman að horfa á þær og handleka þær, þær eru svo fallegar fyrir augað og það er svo þægilegt fyrir hendurnar að handleika þær. Fyrir mig sem hef reynt að læra bókband, eru þær eins draumurinn um hina fullkomnu bók.
Ég var svo heppin að þegar ég var búin með Lungnafiska, gat ég tekið til við Koparakur. Í henni eru sögurnar dálítið lengri svo ég fæ að vera lengur með persónunum og kynnast þeim betur.
Og svo get ég náttúrlega snúið mér að því að lesa um Egil Skallagrimsson og lesið um hetjur, konunga stórra atburða.
Ég á létt með að umbera grimmdina og skepnuskapinn í Íslendinfasögunum en tek nærri mér að lesa um stríð, heimilisofbeldi og vanrækslu á börnum í nútímanum. Um þessar mundir les ég einungis bækur sem gera mér gott.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2015 | 15:14
Meira um hinn syndum spillta Egil Skallagrímsson
Dauðasyndirnar sjö er kristileg pæling, óæskileg hegðun þeirra tíma er listuð upp. Þetta er í raun nokkurs konar túlkun á hvað erfðasyndin ber í sér. En eins og allir vita felur hún í sér að manneskjan er í eðli sinu vond.
Það hefur verið praktiskt að gera lista yfir það sem bar að varast. Mótsetning syndanna/lastanna eru dyggðirnar sjö, sem eru það sem maðurinn á að leitast við að rækja. Kennimenn fortíðarinnar voru kennslufræðilegir í hugsun og sáu til þess að hver og ein höfuðsynd eða löstur átti sér dýr sem táknmynd.
Hroki - Páfugl
Öfund - Hundur
Reiði - Úlfur
Leti - Asni
Græðgi - Refur
Ofát - Grís
Munúð - Geit
Það er vissara fyrir mig, áður en lengra er haldið, að taka það skýrt fram, að ég er ekki og ætla ekki að verða, sérfræðingur í syndum. Ég hef einungis lesið mér svolítið til, til að öðlast meiri skilning á Egilssögu. Það hefur mikið verið skrifað dauðasyndirnar, og þrasað. Og það hefur verið reynt að toga og teygja þessi fræði til svo þau henti betur upp á nútímann. Ekki meira um það. Þótt minna hafi verið látið með dyggðirnar, eru þær ekki síður áhugaverðar sem stiklur eða viðmið til að skoða Egil og frængarð hans. Þær er:
Auðmýkt
Mannúð
Þolinmæði
Iðjusemi
Örlæti
Hófsemi
Hreinlífi
Það skemmtilega við pörum dyggða og lasta er að yfirleitt má finna hvoru tveggja hjá sömu persónu. Þetta á vissulega við um Egil Skallagrímsson og frændlið hans. Og með þetta veganesti mun ég halda á slóðir Egils. Hann er nú staddur at veislu hjá Arnfiðri jarli á Hallandi. Þar kemur í hans hlut að drekka tvímenning með jarlsdótturinni. Skyldi þarna vera fundið dæmi munúðarinnar sem ég var að leita að ?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2015 | 23:23
Tímaflótti: Egill og dauðasyndirnar sjö
Mér finnst margt mótdrægt í nútímanum og hef því brugðið á það ráð að hverfa aftur til eldri tíma. Vinnst þá annað tveggja. Það sem þá gerðist mótdrægt, snertir mann ekki eis djúpt eða oft kemst maður að raun um að þetta hafi þá verið síst betra .
Undanfarið hef ég lifað í heimi afkomenda Berðlu Kára, með Úlfi, Grími og Agli. Þetta er ljót lesning, menn ræna, drepa og brenna. Verstur er Egill, sem er ekkert nema græðgin, grimmdin og hortugheitin. Ég var farin að hugsa hlýlega til útrásarvíkinga nútímans, sem mér vitanlega drápu ekki fólk. Við morgunverðarborðið hafði ég orð á þessu við manninn minn (á sunnudögum truflar blaðalestur ekki) og við ræðum bókmenntir). Er ekki Egilssaga bara svona kristileg allegoría um dauðasyndirnar sjö? Allt í einu gekk allt upp.
Dauðasyndirnar sjö eru: hroki, öfund, reiði, þunglyndi, ágirnd, ofát og munúðarlíf (sótt á Vísindavefinn). Allt stemmir. Sagan verður önnur. Ég vil taka það fram að ég er enginn sérfræðingur í dauðasyndunum sjö, þær eru trúarleg hugtök og lærða menn hefur greint á um hvernig beri að túlka innihald einstakra synda/lasta. Mér sýnist að Egill hafi vissulega verið fulltrúi allra þessara synda. Reyndar er ég enn ekki búin að finna dæmi um munúðina, enda bara komin í hálfa bók, en munúð stendur líklega fyrir svall og óheft kynlíf. Það leynir sér ekki að að Egill hafi verið þunglyndur, um það vitnar sagan, þegar hann lagðist í rúmið og ætlaði að svelta sig til dauða. Sjálf á ég erfitt með að sjá þunglyndi sem synd, ég vorkenndi Agli og enda er þunglyndi sjúkdómur í mínum huga. En á ritunartíma sögunnar eru viðhorfin önnur, uppgjöf er að treysta ekki Guði og syndsamlegt í sjálfu sér.
Egilssaga er fyrsta Íslendingasagan sem ég las undir leiðsögn. Hana veitti minn góði kennari Árni Kristjánsson í MA. Ég hef lesið þessa bók oft, en get þó ekki sagt að hún hafi verið í uppáhaldi. Eftir umræðurnar við morgunverðarborðið um Eglu sem kristilegt líkingamál, mun ég lesa það sem eftir er með nýju hugarfari og gaumgæfa.
En ég mun þó alltaf skáskjóta augunum að nútímanum og skoða útundan mér hverjir eru syndarar dagsins.
Bloggar | Breytt 26.1.2015 kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2015 | 23:06
Kamp Knox: Endurmenntum Erlend
Ég er stolt af því að vera búin að ljúka því af að lesa bók Arnaldar sem ég lít á sem skyldulesningu. Finnst eins og ég geti ekki svikið Erlend, enda er hann Austfirðingur eins og ég. Ég er bara orðin svo leið á honum.
Í þessari bók fer hann í lullið og Marion félagi hans er litlu betri. Ég er með stöðugar áhyggjur af vinnubrögðum rannsóknarlögreglunnar, þau eru bæði eitthvað svo inn í sig. Mig langar til að setja þau í endurmenntun.
En að öllu gamni slepptu, þá er það Erlendur sem lætur mann halda tryggð við þessar bækur. Hann er vel dregin persóna og það má reyndar segja það um allar persónur sem Arnaldur teiknar upp í bókunum sínum. Sama má segja um lýsingar hans á andrúmsloftinu og umhverfinu sem hann lætur þær hrærast í.
Þessi bók gerist á tímum hersins, hann er orðinn eðlilegur hluti af íslensku þjóðlífi, en þó að einhverju leyti hættur að vera eins nýr og spennandi og þegar ekkert fékkst og hann bauð upp á svo margt sem við gátum ekki leyft okkur. Arnaldur seilist reyndar inn í þann tíma líka með þvi að láta Erlend vera að grufla í 20 ára gömlu mannshvarfsmáli.
Niðurstaða:Bókin hefði mátt vera meira spennandi fyrir minn smekk, heldur færri endurtekningar og minni málalengingar. Upprifjum æviatriða og fyrri ,,keisa" eru þreytandi fyrir manneskju sem hefur fylgt Erlendi gegnum þykkt og þunnt. Svo ég tali nú ekki um útskýringar sem ég hef grun um að séu ætlaðar ungu fólki (sem þekktu ekki hvernig þetta var í gamla daga) eða e.t.v útlendingum. Og svo er mér full alvara með að ég er orðin leið á Erlendi og Marion þeir eru gjörsamlega staðnaðir karakterar og það þarf að hjálpa þeim til að þroskast.
Bloggar | Breytt 16.1.2015 kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2015 | 12:55
Ómagabyrðin
Hvenær var var farið að nota orðið ,,örorkubyrði"í skýrslum og bókhaldi? Sum orð eru gildishlaðin og byrði er eitt þeirra. Byrði er íþyngjandi, eitthvað sem maður rogast með, ég finn strax fyrir þreytuverkjum í öxlum og baki og velti því fyrir mér hvernig ég geti losnað við þennan bagga.
Hefur þetta kannski alltaf verið notað, bein þýðing á gamla orðinu ómagabyrði yfir á nútímamál? Ég bara velti þessu fyrir mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2015 | 21:04
Þorp morðanna: Das Dorf der Mörder
Var loksins að ljúka við bókina Das Dorf der Mörder eftir Elisabeth Hermann. Þessi lestur hefur tekið allt of langan tíma en nú langar mig í nýja bók eftir sama höfund. Þetta er sálfræðileg spennisaga upp á 472 síður og ég þrjóskaðist við að lesa hana þó ég sé stirðlæs á þýsku. En hún er spennandi og eftir fyrstu síðurnar var ekki aftur snúið.
Hún var skemmtileg af því að hún er um margt óvenjuleg. Fyrsti kaflinn er allur sagður út frá sjónarhorni hunds. Ég hef aldrei áður þurft að reyna að setja mig inn í hugarheim hunds til að setja mig inn í hvað er á seyði en ég skildi þó að það var eitthvað voðalegt. Í kaflanum sem lýst er á eftir er sagt frá heimsókn leikskólabarna í dýragarðinn með fóstrum sínum og allt í einu sér eitt barnið hvar villisvin hleypur um með hönd af manni í kjaftinum. Fyrst ætlar enginn að trúa barninu en svo upphefst æsispennandi atburðarás.
Síðan fær lesandinn að fylgjast með því sem er á seyði, annars vegar út frá sjónarhorni tveggja lögreglumanna, karls og konu og hins vegar í gegnum sálfræðilærling og kennara hans. Mér finnst gaman að fylgjast með hvað hugmyndir þeirra eru mikið af gamla góða sálgreiningarskólanum.
Þetta er sem sagt þrælspennandi bók og maðurinn minn sagði að ég hefði lesið fram á norgun en ég gái aldrei a klukku meðan ég les bækur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2014 | 22:04
Ég hef samúð með Bjarti
Ég hef samúð með Bjarti á Sumarhúsum og finnst honum oft gert rangt til. Hann var eignalaus maður og langaði til að vera sjálfs sín. Honum býðst kot inni á heiðinni og hann ætlar að standa þar á eigin fótum og sjá fyrir fjölskyldu. Hverra kosta átti hann völ? Í ljósi tímas sem hann lifði á, var ekki margt sem honum stóð til boða. Hann gæti verið áfram vinnumaður eða farið á mölina, eins og það var kallað. Reyndar er fullsnemmt að tala um mölina á tímum Bjarts, þar var litla vinnu að hafa. Og skyldi honum hafa vegnað betur annars staðar en á Sumarhúsum?
Lífið var erfitt þar, hann missir börn og hann missir tvær konur. Bjarti er lýst sem þumbara með litla innsýn í þarfir annarra en það kemur hvergi fram að hann sé ofbeldismaður,vondur maður.
En skyldi honum og fjölskyldu hans hafa vegnað betur annars staðar? Glæpur Bjart er að vilja vera sjálfstæður maður og eiga fjölskyldu. Kjör eignalauss fólk voru ekki glæsileg á tímum Bjarts og enn á eignalaust fólk í basli.
Líklega er ég ekki hlutlaus í máli Bjarts, ég finn til skyldleika við hann. Þannig er að afi minn Snjólfur Stefánsson og amma mín Ásdís Sigurðardóttir gerðu það sama og Bjartur og Rósa. Þau fengu til ábúðar lítið afskekkt kot og byggðu sér þar bæ. Þetta kot hét Veturhús. Þar eignuðust þau sex börn sem öll komust upp. Móðir mín sá alltaf lífið á Veturhúsu í hillingum og lýsti Veturhusum sem Paradís á jörðu. En hún sagði aldrei að það hefði berið auðvelt.
Þessar hugleiðingar mínar um Bjart eru ekki nýjar en þær lifnuðu við þegar ég var að horfa á Sjálfstætt fólk í leikhúsinu á sunnudaginn. Mér fannst gaman og mér fannst þetta merkileg uppfærsla. Hún var pólitísk og vísar beint inn í okkar samtíð. Í staðinn fyrir einangrunina sem víðáttan og veðráttan skapaði, er einangrun fólksins sýnd með því að láta söguna gerast inn í ,,bunker' einhvers konar byrgi. Einu efasemdirnar sem ég hafði um uppfærsluna var hvort hún skilaði sér til þeirra sem ekki kunna þessa sögu. En ég vona það. Ég var þakklát leikstjóra og leikkonum fyrir túlkun þeirra á konum Bjarts. Sagan fjallar ekki sérlega mikið um þær og ég var satt best að segja búin að gleyma þvi hvað seinni konan hét.
Þetta er ekki ritdómur heldur hugleiðing sem kviknaði á leiksyningu. Eiginlega er þetta samanburður á búskap Bjarts í Sumarhúsum og Smjólfs á Veturhúsum sem auðvitað er út í hött því Bjatur var skáldskaparpersona en það var hann Snjólfur afi minn ekki.
Myndinni sem fylgir greininni hnuplaði ég úr grein eftir Leó Kristjánsson um rannsóknir vísindamannsins George Walkers og fleiri. Hún er tekin 1964. Afi og amma fluttu frá Veturhúsum 1946 svo það er greinilegt að bæjarhúsin hafa staðið sig vel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2014 | 18:27
Nýr heilsudrykkur sem á eftir að slá í gegn
Mér var gefið afar gagnlegt og lipurt heimilistæki í jólagjöf. Þetta er blandari til þess ætlaður að búa sér til nærandi og holla drykki. Ég hef verið að þróa ýmsa en nú tel ég að mér hafi tekist að gera drykk sem mun slá í gegn á heimilinu.
Í honum er:
Hálfur banani
Hálf lárpera
Hálft epli
Læmsafi
Afgangur af ávaxtasafa mogunins
Skvetta af rjóma
Lögg af kók
Þessu er öllu blandað saman í hæfilega þykkan drykk. Lárperan og rjóminn gera drykkinn mjúkan eins og smjör. Það sem mér þótti þó best var að finna út hvernig má nýta kóklöggina sem kókdrykkjufólk skilur stöðugt eftir neðan í kókflöskunum. Þessi ódrukkni dreitill fer mikið í taugarnar á mér sem drekk ekki kók og er jafnframt staðfastlega á móti matvælasóun. Þessi lögg hentar vel til að sæta drykkinn og mér finnst kókbragðið ekki ógeðfellt þegar það er komið í þennan félagsskap.
Sjálfsagt er einnig hægt að gera sér óholla drykki með þessu tæki en ég hef enn ekki reynt það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2014 | 21:53
Jólin byrja á bókmenntakynningu hjá MFÍ K
Í mínum huga hefst undirbúningur jólanna á bókmenntakynningu hjá MFÍK. Þannig hefur þetta verið í mörg ár. Það er því orðin hefð, jólahefð. Rithöfundaflokkurinn í ár var fjölbreyttur. Og skemmtilegur. Höfundarnir
í ár vor:
Kristín Steinsdóttir með Vonarlandið
Úlfhildur Dagsdóttit með Myndasagan
Elísabet Jökulsdóttir með Enginn dans við Ufsaklett
Margrét Marteinsdóttir og Rakel Garðarsdóttir með Vakandi veröld - ástaróður
Guðrún Hannesdóttir með Slitur úr orðabók fugla
Ármann Jakobsson með Síðasti galdrameistarinn
Olga Makelova með Ljóð, birt og óbirt
Það er alveg ótrúlegt hversu miklu skáldin gátu komið til skila á þeim nauma tíma sem þeim var gefinn. Mig langar til að lesa allar þessar bækur og mun gera það.
Ég vil ekki og get ekki gert upp á milli bókanna sem kynntar voru og þarf þess ekki, því þær voru svo ólíkar. Ég get þó ekki stillt mig um að tala um ljóðin.
Guðrún Hannesdóttir yrkir lágstemmd ljóð en þau eru oft hvöss og nístandi. Þannig eiga ljóð að vera.
Ljóðin hennar Elísabetar voru um nöturlegt tilhugalíf og við ofbeldismanns. Það sem gerði þau enn sorglegri var þó að allur salurinn hló þegar nöturleikinn var hvað mestur.
En ég hef lesið ljóð eftir báðar þessar skáldkonur svo þær komu mér ekki á óvart. Það gerði aftur á móti skáldið Olga Makelova sem er frá Moskvu. Það var gaman að hlusta á hvernig hún gat hugsað sér öðru vísi bernsku, nokkrar tegundir út frá íslenskum veruleika og smellin ljóð hennar ort beint inn í íslenska ljóðahefð.
En það var samt umgjörðin sem MFÍK konur sköpuðu sem gerðu þetta allt svo notalegt. Og magnað. Nú mega jólin fara að nálgast mín vegna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2014 | 15:36
Veggirnir líta til með þér
Ekki veit ég hvort veggirnir hafa eyru en hitt veit ég, að þeir hafa andlit. Í nokkur ár hef ég setið yfir í prófum í Háskóla Íslands. Þetta er árvisst, ef það er hægt að komast þannig að orði um það sem á sér stað tvisvar á ári. Nú eru jólapróf og það er spenna í loftinu. Þetta er skemmtileg vinna sem ger
ir manni gott. Það felst hollusta í því að umgangast ungt fólk, ég tala nú ekki um þegar maður nær að vera með því á mikilvægum augnablikum í lífinu. Og próf eru mikilvæg augnablik í lífinu.
Þegar ég lít yfir stofuna eftir að allir eru komnir að vinnu fæ ég einhvers konar dèjá vu tilfinningu. Þetta minnir eitt augnablik á rósemdina í fjárhúsunum þegar búið var að gefa á garðann, ærnar höfðu raðað sér að jötunni. Ekkert heyrðist nema maulið í kindunum sem tuggðu tugguna sína.
Í dag hef ég verið í tveimur byggingum, Lögbergi og Öskju. Þegar ég er ekki að horfa á nemendurna horfi ég á veggina. Þeir tala til mín og ég hlusta. Í Lögbergi eru tvær myndir í prófstofunni. Önnur er í björtum litum, hin í dimmum. Sú bjarta er af hóp vopnaðra manna, en á milli þeirra gengur ungt glæsimenni með þríhyrndar hatt. Ég veit ekki hvort hermennirnir eru að gæta hans eða taka hann fastan. Mér dettur strax í hug Jörundur konungur okkar Íslendinga sem kenndur er við hundadaga. Á hinni myndinni, þeirri myrku, er hópur þrekvaxinna karla. Fyrir miðju er gráhærður öldungur og hann er sá eini sem situr. Einn í hópnum les af blaði. Það er drungaleg stemmning, líklega er þetta fundur, Kópavogsfundurinn? Ég veit ekkert um þessar myndir, allt sem ég segi um þær eru getgátur. Þær eru merktar S. A. Ég held að þær séu eftir Snorra Arinbjarnar, það er líka getgáta.
Veggirnir í Lögbergi eru líka serstakir, myndverk á sinn hátt. Steyptu burðarveggirnir eru eins og þeir hafi verið steyptir í bárujárnsmóti. Steypan er látin halda sér eins og hún kemur úr mótinu, hún er gróf og það stirnir á svarta steinmylsnu. Þessir veggir setja svip á bygginguna úti og inni.
Ég veit ekki hvort nemendurnir höfðu nokkurn áhuga á veggjunum og ég hef heldur ekki hugmynd um hvernig þeim gekk. Vona að þeim hafi gengið vel. Vona alltaf að þeim gangi vel.
Þessir nemendur voru ekki tilvonandi lögfræðingar heldur í allt öðru fagi. Kannski voru þeir í fyrsta skipti í þessari stofu eins og ég. Ef þetta hefðu verið lögfræðingaefni hefði ég getað spurt þá um myndirnar og veggina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bergþóra Gísladóttir
Nýjustu færslur
- 20.10.2023 Um Torfhildi Hólm
- 12.10.2023 Gráu býfugurnar hans Andrej Kurkov
- 29.6.2023 Tugthúsið
- 19.6.2023 Það er svo gaman að vera vondur
- 18.6.2023 Ferð til Skotlands og Orkneyja
Færsluflokkar
Tenglar
Baráttusamtök
Vinir og vandamenn
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.7.): 11
- Sl. sólarhring: 16
- Sl. viku: 60
- Frá upphafi: 190426
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar